Brjáluð kona hringir í RÚV um hánótt

Best að viðurkenna það bara. Ég missti mig á kosninganóttinni og hringdi foxill í RÚV og hellti mér yfir þann sem varð fyrir svörum, ég held að það hafi verið aumingja manneskjan á skiptiborðinu sem þurfti að hlusta á reiðilesturinn. Ástæðan var sú að það var viðtal við Jóhannes í Bónus um þessa óþverralegu auglýsingu hans og ég er afar ósátt við að RÚV sé að upphefja fólk sem fer yfir öll mörk velsæmis til að hefna sín og koma höggi á embættismenn og ráðherra í opinberri þjónustu í lýðræðissamfélagi og geri það í skjóli auðs og valda í samfélaginu, m.a. þeirra valda að eiga ítök í fjölmiðlum og vera einn stærsti vinnuveitandinn.

johannes-i-bonus-sidleysiÉg var í útlöndum rétt fyrir kosningar og las ekki blöðið fyrr en á kosningadaginn og það þyrmdi yfir mig þegar ég sá þessa auglýsingu frá Jóhannesi í Bónus. Leyfist mönnum allt á Íslandi í skjóli auðmagns? Ég vona svo sannarlega að þeir sem Jóhannes nafngreinir í þessari auglýsingu fari í meiðyrðamál við hann. Ég vona svo sannarlega að við náum hér á Íslandi að byggja upp samfélag þar sem embættismenn í dómskerfinu og æðstu yfirmenn dómsmála þurfi ekki að þola svona órökstuddar dylgjur og þar sem ekki er leyfilegt að auglýsa með þessum hætti fyrir kosningar.

Ég er raunar ákaflega hissa bæði á Fréttablaðinu (sem er reyndar í eigu Jóhannesar) og Morgunblaðinu fyrir að birta þessar auglýsingar og hugleiði hvort þeir hefðu tekið á móti svona auglýsingum frá mér eða Lalla Jóns eða einhverjum geðsjúklingum með þráhyggju.

Jóhannes sakar nokkra nafngreinda embættismenn um embættisafglöp og hann sakar æðsta yfirmann dómsmála á Íslandi um að hilma yfir með einhverjum og lætur að því liggja að dómsmálaráðherra skipi menn í embætti vegna þess "að hann hafi eitthvað á þá". Þessar alvarlegu ásakanir  virðast tengdar því að Jóhannes hefur verið einn ákærðra í sakamáli og hann hefur eins og allir tekið þær ásakanir nærri sér og virðist telja sig ofsóttan. 

Jóhannes í Bónus hefur misst trúverðugleika með þessari auglýsingu. Það er skrýtið að hann hafi enga nálægt sér sem ráða honum heilt og sem gátu talið hann ofan af þessari reginskyssu. Ég get vel skilið geðshræringu fólks sem telur sig vera órétti beitt og ofsótt en það verður ekkert  meira réttlæti  í heiminum ef maður sem telur sig verða fyrir óréttlæti og rangsleitni hefnir sín og reynir að koma höggi á andstæðinga með að nota svívirðingar og dylgjur og ræðst á aðra í skjóli auðmagns.

Auglýsingin frá Jóhannesi var svohljóðandi:

Strikið yfir siðleysið

- áskorun til sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður

Í rúm fjögur ár mátti ég að ósekju sitja á sakamannabekk í Baugsmálinu svokallaða vegna óvæginna og ranglátra aðgerða Haraldar Jóhannessens, ríkislögreglustjóra, Jóns H. B. Snorrasonar, saksóknara, og síðast Sigurðar T. Magnússonar, sem var settur í starf Jóns H. B. Snorrasonar eftir að hann var gerður afturreka með málatilbúnað sinn haustið 2005. Nafn mitt var hreinsað með sýknudómi Hæstaréttar Íslands í janúar á þessu ári.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur í ræðu og riti varið embættisafglöp þessara manna og hvatt þá til dáða leynt og ljóst. Fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga að Björn hyggist skipa Jón H. B. Snorrason í embætti ríkissaksóknara strax að loknum kosningum. Embættisveitingar Björns hafa verið harðlega gagnrýndar á undanförnum árum. Nú keyrir um þverbak og maður hlýtur að spyrja: Hvað skyldi Jón H. B. Snorrason eiginlega hafa á Björn Bjarnason úr því hann hyggst skipa manninn í þetta háa embætti þrátt fyrir allt hans klúður?

Sjálfur hef ég ávallt litið á mig sem sjálfstæðismann þó að ég hafi átt bágt með að styðja flokkinn síðustu árin í stjórnartíð Davíðs Oddssonar. Ég veit að margir sjálfstæðismenn eru sama sinnis og ég í því efni og eiga erfitt með að ákveða sig og þá ekki síst sjálfstæðismenn í Reykjavíkurkjördæmi suður þar sem Björn Bjarnason situr í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Aðeins eitt ráð er til. Merkið x við D en strikið yfir siðleysið með því að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar á listanum.

 

Það er vissulega dapurlegt að margir virðast hafa orðið við tilmælum Jóhannesar en ég hef á tilfinningunni að það sé miklu, miklu stærri hópur bæði fólks í Sjálfstæðisflokknum og utan hans sem hafa megnustu skömm á auglýsingu Jóhannesar og finnst hann setja mikið niður við þessa gerð.

frettabladid-offita-barnaÉg hef  áður hneykslast á skrýtnum gjörðum Jóhannesar varðandi þetta Baugsmál og mér fannst einkar ósmekklegt þegar hann fyrir jólin síðustu gaf af rausn sinni til ýmissa góðgerðasamtaka og það birtist mynd af gnægtaborði hans á forsíðu Fréttablaðsins (sjá mynd hér til hliðar) en jafnframt kom fram í textanum að fjárhæðin sem hann gaf var eitthvað tengt við hvað ríkið hefði kostað til í Baugsmálinu. Mér fannst það ósmekklegt og ekki Jóhannesi til sóma að blanda félögum eins og Mæðrastyrksnefnd inn í áróðursstríð hans við stjórnvöld en þessi síðasta auglýsing frá Jóhannesi gengur miklu miklu lengra.

En það er ljóst að Jóhannes er ekki jólasveinninn í íslensku samfélagi og hann er ekki velgjörðarmaður íslensku þjóðarinnar. Það skiptir engu máli þó hann eigi alla fjölmiðla og birti myndir af sér þar á forsíðu klyfjuðum gjöfum.   

 

 


mbl.is Rúmlega 2500 strikuðu yfir nafn Björns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála því að þetta er argasti subbuskapur í Jóhannesi. Ég er hins vegar á móti því að banna svona. Látum fólkinu sjálfu um að ofbjóða. Í tilfelli Jóhannesar væri réttara að fólki sem ofbýður sniðgangi verslanir hans.

Þorsteinn (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 14:17

2 Smámynd: halkatla

vó maður, ég er greinilega ekki ein um að ganga af göflunum við og við, jafnvel virðulegasta fólk gerir það!!! ég vorkenni aumingja símastúlkunni, ég hefði farið að gráta. Ég var einu sinni símadama á erfiðum vinnustað og það var hræðilega stressandi og erfitt.

en ég ætla að koma öllum á óvart og taka undir þetta, allt sem þú segir varðandi þessa auglýsingu er satt þó að ég kunni að vera á þeirri skoðun að hún sé frábærlega fyndin og að þetta hafi verið skemmtilega velsæmislaust athæfi hjá Bónusföðurnum. Fólk má alveg kæra svona ef það telur að sér vegið, og augljóslega hefði ekki verið tekið við svona auglýsingu/áróðri/árás frá hvaða brjálæðingi sem er útí bæ. Ég sé þetta sem hluta af samsærinu gegn Birni Bjarnasyni. Það eru nokkur samsæri í gangi og þetta er eitt þeirra.  

halkatla, 16.5.2007 kl. 14:36

3 identicon

Mér dettur ekki hug að kjósendur séu slík fífl að þeir láti svona auglýsingar hafa áhrif á sig. Ég styð tjáningafrelsi og sé í sjálfu sér ekkert athugavert við að Jóhannes tjái sínar skoðanir með þessum hætti. Sjálfur kaus ég D-listann og ég strikaði yfir nafn Björns - en ég hafði tekið ákvörðun um að gera það áður en þessi auglýsing birtist og sú ákvörðun hefur aukinheldur ekkert með Baugsmálið yfirhöfuð að gera. Væri ekki nær að Björn og hans stuðningsmenn litu sér nær, í stað þess að kenna öðrum um. Ég er ósáttur við ýmsar embættisfærslur og embættisveitingar Björns, auk þess hefur mér á stundum ofboðið hrokafullar skoðanir hans á ýmsum málum og mér finnst hann á stundum hafa sýnt jafnréttismálum lítilsvirðingu og þá hugnast mér ekki hugmyndir hans í öryggismálum þjóðarinnar. Getur ekki hugsast að fleirum en mér sé ofboðið.

Nonni ponni (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 14:44

4 Smámynd: Sveinn Hjörtur


Sæl Salvör. Sammála að mörgu leiti. Jóhannes fór yfir strikið að mínum mati... Langt , langt yfir!

Sveinn Hjörtur , 16.5.2007 kl. 16:30

5 identicon

Björn kann ekki á dagatal og heimsmyndin hans er úr járnbentri steinsteypu, mótaða í kalda stríðinu.  Jóhannes er alvöru kaptitalisti og Björn er í forsvari fyrir flokk sem kennir sig við frjálsan markað, málfrelsi og framtak einstaklingsins.  Þú getur ekki stjórnað fólki með lögum um refsingar ef það tjáir sig.  Þetta var reynt í Rússlandi í 60 ár og eitthvað skemur í þýskalandi og fólk líkaði það ekki.  Vilji Jóhannes að einhver striki yfir Björn þá ræður sá hinn sami og Jóhannes vill að geri það "Hvort hann eða hún" geri það.  Svona einfalt er frelsið og þannig verður það vonandi hérna ef við kærum okkur um frelsi.

Krilli (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 23:45

6 identicon

Mér finnst þetta frábært framtak hjá Jóhannesi í bæði skiptin. Björn Bjarnason birtir í dag hálfsíðugrein bæði í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu þar sem hann ófrægir Jóhannes og aðra sem málinu tengjast. Munurinn er kannski sá að hann borgar ekkert fyrir það. Mér finnst frábært hjá honum að vekja athygli á kostnaðinum sem við bárum í Baugsmálinu á þennan hátt (sbr. góðgerðarmálið).

eyja (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband