16.5.2007 | 11:44
Yfirheyrslur og fangelsanir á börnum
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði þrjá unglingspilta af því að hafa nauðgað í sameiningu 16 ára stúlku. Það eru nokkur atriði í málinu sem vekja spurningar um hvernig er farið með börn og óvita fyrir dómstólum. Flestir sem semja leikreglur samfélags okkar og semja og framkvæma og túlka lögin og ákvarða hvað er brot og hverjar refsingar við þeim skulu vera og hvernig farið skuli með þá sem brjóta lögin eða eru grunaðir um að brjóta lög - á þingi og í dómarasætum eru upplýstir, menntaðir menn úr betur stæðum þjóðfélagshópum á meðan þolendur réttarkerfisins eru oft úr allt annarri átt, auðnulaust, fákunnugt og fátækt fólk sem ef til vill er af öðrum þjóðernisuppruna og öðrum litarhætti og ef til vill í helgreipum fíkniefna. Það sama á við um þolendur afbrota, þeir sem sitja á þingi og í dómarasætum eða sinna framkvæmd löggæslu eru eða hafa til skamms tíma ekki verið sama fólkið og brotið er á í sumum afbrotum, það sitja fáar vændiskonur og þolendur annars konar kynferðisofbeldis á þingi eða í dómarasætum og þar eru fáir fíkniefnaneytendur sem eru í hættu á að vera barðir af handrukkurum fyrir dópskuldir. Þar eru engin börn.
En það er skrýtið hvernig farið er með börn í þessu kerfi. Mér virðist ekki tekið tillit til þroska þeirra og aðstæðna. Eftir því sem ég sé í fréttum á þessu máli þá var viðtal við stúlkuna sem var þolandi í málinu tekið í Barnahúsi sem liður í að aðstoða stúlkuna, ekki sem yfirheyrsla.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær þrjá karlmenn af ákæru um að nauðga 16 ára stúlku. Dómurinn sagði stúlkuna hafa orðið margsaga. Þá gagnrýnir héraðsdómur vinnubrögð í Barnahúsi þar sem tekin var af henni skýrsla. Stúlkan hafi verið leidd áfram við skýrslugjöfina og ekki fengið ráðrúm til þess að skýra frá mikilvægum staðreyndum í sjálfstæðri frásögn. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir málið óvenjulegt. Viðtalið sem tekið hafi verið í Barnahúsi hafi verið könnunarviðtal og ætlað til þess að athuga hvort barnið þyrfti stuðning og meðferð.
Það er því skrýtið hvernig áherslan er á þetta könnunarviðtal og að dómararnir hafi skoðað það margoft. Hvert er ígildi þessa könnunarviðtals fyrir lögum? Er það yfirheyrsla? Það er ljóst að þegar það er tekið þá vill stúlkan gera sem minnst í málinu og birgja niður minningar um ódæðisverkin gagnvart henni og hún vill sennilega ekki sjálf líta á það sem nauðgun - hún virðist hafa verið hrifin af einum strákanna og vill gera lítið úr hans hlut að ódæðinu.
Þetta er nefnilega stórt vandamál varðandi kúgun og ofbeldi. Sá sem er beittur ofbeldi kóar stundum með og leitar að sök hjá sjálfum sér og reyndar munu kúgararnir gera lítið úr ofbeldi sínu og setja málið þannig upp að annað hvort hafi það ekki verið ofbeldi og/eða þolandinn kallað það yfir sig með eigin breytni. í frásögn piltanna þá má lesa að þetta séu prúðir piltar sem urðu fyrir því að stúlkan bara settist klofvega á þá einn af öðrum og nuddaði sér upp við þá. Það er vonlaust að fá einhvern sanngjarnan dóm fram í þessu máli, ég get ekki áfellst dómstólinn fyrir að hafa meira mark á þremur sammhljóða vitnum fremur en einni stúlku sem auk heldur á í erfiðleikum og sálarkvöl að rifja upp nauðgun sem hún verður fyrir.
Það verður að hafa í huga að piltarnir eru líka börn og þeir eiga líka rétt á vernd og réttlátri málsmeðferð. Ég held að dómarar hafi haft það afar mikið í huga, það er öllum ljóst hve mikill blettur það er á mannorði þessara stráka (það kemur fram að í dómnum að þetta er einhver strákaklíka "dátarnir") að vera dæmdir fyrir nauðkun á barnungri stúlku. Það er mjög undarlegt sem kemur fram í dómnum að þeir hafi verið handteknir og þurft að vera í fangaklefa. Það hefði hugsanlega þurft ef brugðist hefði verið við strax til að þeir gætu ekki sammælst um framburð sinn og búið til sögu. En það kemur í ljós í dómnum að þeim er fullkunnugt um að þeir verði hugsanlega ákærðir fyrir nauðgun löngu áður en þeir eru handteknir, vinkona stúlkunnar mun hafa sagt þeim það.
Það sem má lesa út úr þessum dóm er eindreginn vilji dómara til að sjá veilurnar í frásögn stúlkunnar og eindreginn vilji þeirra til að rannsaka ekki né benda á þá möguleika að piltarnir hafi haft tækifæri til og raunar verulega ástæðu til að sannmælast um sína útgáfu af sögunni þar sem þeir hilma yfir ódæðum. Ég vil taka fram að ég held að piltunum hafi ekki verið ljóst hvaða voðaverk þeir voru að vinna og eflaust hafa þeir eftir á og meðan á verknaðinum stóð réttlætt sjálfan sig á ýmsa lund. Þeir lifa í samfélagi sem upphefur ofbeldi á konum og sá fjölmiðlaheimur sem yfir þá flæðir er lofsyngur slíkt ofbeldi í tónlist, í myndböndum, í sakamálaþáttum, í fréttum.
Það kemur ekkert fram í þessum dómi um bakgrunn piltanna sem mér hefði fundist eðlilegt m.a. með hliðsjón af því að þeir gætu hafa beitt aðra kynferðisofbeldi og/eða annars konar ofbeldi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
við getum náttúrulega ekkert vitað hvað átti sér stað í raun, né haldið neitt um innra eðli þessara pilta. En framkvæmd dómsvaldsins yfir konum og börnum skelfir alla með skilningarvit.
halkatla, 16.5.2007 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.