15.5.2007 | 07:56
Barnshafandi konur á landsbyggðinni
Ég sótti systur mína út á flugvöll í gær. Hún er barnshafandi og var að koma frá Vestfjörðum þar sem hún býr og kemur til Reykjavíkur gagngert til að leggjast hér inn á fæðingardeild samkvæmt fyrirmælum læknis því þetta er svokölluð áhættufæðing og fæðingin verður framkölluð í dag því hættulegt er að hún gangi með fulla meðgöngu. Sem betur fer hefur læknavísindum fleygt svo fram síðan hún átti sín eldri börn að með lyfjagjöf hefur tekist að halda niðri einkennum á meðgöngunni.
Hún átti ekki að fá að fara með flugvélinni að vestan í gær. Það tókst þó eftir að hún hafði samband við lækninn sinn í Bolungarvík og hann lofaði að faxa læknisvottorð til flugfélagsins.Systur minni var ekki kunnugt um að hún mætti ekki fljúga í innanlandsflugi enda er flugtíminn ekki nema 40 mínútur til Reykjavíkur. Ég fletti upp á vefsíðu flugfélagsins áðan og fann þá þessar reglur djúpt grafnar í skilmálum félagsins:
Barnshafandi konurBarnshafandi konur sem komnar eru 8 mánuði á leið eða lengra sem og þær sem fætt hafa barn fyrir tímann, geta einungis ferðast með okkur hafi þær lagt fram læknisvottorð, gefið út innan 72 klukkustunda frá brottför, þar sem staðfest er að þeim stafi engin hætta af fluginu. Barnshafandi konur mega undir engum kringumstæðum fljúga tvær síðustu vikur meðgöngunnar.
Mér finnst þessi staða vera dæmigerð fyrir það andstreymi og vesen sem fólk sem býr í hinum dreifðu byggðum Íslands þarf að búa við varðandi heilbrigðisþjónustu. Reyndar skil ég ekki í hvers vegna læknirinn hennar hafði ekki frumkvæði að því að láta hana fá læknisvottorð með sér í flugið og/eða panta sjúkraflug því heilbrigðisstarfsfólki hlýtur að vera kunnugt um þær reglur og þær takmarkanir sem eru á ferðamöguleikum fólks sem þarf að komast á spítala á höfuðborgarsvæðinu. Það er skrýtið að fólk sé sent af landbyggðinni á spítala í Reykjavík og svo lendi það í stappi með að koma sér í bæinn.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:24 | Facebook
Athugasemdir
Hah!! Hér segir mér svo hugur um að átt sé við mína kæru vinu, G.Stellu?
Ég á nú ekki von á því að hún láti neitt stoppa sig. Hvorki reglur né afturúrkreistingslegar skoðanir... kjarnakona þar á ferð. Baráttukveðjur til hannar að vestan úr Víkinni!!!
Ylfa Mist Helgadóttir, 15.5.2007 kl. 10:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.