Framsókn vinnur alltaf

Núna er stóra stundin runnin upp. Kosningadagur. Úrslitaskoðanakönnunin. Það hefur gengið á með éljum undanfarnar vikur, fylgi við stjórnmálahreyfingar feykist til og frá og fennir af og til í skafla. En skaflarnir eru síbreytilegir og bráðna í leysingum eða fjúka út í veður og vind í næsta éli og enginn veit hvað varð af sumum stórum sköflum sem hér voru í vor. Hvar er fylgi við Íslandshreyfinguna? Hvar varð um fyrrum gríðarlegt fylgi sem Vinstri Grænir mæltust með? Ef til vill eru það lögmál að í byrjun kosningabaráttunnar þá séu andstæður skerptar og fólk fylkist á andstæða póla en leiti svo inn á miðlu eftir því sem nær dregur kosningum. Ef til vill segir fólk í skoðanakönnunum  frá þeim skoðunum sem það vildi hafa og sem eru mest í tísku en kýs svo frekar praktískt og sérstaklega með sjónarmið þess hóps sem það tilheyrir. Það er reyndar reiðarslag fyrir ríkisstjórnina ef hún tapar meirihlutanum, hvernig er hægt að klúðra málum meira en hafa allt kjörtímabilið verið í bullandi góðæri og uppgangi og enginn djúpur málefnaágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu en tapa samt kosningum? Þetta má bera saman við hvers vegna Bush sigraði í kosningum í Bandaríkjunum seinast. Stjórnmálaskýrendur þar telja að ástæðan fyrir að Bush sigraði var langt í frá að fólki þætti hann góður forseti, þeir telja að hann hafði ekki haft neinn séns á endurkjöri nema af því að þjóðin var í stríði - reyndar stríði sem einmitt forsetinn atti þeim út í. En fólk metur aðstæður og vill ekki skipta um forseta á stríðstíma og það er mjög sennilegt að Íslendingar meti aðstæður þannig að hér sé uppgangur og góðæri og hagvöxtur og það sé enginn ástæða til að skipta um stefnu snögglega, sérstaklega held ég að fólk hræðist Vinstri græna þar. Erum við þó öll umhverfisverndarsinnar og að ég held öll sammála um að umhverfismál verða að fá meiri forgang.

En þegar ég segi í titlinum að Framsókn vinni alltaf þá á ég ekki við að Framsókn vinni ennþá einn sigurinn á skoðanakönnunum. Það gerum við eflaust en það er ekki mesti sigurinn. Aðstæður eru nefnilega þannig að ef Framsókn kemur vel út og verður áfram í ríkisstjórn þá er það hið besta mál, þá getur Framsóknarflokkurinn unnið áfram að góðum stefnumálum sínum. Það má reyndar líka hugleiða að Framsókn er næst miðjunni í íslenskum stjórnmálum og það verður ekki mynduð nein tveggja flokka vinstri stjórn með Samfylkingunni og Vinstri Grænum. Það verður engin vinstri stjórn ef Kaffibandalagið verður að veruleika, það er blanda á verulega vonda samsetningu, tveir félagshyggjuflokkar og svo einn últra hægri sinnaður flokkur þar sem fyrir þessar kosningar menn sem gera út á útlendingahatur náðu yfirráðum hér á höfuðborgarsvæðinu og hröktu margt gott fólk úr flokknum. Framsókn er flokkur félagshyggju, umburðarlyndis og fjölbreytileika, þar er fólk af erlendu bergi brotið boðið velkomið. Framsókn er ekki flokkur blindrar einstakling- og gróðahyggju heldur flokkur sem byggir á þjóðlegum gildum og samvinnuhugsjón. Það má færa mörg rök fyrir því að Framsóknarflokkurinn standi nær Vinstri Grænum og Samfylkingunni en aðrir flokkar og sennilegast að í þrigjja flokka stjórn þessara flokka verði ekki  djúpstæður málefnaágreiningur.

En ef svo skyldi fara að Framsókn verði ekki í næstu ríkistjórn þá er margt að vinna í þeirri stöðu fyrir Framsóknarflokkinn. Flokkurinn fær þá næði til að vinna að innri málum og skoða fyrir hvað hann stendur og hvað hann ætlar að standa fyrir og það er ekki eins og flokkurinn hafi ekki fengið að spreyta sig, hann hefur verið í ríkisstjórn mjög lengi og að margra mati haft miklu meiri völd en kjörfylgið segir til um og það er bara að taka því af venjulegri framsóknarhæversku að þurfa að sitja hjá eitt kjörtímabil og mæta svo með nýjum þrótti inn aftur.

Framsókn vinnur hvernig sem þessar kosningar fara. Í ósigrum felast fyrirheit um sigra í framtíðinni og það er einkenni þeirra sem sigra þrátt fyrir mótlæti að kunna að læra af ósigrinum og breyta þeim í áfanga að sigri seinna. Það eru ekki miklar líkur á því að kosningarnar í ár verði sigur kvenna í Framsóknarflokknum, núna eru þrjár konur ráðherrar Framsóknarflokksing og helmingur þingmanna flokksins eru konur. Á liðnu kjörtímabili hefur Framsóknarflokkurinn verið flokkur þar sem konur komist til æðstu metorða og þær hafa getað haft áhrif. Það hefur dregið marga að Framsóknarflokknum því  helmingur kjósenda er konur. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Svanur Daníelsson

Hver sem úrslitin verða þá er í það minnsta ljóst að kosninganóttin verður spennandi :)

Árni Svanur Daníelsson, 12.5.2007 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband