Minningar þjóðar

Hver má hugsa hvað? Hver má tjá hugsun sína? Hvernig er sagan sögð? Af hverjum?Hvaða minnismerki um fortíðina er hampað og  fá að standa? Sagan er sameiginlegar minningar þjóðar, ættbálks eða þjóðfélags en hún er líka samsetningur sem þjónar hagsmunum þeirra sem eru við völd, með því að segja söguna eins og hetjusögu af núverandi valdhöfum og halda á lofti þeirri hugmyndafræði sem þeir nota til að réttlæta völd sín.

Ekkert er eins gott til að minna fólk á atburði og yfirburði valdhafa eins og stórar byggingar eða minnismerki og einhverjir staðir og atburðir þar sem kveikt eru hughrif og minningar um hetjudáðir og göfuglyndi valdhafa. Nýir valdahafar reyna að afmá það sem minnir á fyrri valdhafa sem þeim eru ekki þóknanlegir og reyna að láta afrek þeirra  falla í gleymsku en halda á lofti ódæðisverkum þeirra. Stundum er sagan endurrituð og reynt að uppræta eldri hugmyndir með því að brjóta niður byggingar og taka niður stytturnar og setja upp nýja minnisvarða og með því að eyðileggja og brjóta niður allt sem minnir á það sem valdhöfum er ekki þóknanlegt. En útrýmingarherferð gegn hugsunum getur alveg endað í útrýmingarherferð á manneskjum.

Það er miklu, miklu áhrifaríkara að ferðast um þá staði sem atburðir gerðust og hlusta þar á frásögn um atburði heldur en lesa um atburði í bók. Í gær fór ég í  gönguferð um söguslóðir hér í Berlin.

Bókabrennan í Berlín

Þann 10. maí árið 1933 brenndu Nazistar 25 þúsund bækur á Óperutorginu fyrir framan Humboldt háskólann  eftir "óþýska" höfunda sem þeim geðjaðist ekki að. Þar sem Nazistar héldu bókabrennu er minnismerki með áletruðum orðum skáldsins Heine frá 1820 þar sem hann segir að bókabrennur sé forleikur - ef maður byrji á að  brenna bækur muni maður enda með að brenna fólk. 

bokabrenna

Hér eru byggingarkranar fyrir utan Lýðræðishöllina og það lítur út fyrir að húsið sé í byggingu. En það er ekki þannig, það er verið að rífa það og búa til nýja sögu. Lýðræðishöllin í Austur Berlin (Palast der Republik) verður rifin, hún er samt frekar nýtt hús og var fallegt hús klætt bronsplötum í sovétskum arkítektúr.  Núna er sovétskur arkitektúr ekki í tísku í ríkjunum í ríkjum Austur-Evrópu. Það stendur til að endurbyggja konungshöllina á þessum stað.

Þetta mun vera hitamál og hefur vakið umræðu um hvaða minnisvarðar um fortíðina fá að vera til.

Ég skoðaði marga minnisvarða í gær. Ég skoðaði Brandenburgarhliðið þar sem stríðsmenn gengu í gegnum þegar þeir höfðu sigrað Berlín og ég gekk um minnismerkið um Helförina, það minnti mig á völundarhús og skálana í útrýmingarbúðunum. Ég gekk líka á bílastæðinu sem er fyrir ofan neðanjarðarbyrgið þar sem Hitler varði síðustu dögum sínum.  Hér eru myndir sem ég tók.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Það er erfiður biti að kyngja fyrir Þjóverja að hafa alið af sér mann eins og Hitler, en það er nauðsynlegt að geyma söguna í þeirri von að hún endurtaki sig ekki.

Ester Sveinbjarnardóttir, 11.5.2007 kl. 03:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband