Er Breiðavík víða?

Ég hlustaði á viðtalið í Kastljósi við Bárð sem dvalist hafði sem barn  á Breiðavíkurheimilinu. Hann sagði hryllilega sögu af andrúmslofti ofbeldis og níðingsskapar.  Það mun vera unnið að kvikmynd um heimilið. Mig minnir að í bók sem ég las um  ævi Sævars  Ciesielski hafi verið frásögn af dvöl Sævars á Breiðavík sem dró upp jafndökka mynd og Bárður. 

Matthías Johannessen skrifaði leikritið Fjaðrafok. Yrkisefni þess leikriks var Bjargsmál  en heimilið Bjarg var betrunarheimili fyrir afvegaleiddar stúlkur sem rekið var að mig minnir af Hjálpræðishernum fyrir mörgum áratugum. Það  var töluvert í umræðunni út af harðræði við stúlkur þar.

Sennilega eru afskekkt vistheimili og stofnanir þar sem mikill valdsmunur er milli vistmanna og gæslumanna líkleg til að vera staðir þar sem ýmis konar ofbeldi er beitt. Einangrun þarf ekki að vera landfræðileg, oft er einangrun búin til af þeim sem vilja drottna og beita ofbeldi. Það er þekkt mynstur í heimilisofbeldismálum að sá sem er beittur ofbeldi er smám saman einangraður frá öllum sínum vinum og öllum tengslum við aðra nema þeim sem ofbeldismaðurinn stýrir. 

Það eru margir staðir einangraðir á Íslandi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Það þarf nú ekki að leita lengi að svipuðu máli. Það eru nú ekki nema vikur síðan að talað var við fólkið sem dvaldist í Heyrnleysingjaskólanum.  Þannig að það var nú að gerast hér á Höfuðborgarsvæðinu líka. Byrgismálið er jú dæmi um hvað getur gerst ef ekki er fylgst vel með því sem er að gerast. Nú eru heimili um allt land á vegum Barnaverndastofu en ég treysti því að þar sé betur fylgst með.

Magnús Helgi Björgvinsson, 2.2.2007 kl. 22:48

2 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Ég las úttektina á heimilinu í Breiðuvík í DV og fannst hún skelfileg. Hræðilegt að drengur sem veikist og stjúpfaðir sem ekki vill hafa hann þurfi ungur að árum að lenda í þessari stöðu. En ekki bara hann, þarna var menntun tekin af piltunum, lífsskilyrði þeirra heft og möguleikar nánast eyðilagðir. Við þurfum að gera allt til þess að koma í veg fyrir að svona sé í gangi - erum við viss um að hvergi finnist þetta sama í öðru samhengi?

Lára Stefánsdóttir, 3.2.2007 kl. 01:36

3 identicon

Hvernig var ástandið á Kleppi og hvernig er með gamalmennin sem kúldrast mörg í sömu kytrunni á elliheimilunum hér? En það er náttúrlega ekki ofbeldi. Í því er fólgin fegurð mannlífsins og menn reiðast ef einhver dirfist að kvarta yfir því. Og hvenær hefur einhver forstöðumaður hér verið gerður ábyrgur fyrir ofbeldi á hans stofnun?

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 07:47

4 Smámynd: Ragnar Pálsson

Varðandi Bjarg, þá má velta því fyrir sér hverjir urðu fyrir mesta ofbeldinu þar. 

Salvör bendir á með réttu að þetta var heimili fyrir afvegaleiddar stúlkur, hugsanlega í sumum tilfellum fólk sem búið var að brenna aðrar brýr að baki sér og Hjálpræðisherinn var að reyna að snúa til betri vegar.  Það var athyglisvert að þegar ásakanir komu fram á hendur starfsfólki var þeim slegið upp í fjölmiðlum sem heilögum sannleika og virðulegir menn í þjóðfélaginu gleyptu við þessu eins og nýju neti.  Í reynd snérist þetta mál upp í hreinar ofsóknir.  Málið fór fyrir dómstóla og voru ummæli um starfsfólkið dæmd dauð og ómerk, en því var aldrei slegið upp á forsíðum og e.t.v. verið minna rætt á heimilum og vinnustöðum landsins.  Ennþá er verið að vekja upp þennan gamla draug sem ég veit að hefur valdið saklausu fólki ómældum sárindum.  Hvers vegna? 

Fólk sem komið er á upptökuheimili er auðvitað eins misjafn og það er margt.  Í sumum tilfellum er þetta fólk sem kemur sér alstaðar út úr húsi vegna þess að það upplifir sig sem fórnarlömb, en er sjálft að valta yfir alla í kringum sig.  Þegar þetta fólk kemur fram með þungar ásakanir gegn sínum umönnunaraðilum er ekki víst að þær gefi mjög rétta mynd af því sem raunverulega hefur átt sér stað.     

Ragnar Pálsson, 3.2.2007 kl. 13:00

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ragnar,

Þetta er góð ábending um hvernig fjölmiðlar og reyndar einnig við bloggarar veltum okkur upp úr því sem okkur finnst hryllingur og viljum meira blóð. Við viljum ekki sjá málið frá mörgu hliðum og við viljum ekki góðu hliðarnar á þeim sem við útmálum sem ófreskjur og það er ekki fréttaefni ef fólk er hreinsað af ásökunum fyrir dómstólum.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.2.2007 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband