2.2.2007 | 09:46
Gula pressan SKAMMtímarit
Árnaðaróskir til netmoggans sem núna fagnar níu ára afmælinu. Ég óska líka sjálfri mér líka til hamingju með mitt vefrit Gula Pressan SKAMMtímarit sem einmitt var sett á vefinn sama dag og netútgáfa moggans opnaði árið 1998. Það var nú grín hjá mér og gert til þess að vekja nemendur mína til umhugsunar um hvort og hvernig Internetið skipti máli í fréttamiðlun. Líka til að sýna þeim hve auðvelt væri fyrir hvern og einn að setja eigið fréttaefni út á Internetið. Þetta var fyrir tíma bloggsins sem eins og allir vita var ekki fundið upp fyrr en Egill Helgason tók eftir að það væri til.
Ég skrifaði þetta um netritið mitt sem hefur komið ansi stopult út síðustu níu árin (lesist kom aðeins út í eitt skipti )
Hvað er Gula Pressan - SKAMMtímarit?Gula pressan er einhvers konar fréttableðill sem kemur aðeins út á Netinu og er til að sýna hvernig fréttamiðlar geta breyst á upplýsingaöld. Sérstaklega er Gula Pressan - SKAMMtímarit byggð á slúðri, kviksögum, kjaftasögum, rógi og gróusögum um nafngreinda einstaklinga. Gula pressan er helguð gulri blaðamennsku, æsifréttamennsku, dægurflugum, skömmum og skætingi, óformlegri orðræðu eða hvaða nöfnum menn kjósa að nefna svona fréttir.
Svo til að vera alvöru fjölmiðill þá skrifaði ég líka leiðara sem mér finnst bara skrambi góður þó hann sé níu ára gamall. Ég tók þar líkingu af hvalskurði. Hér er leiðarinn:
Netið er fjölmiðill
Netið er fjölmiðill. Það veit ég og það veit Mogginn, það vita Newsweek og Times, CNN og Washington Post og allir aðrir fréttafangarar sem síðustu daga og vikur hafa slípað og brýnt netfréttamennsku og búið til flugbeitta hnífa. Kvennamál Clintons var hvalrekinn sem skóp þennan nýja skóla fréttamennsku. Fiskisagan flaug fyrst á Netinu, hún hófst til flugs í slúðurdálkinum Drudge Report. Fiskimenn frétta þustu að rekanum, skáru málið niður í stykki sem þeir gegnumlýstu og krufu til mergjar, fluttu fenginn á vefsíður sínar og stöfluðu þar upp stykkjunum.
Venjulegur netverji hefur hvorki tíma né nennu til að leita djúpt að tormeltum upplýsingum. Hann sprangar um vefinn og týnir upp það sem honum finnst bitastætt. Hann er auðginntur inn í botnlanga ef fordyri þeirra lofar krassandi innihaldi. Sölumenn frétta á Netinu hafa þróað nýja frásagnartækni, lært að brytja málin niður í gómsæta munnbita. Netverjar fá að smakka og biðja um meira og meira og áður en varði eru þeir búnir að kyngja heilum hval. Þessi tegund af frásagnartækni er nokkurs konar öfugur pýramídi þar sem niðurstöðum er slegið fyrst upp með örstuttri lokkandi samantekt svo netverjinn æpi á meira.
Á Netinu er líka hægt að hafa afrit af ýmsum frumgögnum svo sem málskjölum, ljósmyndum, myndbandsupptökum og hljóðupptökum. Það er líka eðli Netsins að hver sem er getur sent þar út fréttir, stórar fréttastofur eins og CNN eða einstaklingar í hlutverki Gróu á Leiti. Gömlu stóru fréttarisarnir hafa aðrar og stundum íhaldssamari viðmiðanir í sambandi við hvað er fréttnæmt en einstaklingar sem ekki eru bundnir af hagsmunum hópa og hræðslu við málsókn eða álitshnekki. Það kostar heilmikið í vinnutímum og aðstöðu að halda úti fréttaharki á Netinu, einhver verður að fjármagna útsendingar, hjá hefðbundnu fréttastofunum virðast tekjur fyrst og fremst koma í gegnum smáauglýsingar. Sennilega eru netfréttir þeirra núna reknar með tapi, gróði frá hefðbundnu fréttaútsendingunum borgar brúsann fyrsta kastið. Einstaklingar sem senda út fréttir á Netinu fá sjaldnast neitt fyrir sína vinnu, þetta er ný tegund af tómstundaiðju.
Núna í dag hefur netfréttavefur Morgunblaðsins (http://www.mbl.is) útsendingar og á næstunni mun Vísir, netfréttarit Frjálsrar fjölmiðlunar hefja útsendingar. Morgunblaðið hefur verið á vefnum árum saman en hér er reginmunur. Fréttir og myndefni er nú skrifað sérstaklega fyrir vefinn og sett fram með því öfuga pýramídaformi sem rætt var um hér að ofan. Hingað til hefur útgáfa Morgunblaðsins á vefnum verið eins og hið prentaða blað án mynda. Það er engin tilviljun að ég vel sama dag og Mogginn til að gefa fyrst út minn eiginn netfréttamiðill en hann hef ég nefnt: GULA PRESSAN - SKAMMtímarit.
Nafnið hef ég valið svo vegna þess að þessi miðill minn er helgaður óvandari fréttamennsku, flytur SKAMMir á SKAMMarlegan hátt og kemur sennilega út í SKAMMan tíma. Ég kvíði alls ekki samkeppninni við Moggann því að meðan fréttastofa hans flytur áhugaverðar fréttafyrirsagnir sem koma á óvart eins og að Kúvætar ætli að styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak þá fjallar fyrsta útgáfa á mínum miðli um mál málanna í dag, kvennamál Clintons. Þar getur þú kynnt þér innviði málsins, skoðað ljósmyndir, hlaðið inn myndbandsupptöku á þegar Clinton faðmar Monicu, lesið málskjöl og skemmt þér eða hneykslast á bröndurum um málið.
Þess verður varla langt að bíða að hval reki aftur að landi eða festist í einhverju þeirra aragrúa neta sem fréttafangarar hafa lagt með ströndum. Það eru margir fjölmiðlar í viðbragðsstöðu, hafa notað tímann til að koma sér upp verkfærum og verkkunnáttu til að skera með ógnarhraða sem stærstan hluta af fengnum. Það eru engar fornar bækur sem segja til um hvernig svona hvalreka skuli skipta og það þarf ekki að spyrja neinn leyfis til að útvarpa fréttum á Netinu. Það tjáningarfrelsi sem nú ríkir á Netinu er vandmeðfarið og það er líka vandvarið.
GULA PRESSAN - SKAMMtímarit hefur slóðina: http://www.ismennt.is/vefir/ari/gulapressan
Reykjavík 1.febrúar 1998
Salvör Gissurardóttir
Mbl.is öflugasti fréttavefurinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vefurinn | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.