1.2.2007 | 17:25
Trasa migracji kapelanów
Fréttin sem ég valdi til að blogga um í dag er fréttin um að loðnukvótinn hafi verið aukinn í 380 lestir á vetrarvertíðinni í ár. Þetta eru mjög spennandi tíðindi, ég er ekki að segja það í neinu gríni, ég flýtti mér náttúrulega að því að bæta þessu við wikipedia greinina um loðnuna, ég skrifaði þá grein á sínum tíma og finnst ég hafa skyldur til að passa upp á að hún vaxi og dafni.
Svo sá ég að á vef sjávarútvegsráðuneytisins er hægt að hlaða niður nokkrum bindum af sögu sjávarútvegs við Ísland. Það er alveg til fyrirmyndar að útgáfa af fræðsluefni sem sennilega er kostuð af almannafé séu aðgengileg fyrir alla á vefnum. Vonandi verður aukning á slíku efni. Annars tók ég eftir þegar ég var að bæta loðnukvótanum við Wikipedia greinina að það er mjög ónákvæm grein á wikipedíu um mælieininguna lest það þarf nú eiginlega að laga það, ég hvet þá sem hafa vit á málinu að fara á þá grein, smella á breyta og setja inn betri skilgreiningu.
Ég var að skoða greinina um loðnu á þýsku wikipediu, það er ótrúlegt hvað þjóðverjarnir eru fljótir að taka upp það sem er komið nýtt í greinar, ég teiknaði skýringamynd af loðnugöngum við Ísland og setti inn á íslensku og ensku wikipediu en núna sé ég að einhver hefur þýtt skýringartextann við myndina á þýsku og bætt við á þýsku greinina um loðnu umfjöllun um " Lebensraum und Wanderungen der Lodde im Nordpolarmeer um Island". Það er gaman að sjá þetta, gott að vita af því að vinna mín í ensku og íslensku wikipedia og það að teikna svg skýringarmynd og setja inn í wikimedia commons nýtist í alfræðiritum á mörgum tungumálum.
Hmmm... sniðugt, ég var að skoða pólsku greinina um loðnu og þar sé ég að skýringarmyndin mín er líka komin inn og búið að þýða textann um ætisgöngur og hrygningargöngur loðnu við Ísland. Nú er ég að fatta hvað wikipedia gæti verið gott verkfæri í nýbúakennslu, ef greinar um ýmis fyrirbæri sem mikilvæg eru fyrir Ísland eins og loðnur og fiskigöngur og ýmis fyrirbrigði í náttúru landsins þá gætu nýbúar lesið líka um þessi fyrirbæri á móðurmáli sínu.
Best að ég breyti titli á þessum bloggpistli til heiðurs Pólverjum sem búa og starfa á Íslandi í "Trasa migracji kapelanów". Þetta er fyrsta setningin sem ég læri á pólsku.
Það eru bara sorglega fáir Íslendingar sem hafa áhuga á wikipedia samfélaginu og allt of fáir sem skilja hversu sniðugt er fyrir lítil málsamfélög eins og Íslendinga að dreifa ekki kröftunum um of heldur byggja upp einhver sameiginlega gagnasöfn til að skilja heiminn. Einn aukabónus við íslenska wikipediu er að það er hægt að hafa tengingar í greinar um sama efni á milli tungumála t.d. er eðlilegt fyrir okkur að tengja fræðigreinar í ensku wikipediu því þar er yfirleitt vönduðustu greinarnar.
Svo til að snúa þessari pælingu um loðnukvótann upp í femínisma þá má benda á að það er líka skynsamlegt að auka kvennakvótann í æðstu stjórn landsins.
Einmitt í dag 1. febrúar 2004 þá höldum við upp á Heimstjórnarafmælið og hyllum Hannes Hafstein Það hafa ekki margar konur verið forsætisráðherrar á Íslandi eða gerendur á sviði íslenskra stjórnmála. Það færir okkur hagsæld að stýra náttúruauðlindum okkar þannig að þær spillist ekki. Hagsæld samfélaga ræðst einnig af því hvernig mannauður er nýttur í samfélaginu og það er ekki skynsamleg nýting á mannauð að búa til samfélög þar sem alls staðar eru glerþök og ósýnilegir múrar sem halda ákveðnum þjóðfélagshópum í fjötrum. Það getur bæði verið kyn og þjóðernisuppruni sem halda fólki undir slíkum glerþökum.
Loðnukvótinn aukinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Facebook
Athugasemdir
Þú hefur verið ótrúlega dugleg á Wikipedia Salvör maður gengur þar varla um án þess að rekast á þig hér og þar. Fólk eins og þú sem af dugnaði og eljusemi byggir upp netsamfélagið er ómetanlegt. Takk fyrir að vera til stelpa!
Lára Stefánsdóttir, 1.2.2007 kl. 23:40
Takk fyrir hlý orð. Gaman að sjá að þú ert komin á moggabloggið. Vonandi kemstu inn á þing næst, ég bind miklar vonir við það.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.2.2007 kl. 09:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.