Bush, Björn Ingi, fangelsi og fatnaður kvenna

Sjaldan hef ég séð frjálslegra og skáldlegra farið með sannleikann og stjórnmálasöguna en í pistlinum  Ein af strákunum okkar  eftir Jón Karl en svo mikil áhrif hefur pistillinn á Björn Inga oddvita okkar Framsóknarmanna í borgarstjórn að hann endurómar tal strákanna um klæðnað kvennanna  í þessum pistli: Hvað eiga George Bush, Þorgerður Katrín og Siv Friðleifsdóttir sameiginlegt?

Aðalspekin í bloggum Jóns Karls og Björns Inga virðist vera útlitspælingar um kvenfólk í framboði og því haldið fram að það að  sýnast sæll og pattaralegur og iðjulaus  að skemmta sér hafi úrslitaáhrif á kosningar og hafi valdið því að Bush eldri sigraði Dukakis árið 1988  því : "Úrslit kosninga ráðast ekki af málflutningi frambjóðenda heldur líkamstjáningu þeirra, því sem á ensku kallast body-language." 

Þannig vill til að ég var búsett í Bandaríkjunum eimitt þegar Dukakis versus Bush eldri slagurinn var háður og fylgdist vel með baráttunni. Það er af og frá að úrslit þeirra kosninga hafi ráðist vegna  sviðsframkomu  og líkamstjáningar Bush. Úrslitin réðust vegna harðrar auglýsingahríðar og hræðsluáróðurs þar mannúðarstefna Dukakis  var skotin niður og þeirri hugsun haldið á lofti að það þyrfti öflug fangelsi til að passa þegnanna fyrir óbótamönnum. Mannúðarstefna Dukakis sem hann fylgdi sem fylkisstjóri  bendist meðal annars að fangelsismálum en þessi stefna var í auglýsingum frá áróðursmaskínu Bush útmáluð sem kerfi sem sleppti lausum stórhættulegum nauðgurum. Þessar auglýsingar ólu á kynþáttafordómum og hatri miðstéttar á þeim sem verst eru settir í samfélaginu.

Áhrifamesta auglýsingin var Revovling Doors auglýsingin, ég held að út af þeirri auglýsingu hafi Dukakis tapað. Hún glumdi við í mörgum sjónvarpsstöðvum daginn út og daginn inn og allir vissu hver nauðgarinn Willie Horton var.  Þessar auglýsingar voru ömurlegt, lúalegt og viðbjóðslegt dæmi um það sem kallað er "negative advertisment", að ráðast á andstæðinginn og ata hann út með ásökunum. Ég held að auglýsingamaðurinn sem gerði þessar auglýsingar hafi iðrast svo mikið að hann hafi sérstaklega á banabeði beðið Dukakis fyrirgefningar á þessu.

Þegar saga Bandaríkjanna er skoðuð frá þeim tíma sem Bush eldri vann Dukakis og sérstaklega staðan í dag þegar aldrei hafa verið fleiri í fangelsum í Bandaríkjunum og það er hluti af reynslu stórs hluta bandarískra blökkumanna að dvelja í fangelsi og það ömurlegasta  sem Bandaríkjamenn aðhafast á alþjóðavettvangi eru fangaflutningar og rekstur á viðbjóðslegum fangelsum sem lúta  í engu því sem við teljum til mannúðarstefnu og mannréttinda þá getum við ekki annað en hugsað hvað hefði gerst ef Dukakis hefði unnið. Hefði sagan orðið öðruvísi og hver er að vernda hvern fyrir hverjum með þessari ofuráherslu á fangelsi og lögregluríki? 

Karlmönnum á Íslandi þykir  eflaust skemmtilegt að pæla í klæðnaði og framkomu íslenskra kvenna í stjórnmálum og tengja þær við stjórnmálasögu bandaríska til að ljá sögum sínum trúverðugri blæ og búa til einhver body-language stjórmálafræði sem hjálpa til að stilla konum upp eins gripum til að horfa á, ekki til að hlusta á.  En svoleiðis sögur eru ekki sannleikur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Ég spyr líka af hverju er ekki rætt um karlana í íslenskri pólitík fyrst dæmið byggist á körlunum Bush og Dukakis?

Af hverju eru Addi Ktti Hagen, Össur, Geir H. Haarde, Jón Sigurðsson, Steingrímur Sigfússon o.s.frv. ekki teknir fyrir sem dæmi?

Bendi líka á eftirfarandi grein í New York Times.  

http://www.nytimes.com/2007/01/29/us/politics/29women.html?_r=1&oref=slogin 

Hefði raunar aldrei trúað því að Bandaríkjamenn væru komnir lengra en við í jafnréttisbaráttunni í stjórnmálunum, en hvernig á maður að skynja þetta öðruvísi þegar maður les svona pistla eða tölvupósta þar sem konum er líkt við blóm og/eða skraut?

Bkv. Eygló  

Eygló Þóra Harðardóttir, 30.1.2007 kl. 14:26

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Áhugaverð grein í New York Times. Reyndar held ég að meiri áherslan á móður og ömmuhlutverkið sé tengd breyttri samfélagssýn og ekki bara bundin við konur. Karlar í stjórnmálum vilja núna tengja sig meira fjölskyldunni, ég tek t.d. eftir að nokkrir karlmenn hérna á moggablogginu hafa mynd af sér og barninu sínu í hausnum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.2.2007 kl. 09:23

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég  er sammála,þetta er dæmigerð umræða og þetta er ein leið til að tala niður til kvenna. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.2.2007 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband