Þau voru í vinnu hjá mér og þér

 39aRikisstjornGHHII

Ég er ekki rekin áfram af hefndarþorsta og þórðargleði. Ég horfi ekki alltaf í baksýnisspegilinn. Ég held að Hrunið hafi verið óhjákvæmilegt og bara tímaspursmál hvernig það yrði hjá örsmáu ríki sem var leiksoppur í alþjóðlegu fjármálaspili, ríki  sem hafði enga  bakhjarla meðal voldugra þjóða og sem ekki gat prentað peninga sem tekið var mark á. Ég held að það sé mikilvægt að horfa til framtíðar og huga að uppbyggingu.

Það er hins vegar engin uppbygging að moka sig dýpra og dýpra ofan í skurði undir  sams konar kerfi og í mörgum tilvikum undir stjórn sömu aðila og hér stýrðu för  fyrir bankahrun  og sáu ekki fyrir hvað væri að gerast. Það verður að gera upp fortíðina til að skilja framtíðina, skilja hvað brást og hvers vegna og hvaða möguleikar eru í stöðunni.  Staðan er þannig að það er best að leggja niður sum kerfi sem brugðust og sem líklegt er að verði til trafala og bregði fyrir okkur fæti í framtíðinni. Þannig er um vinnubrögð og skipulag í stjórnmálum og samspil stjórnmála og athafnalífs. 

Stjórnvöld á Íslandi voru máttvana, fákunnandi  og andvaralaus gagnvart því sem var að gerast í fjármála- og athafnalífi  á misserunum fyrir Hrun og í sumum tilvikum samofin og samsek. Sumir af þeim sem voru ráðherrar þegar Hrunið varð höfðu verið ráðherrar í mörgum seinustu ríkisstjórnum og bera ábyrgð á því hömlulausa umhverfi sem hér var til staðar, umhverfi þar sem stjórnmálamenn dingluðu í spottum fjárglæframanna. Hér efst er mynd af þeirri ríkisstjórn sem hér sat þegar Hrunið varð en þegar skoðað hver ber ábyrgð á stöðunni og hve berskjaldað íslensk þjóðfélag var fyrir atburðum sem voru að hluta fyrirsjáanlegir af þeim sem höfðu sömu upplýsingar og stjórnvöld verður að skoða líka ábyrgð nokkurra síðustu ríkisstjórna, sérstaklega fyrsta ráðuneyti Geirs Haarde og ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar og raunar öll ráðuneyti sem hér hafa setið frá árþúsundamótum.

Stjórnvöld á Íslandi brugðust. Þau réðu ekki við stöðuna þegar fjármálafárviðri gekk yfir hinn vestræna heim. Þau höfðu ekki undirbúið íslenskt samfélag undir slíkt fárviðri og þegar bankarnir féllu og skömmu áður en þeir féllu  þá virðist mér sem áhersla stjórnvalda undir forustu Geirs hafi verið á að bjarga í skjól sem mestu af fjármálaeignum ákveðinna aðila (t.d. sjóður 9 klúðrið) og Geir hafði í forustu stjórnsýslunnar menn sem tengdust fjármálagerningum á hátt sem ekki sæmir embættismönnum (Baldur Guðlaugsson o.fl.)

Margir Sjálfstæðismenn sem sátu í ríkisstjórn þegar Hrunið varð eru svo flæktir inn í hagsmunatengsl og ýmis vensl við aðila í bönkum að trúverðugleiki þeirra er enginn og raunar furðulegt að þau skuli vera kosin á þing aftur.   Margir virðast gerðir út af gömlu ættarveldi til að gæta hagsmuna ættmenna sinna eða einhverra viðskiptablokka.  Íslenskar fjármálastofnanir voru síðustu misserin fyrir hrun  svikamyllur en margir íslenskir stjórnmálamenn voru á sama tíma líka talpípur fjárglæframanna sem settu upp þessar svikamyllur og gættu hagsmuna þeirra. 

Það er lagt til að fjórir ráðherrar verði ákærðir fyrir Landsdóm  og mér virðist það miða sérstaklega við hvaða ábyrgð þessir ráðherrar höfðu í starfi sínu þegar Hrunið varð. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún voru oddvitar tveggja fylkinga í þeirri samsteypustjórn sem hér var þá. Svo var Árni Matthiesen fjármálaráðherra og Björgvin viðskiptaráðherra þegar ósköpin gengu yfir. 

Það er rökstutt í þingtillögunni sem fer til atkvæða í dag hvers vegna og fyrir hvað lagt er til  þessir tilteknu fjórir ráðherrar verði ákærðir. Ég beygi mig undir þann rökstuðning þó ég skilji ekki hvers vegna augum var ekki beint að fleiri ráðherrum. Hvers vegna var t.d. ekki gerð tillaga um að Þorgerður Katrín yrði ákærð? Ég skil það ekki, hún var rétt eftir bankahrunið (á þeim tíma sem virðist hafa verið unnið að því að koma peningum í skjól fyrir ákveðna aðila) á krísufundum með ríkisstjórninni og svaraði m.a. fjölmiðlum (ég man sérstaklega eftir þótta hennar og mótþróa gegn því að hér yrði mynduð þjóðstjórn) en var á sama tíma gift manni sem var einn af stjórnendum í íslenskum banka og sem hafði tekið lán til að kaupa hlutafé í þessum banka. Það er mjög líklegt Þorgerður Katrín hafi búið yfir upplýsingum yfir hve rotið íslensk bankakerfi var og hve mikil svikamylla það var  m.a. í gegnum fjármál eiginmanns síns varðandi eignarhluti og svo var hún að víla og díla um fjármálalega framtíð íslensku þjóðarinnar á sama tíma og fjármál hennar fjölskyldu samslengdust því og mér virðist hún hafi í öllu gengið erinda fjölskyldumeðlima sinna og hafi á örlagastundu komið að ákvörðunum íslensku ríkisstjórnarinnar þegar hún var augsýnilega vanhæf  vegna hagsmunatengsla.

Mér finnst mjög sárt að ein af þeim sem lagt er til að verði ákærð er Ingibjög Sólrún. Það var alltaf draumur hjá mér og mörgum af okkur sem vorum í Kvennalistanum að einhver tíma myndi sú stund renna upp að Íslandi yrði undir forustu Ingibjargar Sólrúnar og við sem þekkjum til hennar og höfum fylgst með henni í stjórnmálum vitum að hún er einlæg hugsjónakona. Hún tiltölulega nýkomin til valda þegar Hrunið varð. En því verður ekki á móti mælt að hún var við völd og hún bjó yfir upplýsingum og var á þeirri vakt sem átti á þeim tíma að vaka yfir íslenskum almenningi.

Það segir sig sjálft að ef ætti að ákæra einhvern fyrir landsdóm fyrir athafnaleysi á þessum tíma þá voru það oddvitar flokkanna sem voru við völd og það eru  Geir og Ingibjörg Sólrún. Ég held að andrúmsloft stjórnmála á Íslandi hafi á þessum tíma verið þannig að stjórnmálamenn kóuðu með  bankakerfi í dauðarússi í örvæntingarfullri tilraun til að lengja líftíma þess og gerðu með því skellinn miklu stærri fyrir íslenskt samfélag.  

Ég held að það sé nauðsynlegt að ákæra þá sem voru í forsvari, vissulega varð kerfishrun sem rekja má til umhverfisaðstæðna sem Ísland réði ekki yfir en stjórnvöld bæði voru illa undirbúin, brugðust illa við og reyndu um langt skeið áður en bankarnir féllu að blekkja bæði íslenskan almenning og umheiminn. 

Við skulum ekki gleyma því að þau sem lagt er til að verði ákærð voru í vinnu hjá íslenskum almenningi einmitt við að stjórna landinu og vaka yfir velferð okkar. 


mbl.is Atkvæði um málshöfðun í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vona innilega að einhver vitglóra sé eftir í þessum moðhausum á alþingi og geri hluti sem þeir aldrei hafa gert áður:  Kjósa réttlætið nái fram að ganga.  En það er víst farið fram á ofmikið.  Þessar vesalings manneskjur sem sitja þar, gera ekki meir en að rata heim til sín, minnið í þeim, er svona gullfiskaminni.

J.þ.A. (IP-tala skráð) 28.9.2010 kl. 12:34

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Salvör, eina ákæran sem dugir -  eini réttláti dómurinn - er að allt það fólk sem sat í hrunastjórninni láti sig hverfa úr íslenskum stjórnmálum í að minnsta kosti 5-10 ár. Það er sanngjarnasti dómurinn og ég tel að um hann muni ná mest sátt í þjóðfélaginu.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.9.2010 kl. 12:58

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það er búið að semja um þetta 23/23 

Samfylkingin segir að hver hafi ákveðið þetta fyrir sig

Sigurður Þórðarson, 28.9.2010 kl. 14:05

4 Smámynd: Einar Guðjónsson

Ingibjörg Sólrún '' einlæg hugsjónakona '' eftir veru hennar í Borgarstjórn  og landstjórninni er ekki að sjá að hún hafi  haft nokkrar hugsjónir ? Bara ég um mig frá mér til mín og vina minna. Má raunar segja að R-listinn hafi græðgisvætt borgina og hugsjónir hennar hafi þá verið að tryggja íbúunum að okrað yrði á þá en þeir nytu engra réttinda.Hún kannski áttaði sig ekki á því.

Einar Guðjónsson, 28.9.2010 kl. 20:25

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Í hagfræðinni tölum við um að það er takmarkað til af peningum. Málefnið snýst um hverning við við getum stuðlað að sem mestu fjármagni og síðan skiptingu þess.

Það er líka takmarkaður tími, og ef stjórnvöld eyða öllum sínum tíma í að líta í baksýnisspegilinn þá förum við ekki áfarm . 

Niðurstðan er fengin, Geir ber einn ábyrgð, ekki Halldór, ekki Finnur, ekki Ingibjörg, Jóhanna, Össur, Bjögvin eða Össur.  Því síður Stengrímur. 

Réttlætinu er fullnægt, Salvör .... hvað svo?

Sigurður Þorsteinsson, 29.9.2010 kl. 00:26

6 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Smá viðbót. Vinstri menn vilja blóð.

Helsti hugmyndasmiður nýfrjálshyggjunar sem er verið að gera upp heitir Hannes Gissurarson. Hvaða dóm viljum við að hann fái? Þú svarar því á þinn hlutlsua hátt. 

Sigurður Þorsteinsson, 29.9.2010 kl. 00:29

7 identicon

Sammala Salvøru ad flestu leyti.

En tad sem er skelfilegast i tessu ferli finnst mer vera su hugsun flestra tingmanna og "ahugamanna" um stjornmal, ad tad se slæmt ad radherrar og tingmenn turfi ad bera abyrgd a gerdum sinum. Eg man ekki eftir neinu starfi tar sem menn geta verid algjorlega abyrgdarlausir gagnvart vinnuveitendum og vidskiptavinum (i tessu tilfelli eru tad kjosendur). Ad sjalfsogdu hefdi att ad akæra alla fjora, en eg er lika alveg jafn viss um ad Geir sleppur, tetta er bara til ad frida lydinn.

Sigurdur Torsteins, eg hef sjaldan eda aldrei verid sammala Hannesi Gissurarsyni, en hann a ekki ad fa neinn dom. Hann hefur skodun og heldur henni a lofti, sem betur fer hafa allir rett a tvi. En teir sem hlusta og taka akvardanir eiga ad bera abyrgd a sinum gjordum.

En leidir tetta ekki kannski til tess ad tad treystir ser enginn til ad sækjast eftir radherrastoli, tad er ta kannski bara til gods. Tingmenn med litla eda enga faglega tekkingu a sinum raduneyti verda aldrei annad en peningasoun fyrir rikid.

Kvedjur fra Norge.

Nøkkvi (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband