Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Tvær tölvur á Íslandi og Internetið (Lára og Anna rifja upp söguna)

Lára Stefánsdóttir rifjar í dag  upp hvernig stjórnendur Pósts og síma litu á Internetið  árið 1995 en þeir töldu það enga framtíð eiga. Það hefur nú komið á daginn að það átti nú meiri framtíð fyrir sér en Póstur og Sími sem hefur nú klofnað niður í  einkavæddar eindir og  pósthúsin horfið  eða orðið að  pakkaafgreiðslum í kjörbúðum. 

Anna Kristjánsdóttir skrásetti kynni sín af tölvutækninni í Háskóla Íslands rétt eftir 1961 og þar segir hún:

Tölvan fyllti heilt herbergi, við götuðum spjöld og þeim var rennt í gegnum lesarann Það þurfti að sjálfsögðu innsýn í verkefnin til þess að sjá hvaða bylting var hér á ferð í allri vinnslu og möguleikum á nýjum viðfangsefnum. Til gamans má nefna að ekki höfðu allir þessa innsýn og háttsettur ráðamaður hélt því t.d. fram að landið þyrfti ekki fleiri tölvur en tvær fram undir aldamót, eina hjá Háskólanum og aðra úti á atvinnumarkaði.

Þegar breiðbandstenging kom í grunnskólana í Reykjavík, 100 mb tenging þá man ég eftir að hafa hlustað útvarp frá umræðum í borgarstjórn þar sem Guðrúnu Pétursdóttur  æsti sig yfir því að það væri alveg fáránlegt, skólarnir myndu aldrei þurfa á svona mikilli bandbreidd að halda. Það var soldið fyndið að hlusta á hana segja það með miklum sannfæringakrafti.

Allar spár mínar um framtíðina hafa reynst rangar á þann hátt að ég hef vanmetið hversu mikil áhrif tæknin hefur og hve hratt ný tækni breiðist út. Það er ekkert fyrirsjáanlegt að það hægi á þróuninni á næstu árum, ef það gerist þá verður það vegna manngerðra þröskulda. 

Tæknibreytingar hafa ekki endilega sprottið upp úr farvegi þeirra sem mestan aðgang hafa að fjármagni og tækni, það eru undirstraumar byltingartækni  sem lýtur ekki sömu lögmálum og vörur sem eru verðlagðar og ganga kaupum og sölum.  Stundum hefur iðja sem ekki hefur mikinn status í dag og er jafnvel ólögleg í núverandi kerfi orðið uppspretta nýrra vinnubragða sem breiðast út til allra. Ég vil hér t.d. nefna hakkaramenningu, remix listsköpun og ýmis konar neðanjarðarmenningu og samfélög sem ganga beinlínis út á að brjóta lög með ólöglegri afritun.  Það stefnir líka allt í útbreiðslu á open source hugsunarhætti og einhvers konar nýrri tegund af sjálfsþurftarbúskap diy hugsunarhátt. Það minnir nú soldið á hippakúltúrinn.


Bush, Björn Ingi, fangelsi og fatnaður kvenna

Sjaldan hef ég séð frjálslegra og skáldlegra farið með sannleikann og stjórnmálasöguna en í pistlinum  Ein af strákunum okkar  eftir Jón Karl en svo mikil áhrif hefur pistillinn á Björn Inga oddvita okkar Framsóknarmanna í borgarstjórn að hann endurómar tal strákanna um klæðnað kvennanna  í þessum pistli: Hvað eiga George Bush, Þorgerður Katrín og Siv Friðleifsdóttir sameiginlegt?

Aðalspekin í bloggum Jóns Karls og Björns Inga virðist vera útlitspælingar um kvenfólk í framboði og því haldið fram að það að  sýnast sæll og pattaralegur og iðjulaus  að skemmta sér hafi úrslitaáhrif á kosningar og hafi valdið því að Bush eldri sigraði Dukakis árið 1988  því : "Úrslit kosninga ráðast ekki af málflutningi frambjóðenda heldur líkamstjáningu þeirra, því sem á ensku kallast body-language." 

Þannig vill til að ég var búsett í Bandaríkjunum eimitt þegar Dukakis versus Bush eldri slagurinn var háður og fylgdist vel með baráttunni. Það er af og frá að úrslit þeirra kosninga hafi ráðist vegna  sviðsframkomu  og líkamstjáningar Bush. Úrslitin réðust vegna harðrar auglýsingahríðar og hræðsluáróðurs þar mannúðarstefna Dukakis  var skotin niður og þeirri hugsun haldið á lofti að það þyrfti öflug fangelsi til að passa þegnanna fyrir óbótamönnum. Mannúðarstefna Dukakis sem hann fylgdi sem fylkisstjóri  bendist meðal annars að fangelsismálum en þessi stefna var í auglýsingum frá áróðursmaskínu Bush útmáluð sem kerfi sem sleppti lausum stórhættulegum nauðgurum. Þessar auglýsingar ólu á kynþáttafordómum og hatri miðstéttar á þeim sem verst eru settir í samfélaginu.

Áhrifamesta auglýsingin var Revovling Doors auglýsingin, ég held að út af þeirri auglýsingu hafi Dukakis tapað. Hún glumdi við í mörgum sjónvarpsstöðvum daginn út og daginn inn og allir vissu hver nauðgarinn Willie Horton var.  Þessar auglýsingar voru ömurlegt, lúalegt og viðbjóðslegt dæmi um það sem kallað er "negative advertisment", að ráðast á andstæðinginn og ata hann út með ásökunum. Ég held að auglýsingamaðurinn sem gerði þessar auglýsingar hafi iðrast svo mikið að hann hafi sérstaklega á banabeði beðið Dukakis fyrirgefningar á þessu.

Þegar saga Bandaríkjanna er skoðuð frá þeim tíma sem Bush eldri vann Dukakis og sérstaklega staðan í dag þegar aldrei hafa verið fleiri í fangelsum í Bandaríkjunum og það er hluti af reynslu stórs hluta bandarískra blökkumanna að dvelja í fangelsi og það ömurlegasta  sem Bandaríkjamenn aðhafast á alþjóðavettvangi eru fangaflutningar og rekstur á viðbjóðslegum fangelsum sem lúta  í engu því sem við teljum til mannúðarstefnu og mannréttinda þá getum við ekki annað en hugsað hvað hefði gerst ef Dukakis hefði unnið. Hefði sagan orðið öðruvísi og hver er að vernda hvern fyrir hverjum með þessari ofuráherslu á fangelsi og lögregluríki? 

Karlmönnum á Íslandi þykir  eflaust skemmtilegt að pæla í klæðnaði og framkomu íslenskra kvenna í stjórnmálum og tengja þær við stjórnmálasögu bandaríska til að ljá sögum sínum trúverðugri blæ og búa til einhver body-language stjórmálafræði sem hjálpa til að stilla konum upp eins gripum til að horfa á, ekki til að hlusta á.  En svoleiðis sögur eru ekki sannleikur.


Fokkmerki framan í konur

Helstu fréttirnar um Framsóknarflokkinn  þessa dagana eru yfirlýsingar frá karlmönnum sem ætla ekki að taka sæti á lista af því þeir eru dáldið svekktir  yfir að þeir hafi ekki fengið það fylgi sem þeir ætluðu sér í prófkjörum. Hér má nefna alþingismanninn Kristinn á Vestfjörðum, Hjálmar þingflokksformann í Suðurkjördæmi og núna seinast formann ungmennafélags Íslands (man ekki nafnið) sem ekki komst í eitt af sex efstu sætunum í prófkjörinu í Suðurkjördæmi og sendi frá sér yfirlýsingu um að hann  ætli ekki að  taka sæti  á listanum.

En það gegnir öðru máli um konur. Þar virðist ekki skipta máli um hvar konur lenda  á lista hvort þær taka þátt í prófkjöri og ganga vel í því. Í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi lentu konur í fjórða, fimmta og sjötta sæti. Karlinn sem var í þriðja sæti ætlar ekki að vera á listanum vegna þess hversu illa honum gekk í prófkjörinu.  Nú er í fréttum að það hefur verið bætt inn í þriðja sæti konu sem er starfsmaður þingflokks Framsóknarflokksins, konu sem ekki tók þátt í prófkjörinu.

Það er ekkert við þetta að athuga ef þetta er gert í samráði og sátt við þær konur sem lentu í þriðja til sjötta sætinu í prófkjörinu og almenn sátt sé um þessa tilhögun. En fyrir okkur sem horfum á þetta utanfrá og vitum ekkert um þetta annað en það sem kemur fram í fréttum þá er þetta bara eitt stórt fokkmerki framan í konur sem taka af fullum þunga þátt í prófkjörum. Var ekki hægt að finna kandidat í  í þriðja sætið í röðum þeirra kvenna sem lentu í fjórða til sjötta sæti? Er ekki eðlilegt að taka tilliti til fylgis þeirra í prófkjörinu?

Ég er ekki að gera lítið úr því að listi þurfi að vera samsettur úr mismunandi einstaklingum og endurspegla íbúana í kjördæminu en það er af og frá að níðþröngir stakkar úreltrar hreppapólitíkur eigi að reyrast bara að konum en karlmenn geti valsað frjálsir út um allar koppagrundir. 

Ég bendi á góðan pistil sem Stefán Bogi Sveinsson framsóknarmaður skrifar á blogginu sínu stefanbogi.is um þetta mál. Frá honum tek ég líkinguna um fokkmerkið sem ég nota í titli á þessu  bloggi. 

"Spunahjólin eru farin af stað í þeim tilgangi að finna út hver á að taka sæti Hjálmars á listanum. Þessi kenning er ekki verri en hver önnur. Eini gallinn við þetta allt saman er að það er í eðli sínu svindl að hrófla við niðurstöðum prófkjörs með þessum hætti. Ég hika ekkert við að segja það. Það eru bara svik við þátttakendur í prófkjörinu. Ég skrifaði eftirfarandi í tilefni af slíkum fimleikum á framboðslista Samfylkingarinnar í sama kjördæmi:

Af hverju virðist engum finnast þetta óeðlileg misbeiting? Ef menn á annað borð villast inn í það að halda prófkjör, sem að mínu mati er meingölluð leið til að velja á framboðslista, eiga menn að halda sig við niðurstöður þess.

Allt annað er eitt stórt ,,fokk"merki framan í þá sem lögðu það á sig að bjóða sig fram í prófkjörinu, og framan í þá sem kusu í því.

Ég hef ekki skipt um skoðun síðan. Það er algjörlega óviðunandi að einstaklingi sem gat, en ekki vildi bjóða sig fram í prófkjöri, sé svo lyft upp fyrir þá sem lögðu bæði tíma sinn, peninga og heiður að veði í slíkri baráttu."

Það andar köldu að konum á Íslandi á hundrað ára afmæli Kvenréttindafélags Íslands, sama hvort það eru konur dreifðar um byggðir Suðurkjördæmis eða konur sem berjast til forustu í Frjálslynda flokknum.  

Viðbót:

Ég get ekki betur séð bæði á skráningu í þjóðskrá og símaskrá en að Helga Sigrún Harðardóttir sé Reykvíkingur, skráð til heimilis í Skipholti í 105 Reykjavík. Mér finnst 105 Reykjavík vera fínt hverfi, það er nú líka átthagar mínir og ég bý þar og þar hef ég búið mestallt mitt líf fyrir utan nokkurra ára útlegð í Kópavogi og nokkur hliðarhopp í 101 Reykjavík.  En ég hefði ekki áttað mig á því áður að við 105 R-ingar værum Suðurnesjamenn og þess vegna gjaldgeng á lista í Suðurnesjamannasætin. Ég  Suðurnesjamaðurinn Salvör hugsa mér gott til glóðarinnar, það hlýtur að vanta Suðurnesjamenn til að punta einhverja fleiri lista. Grin

Hitafundur hjá Framsókn (frétt á visir.is) 


mbl.is Helga Sigrún Harðardóttir í 3. sæti hjá Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjótt á mununum

Það kemur mér á óvart hve mjótt var á mununum milli Magnúsar Þórs og Margréttar Sverrisdóttur, aðeins munaði  55 atkvæðum.  Þetta getur ekki túlkast sem neinn sigur hjá Magnúsi Þór, hann er sitjandi varaformaður og formaður hefur lýst yfir stuðningi við hann. 

Skyldu verða einhver eftirmál út af þessari kosningu? Það virðist allt hafa verið ansi laust í böndunum þarna og ekki erfitt fyrir fólk að koma inn af götunni og kjósa.  Annars rifjast upp fyrir mér núna að þetta er ekki í fyrsta skipti sem nokkur atkvæði segja til um hvort Margrét Sverrisdóttir kemst áfram. Það munaði örfáum atkvæðum á því að Margrét Sverrisdóttir hefði komist inn á þing fyrir fjórum árum og á því að Árni Magnússon komst inn.  Það mun þá hafa verið þannig að utanatkvæðisseðlar féllu öðruvísi í Reykjavíkurkjördæmunum, mig minnir að fleiri seðlar hafi verið dæmdir ógildir í Reykjavík norður.

En niðurstaðan var sem sagt þessi: 

"Magnús Þór fékk 369 atkvæði eða 54% en Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri, fékk 314 atkvæði eða 46%."

Það er bara núna hægt að spá í hvort Margrét fer í sérframboð eða hvort hún gengur til liðs við einhverja aðra t.d. svokallaða hægri græna. Ómar er víst búinn að bíða eftir úrslitunum. 


mbl.is Magnús Þór kjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta lýðræði?

Ég bíð núna eftir úrslitum úr kosningum Frjálslynda flokksins. Það er mikið í húfi fyrir alla Íslendinga. Það getur farið svo að Frjálslyndi flokkurinn verði í lykilaðstöðu eftir næstu kosningar og ef hann þróast á versta hugsanlega veg sem flokkur útlendingahaturs og öfga til hægri þá er illt í efni. 

Ég vona að Margréti Sverrisdóttur gangi sem best, það væri náttúrulega sú afmælisgjöf sem myndi gleðja kvenréttindakonur á Íslandi sem mest en einmitt í dag er haldið upp á 100 ára afmæli Hins Íslenska kvenfélags.   En mér líst ekki á fréttir um öngþveiti og ringulreið og smalanir á kjörstaði í stjórnmálaflokkum, ég held að þetta sé birtingarmynd þess í hve miklum molum lýðræðið er í landinu. Ég er afar ósátt við undarlega smalamennsku sem hefur viðgengist í Framsóknarflokknum þar sem meira segja hefur gengið svo langt að  plott hafa verið undirbúin í öðrum kjördæmum til að ná undir sig kvenfélögum. Hér á ég við Freyjumálið í Kópavogi.

Nú eru ekki komnar fréttir af varaformannskjörinu í Frjálslynda flokknum en það eru fréttir um að fólk fór af kjörstað núna þegar kosningu var lokið og flestir virðast eingöngu hafa verið þarna til að kjósa. Þetta minnir mig á það að ég fór á seinasta landsfund Framsóknarmanna en ég hafði ekki kosningarétt, ég fékk ekki að vera fulltrúi á landsþinginu vegna óeðlilegra og undarlegra vinnubragða í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður, vinnubragða sem einkenndust af spillingu og þvi að fólk hefur alveg misst sjónir á því hvað lýðræði gengur út á. Það var þá verið að kjósa formann, varaformann og ritara í stjórn Framsóknarflokksins. 

Ég skrifaði bréf til stjórnar Framsóknarflokksins og kjörnefndar  þar sem ég kærði þessi vinnubrögð stjórnar Framsóknarfélagsins í Reykjavík Norður og fór með það bréf á landsfundinn og afhenti starfsmanni flokksins. Ég er mjög ósátt við að því bréfi hefur ekki einu sinni verið svarað.  Ég skil ekki þetta virðingarleysi fyrir almennum flokksmönnum.


mbl.is Kosningu lokið hjá Frjálslyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hesturinn Önnu

Ég hringdi á Víðivelli og talaði við Lindu. Það var hesturinn Önnu sem keyrt var á. 

"Bíll lenti á hrossi skammt frá bænum Víðivöllum í Akrahreppi í Skagafirði um klukkan fjögur í nótt. Engan í bílnum sakaði en hrossið drapst og bíllinn var óökufær á eftir og var hann fjarlægður með kranabíl. Hrossið var ómarkað og leitar nú lögreglan eiganda þess."

 


mbl.is Ekið á hross í Skagafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggstríð og samsæriskenningar

 Bloggstríð fyrir kosningar

Í Fréttablaðinu í dag á blaðsíðu 18 er greinin Bloggstríð fyrir kosningar. Það er vitnað í mig, Stefán Páls og Steingrím Sævar.

Ég held að Fréttablaðið og það fjölmiðlaveldi sem það tilheyrir sé ekki par hrifið af uppgangi moggabloggsins. Það er nú eitthvað að gerast þar og hugsa ég að þessi grein sé nú ekki til að mæra moggabloggið heldur sem liður í að blása til sóknar. Sennilega ekki tilviljun heldur að þarna var viðtal við Stefán sem bölsótast manna mest út í moggabloggið og svo Steingrím Sævar sem er kominn á mála hjá Vísi 

Blaðamaðurinn sem hringdi í mig spurði eitthvað á þá leið hvort ég héldi að gróska moggabloggsins væri einhver samantekin ráð, ég tel svo ekki vera, þetta er einfaldlega besta kerfið á íslensku og það er aukakostur að það er partur af samfélagi sem tengist einu stærsta dagblaði landsins. Svo eru kosningar í nánd og reyndar svo miklar hræringar í fjölmiðlaheiminum að margir blaðamenn og fjölmiðlamenn eru milli vita og fá útrás með því að tjá sig hérna þangað til þeir verða of önnum kafnir við önnur verkefni. Sýnilleiki bloggsamfélagsins af forsíðu mbl.is hefur líka valdið því að blogg eru meira lesin en áður,  auðvelt er að sjá hversu margir lesendur eru og hverjir eru tengdir hverjum og stundum verður það til þess að bloggarar drekkja sér í athyglissýkinni. 

 Nokkrar greinar um bloggheiminn

Mínar greinar: 

Ekkibloggsaga Íslands 2. hluti

 Myspace fjölmiðlamanna

 Ekkibloggsaga Íslands 1. hluti

Drottningarviðtal við sjálfa mig sem mann ársins

Bloggtoppur árið 2007

Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika?

 Greinar frá öðrum:

 Byltingin í Bloggheimum og kóngurinn af Íslandi í dag (Hrafn Jökulsson)

Er Stefán Pálsson hinn íslenski Romario?(Hrafn Jökulsson)

Bloggið þróast (Guðmundur Magnússon)

Eitt allsherjarblogg? (Guðmundur Magnússon)

 Hefði Jón forseti bloggað?(Guðmundur Magnússon)

 

 

 

 

 

 


Áfengisauglýsingar sem beint er til unglinga

Það spretta upp eins og gorkúlur vefir sem höfða til unglinga á framhaldsskólastigi. Ég hef bent á það áður í pistlinum Cult Shaker kúltúr á Íslandi. Það er augljóst hverjir styðja við þessa vefi, það eru þeir birgjar sem selja vímuefni, þetta eru vefir sem gera út á að ánetja unglinga fíkniefnum, þarna eru áfengisauglýsingar í bland við einhvers konar skólatengt efni. Svo er þetta kryddað með kvenfyrirlitningu í máli og myndum og alls konar kynlífsvísunum í myndum. Er einhver að furða sig á hvaðan fólkið kemur sem þarf á aðstoð SÁÁ og Byrgisins að halda? Er einhver að furða sig á hve íslenskt samfélag er þrungið kvenfyrirlitningu? 

Hvað eru aðilar sem sjá um einhverjar fyrirbyggjandi aðgerðir í vímuefnamálum að hugsa?  Hvað er lögreglan að hugsa? Ég hélt að það mætti ekki auglýsa áfengi, var ég að missa af einhverju, er búið að leyfa það ? Vilja foreldrar á Íslandi virkilega svona menningu og skemmtanalíf unglinga? 

Splash.is skjámynd 25jan07

Hér fyrir ofan er  skjámynd af vefnum splash.is sem ég tók rétt áðan. Það er pistil upp eitthvað skólatengt og svo krökkt af áfengisauglýsingum. Ef þetta er ekki lágmenning þá veit ég ekki hvað lágmenning er.

Hér fyrir neðan er skjámynd af einni af vefnum pose.is. Það eru á þessum vefum gjarnan djammmyndaseríur sem sýna myndir frá drykkjusamkomum á skemmtistöðum. Allar myndirnar eru skreyttar ókjöri af áfengisauglýsingum og sjá má að veitingastaðirnir sem djammið fer fram eru líka skreyttir með áfengisauglýsingum. Myndirnar af konum á þessum stöðum eru oft myndir af fáklæddum konum sb þessa mynd sem lítur út fyrir að vera pornósýning og myndirnar af strákum eru gjarnan þannig að þeir eru að drekka, það virðast vera einhvers konar bjórauglýsingar.

Það vekur athygli hvað vefirnir pose.is, 69.is og leikjaland.is eru tengdir og vísa hver á annan. Þeir virðast vera reknir af sama aðila og það virðist vera kappsmál þeirra aðila að halda áfengi og svona lífsstíl þrungnum kvenfyrirlitningu að ungmennum.

Mynd af pose.is 25. janúar 2005

 


Teiknimyndasögur - ævintýri

Hér er nútímaútgáfa af ævintýrinu um Hans og Grétu. Samúðin er náttúrulega með norninni sem puðar og puðar við að koma sér upp gotteríshúsi sem krakkaskríllinn spænir í sig. Ég prófa að líma inn myndbrot frá Channel Frederator. Það er líka hægt að hlaða niður teiknimyndum og skoða á iPod eða í quicktime.

Það tók langan tíma þangað til myndbandið byrjaði að spila, þetta virðist ekki vera eins hraðvirkt og Youtube. En ef myndbandið spilast ekki sjálfkrafa þá er hérna slóð beint það

Þekkir landlæknir ekki lög um skyldur landlæknis?

Matthías Halldórsson landlæknir segir í grein á bls. 28. í Morgunblaðinu í dag: "....þar sem ég tjáði ráðuneytisstjóranum að við hefðum ekkert um fortíð Byrgisins að segja þar sem það heyrði ekki undir eftirlitshlutverk landlæknisembættisins, það teldist ekki sjúkrastofnun og ég vissi ekki til að embættið hefði komið neitt að ákvörðun um fjárveitingar til þess. Fréttir af fjárveitingum til Byrgisins sjáum við nú orðið bara í fréttum eins og aðrir"

Í lögum nr. 39 frá 1964 er kveðið á um meðferð drykkjusjúkra og eftirlitsskyldu landllæknis. 

  8. gr. Meðferð drykkjusjúkra skal vera í höndum lækna, sjúkrahúsa, heilsuverndarstöðva eða annarra stofnana, sem til þess hafa hlotið sérstakt leyfi heilbrigðisstjórnarinnar og háðar eru eftirliti hennar.
Stofnanir eða einstakir læknar, sem hafa drykkjusjúklinga til meðferðar, skulu senda landlækni, eða þeim, er hann ákveður, upplýsingar á þar til gerðum eyðublöðum, er skrifstofa landlæknis lætur í té.

Er hægt að túlka þetta öðru vísi en að landlækni beri að hafa eftirlit með stofnunum sem stunda einhvers konar meðferð á drykkjusjúkum og gera það í velþóknun og með fjárstuðningi frá opinberum aðilum? Landlæknir segir í greininni "Við flokkum handayfirlagningar og annað í þeim dúr ekki til meðferðar".  Þetta er vissulega þörf ábending til yfirvalda og það er afar þarft að fagaðilar og aðilar með sérfræðikunnáttu  eins og landlæknir skýri hvað er meðferð og hvað er ekki meðferð. 

En þegar rýnt er í skýrslur og plögg um Byrgið þá er alveg ljóst að þar fór fram einhvers konar meðferð  þó hún væri ekki í höndum læknis og það hefur nú  einmitt verið  vegna trúar á þessa tegund af meðferð að Byrgið hefur fengið opinbert fé.  Er það fyrst núna sem landlæknir gerir athugasemd við starfsemi Byrgisins og er það fyrst núna sem hann útskýrir hvað landlæknisembættið telur vera meðferð? 

Í lögum um landlæknisembættið segir: " Landlæknir skal vera ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um allt, er varðar heilbrigðismál." og þar stendur líka: " Landllæknir heldur uppi eftirliti með lækningastarfsemi allri, m. a. í því skyni að sporna við skottulækningum og annarri ólögmætri lækningastarfsemi."

Ef til vill er ég að misskilja hlutverk landlæknis en mér virðist að hann hefði átt að fylgjast með  og hafa eftirlit með meðferð drykkjusjúkra og hafa vit fyrir stjórnvöldum á umliðnum árum  a.m.k. með því að benda á að það væri ekki rétt að hafa heimili eins og Byrgið og að aðilar sem ekki væru hæfir til að bjóða meðferð gerðu það. Einmitt eins og landlæknir gerir í greininni í Morgunblaðinu í dag þar sem hann bendir á að það er skynsamlegra að fela heilbrigðisstofnun Suðurlands aðhlynningu skjólstæðinga Byrgisins en að  fela öðru trúfélagi Samhjálp það verkefni.  

Það hefur margt brugðist í Byrgismálinu og frammistaða Félagsmálaráðuneytisins er þar alls ekkert glæsileg, reyndar mikil hneisa, það er ótrúlegt að rekstur á slíkum brauðfótum skuli ekki hafa sætt meiru fjárhagslegu eftirliti.  Fjármálaóreiða og meint kynferðisbrot eru eitt en meðferð  við drykkjusýki sem er einhvers konar trúarkukl og handayfirlagningar er annað. Hefði ekki landlæknir átt að benda fyrr á að þetta er ekkert sniðug og fagleg meðferð fyrir drykkjusjúka? Ég reyndar held að þessi tegund af meðferð virki fyrir einhverja en það er bara óumræðilega sorglegt að þeir sem eru dýpst sokknir hafa ekki haft neitt val á íslandi. Þeir hafa orðið að leita í skjól hjá ofsatrúarsöfnuðum eða vera á götunni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband