Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Letigarðurinn

Eventide

Þegar ég var barn og brann af útþrá og las í sögubókum um Íslendinga fyrri tíma sem fóru út í hinn stóra heim, heim sem takmarkaðist reyndar í margar aldir við borgina Kaupmannahöfn, þá fylgdi ég þeim í huganum, mig langaði til að drekka í mig visku heimsins undir lindinni á Gamla Garði við Kanúkastræti þangað sem höfðingjasynir frá Íslandi voru sendir en mig langaði líka að slást í för með þeim sem leiddir voru í böndum af yfirvöldum til Kaupmannahafnar til að afplána.

Verstu glæpamenn Íslands voru sendir  á Brimarhólm  og síðar Stokkhúsið  eða Rasphúsið þar sem flestir dóu. Fangelsin þá voru vinnuþrælkunarbúðir, fangar unnu við skipasmíðar, réru á galeiðum og sópuðu götur borgarinnar og voru leigðir út í alls konar erfiðisverk. Einstaka  fangi lifði af vistina og kom aftur til Íslands.

Hafliði sem sem dæmdur var til Brimarhólmsvistar fyrir aðild að Kambsráninu kom aftur til Íslands 1844  og hafði með sér kartöflur sem hann ræktaði í garði sínum á Eyrarbakka en hann hafði vanist þeim mat í fangelsinu því fangarnir  munu hafa haft fátt annað til matar en kartöflur.

fattighus.jpgMér fannst líka hlyti að vera spennandi að vera í Letigarðinum en það var nafn sem ég rakst einstaka sinnum á, oftast í dramatískum frásögnum af fólki sem fór illa fyrir. Nafnið hljómaði ekki svo illa, gat maður ekki legið þar í leti og verið í makindum að spóka sig í letigarðinum, kannski var í þeim garði líka linditré sem varpaði þægilegum skugga ef maður sat þarna við lestur  og reyndi  að ráða í heiminn, var þetta ekki athvarf fyrir þá sem ekki komust inn  á Íslendingakvótanum í lestrarsalina á Gamla Garði? Svo virtist þetta vera líka eitthvað sérúrræði fyrir konur, ekki voru þær á Garði, bara á Letigarði.

En Letigarðurinn var ekki eins og  Gamli Garður þar sem stúdentar gátu legið í leti og sukki í nokkur ár upp á kóngsins reikning heldur var hann vinnuþvingunarstofnun eða vinnuþrælkunarbúðir fyrir fátæka og samastaður í tilverunni fyrir umkomulausa sem ekki áttu í annað hús að venda.  Það er lenda á Letigarðinum var verra en að segja sig til sveitar  eða vera á vergangi.  Orðið er hljóðgerving frá danska orðinu " ladegaarden"  en uppruni þess mun vera landbúnaðarhús þ.e. ekki aðalhúsið á jörðum, kannski er uppruninn sama og orðið hlaða hjá okkur.  Ladegården  við Kaupmannahöfn var fyrst  búgarður við konungshöllina, seinna spítali fyrir sjúka og sára hermenn og svo fátækrahæli fyrir bæklaða hermenn og svo fangelsi og svo vinnuhæli fyrir fátæka og húsnæðislausa og enn síðar nauðungarvinnuhæli fyrir brotamenn.

von_herkomer_the_last_muster.jpgMyndir Hubert von Herkomer af breskum stofnunum sambærilegum og Letigarðurinn hrífa mig. Þær hrifu líka Vincent von Gogh en hann málaði undir áhrifum frá Herkomer og valdi líka að mála hina smáðu og hrjáðu. Hér fyrir ofan er myndin Eventide er frá St.James's Workhouse í Soho og hér til hliðar er The last muster  eftir  Hubert von Herkomer sem er mynd af gömlum uppgjafahermönnum  sem eru á fátækrahæli við sunnudagsmessu.

Letigarðarnir voru hæli þar sem hinum bjargarþrota var safnað saman.  Þannig voru spítalar líka t.d. fyrstu holdsveikraspítalarnir á Íslandi. Það voru fátækrahús þar sem fátækir og sjúkir voru teknir úr umferð. Síðan fórum við inn í tíma þar sem stofnanir voru settar upp í stórum stíl, stofnanir fyrir geðsjúka, stofnanir fyrir fatlaða, stofnanir fyrir aldraðra. Þannig hugsun er á undanhaldi en þó er eins og samfélagsvitundin nái ekki til aldraðra. Ennþá eru byggðar stofnanir og  byggðakjarnar fyrir aldraða, eins konar umönnunarsvæði þó þau séu með lúxús í dag sem var ekki í letigörðunum til forna.

En hvernig ætli lífið hafi verið hjá þeim ógæfusömu sem enduðu á letigörðunum? Komst einhver þaðan burtu? Vandist vistin?

pass_room_bridewell_microcosm.jpg

 Fangelsið á Litla-Hrauni hefur stundum verið uppnefnt  Letigarður  en kannski er meira við hæfi að kalla fangelsið Hafliðagarður eftir kartöflugarðinum á Eyrarbakka þar sem fanginn frá Brimarhólmi varð nýtur þegn og frumkvöðull í  samfélagi og ræktaði þar  kartöflur, færni sem hann bar með sér úr fangelsisvistinni.

Hinn eini sanni Letigarður í Reykjavík stendur við Arnarhól og var byggður á kóngsins kostnað.  Það var reist tugthús á Arnarhóli árið 1764 sem átti jafnframt að vera letigarður fyrir flækinga og landshornamenn.  Fangarnir voru í vinnu hér og þar um bæinn og voru meira segja látnir róa í verstöðvum og unnu fyrir stiftamtmanninn.

Í dag er eins og starfsemin í húsinu hafi aftur breyst í letigarð, ekki þannig letigarð að þar sé ekkert gert, heldur í vinnuþvingunarstofnun fyrir þá sem eru í þjónustu - ekki danska kóngsins, hér er  lýðræðisríki og sjálfstæð þjóð, heldur vinnuþvingun til að gæta hagsmuna alþjóðlegs fjármálakerfis sem löngu er komið að fótum fram. Fangarnir eru ennþá leigðir út í alls konar skítverk.

Meira um letigarða (sem voru reyndar frekar vinnuþrælkunarbúðir):

The Workhouse

Work house

 Poor house

Letigarðurinn í Osló

Bridewell Palace

 

 


 

 

 


Steingrímur þá og Steingrímur nú

Það  hafa verið verið fjórar samkomur/mótmæli eða gjörningar á Íslandi sem marka tímamót. Kryddsíldarmótmælin, Búsáhaldabyltingin, Blysförin að Bessastöðum og svo Tunnumótmælin. Laugardagsmótmælin á Austurvelli voru svo eins konar upphitun fyrir allan þennan aktívisma.

Fyrsta harða og heiftúðuga andspyrnan á Íslandi eftir Hrun voru kryddsíldarmótmælin, þegar hópur ungmenna braut sér leið inn á hótel Borg á gamlársdag 2008 gagngert til að trufla útsendingu á Kryddsíldarþætti sem Sigmundur Ernir stjórnaði og þar sem saman voru flokksleiðtogar að fara yfir stöðuna. þetta var hefðbundinn þáttur á Stöð 2, svona skemmtiþáttur þar sem orðhákur og mælskumaður eins  Steingrímur Sigfússon naut sín jafnan vel. Hér er myndband með smábroti af umræðunni í kryddsíldinni tveimur árum fyrir hrunið,  í árslok 2006 en ekki verður heyrt annað en allt leiki í lyndi, Steingrímur kokhraustur að prútta góðlátlega við Ingibjörgu Sólrúnu um hvort þeirra ætti að verða forsætisráðherra í rauðgrænni samsteypustjórn.

Svona var pólitísk umræða á Íslandi árið 2006, það er ekki laust við að maður fyllist eftirsjá og vilji hverfa til þeirra tíma þegar ágreiningsmálin eru þau ein, hver eigi að vera í brúnni.

En kryddsíldarmótmælin tveimur árum seinna  í árslok 2008 kæfðu rödd Steingríms því mótmælendur rufu útsendinguna enda var það tilgangurinn. Steingrímur var svolítið sár, ég man eftir viðtali við hann þar sem hann kvartaði yfir af hann hefði ekkert fengið að segja, kannski var hann með þrusugóðar og kjarnyrtar blammeringar og skammir á ríkisstjórnina (ríkisstjórn Geirs sem þá lafði ennþá) sem hann ætlaði að slengja fram þegar stradivariusarfiðlukonsertinn væri búinn og kryddsíldarveisluborðið uppdekkað. En kryddsíldin bara súrnaði meira en Sigmundur Ernir og  svo mögnuðust upp mótmæli á Austurvelli í  janúar strax eftir áramótin og það endaði með búsáhaldabyltingu þar sem eldar  brunnu á Austurvelli og norsk jólatré fuðraði upp.

Þá skildi Steingrímur vel fólkið og var einn af því. Hann var líka ansi duglegur fyrst eftir hrunið, stundum fannst mér hann vera sá eini á Alþingi sem var að gera eitthvað og berjast fyrir Íslendinga, hann fór í ferðir til Noregs og hann barðist gegn ofríki Breta og Hollendinga um Icesave gagnvart okkur, ofríki sem allar Evrópuþjóðir tóku þátt í. Steingrímur breyttist úr norðlenskum kjaftaski í hetju fólksins sem barðist og leitaði lausna á sama tíma Geir forsætisráðherra og ráðherrar hans lyppuðust niður og voru sem lömuð og niðurkýld og lúffuðu í stríði þar sem þau höfðu allt að vinna með sókn en engu að tapa.  Ég kunni ágætlega við Steingrím kjaftask, hann var skemmtilegur. Mér fannst hins vegar mikið koma til Steingríms hins hugrakka og athafnasama sem neitaði að taka þátt í að gera ekki neitt stefnu ríkisstjórnar Geirs, Steingríms sem stóð með fólkinu en ekki fjármálalífinu og hagsmunum þess.

En svo fór Steingrímur innanbúðar og varð það sem hann var að prútta um í kryddsíldinni tveimur árum áður, hann varð starfandi forustumaður í ríkisstjórn sinni. Reyndar var hann að nafninu til fjármálaráðherra en við sjáum ekki annað en allan þann tíma sem rauðgræna ríkisstjórnin hefur starfað þá hefur Steingrímur verið aðaldrifkrafturinn í þeirri stjórn. Ekki kemur krafturinn frá Jóhönnu, við höfum á tilfinningu að hún hafi verið á útleið úr stjórnmálum en tekið hið erfiða hlutverk forsætisráðherra að sér einfaldlega vegna þess að innan Samfylkingar var enginn annar sem naut trausts meðal almennings.  Jóhanna nýtur ennþá trausts okkar  og vil höldum að hún sé velmeinandi manneskja sem setur velferðarmál ofan öðru.  það hefur margt gerst til batnaðar með þeirri stjórn sem nú situr þó mér sér fyrirmunað að skilja af hverju hér var ekki strax við Hrunið sett upp þjóðstjórn, neyðarstjórn sem allir kjörnir flokkar/listar áttu fulltrúa í. Þjóðstjórn er líka eini vitræni kosturinn í stöðunni núna.

En það eru þrjú mál sem rauðgræna ríkisstjórnin hefur staðið sig eindæmis illa í. það eru icesave, magma og skuldavandi heimila og einstaklinga.  Það hefur verið afar fróðlegt að fylgjast með Steingrími þá og Steingrími nú hvernig hann hefur tekið á hlutum. Hann umpólaðist í Icesave málinu og var spurður út í þessa breyttu afstöðu af fjölmiðlum, þá segist hann hafa skipt um skoðun "þegar ég fór að kynna mér málin". Þetta er skrýtið, við höfum líka reynt að kynna okkur málin og hvernig sem við reiknum og spáum og spekúlerum þá fáum við ekki annað séð en að yfir okkur venjulega Íslendinga hafi verið settar stríðsskaðabætur fyrir stríð sem við tókum ekkert þátt í og við eigum að greiða lausnargjald þannig að nokkrar kynslóðir Íslendinga eigi að vera í skuldafangelsi vegna erlendra skulda - á meðan við glímum við að allar eignir okkar gufa upp, atvinnan hverfur og lífskjör versna. Ofan á þetta bætist sú hroðalega aðför breskra stjórnvalda að setja Íslendinga undir hryðjuverkalög.

Svo var það Magma málið.  Steingrímur var soldið á ferðinni í því, ég var í einhverri óskhyggju að vona að hann væri í alvöru að vinna í því að erlend fjármagnsfyrirtæki fengju ekki að bora sig inn í íslenskan orkuiðnað og kaupa hér upp auðlindir íslensku þjóðarinnar. En Steingrímur gerði ekkert nema látast vera að gera eitthvað.  

Þriðja málið eru skuldamál heimilanna. Besta tillagan um hvernig ætti að fara með skuldir var róttæk tillaga okkar Framsóknarmanna sem sett var fram fyrir síðustu kosningar, tillaga um 20% niðurfellingu skulda.  Það hefði verið eins konar endurstilling á fjármálakerfinu. Þetta er tillaga margra hagfræðinga, svona flatur niðurskurður skulda, það var ekki síst nauðsynlegt til að virka sem hvati á hagkerfi sem var botnfrosið...og mikið hefðum við getað orðið stolt á alþjóðavettvangi af svoleiðis aðgerð, það hefði orðið fordæmi fyrir aðrar þjóðir, þetta er eitthvað sem verður að gerast víða um heim, það verður að endurstokka upp fjármálakerfi.

En hver var framkvæmdin? Tillögur Framsóknarmanna þóttu hneykslanlegar, fella niður skuldir!!! kæmi ekki til mála, það ætti að hjálpa hverjum einstökum og skoða málin. Reyndin hefur orðið sú að nánast engum er hjálpað. Aðeins rétt rúmlega hundrað fjölskyldum. Ekki þeim sem er burðarstólpinn í öllum samfélögum,ekki þeim sem voru millistétt í íslensku samfélagi, ungu barnafólki sem núna er öreigar. 

Æ, hvernig læt ég, það er ekki rétt þegar ég segi að engum var hjálpað. Ég gleymi að sumum var hjálpað, hjálpað mjög mikið.  Þannig var strikað yfir skuldir innherja í bönkum, þannig var kerfisbundið bara eins og rútína færðar niður skuldir hjá fyrirtækjum eins og sjávarútvegsfyrirtækjum (sb. nýlegt dæmi um sjávarútvegsfyrirtæki í eigu ættmenna Halldórs Ásgrimssonar) þrátt fyrir að það væri fyrirtæki rekið með miklum hagnaði ári áður. Svo má alls, alls ekki gleyma að  hlúð var að stofnfjárfestum í sparisjóðum og sumum fjármálafyrirtækjum bjargað, sumir segja að það hafi verið vegna pólitískra ástæðna, sumir segja að Steingrímur hafi beitt sér fyrir fyrirgreiðslu til Saga Capital til að bjarga fólki í sinni heimabyggð sem veðsett eigur sína (t.d. bújarðir) til að kaupa einhver bréf í þingeyskum sparisjóði. En Saga Capital fékk eindæma góð vaxtakjör og hefur núna á einhvern undarlegan hátt fært öll fémæti í skjól í annað félag sem heitir Hilda.  Mér skilst að ef Saga Capital hefði orðið gjaldþrota þó hefðu margir bændur og búalið þarna í heimabyggð Steingríms misst aleiguna. Sveitungar Steingríms hafa örugglega sett á hann mikla pressu í því máli, það er ekki spurning. Spurningin er hins vegar hvernig Steingrímur brást við þeirri pressu.   

En Steingrímur þá og Steingrímur nú er ekki bara Steingrímur sem núna ráðskast um Ísland. Annar Steingrímur skrifar samtímasöguna á pressunni, það er Steingrímur Sævarr Ólafsson. Hann skrifar  núna hjartnæman pistil um fjölskyldubyltinguna á Austurvelli, byltingu sem hann tók þátt í gær ásamt öllu hinu góða fólkinu. Kannski var hann að berja á tunnur við hliðina á Óla Birni Kárasyni. Mörgum verður hvelft við þennan pistil Steingríms Sævarss um hverjir séu góðu mótmælendurnir, Eiríkur skrifar blogg um fjölskyldufólk og fasista í frjálslynda flokknum  og segir Sigga pönk vera venjulegan fjölskyldumann, það vitum við nú öll sem höfum fylgst með bloggi anarkistans Sigga pönk, hann er hugsandi, heiðarlegur og góður maður. Svo er Jóhanna Sigurðar líka venjulegur fjölskyldumaður.  Egill Helga analýsar venjulegafjölskyldufólks mótmælabloggið hanns Steingríms Sævarrs  í pistli Hverjir voru að mótmæla?  og Davíð Stefánsson í VG rís upp fyrir sitt fólk og sína fjölskyldu og okkur öll hin Austurvellinga frá fornu fari og skrifar Um fjölskyldufólk á Austurvelli - af gefnu tilefni . Agnar sem er einn aðalaktívistinn fann sig ekki með fjölskyldufólkinu, hann fann reyndar ekki fjölskyldufólkið eins og Steingrímur og fannst bara hið illa hafa mætt til að mótmæla.  Reyndar skilst mér að anarkistar sem Steingrímur telur einhvers konar ekki-fólk hafi rifið fána og hent á eld.

En sá Steingrímur sem núna talar eins og sannur Austurvellingur og lazyboystólaunnandi er enginn stofukommi þó hann hafi lítt sést við mótmælin áður. Steingrímur Sævar var í einni tíð handgenginn þeim sem steyptu okkur í glötun. Hann var spunameistari Halldórs Ásgrímssonar og vann sem pólitískur starfsmaður og ráðgjafi Halldórs í forsætisráðuneytinu. Hann var líka innundir hjá fjölmiðlaveldi Baugspressunar, hann var fréttamaður á Ísland í dag og svo var hann fréttastjóri hjá Stöð 2 einmitt á þeim tíma þegar mesta óstjórnin var í samfélaginu og skarað var að þeim eldi sem brenndi upp Ísland. Hann varð  fréttastjóri stöðvar 2 1. ágúst árið 2007.  Engum sögum fer af því að Steingrímur Sævarr hafi þá stungið á kýlum bankabólunnar enda kannski ekki við því að búast, þú bítur ekki hendina sem fóðrar þig segir máltækið.  

Alveg eins og Steingrímur Sigfússon hafði og hefur mikla ábyrð í íslensku samfélagi þá hafði Steingrímur Sævarr mikla ábyrgð. Það er þannig að ekkert var eins árangursríkt í að hilma yfir að Hrun væri yfirvofandi og þetta væri stóreflis svikamylla og hið samansúrraða þagnarsamsæri og klórbandalag stjórnvalda, fjárglæframanna og fjölmiðla. Fjölmiðlarnir voru í eigu fjárglæframannanna sem hegðuðu sér vægast sagt illa, ráku umsvifalaust þá sem voguðu sér að gagnrýna.

Stjórnvöld höfðu lika spunameistara sem spunnu upp fréttir. Hinn orðhvati Jónas Kristjánsson segir um spunakerlingar og pólitíkska umræðu á mogganum þetta (jonas.is 30.05.2007):

Spunakerlingar
Pólitískur spuni felst í að taka fréttir og spinna þær inn á brautir, sem eru hagstæðar umbjóðandanum. Halldór Ásgrímsson hafði þrjár spunakerlingar til að spinna fyrir sig á vefnum, Björn Inga Hrafnsson, Pétur Gunnarsson og Steingrím Sævarr Ólafsson. Spunakerlingar prentmiðla hafa barizt um, hvort ný ríkisstjórn sé Baugsstjórn eða Þingvallastjórn. Feitasta spunakerling landsins er Morgunblaðið, sem framleiðir svonefndar fréttaskýringar, oft á forsíðu. Þær eiga að framleiða atburði, hanna atburðarásir, en ekki að segja fréttir. Mogginn hannar pólitík, en stundar ekki blaðamennsku.

En ég efa ekki að Óli Björn og Steingrímur Sævarr hafi núna bæst í hóp okkar mótmælenda á Austurvelli af því að þeir eru einlægir í þvi að koma á þjóðfélagsbreytingum og umbótum hérna. Ég hugsa að þeir hafi  tapað mjög miklum fjármunum, margir í þeim hópum sem þeir tilheyra voru þátttakendur í alls konar flækjufyrirtækjum í caymanneyjastíl og sumir verða að borga til baka af   fé sem þeir fengu út úr bönkum í hlutabréfagambl. 

Ég vona að þeir sem stunda einhvers konar fjölmiðlun á Íslandi verði vandari að virðingu sinni en þeir voru árin fyrir hrun en kannski verðum við alltaf að skoða hver á fjölmiðla og átta okkur á því að sagan eða spuninn í fjölmiðlum verður alltaf með hagsmuni eigandans eða þess sem skaffar fé í huga. Það er mjög erfitt fyrir fjölmiðlamenn að standa á móti því, þeir fá reisupassann samstundis. Hér vil ég rifja upp að Árni Snævarr var  rekinn sem fréttamaður frá Stöð 2 árið  2003 fyrir frétt um laxveiði Geirs Haarde í boði Kaupþings. 

Mikill sparnaður hefði verið að því fyrir íslenskt samfélag ef fjölmiðlar hefðu á þessum tíma haft tækifæri til að að rekja og segja frá þessi vægast sagt óeðlilega samkrulli stjórnvalda og fjármálafyrirtækja.  En þeir gátu það ekki. Þeir sem reyndu voru reknir.

Sumum finnst það dæmi um upplausn í íslensku samfélagi að fleiri og fleiri komi á Austurvöll og mótmæli. En ég held að svo sé ekki, ég held að það sé styrkleikamerki að sem flestir láti sig varða hvers konar samfélag við byggjum upp hérna. Við erum sum venjulegt fjölskyldufólk en málið er að það er styrkleiki í því að við virkjum og viðurkennum fjölbreytni í samfélaginu og þær lausnir sem henta fyrir íslenskt samfélag og sem munu koma okkur áfram eru ekki bara lausnir sem gerðar eru af og fyrir það sem Steingrímur Sævarr skilgreinir sem venjulegt fjölskyldufólk, hann lýsir svona í hrifningu hverjir voru við mótmælin í gær:

" Þetta voru ekki háskólanemar, anarkistar og iðjuleysingjar, hvað þá byltingarsinnaðir kommúnistar.  Nei, þetta var fjölskyldufólk.........þetta var vísitölufjölskyldan, fólkið sem kaupir áskrift að Stöð 2, finnst Spaugstofan skemmtileg og er spennt yfir Útsvari og man hvernig Ísland var áður en bjórinn var leyfður. Þetta var fólk sem er seinþreytt til vandræða, fólkið sem á Lazy-Boy stólana, sem á fjölskyldupassa í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn, á hvorki jeppa né smábíl heldur station-bíl, borgar skattana og hlustar á hádegisfréttir Ríkisútvarpsins.  Þetta var „venjulegt fólk“!  Hinn almenni borgari, ekki óróaseggurinn, skemmdarvargurinn, uppreisnarmaðurinn sem stjórnmálamenn geta kennt um ófrið í miðborginni"

Þessi analýsa hans Steingríms Sævarrs á fjölskyldufólki og bullandi fordómar fyrir sumum þegnum íslenskt samfélags er eiginlega bráðfyndin, hún er svo skemmtilega smáborgaraleg og gamaldags.  Ég er því miður búin að senda lazyboy stólinn minn vestur í land, annars sæti ég núna með bros á vör í stólnum og fílaði í tætlur að vera venjulegt fjölskyldufólk.

 


mbl.is Líta mótmælin öðrum augum nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband