Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Átthagakvöld hjá Framsóknarflokknum

Á meðan þingmennirnir funduðu um gjaldeyrishöft og gengishrun þá héldum við Framsóknarmenn í Reykjavík átthagakvöld. Það var kvöld þar sem Framsóknarfólk sem flust hefur til Reykjavíkur kemur saman. Þetta átthagakvöld var helgað fólki sem á ættir sínar að rekja til Norðvesturkjördæmis en til stendur að hafa tvö önnur átthagakvöld. Það voru  um 80 til 90 manns sem mættu á þetta fyrsta átthagakvöld og það var greinilegt að margir eldri aðfluttir Framsóknarmenn sem komu á átthagakvöldið eru ánægðir með í hvaða átt flokkurinn stefnir núna og hvernig vinnubrögð og áherslur hafa breyst.Það er margt fullorðið fólk sem er hætt búskap eða annarri vinnu sem hefur flust til Reykjavíkur og Framsóknarflokkurinn á sterkan bakhjarl í því fólki. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hefur heldur ekki gleymt uppruna sínum, þetta er flokkur sem sækir styrk sinn í sveitirnar og landsbyggðina, þaðan koma rætur Framsóknarflokksins eins og raunar rætur okkar flestra sem búum á mölinni.

Hérna eru myndir frá átthagakvöldinu.

Hér er sjálfkeyrandi  myndasýning frá átthagakvöldinu.

IMG_4212

Það mættu Framsóknarmenn frá ýmsum stöðum á Norðvesturlandi.

IMG_4171

Frambjóðendur kynntu sig og Sigmundur Davíð formaður flokksins flutti stutt ávarp og fyrrum þingmenn sögðu gamansögur úr kosningabaráttunni og brýndu menn til dáða.

IMG_4192

 Nú er safnað meðmælendum fyrir framboðslista og um að gera að nota átthagakvöldin til þess.

IMG_4206

Átthagakvöldin eru mannfagnaður og á léttum nótum þó að farið sé yfir hið erfiða efnahagsástand og útskýrt hvers vegna best er fyrir þjóðina að Framsókn komi að stjórn landsins. Eitt af skemmtiatriðum kvöldsins var þegar þingmannsefni af norðvesturlandi þandi nikkuna og spilaði "kátir voru karlar".

IMG_4199

Fleiri myndir frá átthagakvöldinu

 Hér er sjálfkeyrandi  myndasýning frá átthagakvöldinu.


mbl.is Sér ekki á svörtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem detta niður gegnum öryggisnet velferðarkerfisins

Það er mikið blekking að við lifum í velferðarsamfélagi þar sem séð er fyrir þörfum allra til læknisþjónustu og aðhlynningar og lífsviðurværis. Það er vissulega til öryggisnet trygginga- og bótakerfis en möskvarnir í því neti eru miklu gisnari og hleypa miklu meiru í gegn heldur en möskvarnir í þeim netum sem kvótaeigendur leggja við Íslandsstrendur.  Fólk sem flytur á milli landa er réttlaust um nokkra hríð og það þó það sé borið og barnfætt á Íslandi en hafi flutt út einhvern tíma til að freista gæfunnar.

Nú er tími heimskreppu og uppflosnunar í öllum löndum, héðan flýr fólk og leitar til Norðurlandanna og Kanada í von um betri framtíð og atvinnu og hingað kemur fátækt fólk sem flýr ennþá ömurlegri kjör í sínum heimahéruðum heldur en þeim bjóðast í kreppu og réttleysi útlendinga á Íslandi. 

Það geturverið að hingað komi eða hingað sé þegar kominn eða muni koma  margt fólk sem engin ummerki skilur eftir sig í opinberum gögnum, fólk sem vill ekki finnast en lifir huldu höfði við mjög kröpp kjör. Það getur verið að þannig lifi fjölskyldur með börn.

Það er líka þannig að atvinnuleysisbótakerfi okkar og reyndar margs konar ívilnanir samfélagsins eru bundnar þannig að engir hafa rétt nema þeir sem hafa verið í vinnu en missa hana. Þannig hafa skólanemar sem engan rétt hafa til atvinnuleysisbóta ekki neina ástæðu til að skrá sig á atvinnuleysisskrá, það er enga vinnu að fá, það er engar bætur að fá. Þannig er háttað með þá sem núna hrökklast út úr framhaldsskólum, ef til vill vegna námsörðugleika eða námsleiða. Í fyrra hefðu þeir valið úr vinnum. Nú er þessi hópur týndur og þessi ungmenni drepa tímann og mæna göturnar, þessi hópur er eins ósýnilegur og hinir réttlausu og óskráðu útlendingar sem hér unnu verk sem Íslendingar voru of góðir til að vinna í gróðærinu.

 

 


mbl.is Aðgerðaáætlun um velferð kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur situr hjá í næstu umferð

 

Hér fyrir ofan er einnar mínútu svipmynd  sem ég tók í dag í kosningarskrifstofu Framsóknarflokksins í Reykjavík.  Þar eru nú margir fundir á dag, þessi svipmynd er af  fundum kvennahóps og frambjóðenda og kosningastjórnar. Kosningabaráttan er komin í fullan gang og opnunarhátíð kosningamiðstöðvar verður á laugardaginn kl. 14. 

Það virðist ljóst af því hvernig allir stjórnmálaleiðtogar tala núna að Sjálfstæðisflokkurinn verður ekki með í næstu ríkisstjórn. Þetta ættu þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum að hafa í huga og hugleiða hvort það sé mjög skynsamlegt að kjósa þann flokk aftur. Það er nú reyndar frekar gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vera utan stjórnar, þar er erfitt fyrir Sjáfstæðismenn núna að standa andspænis íslenskri þjóð núna og verja stefnu og útfærslu sem steypt hefur okkur í glötun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gott af því að skoða sín mál og taka sig á.

Það virðist útilokað að mynda ríkisstjórn á Íslandi að loknum kosningum án þátttöku Vinstri grænna og Samfylkingar. Steingrímur er enda kokhraustur og drambsamur og finnst ríkisstjórnin vera undin saman úr stálþráðum, sams konar þráðum og halda mannvirkjum.  En þannig er það nú bara ekki þessi ríkisstjórn sem núna er lafir gerir það eingöngu fyrir tilstuðlan Framsóknarflokksins og hún er undin saman úr tveimur illa spunnum ullarþráðum og er  eingöngu mynduð til að hér sé ekki algjör glundroði fram að kosningum.

Í Framsóknarflokknum búa menn sig núna undir kosningabaráttu sem háð er heiðarlega og af alvöru og festu stjórnmálaafls sem vill ekki taka þátt í að blekkja almenning, ekki taka þátt í að leyna því hve alvarlegt ástandið er. Framsóknarflokkurinn bendir á leiðir til að vinna sig út úr þessum aðstæðum öfugt við stjórnarflokkana sem því miður eru uppteknir af leiðum sem líklegar eru til að magna upp kreppuna og velta vandanum á undan sér.


mbl.is Framsókn vill í vinstrisæng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er mest spennandi við kosningarnar 25. apríl?

Svar: Hvort ríkisstjórn verður mynduð með eða án Framsóknarmanna.

IMG_4106

Málið er að eins og oft áður þá verður það Framsóknarflokkurinn sem verður hverfisteinninn í íslenskum stjórnmálum. Staðan er þannig núna eftir algjört hrun á Íslandi að íslenskir kjósendur hafa sömu fjóra flokkana og áður og svo geta þeir valið nokkra kverúlanta eins og Sturlu vörubílstjóra, Ástþór forsetaframbjóðanda, Sævar Síselski fulltrúa þeirra sem dvelja í 101 Reykjavík og svo Selfyssinga sem kunna ekki vel á tölvupóst.

Framboðin utan fjórflokkanna eru ekki beint gæfuleg. 

En hvernig standa málin varðandi fjórflokkana? Ég get svarað því með Framsóknarflokkinn. Framsóknarflokkurinn hefur gengið í gegnum algjöra endurnýjun og margir hafa lagst á eitt við að breyta flokknum og hverfa aftur til þeirrar félagshyggju og samvinnuvinnubragða sem flokkurinn stendur fyrir. Það tekur hins vegar langan tíma að breyta stjórnmálaflokkum og þessum breytingum er ekki lokið í Framsóknarflokknum. En það er óhætt að fullyrða að Framsóknarflokkurinn hefur breyst mest fjórflokkanna og er sá stjórnmálaflokkur sem áttar sig best á ástandinu og er tilbúnastur til að vinna að lausnum. Hér er mynd af nokkrum af frambjóðendum Framsóknarflokksins við kosningarnar 25. apríl:
IMG_4148

Allt bendir til að ekki sé hægt að mynda hér starfhæfa stjórn án þess að bæði Vinstri-grænir og Samfylking komi að þeirri stjórn. Það er margt gott fólk í þessum flokkum en það er ekkert sem bendir til þess að þessir flokkar hafi eitthvað breyst við það að allt féll á hliðina á Íslandi og ríkið rambar á barmi gjaldþrots. Landsfundur Vinstri-græna var bara já-og-amen samkoma og flokkurinn hegðar sér ennþá eins og hann sé í stjórnarandstöðu í góðæri. Einu tillögurnar eru að setja himinháa eignaskatta og tekjuskatta, eignaskatta á eignir sem eru hafa gufað upp og skila engum tekjum lengur. Samfylkingin endurnýjaði hjá sér með Jóhönnu sem er vissulega félagshyggjumanneskja og meinar ábyggilega að hún vilji standa vörð utan um heimilin og hún var ansi grimm í félagsmálaráðuneytinu í den og passaði upp á sína málaflokka.

IMG_4118

Það var fínt í góðærinu en því miður er núna afar erfitt ástand sem krefst nýrra lausna og stjórnvöld verða að geta tekið ákvarðanir, ekki bara um hvernig eigi að eyða meiri peningum í samneyslu heldur líka um niðurskurð, kerfisbreytingar og aðgerðir til að reyna að blása lífi í lamað athafnalíf í landinu. Það er bara þannig að til að við náum að halda hér uppi velferðarsamfélagi þá þarf að vera fólk og fyrirtæki sem stendur undir greiðslum til velferðarmála. Satt að segja tók ég ekki eftir neinni breytingu á Samfylkingunni og prófkjöri þeirra og landsfundi nema það að Sigríður Ingibjörg flaug upp í öruggt þingsæti af því hún sagði sig úr bankaráði Seðlabankans eftir að hafa setið þar í nokkra mánuði. Það er sem sagt uppgjör Samfylkingarinnar við fortíðina í hnotskurn, það er sektin sem Samfylkingin finnur hjá sér fyrir að hafa blekkt þjóðina, beitt sér fyrir óheftri einkavæðingu og gengið erinda auðjöfra og  þeirra sem vildu eiga alla fjölmiðla í landinu og stýra allri umræðu í landinu.

IMG_4128

Það er ekki svo miklir valkostir eftir kosningar varðandi stjórnarmynstur. Það er sem sagt spurning um tvo staðnaða flokka Samfylkingu og Vinstri-Græna og hugsanlega fara leikar svo eftir kosningar að þessir flokkar gætu myndað starfhæfa en mjög veika stjórn. Veika vegna þess að þinglið þeirra verður samsett af sólóistum sem margir hverjir virðast alls ekki skilja það vandamál sem Ísland stendur frammi fyrir núna, kannski einmitt af því að þeir eru  hluti af vandamálinu og tóku þátt í að búa það til. Svo eru þessir tveir flokkar að mörgu leyti eins og andstæðir pólar, Samfylkingin hjakkar í ESB eins og einhverju trúboði og vilja álhúða Hafnarfjörð en Vinstri-Grænir fylgjast ekkert með álverðinu í heiminum og halda að ennþá hafi einhver áhuga á að byggja álver hérna. 

IMG_4133

Það er við svona aðstæður sem það skiptir öllu máli hvort Framsóknarflokkurinn sem hefur einn flokka gengið í gegnum algjöra uppstokkun geti með yfirvegun sinni og skynsemi  tryggt stöðugleika í íslenskum stjórnmálum. Íslenskur almenningur ætti að hugsa sig um að átta sig á því að ef Framsóknarflokkurinn hefði ekki gripið inn í þá væri Ólafur Magnússon kannski ennþá borgarstjóri í Reykjavík og það væri styrjaldarástand í Ráðhúsinu og ef Framsóknarflokkurinn hefði ekki gripið inn í og komið ríkisstjórn Geirs Haarde frá völdum þá væri enginn fjórflokkanna við völd á Ísland núna.

Satt að segja þá eru allar líkur á að hérna hefði verið algjört upplausnarástand og óvíst að hægt hefði verið að koma við lýðræðislegum kosningum, verið gæti að  fólk upptendrað af búsáhaldabyltingu og  ráðleysi og dáðleysi stjórnvalda væri búið að taka yfir opinberar byggingar og allt væri hér í glundroða og ringulreið og götubardagar í miðbænum.

IMG_4117

Það eru þannig aðstæður í íslensku samfélagi ennþá að það er þörf á að sem flestir stjórnmálaflokkar komi að því að stýra landinu eftir kosningar og það er ennþá besti kosturinn að hér verði einhvers konar þjóðstjórn. Því miður tókst það ekki og ef það getur ekki orðið af þjóðstjórn þá er besti kosturinn fyrir íslenskan almenning að Framsókn komi að því að tryggja hér stöðugleika og skynsemi og fái hina stjórnmálaflokkana til að horfast í augu við hið gríðarlega vandamál sem við stöndum frammi fyrir  og fái þá til að gera eitthvað í því. Ekki sitja auðum höndum og halda að það gufi  upp af sjálfu sér.

IMG_4088

Um síðustu helgi hélt Framsóknarflokkurinn frambjóðendaráðstefnu og með þessu bloggi eru svipmyndir frá henni. Sjá hérna fleiri myndir.

Þetta eru myndir af fólkinu sem er reiðubúið að reisa við Ísland.

IMG_4138
mbl.is Þolinmæði framsóknarmanna þrotin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eggjaskurnin eftir fjöreggjakastið

Við erum smán saman að horfast í augu við þann dökka veruleika sem mætir okkur eftir hrunið á Íslandi.  Öll höfum við tapað, þeir sem áttu eignir í hlutabréfum hafa tapað þeim að miklu leyti, þeir sem áttu fasteignig hafa tapað gríðarlegu því að fasteignaverð hefur hríðlækkað og er ennþá í frjálsu falli en þeir sem skulda hafa tapað mestu. Skuldirnar hafa hækkað gríðarlega vegna verðbólgu og gengisþróunar en eignirnar sem stóðu sem veð fyrir þessum skuldum lækka og lækka í verði. 

Í fyrirtækjum og bönkum er vaninn að meta hversu líklegt er að krafa innheimtist og nota þá varfærni að ef verulegar líkur eru á því að kröfur tapist þá eru þær afskrifaðar. Þeir sem áttu mestar eignir í íslensku samfélagi voru ekki útrásarvíkingar eða íslenskir auðmenn, við vitum núna vel að það ryk sem þeir þyrluðu upp var bara sjónhverfingar, þeir bjuggu til einhvers konar sýndarauð með því að þyrla peningum á milli sín eins og lottókúlunum í úrdrætti í víkingalóttó. Þeir sem raunverulega áttu mestar eignir í íslensku samfélagi og eiga ennþá eru lífeyrissjóðirnir. Þar hafa safnast upp gríðarleg verðmæti sem eru ekki bólupeningar heldur raunverulegt framlag launþega  og atvinnurekenda á Íslandi ætlaðir til að tryggja launþegum á Íslandi viðurværi þegar þeir geta ekki unnið lengur. Það voru líka þessi verðmæti sem þeyttust upp í víkingalóttói hins kasínókapítalíska kerfis sem við lifum við og  þau brotnuðu eins og egg. Núna er áætlað að lífeyrissjóðirnir hafi misst einn þriðja af verðmætum sínum á árinu.  

Það er athyglisvert að lesa eftirfarandi frétt með hliðsjón af efnahagstillögu Framsóknarmanna um 20% niðurfellingu skulda. Svona er nefnilega áætlað að þurfi að afskrifa verðmæti líffeyrissjóðanna:

"Þegar gert er ráð fyrir 90% afföllum af skuldabréfum bankanna, 75% afföllum af öðrum fyrirtækjaskuldabréfum og 70% afföllum af erlendum skuldabréfum er neikvæð raunávöxtun lífeyrissjóðanna í fyrra nær 33%."

Það er sem sagt áætlað að  ekki innheimtist nema tíundi partur til þriðjungur af þeim peningum sem lífeyrissjóðirnir lána.  Tillaga Framsóknarmanna gengur út á að fimmtungur skulda verði strax afskrifaður hjá skuldunautum. Menn verða að átta sig á því hvað fyrirtæki varðar að þessar skuldir eru þegar afskrifaðar hjá þeim sem eiga kröfurnar um  miklu meira en sem nemur fimmtungi, einfaldlega vegna þess að það er kalt mat að skuldarar muni ekki ná að borga nema lítið brot af þessum skuldum. 

Það er í svona aðstæðum sem Framsóknarmenn setja fram tillögu um að skuldir verði lækkaðar um 20%, skuldir sem þegar hafa vaxið um meira en það bara vegna verðbólgu og gengismunar  en skuldir sem eru þegar afskrifaðar eftir öllum eðlilegum skynsamlegum viðskiptaaðferðum, einfaldlega vegna þess að það eru engar líkur á að þær innheimtist.  Það er hins vegar afar ósennilegt að þetta sé nóg, það verða að koma til miklu stærri og umfangsmeiri efnahagsaðgerðir. En það er gríðarlega mikilvægt að búa þannig um að ekki sé sorfið svo að fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu að þau hafi enga möguleika til að bjarga sér.


mbl.is Staða lífeyrissjóða afhjúpuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borguðu 11 milljarða fyrir Landsbankann, skildu eftir Icesave skuld upp á 640 millljarða

Gróðinn af einkavæðingu bankanna er átakanlega lítill.

Tökum Landsbankann sem dæmi, hann var seldur fyrir um 11 milljarða til þess eins að við þyrfum að taka á okkur skuld upp á  640 milljarða  fimm árum seinna. Íslensk stjórnvöld gerðust mesta ginningarfífl íslenskrar viðskiptasögu þegar þau voru tæld á haustmánuðum árið 2002 til að afhenda peningargerðarvélar samfélagsins  til manna sem komu með fé frá Rússlandi. Bankar í kasínókapitalísku kerfi vestrænnar auðhyggju eru stórhættulegar stofnanir, stofnanir sem búa til sýndarpeninga með loftbólum og skuldum. Með því að handsala slíkar stofnanir til manna sem eingöngu stjórnast af eigin gróðahvöt og skapa umhverfi þar sem slíkir menn fá að athafna sig og skuldsetja aðra í því skjóli sem bankaleynd og einkavæðing gefur þá hafa stjórnvöld tekið þátt í að rústa lífsskilyrðum margra kynslóða á Íslandi.

Peningarnir sem hingað streymdu úr bjórgróða í Rússlandi voru rúmir 11 milljarðar.
Síðan liðu fimm ár. Þá allt í einu vöknum við  fólkið í landinu upp við það að íslensk stjórnvöld hafa með ráðleysi og dáðleysi, andvaraleysi og blekkingum látið stela öllu frá Íslendingum og  eigendur þessa fyrrum ríkisbanka hafa með vitund og vilja stjórnvalda  og að því er virðist nokkurri velþóknun stjórnvalda framan af gert okkur ábyrg fyrir 640 milljarða Icesave skuld, skuld vegna fimm ára einkavæðingar þessa fyrrum ríkisbanka. 

Landsbankinn spratt upp úr fyrsta banka á Íslandi, banka sem Tryggvi Gunnarsson stýrði, banka sem tryggði okkur Íslendingum fjármagn til að við gætum nýtt fiskimiðin okkar, banka sem lánaði í íslenskan sjávarútveg til þilskipa sem borguðu sig upp á þremur árum.  Má ég frekar biðja um afturhvarf til   gamla hundraðkallins heldur en þessa "fé án hirðis"hugsun taumlausrar gróðahyggju sem hefur núna rústað íslensku efnahagslífi.  

Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrst og fremst hefur staðið fyrir því að afhenda ríkisbankana á gullfati til einkaaðila, til þess eins að þjóðin þurfi að taka svo við þeim aftur fimm árum seinna, en núna ekki á neinu gullfati, það er fyrir löngu komið í geymslu á einhverri af Tortola eyjum heimsins.

Nei núna er bönkunum grýtt til baka í höfuðið á okkur og við þá hanga eins og drekkingarsteinar ofboðslegar skuldir  þannig að í þessu grjótkasti höfum við Íslendingar verið slegin í rot, alla vega tímabundið og við munum aldrei ná að rísa upp  aftur og synda upp á yfirborðið  nema við náum að ýta frá okkur einhverju af þessum steinum.

Ísland marar í hálfu kafi á meðal þessir skuldaklafar halda okkur í djúpinu.

Í ágætri úttekt í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Samson borgaði 11,2 milljarða fyrir bankann en samningar stóðu yfir haustin 2002.  Það kemur líka fram í greininni að Framsóknarmenn reyndu á sínum tíma hvað þeir gátu til að ekki yrði seldur svona stór hluti úr ríkisbönkunum. Það væri áhugavert að vita hvort það hefði breytt einhverju.

Ég held raunar ekki, ég held að það hefði þá bara tekið lengri tíma fyrir þennan Samson hóp að komast yfir ráðandi hlut í bankanum. Eina sem hefði getað breytt einhverju er að íslenska ríkið hefði alltaf átt meirihluta í bankanum.  En það er gott að það kom upp á yfirborðið hvernig Framsóknarflokkurinn reyndi í lengstu lög að sporna við að svona stór eignarhluti væri seldur úr ríkisbönkunum.

Sjálfstæðisflokkurinn var hins vegar sleginn blindu, þar var einkavæðing alls sem hægt var að setja verðmiða á nánast trúaratriði og gróðahyggjan var eins og guðspjöll og spámennirnir voru menn eins og Pétur Blöndal sem er ágætur tölfræðingur en afleitur spámaður í trúboði, hann talaði hins vegar í bíblíulegum frösum og lýsti þeim samsafnaða auð sem hér bjó í eignum, fólki og fyrirtækjum með orðum eins og "fé án hirðis", fé sem ætti að afhenda einhverjum auðhyggjumönnum og þá myndi gróðablik þeirra og gróðahyggja gera okkur hin rík. Málið er að það hefur ekki gengið eftir, gróðahyggja fárra sem vinna bara fyrir sjálfan sig hefur gert okkur öll fátæk.

Til langs tíma er miklu betra að byggja upp samfélag þar sem leiðarljósið er alltaf samfélagið og samfélagsleg ábyrgð og samtryggingarkerfi, þar sem velferð allra er höfð að leiðarljósi og þar sem atvinnulíf er byggt upp, ekki út af skammsýnum gróðasjónarmiðum út af tölum í ársreikningum fyrirtækja heldur til að búa til samfélag þar sem fólk starfar saman og í samvinnu að því að byggja upp en ekki í samkeppni og gróðahyggju.

En núna þegar komið hefur í ljós hvernig Framsóknarmenn reyndu að sporna við óheftri bankasölu þó þeir væru í stjórnarsamstarfi við helsta markaðshyggjuflokkinn og gætu ekki fylgt því eftir þá er áhugavert að greina hvernig þeir sem voru í vaktinni í stjórnarandstöðu þessi gróðærisár stóðu sig. Það er áhugavert að skoða hvernig maður eins og Ögmundur Jónasson varaði við og reyndi að hafa áhrif. Vissulega var Ögmundur í aðstöðu til að sjá hvað væri að gerast, vissulega var Ögmundur sem  formaður eins stærsta félags launþega í aðstöðu sem við hin höfðum ekki í að hafa aðgang að hagfræðingum sem höfðu púls á markaðinum. Vissulega var Ögmundur í kjöraðstöðu til að benda á hvað var að gerast, hann var tengdur einum stærsta lífeyrissjóði landsins og í starfi sínu þá hlýtur hann að hafa áttað sig á því hlutverki sem lífeyrissjóðirnir gengdu í því að steypa okkur í þessar aðstæður. Ögmundur hefur staðið sig vil, hann birtir upplýstar greinar en af hverju gerði hann ekki meira? Af hverju varaði hann okkur ekki betur við,  af hverju gerðu Vinstri grænir ekki neitt ?

Framsóknarflokkurinn reyndir einn flokka að koma með tillögur sem myndu hjálpa Íslendingum í þeim aðstæðum sem þeir eru í núna. Fyrsta skrefið er að aflétta hluta af skuldum af einstaklingum og fyrirtækjum, skuldum sem mynduðust þegar gengið féll og eru að sliga fólk því verðmætin sem standa fyrir þessum skuldum hafa hraðfallið í verði og fyrirsjáanleg er ennþá meiri verðlækkun. Skuldarar báðu ekki um að bankakerfið myndi hrynja yfir þá og hagkerfi heimsins myndi hrynja þannig saman að verð á öllu lækkaði. Öllu nema skuldum. 

En þar þarf líka að semja um afnám og niðurfellingu á hluta þeirra skulda sem útrásarmenn með velþóknun stjórnvalda steyptu okkur í. Eða eigum við kannski að  heimta að borga skuldirnar  eins og Samfylkingarmenn vilja? Eigum við bara að biðja Guð að blessa Ísland og stóla á ófundnar olíulindir  og EBE? 


mbl.is Vildu ekki selja Samson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögn fólksins


Það er frekar dapurt að hlusta á fréttir og fjölmiðla núna. Í Kastljósinu var í kvöld söfnun fyrir gott málefni en nú er ekki verið að safna til að kaupa rándýr tæki á spítala eða senda veikt fólk í dýrar aðgerðir erlendis eða hjálpa bágstöddum einhvers staðar í útlöndum. Nú er verið að safna fyrir matargjöfum handa fólki á Íslandi og í þættinum voru viðtöl við marga sem núna eru án vinnu.

Annars er ekkert nema vondar fréttir. Núna eru fyrirtækin að gera upp ár hrunsins og það  er alls staðar tap og núna mörg  fyrirtækin sem reyndar voru löngu komin í þrot að stöðvast.  Kauphallarvísitölur heimsins halda áfram að lækka og bandaríkjaforseti sver af sér að USA muni lenda í stöðu Íslands. Ekkert er vera í heiminum en að vera í stöðu Íslands.  En það eru brotalamir í bæði USA og Kína og Bretlandi, það er óþarfi að hafa ofurtrú á hagkerfi þó þau séu stór. Þegar verður svo ofboðsleg flóðbylgja gegnum kerfið ef traust fólksins fer og það getur haft hræðilegar afleiðingar ef þolinmæði fólks og vantraust á stjórnvöldum verður svo mikið að fólkið fer í stríð við sín eigin stjórnvöld.

Hér á Íslandi hafa raddir fólksins þagnað og það bendir allt til þess að það verði ekki miklar breytingar, það verða sömu flokkar eftir kosningar og fylgi stóru flokkanna, flokkanna sem voru við stjórnvölinn verður ef til vill svipað og það var fyrir kosningar. Það mun væntanlega koma önnur ríkisstjórn og eina sem er spennandi við það er hvort að Framsóknarflokkurinn verði með eða verði ekki með í þeirri ríkisstjórn. Það eru nánast engir möguleikar á öðrum stjórnum en SF, VG og B eða SF og VG. Það er harla ólíklegt að VG myndi stjórn með Sjálfstæðisflokknum og vegna þingstyrks er sennilega ekki fleiri möguleikar.

Bjartmar Guðmundsson söng fallegt kreppulag í Kastljósi í kvöld. Ég tók um 50 sek. af því lagi og setti við nokkrar myndir sem tengjast kreppunni og fjöllum og fjöru sem Bjartmar söng um og setti í þetta vídeó. Ég var að prófa  MovieMaker 6.0 og að nota ljósmyndir til að segja sögu.

 


mbl.is Hlé á fundum Radda fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurlæging Íslands er algjör

Það er hollt og herðandi fyrir íslensku þjóðarsálina að kynnast hvernig augu heimsins horfa á þá þjóð sem fyrst brotlenti  í  þeirri kreppu sem nú gengur yfir heiminn, það er hollt að kynnast hvernig er að vera  fátækur og smáður því það er hlutskipti sem margar þjóðir hafa verið í á undan okkur og það er herðandi að vita að það erum við  fólkið í landinu sem þurfum að finna ráð til að vinna úr þessari stöðu, við vitum að við erum ekki ríkasta þjóð í heimi, við erum ekki stássbrúður sem geta setið með hendur í skauti á meðan fé safnast að okkur. En það er afar þungbært að vera í þessum sporum og þar er sárt að sitja undir því að skopast sé að hörmungum Íslands. Það er sárt að heyra sífellt einhverjar klisjur um hvernig Íslendingar hafi hamast og hamast við að eyða og spenna og hér lifað í vellystingum fyrir fé sem við áttum ekki. En kannski höfum við verið í þessum sporum..Þegar bankakerfið hrundi í Færeyjum fyrir mörgum árum þá var iðulega sagður brandari um að eyjarnar í Færeyjum væru eins og gatasigti eða einhvers konar panflautur því þær væru svo sundurgrafnar af göngum sem fjárfestingaæðir Færeyingar hefðu grafið milli eyjanna og það voru sagðar sögur af jarðgöngum sem voru grafin fyrir bændur svo þeir gætu fært fé sitt milli eyja.

Það er nú samt leiðinlegt að lesa greinar sem eru með eins mikið af uppspuna og greinin Wall Street on the Tundra.  

Þessi grein er eins ábyggileg lýsing á aðstæðum á Íslandi og furðusagnir og skröksögur landkönnuða sem hingað komu til að sjá Heklu og inngang helvítis. Í augum heimsins þá er Ísland núna í öskustónni. Þannig verður það þangað til aftur fer að gjósa hérna.

Það er hins vegar víðar en á Íslandi sem ástandið er slæmt, sums staðar er það verulega slæmt. Hér er afar vel gerð myndasyrpa með svipmyndum úr kreppunni víða um lönd.

 


mbl.is Obama: Ekki sömu leið og Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mormors kolonihavehus

Ég hef alltaf verið svo hrifin af garðhúsamenningunni og smágörðunum sem eru víða í borgum á Norðurlöndum, stundum núna eins og grænar vinjar stórborgin hefur vaxið utan um. 

Þessi garðhúsamenning byrjaði á krepputímum þar sem garðlönd voru leigð út til að fólk ræktaði sitt eigið grænmeti. Í kreppunni sem varð í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna þá hjálpaði það mörgum að rækta sínar eigin matjurtir, sumir lifðu þá á kartöflum og lauk.  Núna prýða þessir smágarðar stórborgirnar og fólkið flytur í smáhýsi í görðunum á sumrin og býr þar yfir sumartímann.

Hér er síða um kolonihaveners historie í Danmörku en þar stendur:

Kolonihaven var et fristed for arbejderfamilierne fra de tætte indre bykvarterer, men haverne opfyldte også nogle økonomiske formål. De var nyttehaver, hvor der især i arbejdsløsheds- og krisetider dyrkedes vigtige tilskud til lønnen og kosten.

  Den egentlige kolonihavebevægelse i Danmark blev startet, da vognmand og entreprenør, senere landstingsmand Jørgen Berthelsen i 1884 oprettede Arbejderhaverne i Aalborg.

Það væri flott af kreppan leiddi af sér slíka garðmenningu í Reykjavík, það er gott að í boði verði garðlönd en ég held að til að garðmenning spretti upp þá þurfi að gefa fólk kost á að hafa eigin reiti til langs tíma, reiti þar sem það hefur leyfi til að reisa sér kofa.

Núna þegar hillir undir að ekki verði byggt í bráð og lengd á Stór-Reykjavíkursvæðinu, væri þá ekki upplagt að gefa almenningi kost á að leigja lönd til ræktunar  og byggja sér kofa og reyna að koma upp einhvers konar garðlandanýlendum, skógi vöxnum svæðum þar sem gaman er að ganga um?

Ég held að í kreppunni þá geti það verið skemmtilegt tómstundagaman að rækta upp Ísland og líka að sjá hvað landið okkar getur gefið af sér ef ræktun er sinnt. Í minni fjölskyldu erum við búin að fá úthlutað landgræðslulóð við Langöldu nálægt Gunnarsholti, það er um 80 mín akstur frá Reykjavík. Það væri náttúrulega ennþá betra fyrir Reykvíkinga að hafa reiti nær borginni. 

En með von um að hér nálægt höfuðborgarsvæðinu rísi um garðhúsamenning þá kemur hérna lag og texti fyrir skemmtilegasta lag frænda okkar Dana, þetta syngja þeir í tíma og ótíma og minnast samverustunda fjölskyldunnar í garðhúsi ömmu sinnar:

Mormors kolonihavehus 

Bag på cyklen, hjulet snurrer
far han griner og mor hun kurrer
det er fridag og vi er sammen
solen skinner over Sortedammen.
Det var et liv i sus og dus
i mormors kolonihavehus


Huset er grønt det hedder Bella-Vista
vandet koger og primussen gnistrer
haven og tapetet blomstrer rødt og grønt
himlen er blå og livet er skønt.
Det var et liv i sus og dus
i mormors kolonihavehus


Fætter Frede viser Frida, han ka' stå på hænder
Valde vil osse, men han taber sine tænder
Mormor si'r: "Musik skal vi ha'"
og hun henter sin harmonika.
Det var et liv i sus og dus
i mormors kolonihavehus


Solen går ned og vi kører hjem
bag byens silhouet titter stjernerne frem
rådhusurets klokker slår til tiden
og det har de gjort mange gange siden.
Det var et liv i sus og dus
i mormors kolonihavehus
 

 


mbl.is Matjurtagörðum fjölgað í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mæðgur í framboði

Það var blásið til sóknar í Framsóknarflokknum í Reykjavík í gær. Þetta var fyrsti stóri fundurinn sem nýkjörinn formaður flokksins heldur með öllum Framsóknarfélögunum sameiginlega í Reykjavík. Sigmundur Davíð fór yfir tillögur Framsóknarflokksins og skýrði stjórnmálastöðuna. Síðan var kynning á frambjóðendum á listum flokksins í Reykjavík Norður og Reykjavík Suður. Hér er mynd af frambjóðendunum sem eru í 13 sæti á báðum listunum. Í Reykjavík norður þá verður það dóttir mín Kristín Helga sem er 19 ára og er hún að ég held yngsti frambjóðandinn. Í Reykjavík suður er það Valgerður en hún situr í Velferðarráði Reykjavíkurborgar.

13saetid.jpg

Það er nú svolítið gaman að við mæðgurnar séum báðar á lista en ég verð í 4 sæti í Reykjavík suður og það er í samræmi við ættarhefðina, það er mikið um að fólk í minni fjölskyldu taki þátt í stjórnmálum. Reyndar brjótum við ættarhefðina að því leyti að vera báðar í framboði fyrir sama stjórnmálaflokk, einu sinni var það þannig í Kópavogi að pabbi var á lista fyrir Alþýðubandalagið, mamma fyrir Framsóknarflokkinn og Guðrún Stella systir mín fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ég var í Kvennalistanum í Reykjavík. 

 

 


mbl.is Tvö atkvæði á hvern mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband