Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Verðlaunaafhending í Vilnius í Lithauen

Ég er núna í þinghúsinu í Vilnius í Lithauen að hlusta á sérfræðinga frá ýmsum Evrópulöndum fjalla um   upplýsingatækni og nýmiðla í skólastarfi í Evrópu. Ástæðan fyrir því að ég er komin hingað til Lithauen er að vefnámsefni mitt Leirkallamyndir og annars konar sögugerð með því að taka upp  eina og eina mynd í einu og setja svo saman í vídeó  (á ensku: Digital Storytelling - Stop Motion Animation) vann bronsverðlaun í árlegri samkeppni Evrópska skólanetsins Elearning Awards 2009.  Það voru tíu verkefni sem hlutu verðlaun en um 700 voru skráð í keppnina. Verðlaunin eru afhent á Eminent ráðstefnunni sem er Evrópuráðstefna þeirra sérfræðinga sem starfa fyrir menntamálaráðuneyti og stofnanir í Evrópulaöndum að málum sem varða upplýsingatækni í námi og kennslu.


Krakkar geta búið til eigin persónur og leikendur og stýrt þeim með að hreyfa leirkalla.*

Vefnámsefnið mitt um "Digital Storytelling" er ennþá í vinnslu og átti ég því alls ekki von á því að það hlyti verðlaun núna. Það kom því gleðilega á óvart, það er gaman að vera boðið til Lithauen og fá vegleg verðlaun sem bæði voru peningar og tölvudót. Það er líka mikill heiður og viðurkenning að fá slík verðlaun.

Ég held að þessi gerð af sögum þ.e. að segja sögur á einfaldan hátt með leikbrúðum, leirköllum, legóköllum eða því sem hendi er næst og blanda saman og endurblanda við efni frá öðrum t.d. setja inn bakgrunnsvídeó eða bakgrunnsmyndir  frá öðrum en láta sína legókalla segja söguna í forgrunni og setja undir hljóð, bæði tónlist og hljóðeffecta og gera örstuttar vídeómyndir (innan við mínútu) sé miðlunar- og frásagnarmáti sem hentar því vefmiðlunarumhverfi sem við búum við núna. Þetta er líka vídeólistform nútímans og ef maður horfið á auglýsingar í sjónvarpinu þá má sjá að margar auglýsingar eru núna gerðar með einhvers konar "stop motion animation" og er það ekki til að spara peninga heldur væntanlega vegna þess að svoleiðis frásögn hefur áhrif.

Sumum finnst það besta leiðin til að kynna nýja tækni fyrir nemendum og undirbúa nemendur undir þekkingarsamfélag framtíðarinnar að nota tækni  til að koma til  nemenda á fjótlegan og hagkvæman hátt til þeirra námsgögnum t.d. að búa til góðar vefgáttir þar sem nemendur geta hlaðið niður rafrænum bókum og pdf skjölum til að skoða og lesa og hlaða niður hljóðefni til að hlusta á og vídeó og myndum til að horfa á. 

En málið er að það er afar takmarkandi not ef við eingöngu horfum á tölvur eins og súperprentvélar eða staðgengla fyrir venjulegar bækur. Við erum að fara inn í samfélag sem byggist á því að miklu fleiri eru og þurfa að vera virkir skapendur ýmis konar þekkingar og við þurfum að kunna að finna efni frá öðrum og endurblanda og endurnota það efni í okkar eigin verkum. Það er því mikilvægt að við reynum að finna leiðir til að vinna þannig með nemendum að þeir séu að skapa sjálfir og það geta þeir gert t.d. með því að segja sögur.  Eins og ástandið er núna þá geta skólar ekki átt mikið af flóknum og dýrum vídeótökuvélum fyrir nemendur en hins vegar kosta litlar vefmyndavélar mjög lítið (ódýrustu um 3000 kr) og margar nýjar tölvur eru með slíkar myndavélar innbyggðar. Þetta er upplagt verkfæri fyrir sögugerð nemenda þar sem þeir búa til sögu sem er ekki bara texti heldur leiknar persónur/leikbrúður sem nemendur stýra ramma eftir ramma.  Sem fyrstu kynni af vídeógerð er svona tækni afar einföld og aðgengileg og mikið er til af úrvals ókeypis verkfærum sem hægt er að hlaða niður af Netinu.

Námefnið mitt er opið á Netinu og hvet ég alla sem langar til að gera leirkallamyndir eða stuttar klippimyndir eða legókallamyndir með börnum og unglingum að skoða þetta og reyna að virkja börn og unglinga til að skapa sjálf með þeim tölvukosti sem þau hafa aðgang að en horfa ekki eingöngu á það sem aðrir gera.  Það eru líka komin ágætis verkfæri eins og Moviemaker Live (aðeins aðgengilegur fyrir Windows Vista og nýrri stýrikerfi) sem gera auðvelt að  setja saman vídeó og senda beint á facebook eða youtube.

Svona örsögugerð með Stop Motion Animation tækni er listform og frásagnarform sem ég held að henti ágætlega Íslendingum nútímans, þessum sem hafa flutt sig næstum inn í Netheima. Það er hægt að gera magnaðar áróðursmyndir og fræðslumyndir með þessari tækni og það er engin tilviljun að margar vinsælustu myndir á Youtube eru með þessari tækni. 

 Fleiri blogg þessu tengt

Komin í úrslit í Evrópusamkeppni

Stop Motion Animation er listform nútímans

Hér eru slóðir sem fjalla um stafræna sögugerð og ýmis konar verkfæri til þess

50 Storytools  (hægt er að nota ýmis konar verkfæri til stafrænnar sögugerðar)

Educational Uses of Digital Storytelling

DigiTales - The Art of Telling Digital Stories

 

 

 


mbl.is Vann bronsverðlaun fyrir námsefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin í úrslit í Evrópusamkeppni

Núna er námsefni sem ég gerði og kalla Leirkallamyndir á íslensku en   Digital Storytellling - Stop Motion Animation á ensku  komið í úrslit þeirra 50 bestu í Evrópusamkeppninni um Elearning Awards 2009.Það er Evrópska skólanetið sem stendur fyrir þessari samkeppni en það er samstarfsverkefni menntamálaráðuneyta allra Evrópulanda og fjallar sérstaklega um nýja stafræna tækni á öllum sviðum. Verðlaunaathöfn fer fram í tengslum við árlega Eminent ráðstefnu þar sem margir helstu sérfræðingar Evrópu á sviði upplýsingatækni í námi og kennslu koma auk fulltrúa frá menntamálaráðuneytum margra Evrópulanda. 

Hér er um Eminent ráðstefnuna:

"The EMINENT conference - Experts Meeting in Education Networking – will take place in Vilnius (Lithuania) on 26 – 27 November 2009. The event represents a key meeting for all high-profile actors involved in education and new technologies"

 

Það er reyndar hægt að fylgjast núna beint með útsendingu frá sumum hlutum Eminent ráðstefnunnar á þessari slóð.

Þetta verkefni mitt er sýnikennsla og námsefni fyrir nemendur mína og reyndar alla aðra sem hafa áhuga á að vinna vídeó sjálfir eða með börnum um hvernig eigi að gera einfaldar vídeómyndir þegar maður hefur bara eina litla vefmyndavél og þegar maður hefur ekki neinn herskara af fólki til að leika í myndinni heldur verður að búa sér sjálfur til persónur og leikmuni og nota ímyndunaraflið.

Þetta er sýnikennsla í ýmsum ágætum ókeypis eða ódýrum verkfærum sem henta við svona vídeógerð, bæði við upptöku og við að koma afrakstrinum á framfæri t.d. á youtube.

Það ræðst svo í dag hvaða verkefni  hljóta verðlaun. Það verða veitt verðlaun í nokkrum flokkum.
Sjá nánar um þessa samkeppni sem er á vegum Evrópska skólanetsins: 

http://elearningawards.eun.org/ww/en/pub/elearningawards/homepage.htm

Hér er listi yfir þau 50 verkefni sem komust í úrslit


Slóðin á sýnikennslu mína sem tilnefnd er til verðlauna er þessi:
http://vefir.hi.is/salvor/leirkallamyndir/

Mikið af þessari sýnikennslu hjá mér eru upptökur í Nepal Emission sem er reyndar er íslenskur hugbúnaður og margir háskólakennarar á Íslandi nota núna til að taka upp fyrirlestra svo þeir séu aðgengilegir á Netinu. Ég nota Nepal Emission hins vegar fyrst og fremst í sýnikennslu. Það er frábært fyrir okkur sem kennum upplýsingatækni að hafa svoleiðis verkfæri.

Verkefni mitt  Digital Storytelling - Stop Motion Animation eru sýnikennsla eða safn af námseiningum  "learning objects"  og umfjöllun um hvernig eigi að gera afar einfaldar vídeóupptökur með því að setja saman einstakar myndir í vídeó og sýnikennsla á ókeypis og ódýr verkfæri til slíkrar vinnslu. Ég fer líka  í hvernig við finnum efni til endurblöndunar og notum efni frá öðrum t.d. hljóðeffecta og tónlist með opnu höfundarleyfi og hvernig við notum samvinnukerfi. Það er reyndar ekki ennþá komið inn á vefinn. 

Svona leirkallamyndir (eða klippimyndir, eða legókallamyndir eða hvaða efnivið sem nemendur nota) er einfaldasta og ódýrasta leiðin til sögugerðar og listsköpunar í vídeó og kostnaðurinn þarf ekki að vera nema ódýr vefmyndavél (lítið vídeóauga)  en ódýrustu kosta núna um 3000 krónur. Sögusviðið getur verið svo smágert  og bara á stærð við skókassa og hægt að skipta um baksviðsmyndir og gjarna má setja verkefnið fyrir  nemendur þannig að þeir teikni og smíði bakgrunna sjálf. Persónur geta nemendur gert úr leir sem þeir hreyfa til eða með  því efni sem hendi er næst t.d. leikföngum eins og legóköllum og playmoköllum.

Hér eru nokkrar leirkallamyndir og öðruvísi "Stop motion animation" sem nemendur mínir gerðu nýlega  sem sýna  fjölbreytilega nálgun, það er nú hægt að nota margt annað en leir , það er hægt að nota klippimyndir,  gamlir sokkar geta orðið leikbrúður og svo auðvitað legó og playmódót ýmis konar. Þetta tjáningarform hentar vel til stafrænnar sögugerðar og ungir nemendur geta gert verkefni í ýmsum námsgreinum á þennan hátt.  

Á leið í vinnu

Ævintýrið um Búkollu

Sumarsmellur

 Sokkatemjarinn

 

 Peðadansinn

 Göngur og réttir

 

Hér er nokkur sýnishorn yfir Stop Motion Animation:
http://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/970582/


Matador spilapeningar

Í grein í DV er útskýrðir þessir gjörningar hjá BYR og MP banka, mér virðist að þetta sé einhvers konar afbrigði af matadorspilamennsku,  bréfum í eigu starfsmanna bankans og sem bankinn hefur lánað þeim fyrir með einhvers konar kúlulánum er komið í verð með því að bankinn sjálfur fái einhvern til að leppa kaupin. Þannig poppast upp verð á bréfum, bankinn þarf ekki að ganga að kröfum (skuldum starfsmanna) sem hann  hvort sem er fær ekkert upp í.  Á sínum tíma leit út fyrir að MP banki væri á einhvern veginn öðruvísi róli en aðrar banka- og fjárfestingarstofnanir. Svo virðist ekki vera, þetta er sams konar matador spilamennska.

Tiltrú mín á íslenska bankakerfið og þar með á íslenskt athafnalíf sem allt er botnveðsett í einhverjum peningaleik er minna en engin. Tiltrú mín á ríkisstjórnina er heldur ekki mikil, Jóhanna og Steingrímur eru ærlegar manneskjur sem ég ber virðingu fyrir en litlum sögum fara af fjármálasnilld og hagfræðikunnáttu þeirra alla þá áratugi sem þau hafa gengið um garða á Alþingi. Og ekki sáu þau fyrir það ástand sem er núna þó þau væru eins og aðrir stjórnmálamenn í miklu betri aðstæðum en við almenningur til að skynja hættumerkin. 

Og mér virðist félagsmálaráðuneytið núna vera einhvers konar griðastaður kúlulánþega og helsti ráðgjafi félagsmálaráðherra og forsætisráðherra hefur komið sér í skjól þar og gerir nú svimandi kröfur á sína fyrri vinnuveitendur í bankakerfinu og lögum sem sögð eru til bjargar heimilunum í landinu er lætt gegnum þingið með ákvæðum til bjargar kúlulánaþegum.

Á sama tíma kemur félagsmálaráðherrann í fjölmiðla og kastar fúleggjum í atvinnulaus ungmenni, kastar fúleggjum í þá kynslóð sem þarf að bera ofurþungar byrðar einmitt út af glapræðum ráðgjafa hans.


mbl.is Yfirlýsing frá Ágústi Sindra Karlssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér blöskrar líka

Mér blöskrar að Baldur Guðlaugsson hafi ekki verið sendur í leyfi strax þegar upp komst um hvernig hann lék tveimur skjöldum, annars vegar sem embættismaður sem bjó yfir viðkvæmum trúnaðarupplýsingum og hins vegar sem stór spilari sjálfur í hlutabréfaheiminum. Það er mikil hneisa fyrir íslenskt stjórnarfar.

Þá vil ég líka biðja fólk að taka ekki allt of vel trúanlega þá söguskoðun sem nú er oft slegin fram að allt hafi verið í lagi með starfsemi og stjórnun stórra íslenskra fyrirtækja áður en tími einkavæðingar- og útrásar hófst.  Það má vel beina kastljósinu að Eimskip, fyrrum óskabarni þjóðarinnar og því hvernig innherjar þar sem bjuggu yfir upplýsingum um raunverulegt verðmæti  keyptu upp hlutabréf af fákunnandi almenningi, fólk  sneri sér til Eimskips til koma hlutabréfum sínum í verð fyrir þá tíma er Eimskip var sett á hlutabréfamarkað en kaupandinn var ekki Eimskip sjálft eins og hefði átt að vera af allt hefði verið með felldu heldur voru kaupendurnir Hörður fyrrum forstjóri Eimskips og menn á hans vegum eins og Baldur Guðlaugsson.  Það má vel vera að þessi viðskipti hafi verið lögleg miðað við íslensk lög þeirra tíma enda lögin þá sem nú sett með hagmuni fjármagnsafnara að leiðarljósi og til að tryggja ævarandi völd Sjálfstæðismanna. Í öllum siðuðum löndum voru svona viðskipti ólögleg. Það má einnig segja að þeir sem keyptu upp  hlutabréf í Eimskip á þennan hátt á meðan þeir voru í vinnu hjá félaginu sem var almenningshlutafélag hafi ekki rækt þá skyldu sína að gæta hagsmuna hluthafa, þeir gættu bara hagsmuna sjálfs síns.

Mér virðist að Baldur Guðlaugsson hafi haft sama hátt á þegar hann kom inn í stjórnsýsluna, hann var ekki trúr umsjónarmaður yfir hagsmunum íslenskt almennings en hann vakti yfir eigin hag og var þar ekki vandur að meðölum.


mbl.is Lögmanni Baldurs algjörlega ofboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannað að birta mynd af Hallgrímskirkju

HallgrímskirkjaÞað má ekki vera mynd af Hallgrímskirkju í Wikipedia alfræðiritinu. Það stendur til að henda út af Wikipedia öllum myndum af byggingum eftir Guðjón Samúelsson. Það er hryllilegt vegna þess að Guðjón hefur einmitt teiknað margar byggingar sem eru helstu kennileiti í Reykjavík. Það er fúlt ef ekki má vera grein í Wikipedia með mynd af Hallgrímskirkju, Þjóðminjasafninu  , Landakotskirkju eða Háskóla Íslands. Það stendur líka til að henda út myndum af gamla Héraðsskólanum á Laugarvatni og af Akureyrarkirkju.

Hver er ástæðan? Finnst fólkinu sem sér um sameiginlega myndasafnið fyrir Wikipedia á öllum þjóðtungum Guðjón teikna hallærisleg og ljót hús, er það þess vegna sem það á að fjarlægja af Wikipedia allar myndir af byggingum sem hann er skrifaður arkitekt af?

Nei. Það er ekki ástæðan. Það eru myndir af alls konar drasli á Wikipedia og það eru margar myndir þar.  Nánar tiltekið eru í sameiginlega myndasafni Wikipedia  núna um 5.4 milljónir mynda og það stefnir allt í það að hér sé að koma einn besti gagnagrunnur yfir frjálsar myndir sem allir mega nýta sér.

Ástæðan fyrir að nú stendur til að rífa burt  myndir af Hallgrímskirkju og þjóðminjasafninu og Háskólanum og Landakotskirkju er  meingölluð íslensk höfundarréttarlög.

Þannig er að höfundarréttur helst þangað til 70 ár eru liðin frá því að höfundur lést. Hús teljast hönnunarverk og höfundarréttarlög gilda um þau. Hins vegar hafa mörg ríki t.d. BNA sérstakar klásúlur í sínum höfundarréttarlögum sem undanskilja myndir af byggingum.  Ísland hefur enga slíka klásúlu. 

Raunar eru höfundarréttarlög mikil kyrkingartök á allri sköpun í stafrænu samfélagi nútímans. Þessi lög passa engan veginn fyrir síkvikt og sítengt samfélag það sem miklu fleiri eru virkir og taka þátt í að skapa og endurblanda efni.  

Ég var að skoða vef Menntamálaráðuneytis og rakst þá á  tilkynningu um að ráðuneytið hefði staðfest gjaldskrá Myndstefs vegna endurbirtingar myndverka.  Ég reyndi aðeins yfir þessa verðskrá og hún var alveg út í hött fyrir það efni sem fólk er að framleiða og dreifa í dag. Ég ráðlegg öllum að sniðganga eins mikið og hægt er efni sem er með hefðbundnum höfundarrétti og reyna að nota efni sem er með svokölluðu "Creative Commons" höfundarrétti. Myndir og annað efni sem núna er sett á wikipedia verður að hafa eitt slíkt höfundarleyfi (cc-by-sa eða svipað) og wikipedia tekur ekki lengur við myndum nema þær séu með svo  opnu höfundarleyfi að það megi afrita þær að vild, líka í viðskiptatilgangi. Þetta hefur mikið að segja fyrir Ísland. Ef við lítum á ferðamennsku sem einn tilvonandi og vaxandi atvinnuveg hjá okkur þá skulum við átta okkur á að fyrsti viðkomustaður á Netinu fyrir þá sem eru að kynna sér Ísland er einmitt Wikipedia og það skiptir miklu máli að það megi vera myndir af íslenskum byggingum þar.  Það má líka búast við að wikipedia gagnasafnið verði líka gagnalind fyrir erlenda ferðaþjónustuaðila. Það er því beinhart tap að mega ekki hafa myndir af íslenskum byggingum á Wikipedia en ég get ekki séð að neinn sé að græða. Það má t.d. ekki hafa myndir af verkum einstakra íslenskra arkitekta þar nema það séu gamlir arkitektar og meira en 70 ár liðin frá því að þeir létust.

Ég tók saman þetta námsefni um Höfundarrétt og Internetið, þar eru leiðbeiningar um Creative Commons.

 


Föndur og DIY hugsun

dyrin-stor-og-sma.jpg Nú er ég dottin niður í föndur. Já, veit... jólin og allt það. En ég er ekki byrjuð á jólaföndrinu, nú er ég að föndra öll kvöld alls konar stafrænt föndur. Þetta byrjaði allt með því að ég fékk mér prentara heim.

Það var ekkert erfitt að réttlæta prentarakaupin á þessum síðustu og verstu. Í fyrsta lagi var nýi prentarinn hræbillegur. Í öðru lagi er þetta mikið galdratæki, ekki bara prentari heldur er þetta líka maskína sem getur ljósritað og ekki nóg með það, hann getur líka skannað inn. 

Svo vantaði mig græju til að skanna inn reikninga, núna þegar Magnús er í Afganistan og ég er að stússa í öllu og það er erfitt að bera það undir hann í Kandahar nema ég geti sent skannaða pappíra þangað. 

Svo var nú reyndar aðal réttlæting mín til að kaupa prentarann/skannann/ljósritunarvélina að með þessu undratæki þá gæti ég skannað inn reikninga. Það er nefnilega þannig með þessa reikninga sem ég fæ í búðum og bönkum á Íslandi að það er segin saga að þegar ég í lok ársins eða miklu seinna ætla að fara að grufla eitthvað í þeim þá er allt gufað upp á blaðinu, allar tölur orðnar ósýnilegar. Þetta gildir um flestalla strimla og tölvuútprentanir sem maður fær afhent. Það er langt síðan ég yfirgaf heim viðskipta en mig grunar að þessi viðskiptamáti að láta reikninga og tölur gufa upp sé einhver partur af íslenska efnahagsundrinu. 

En sem sagt... ég fékk mér prentara/skanna til að skanna inn reikninga.

Þetta virkar alveg, prentar þrælvel út stærðfræðidæmin hennar Kristínar en ég hef ekki ennþá fundið hjá mér þörf til að prenta neitt út. Nema föndur.

Ég er búin að föndra einn nani fugl með mínu eigin munstri. Ég notaði vinnuteikninguna frá nanibird.

Ég er nefnilega á því að pappír og prent  sé stórfínt í föndur og svona gott aðgengi að litaprentara getur gefið fólki kost á að búa til margt sniðugt með börnum ... já og sjáft ef það er barnslegar sálir eins og ég. 

Reyndar ætti ég að byrja aftur með föndurþátt hér á blogginu mínu. Það  er í anda hins nýja sjálfsþurftarbúskapar eftirhrunsáranna og svo föndur svo mikill partur af þeirri vinnhefð sem ég skynja að er vinnuhefð nútímans og gengur út á að hver maður er þúsundþjalasmiður og spottakarl sem reddar sér sjálfur og nýtir hitt og þetta frá öðrum. Þetta er líka í anda sjálfbærrar þróunar ef föndrið snýr að því að finna ný not fyrir það sem maður er hættur að nota til einhvers.

 Það er gaman að skoða vefi eins og Instructables 

 Hér eru nokkrar slóðir fyrir stafræna föndrara svona til að byrja einhvers staðar

http://www.papercritters.com

http://toy-a-day.blogspot.com/

... stay tuned fyrir föndurþátt Salvarar...

 Hér eru eldri föndurblogg  frá mér

Föndur dagsins : Zapatista vetrarhúfur

Skrappblogg og skissublogg

Föndur dagsins - Sjálfræðisafmæliskort

Föndur dagsins - Framsóknarlokkar

Hmmm...átti þessi prentari ekki að vera aðallega fyrir reikninga?

 

 

 


Lilja Mósesdóttir vill ekki veðsetja íslensk börn

Þó ég sé flokksbundin í Framsóknarflokknum og hafi verið í framboði fyrir síðustu Alþingiskosningar en ég var þar í fjórða sæti í Reykjavík Suður og er núna stoltur vara-vara-vara  hennar Vigdísar Hauksdóttur þá hika ég ekkert við að hrósa þingmönnum úr öðrum flokkum. Þar eru margir eins frábærir og hún Vigdís.  Það eru nokkrir þingmenn úr öðrum flokkum  sem ég ber sérstaklega mikið traust til og Lilja Mósesdóttir er ein af þeim. Hún er eins og ég vildi óska þess að sem flestir þingmenn væru, hún veit mjög vel um hvað málið snýst, hún er fræðimaður sem í mörg ár var fjarri hringiðu stjórnmálanna en hún reis upp eins og við mörg önnur þegar allt var komið í óefni á Íslandi. Lilja Mósesdóttir er fulltrúi okkar Austurvellinga í sölum Alþingis.

Ríkistjórnin sem hrökklaðist frá völdum í byrjun ársins var vanhæf en við sem höfum þekkingu og reynslu og skiljum hvað er að gerast eigum ekki að horfa aðgerðarlaus upp á ástandið fara úr illu í verra, við eigum ekki að horfa upp á stjórnvöld lama sjálfa sig og alla íslensku þjóðina í örvæntingarfullri tilraun til að mæta utanaðkomandi stjórnmálaþrýstingi á að bjarga fjölþjóðlegu fjármálakerfi sem er ekki viðbjargandi.

Við eigum ekki að horfa þögul og ráðlaus á þegar íslensk alþýða er svipt framtíð sinni í trylltri leit fjárfesta að skjóli og festingum fyrir fé sitt. Við eigum að horfast í augu við að núna er tími til að skoða kosti eins og   Debt moratorium en núna er ekki tími til að hegða sér eins og Saxhólsfjölskyldan sem veðsetti börnin sín, núna á  íslenska ríkið ekki að veðsetja sín börn.

 

 

 


mbl.is Getur ekki samþykkt Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband