Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Hvaða áhrif hefur greiðslustöðvum Stoða á íslenska fjölmiðla?

Það getur ekki annað en haft áhrif á þá fjömiðla sem eru í einkaeigu það skelfilega ástand sem er núna  í fjármálalífi heimsins og Íslands.  Fjölmiðlar eins og 365 miðlar og DV eru í eigu Stoða

Það eru mikil krosseignatengsl milli fyrirtækja, fjármálastofnana og fjölmiðla. Það hafa stundum verið búnar til eignir þegar fyrirtæki sem eru í rauninni í sölu sömu aðila selja hver öðru og gífurlegur gróði  hefur stundum myndast þegar fyrirtækin selja hvert öðru. Sá gróði og vinsamleg umræða um fyrirtækin og eigendur þeirra hefur náttúrulega verið vel tíundaður í fjölmiðlum í eigu sömu aðila. 

Dagurinn í dag er ekki þannig dagur. Það dylst engum að ástandið er grafalvarlegt bæði hjá þeirri fyrirtækjasamsteypu sem nú hefur fengið greiðslustöðvun og mörgum öðrum fyrirtækjum og einstaklingum sem eiga með einum eða öðrum hætti afkomu sína undir þessu.

Í dag lýkur ákveðnu tímabili í viðskiptasögu Íslands. Viðskiptabanki hefur verið þjóðnýttur og stórfyrirtæki riða til falls. Það er þörf á nýrri sýn, það er þörf á öðruvísi reglum. 

 

 


mbl.is Umtalsverð verðmæti í hlut Stoða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjar verða afleiðingarnar?

Það hefur miklar afleiðingar á íslenskt efnahagslíf og athafnalíf ef stórt fyrirtæki með krosseignatengsl víða í bönkum og öðrum fyrirtækju verður gjaldþrota eða stefnir í gjaldþrot. Stoðir er stórt fyrirtæki og hefur leikið stórt hlutverk á sviði íslenskra efnahagsmála.

Ég sakna þess að fá ekki strax greiningu á vægi þessarar fréttar fyrir íslenskt athafnalíf. Hverjir missa eigur sínar og hverjir missa vinnu sína? Hvar er fjölmiðlaumfjöllun um þetta?

Skrýtið ef enginn sem er hagsmunaaðili eða gætir hagsmuna almennings sé ekki búinn að taka það saman. Það er ekki eins og þessi frétt komi á óvart. Því miður verður þetta örugglega ekki eina svona válega fréttin sem við fáum á næstunni. 

Það er ekki mótvindur eins og forsætisráðherra kýs að kalla ástandið. Það er heimskreppa. 


mbl.is Stoðir óska eftir greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flotkrónan

flotkrónanAlls staðar er bráðnun á fjármálatorgum heimsins. Bandarísk stjórnvöld eru djúpt sokkin í alls kyns björgunaraðgerðir og hér á Íslandi er líka allt á floti. Uppistöðulónið við Kárahnjúkavirkjun rétt að fyllast en jöklarnir að bráðna og jöklabréfin orðin að blaðsnifsum sem velkjast áfram í ólgusjó viðskipta.

Núna er ekki rétti tíminn til að fyllast Þórðargleði yfir óförum þeirra sem eitt sinn höfðu fullar hendur fjár og núna er ekki rétti tíminn að leita að sökudólgum meðal íslenskra ráðamanna og viðskiptajöfra.

Málið er nefnilega þannig að við öll töpum þegar stór fyrirtæki eða fjárfestingarstofnanir leggjast á hliðina og upptök þeirra erfiðleika sem nú steðja að íslensku efnahagslífi eru langt fyrir utan Ísland.

Væntanlega mun ríkisstjórnin tilkynna einhverjar aðgerðir og einhver tíðindi strax í fyrramálið. Í besta falli verður það að tilkynna að horfið sé frá flotgengi. Í versta falli verða það fréttir um mjög alvarlegt ástand íslenskra banka sem riða til falls. 

krónan glitrar

Ég stóðst nú ekki mátið að lagfæra örlítið eina af myndunum af forsætisráðherra og seðlabankastjóra (mynd af DV). Ég renndi myndinni í gegnum lunapic.com og setti vatnsflaum inn á myndina sem er einn af effectunum sem hægt er að velja. Svo tók ég mynd af íslenskri mynt og renndi líka gegnum lunapic og setti tvo effekta á hana, glit vegna þess að glitnir er svo mikið í umræðunni og svo explode af því að peningakerfið er við að springa - eða bráðna og aflagast.

Mér finnst það táknrænt um ástandið núna að ráðamenn þjóðarinnar eru að aka út í vatnsflaumi.


mbl.is Ráðamenn funduðu fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Facebook lexía 1

Nú er íslenska þjóðin að flytja inn í facebook. Ætli 10 % af þjóðinni séu ekki búnir að stofna aðsetur á facebook og sumir virðast alveg dottnir í það að safna sér vinum og senda þeim knús og kossa og prófa alls konar lítil verkfæri sem hægt er að hengja utan á facebook.

Ég var áðan að prófa  græju sem heitir screencast-o-matic.com þar sem auðvelt og einfalt er að taka upp það sem gerist á skjánum og tala undir. Svo vistast það á vefnum og svo á ég að geta límt upptökuna inn. Ég tók upp smásýnikennslu í hvernig ég segi facebook vinum mínum hvað ég er að baxa við hverju sinni og pósta það í leiðinni á örbloggið mitt. Svo sýni ég hvernig Microsoft office er orðin ansi steinrunnin því nú vilja flestir nota office pakka á vefnum og ég sýni hvernig hægt er að nota einn þeirra zoho online office með facebook.

Hér er upptakan, hún er 10. mínútur Facebook Lexía 1

Facebook getur verið ágæt umgjörð og lendingarpallur utan um mörg önnur verkfæri. Það er líka alveg hægt að blogga inn í facebook og senda á önnur blogg t.d. wordpress. það er líka hægt að vera með verkfærið (application) notes og það er nokkurs konar blogg.  ég hef nú ekki séð hvernig hægt er að senda úr facebook á moggabloggið en mbl.is býður reyndar upp á möguleika að senda í hina áttina þ.e. fréttir inn á facebook. 

 


Barist við dreka

 Ljubljana_dragon
Það eru til margar goðsagnir og ævintýri  um  dreka og skrímsli í öllum menningarheimum. Drekarnir eru ógnin og hetjurnar berjast við dreka til ná undir sig auðæfum, konum og völdum. Nútímaútgáfur af ævintýradrekum  taka mið  þeirri þekkingu sem vísindin hafa fært okkur um útdauðar lífverur og líkjast stundum flugeðlum (pterosaurs)

Það er skemmtilegt að velta fyrir sér drekaminninu, það er  líkömnun á ógninni sem hetjan þarf að sigra til að vinna og vaxa í sögunni. Það er líka skemmtilegt að velta fyrir sér öllum þessum drekaminnum löngu áður en þekking á útdauðum risaeðlum var sett fram. Drekarnir minna á eðlurnar. 

Ég er skoða tvær skemmtilegar bækur fyrir krakka um risaeðlur. Önnur er bókin  risaeðlurannsóknir og hins er Risaeðlur - Undraferð um veröld sem var. Með þessum bókum eru veggsjöld, límmiðar, glærur og  geisladiskur.

Þetta vonandi vekur áhuga barna á tímabili hins sýnilega lífs á jörðinni. það skiptist í fornlífsöld, miðlífsöld og nýlífsöld. Það er nú sérstaklega tímabilið Júra á miðlífsöld sem er skeið risaeðlanna.

Það eru komnar nokkrar greinar um risaeðlur inn á íslensku wikipedia.

Ég bætti áðan við greininni  Nashyrningseðla

Íslensku greinarnar tengja í greinar á ýmsum tungumálum og líka í ýmsar myndir af risaeðlum. Það gæti veirð sniðugt að nota wikipedia með íslensku bókunum um risaeðlur til að leita að frekari upplýsingum, sérstaklega fyrir nemendur sem geta lesið ensku og fyrir kennara sem eru að leita að ítarefni í nemendavinnu.


Viðskiptasnilld Össurar

Það er mjög erfitt að halda uppi málefnalegri umræðu í íslensku samfélagi um mál sem er þess eðlis að gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi og gera það í samfélagi þar sem nánast allir fjölmiðlar sem einhverja útbreiðslu hafa eru í eigu þeirra aðla sem hafa hagsmuni af því að komast yfir eða hafa milligöngu um hvernig auðlindum Íslands er ráðstafað. 

Þannig er núna búin til einhvers konar gerviumræða um sölu á virkjunum Landsvirkjunar og látið eins og hugmyndir hafi kviknað í höfði á minniháttar spámanni í Samfykingunni honum Helga Hjörvar sem ekki er ráðherra í ríkisstjórninni sem núna situr. Það dylst hins vegar ekki neinum að Helgi er þarna málpípa Össurar og annarra ráðherra í ríkisstjórninni sem vilja fresta því að horfast í augu við vandamálin og vilja búa til peninga  strax og núna með því að koma í seljanlegar eignir öllu því sem hægt er að selja til að gera fjármagnað  alls konar útrásarverkefni.

Það væri fróðlegt að greina orðræðu Össurar þann tíma sem hann hefur setið sem iðnaðarráðherra og skoða hve mikið hann talar í samhljómi með þeirri fjármálastefnu sem nú hefur beðið gífurlegt skipsbrot í heiminum, svo mikið er það skipsbrot að það er ennþá ekki útséð um hvort stórfelldar björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda takist að bjarga því að fjármálamarkaður hrynji algjörlega í hinum vestræna heimi. 

Ég hef oft hlustað og lesið það sem Össur hefur til málanna að leggja og ég hreinlega botna ekki í að skynsamur maður eins og Össur skuli tala svona gáleysislega og glæfralega um fjármál heillar þjóðar og tala eins og hann sé lobbýisti eða almannatengslafulltrúi hjá fjárfestingasjóði. Reyndar má nefna að  forseti okkar Ólafur Ragnar Grímsson hefur talað í sama dúr og sennilega hafa þeir báðir tendrast upp af einhvers konar Al-gore-græn-orka-voða-fínt tísku sem vissulega geri Ísland að góðri fyrirmynd. Já, það er góð fyrirmynd fyrir heiminn hvernig Íslendingar brugðust á sínum tíma við orkukreppunni og nýttu jarðvarmaorku og fallorku þjóðarinnar með því að taka höndum saman í ríkisfyrirtækjum  og fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga já ég endurtek ef þetta hefur farið fram hjá einhverjum í ríkisfyrirtækjum og fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga.  Þar er auðvitað hitaveitan í Reykjavík langstærsta og merkasta framlagið.  Þar sem ekki voru öflug sveitarfélög heldur margir hreppar þá hamlaði það framþróun orkuveitna og þróunin hefur orðið sú að lítil sveitarfélög hafa ekki haft bolmagn til að reka þessar veitur og heimamenn hafa því  selt þær til Rarik eða OR.

Núna þegar Ísland er á alþjóðavettvangi fyrirmynd um hvernig græn orka er hérna virkjuð getur þá einhver bent mér á einhverja virkjun einkaaðila og virkjun í einkaeign sem hefur virkað eitthvað á Íslandi til að skapa þetta orðspor um orkunýtingu Íslendinga? Ætla menn ef til vill að rifja upp ævintýrið um Fossafélagið og fjárglæfra Einars Benediktssonar og taka það sem gott dæmi um einkaframtak í orkumálum á alþjóðlegum markaði sem skilaði árangri?

Það dettur engum sem fylgst hefur með orðræðunni um orkumál annað í hug en að Helgi Hjörvar sé lítið peð í tafli Össurar og  útspil  Helga núna með tveimur moggagreinum dag eftir dag er til að plægja akurinn,  það kom fram í REI málinu hversu mikil andstaða var við sýn Össurar í orkumálum og það hefur margoft komið fram að almenningur á Íslandi er ekki tilbúinn til að gefa auðlindir sínar og lífsbjörg í framtíðinni inn í loftkastala og fjárfestinga spilapeningalotterí.

Þess vegna er málið reifað núna, kannski til að finna hversu andstaðan er mikil, kannski  til að búa til gervisamstöðu með þessum hugmyndum - það er tiltölulega auðvelt í samfélagi þar sem allir fjölmiðlar eru með einum eða öðrum hætti tengdir hagsmunaaðilum og margir stjórnmálamenn eru eins konar lobbíistar á þeirra vegum. 

Það er ábyrgðarlaust að tala eins og Össur hefur talað sem iðnaðarráðherra og sá ofsagróði sem hann býr til með orðum þegar hann talar um útrásir og orkufyrirtæki á sér engar stoðir í raunveruleikanum og hann lýsir umhverfi sem á ekkert skylt við það umhverfi viðskipta og atvinnulífs sem hagfræðikenningar og hagfræðilíkön og hagskýrslur lýsa. Össur stendur fyrir viðskiptasýn sem núna er á alþjóðavettvangi að falla í duftið með brauki og bramli.

Er eitthvað sem Össur hefur afrekað í íslenskri stjórnsýslu sem hefur fært íslensku þjóðinni einhver verðmæti? Eða er eitthvað í ferli hans sem sýnir að honum hefur tekist vel upp við að stýra miklum verðmætum og láta þau ávaxtast og dafna?

Sem iðnaðarráðherra stýrir Össur nú fjöreggi íslensku þjóðarinnar sem eru orkuauðlindir okkar. Gerir hann það með hagsmuni íslensku þjóðarinnar  í fyrirrúmi eða gerir hann það sem lobbýisti fyrir hagsmuni valdamikilla aðila sem vilja breyta því í fjárfestingarfé fyrir sig og sína?


mbl.is Össur: Áhugaverð hugmynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að losa peninga - Raufarhafnarstemming hjá Helga Hjörvar

Raufarhafnarstemming 2008

Helgi Hjörvar vill selja Kárahnjúkavirkun og fleiri virkjanir. Hann kallar það að losa peninga. Ég kalla það að selja útsæðið. Fjármálapælingar Helgi Hjörvar alþingismanns eru álíka ruglaðar og grunnhyggnar og fjármálastjórnin var hjá Raufarhöfn um síðustu árþúsundamót. Sjá þetta blogg sem ég skrifaði á sínum tíma: Raufarhafnarstemming í Reykjavík

Helgi Hjörvar talar um auðlindasjóð og sér fyrir sér í hillingum hvað sá sjóður geti ungað út miklum verðmætum.  Orð kosta enga peninga og Helgi þarf ekki að standa reikningsskil á þokukenndum loftköstulum eins og þessum: "Eftir að honum (þ.e. auðlindasjóðnum) yxi fiskur um hrygg opnaðist tækifæri til að fela honum tiltekin verkefni sem launafólk þyrfti þá ekki lengur að fjármagna með skattgreiðslum".

Þetta er ekki mikil speki.  Þetta er frekar eins og útjöskuð klisja  úr stefnuskrá frjálshyggjufélags nema bara launafólk sett inn í staðinn fyrir atvinnurekendur enda veit Helgi að kjósendur Samfylkingarinnar eru margir launþegar. En ég hugsa að Helgi vanmeti vitsmunalega getu almennings á Íslandi. Það eru ekki allir eins auðginntir og Egill Helgason.sem finnst bara sniðugt að selja virkjanir þegar manni vantar pening. 

Það er sorglegt að það eru ansi margir í hópi hinna talandi stétta á Íslandi sem hafa atvinnu af og beinlínis eða óbeinlínis hag af því að tala fyrir sjónarmið eins og Helgi Hjörvar talar fyrir í sinni grein. Þar nægir að biðja menn að skoða hvernig eignarhald á fjölmiðlum er á Íslandi og hvaða stjórnmálaöfl ráða fréttaflutningi í þeim fjölmiðlum sem eru í ríkiseign. Það er engin viðspyrna í hinu örsmáa íslenska samfélagi við stórum erlendum eða innlendum aðilum sem vilja kaupa hér auðlindir, auðlindir sem hingað til hafa  verið óseljanlegar - ekki vegna þess að enginn vildi kaupa  heldur vegna þess að almenn sátt ríkti um að þær væru hlutir sem ekki ættu að ganga kaupum og sölum. Um leið og auðlindum Íslendinga hefur verið breytt í tölur á blaði í einhverri hlutabréfavæðingu þá geta þau verðmæti flætt óhindrað hvert um heiminn sem er. 

En áfram með söguna frá Raufarhöfn. Raufarhafnarhreppur var eitt ríkasta sveitarfélag á Íslandi, hreppurinn   átti helling af peningum vegna þess að þar höfðu menn selt frá sér lífsbjörgina og kvótinn var seldur og þessi rosalegu verðmæti áttu að vera eins konar baktryggingasjóður, sveitarfélagið var að losa peninga. 

En hvað gerðist? Jú, það sama og Helgi Hjörvar stingur upp á. Helgi vill líka losa peninga og hann vill líka eins og stjórnendur Raufarhafnar fjármagna þá í einhverjum baktryggingarsjóð. Helgi sér fyrir sér að sala virkjana gæti verið "hvati fyrir frekari framrás í orkuiðnaði og útrás með tilkomu nýrra fjárfesta". Takið eftir. Breyta á auðlindum Íslendinga í spilapeninga í fjármálalotterí. Hvernig fór með baktryggingarsjóð Raufarhafnar þegar þeir höfðu breytt kvótanum í peninga? Svarið er einfalt. Sjóðurinn  hvarf. Allar fjárfestingarnar í hlutabréfum á gráa markaðnum og erlendum tækni og vaxtasjóðum gufuðu upp.  

Helgi Hjörvar segir um verkefni í fiskveiðistjórnun að það sé brýnt "... að búa svo um hnútana að eftir hálfa öld verði fiskurinn í sjónum ekki einkaeign arabískra olíufursta eða annarra framandi fjárfesta sem enga hagsmuni hafa af sterku samfélagi á Íslandi".  Þessu er ég sammála sem markmiði. Það er ekkert núna sem hindrar að kvótaeign og þar með ráðstöfun yfir veiði Íslendinga sé í eigu aðila sem búa erlendis og líta bara á það sem fjárfestingu og nútíma nýlendustefnu fjárfesta að eiga hér ítök í fiskveiðum - kannski með óbeinum og duldum hætti með gríðarflóknu neti fyrirtækja sem eiga hvert í öðru. 

En það sem ég skil ekki er hvernig Helgi Hjörvar heldur að hægt sé að koma í veg fyrir að það sama gerist varðandi íslenskar orkulindir.   Fiskimiðin eru ekki í framkvæmd nein sameign íslensku þjóðarinnar þó það standi í einhverjum lögum. Ef afnotarétturinn er seldur og  kerfi afnotaréttarins er svo sterkt að við því verður ekki hróflað þá er formlegur eignaréttur á fiskimiðunum einskis virði fyrir almenning á Íslandi.  Það eru engir nema erlendir kaupendur að íslenskum virkjunum. Þegar  eignirnar sem ameríski herinn skildi eftir sig voru seldar þá var hægt að búa til pakka sem einhverjir Íslendingar gátu keyptu t.d.  bróðir fjármálaráðherrra og fyrirtæki sem hann stýrir en ég hugsa að Íslendingar verði bara leppar þegar kemur að því að selja virkjanir, nema náttúrulega það séu búnir  til stórir og þægilegir sérsaumaðir fjárfestingapakkar fyrir valda íslenska fjárfesta á miklu undirverði svo þeir geti strax selt aftur á hærra verði.

Það er undarleg tímasetning á þessari hugmynd Helga Hjörvars. Hann kýs að viðra hana á tíma þar sem það fjármálakerfi sem hann sækir innblástur úr er að hruni komið og allt bendir til að það hrun sé einmitt tilkomið vegna þess að  tenging rofnaði milli raunverulegra verðmætra og raunverulegra viðskipta með vörur og þjónustu og þeirra viðskipta sem voru bara með mælieininguna sjálfa.

Það er alvarlegt ástand í fjármálalífi heimsins og það er að hruni komið og það er ekki rétta leiðin núna að láta eins og það kerfi virki  og búi til peninga og verðmæti  úr engu og verði eins og aligæs í draumi Helga Hjörvars, gæs  sem verpir mörgum eggjum á leiðinni á markaðinn. Þau egg munu öll brotna og styrkur Íslendinga er ekki í heimi alþjóðlegra fjárfestingamarkaða og útrásar, styrkur Íslendinga er að kunna á sitt land og sitt umhverfi og lífa í sátt við það umhverfi og í því umhverfi eru  varplönd heiðagæsa en ekki körfur fullar af eggjum aligæsa.


mbl.is Sóknarfæri að selja virkjanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögregluerjur

Dómsmálaráðherra og lögreglumenn á Suðurnesjum eiga núna í erjum.  Dómsmálaráðherra kynnir drög að frumvarpi um öryggis- og greiningarþjónustu. Drögin eru ennþá trúnaðarmál en í þeim mun vera eitthvað um " forvirkar rannsóknarheimildir" sem að sögn er að löggan geti hafið rannsókn áður en brot séu framin.

Þó að byggingarmarkaðurinn sé alveg stopp á Íslandi í dag og húsin hálfbyggð séu bara lokuð þá er ein tegund bygginga í miklum uppgangi, það  er mikill uppgangur í byggingu fangelsa og mikil eftirspurn eftir þannig þjónustu,  Fangelsin full og tvísett í 8 klefa

Svo er líka þras um sérsveitina.

Hvernig ætli þessar forvirku rannsóknarheimildir virki. Ætli allir sem sýna áhuga á efnafræði eða menningu miðausturlanda verði sjálfkrafa undir eftirliti. 


mbl.is Ósáttir við ákvörðun dómsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bataóskir

Ingibjörg Sólrún hefur staðið sig feiknavel sem utanríkisráðherra og það hefur enginn fulltrúi okkar Íslendinga á alþjóðavettvangi verið eins ötull talsmaður fyrir mannréttindamálum, ekki síst jafnréttismálum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að nú síðustu mánuði hefur mikið starf verið unnið vegna framboðs Íslendinga til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Ingibjörg Sólrún hefur leitt það starf. Hún hefur staðið sig  vel í því sem öðru og þó ég persónulega skilji ekkert í hvers vegna Íslendingar vilja endilega sitja í þessu öryggisráði þá finnst mér frábært ef Ingibjörg Sólrún nær áhrifum þar og þau sjónarmið sem hún hefur alla tíð talað fyrir óma í alþjóðasamfélaginu. Ég óska Ingibjörgu góðs bata sem allra fyrst og gangi henni og okkur öllum vel í baráttunni um sæti í öryggiráðinu.
mbl.is Utanríkisráðherra veiktist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundruð lögregla

Það kemur ekki vel út að ágreiningur innan lögreglu sé háður í fjölmiðlum. Mér finnst ekki klókt að yfirmaður sérsveitar segi sig úr félagi með fjölmiðlabrambolti ef það er markmið hans að stuðla að því að lögreglan á Íslandi vinni saman og eyði ekki kröftum í innbyrðis togstreitu og dægurþras svo ég taki upp orðalagið sem notað er í fréttinni.

Það er mikilvægt að lögregla sé samstillt og leysi sín innri mál í rósemd og yfirvegun. Það er líka mikilvægt að  ein lög séu í landinu og það ríkti tiltölulega góð sátt um þau. Vitur maður mælti forðum eftir að hann hafði legið undir feldi í eina nótt:"Ef við slítum í sundur lögin þá slítum við í sundur friðinn".  Þessi orð túlkuðu menn svo að það væri sniðugast að verða kristnir. Það var nokkuð góð sátt um það og ákvörðunin heldur núna þúsund árum seinna þó fáir hafi mætt á þúsund ára kristnihátíðina. 

Fólk sniðgekk þá hátíð af ýmsum ástæðum. Sumir vegna þess að þeim fannst þetta vera  vegahátíð þar sem lögregluríkið væri að sýna klærnar. Sumir af því þeir voru ekki nógu kristnir. Sumir af því að þeim fannst ekki ástæða til að fagna hinum nýja sið sem hafði verið þröngvað upp á Íslendinga fyrir þúsund árum og bara verið tekinn upp af hagkvæmnisástæðum.

 


mbl.is Segir sig úr Lögreglufélagi Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband