Að losa peninga - Raufarhafnarstemming hjá Helga Hjörvar

Raufarhafnarstemming 2008

Helgi Hjörvar vill selja Kárahnjúkavirkun og fleiri virkjanir. Hann kallar það að losa peninga. Ég kalla það að selja útsæðið. Fjármálapælingar Helgi Hjörvar alþingismanns eru álíka ruglaðar og grunnhyggnar og fjármálastjórnin var hjá Raufarhöfn um síðustu árþúsundamót. Sjá þetta blogg sem ég skrifaði á sínum tíma: Raufarhafnarstemming í Reykjavík

Helgi Hjörvar talar um auðlindasjóð og sér fyrir sér í hillingum hvað sá sjóður geti ungað út miklum verðmætum.  Orð kosta enga peninga og Helgi þarf ekki að standa reikningsskil á þokukenndum loftköstulum eins og þessum: "Eftir að honum (þ.e. auðlindasjóðnum) yxi fiskur um hrygg opnaðist tækifæri til að fela honum tiltekin verkefni sem launafólk þyrfti þá ekki lengur að fjármagna með skattgreiðslum".

Þetta er ekki mikil speki.  Þetta er frekar eins og útjöskuð klisja  úr stefnuskrá frjálshyggjufélags nema bara launafólk sett inn í staðinn fyrir atvinnurekendur enda veit Helgi að kjósendur Samfylkingarinnar eru margir launþegar. En ég hugsa að Helgi vanmeti vitsmunalega getu almennings á Íslandi. Það eru ekki allir eins auðginntir og Egill Helgason.sem finnst bara sniðugt að selja virkjanir þegar manni vantar pening. 

Það er sorglegt að það eru ansi margir í hópi hinna talandi stétta á Íslandi sem hafa atvinnu af og beinlínis eða óbeinlínis hag af því að tala fyrir sjónarmið eins og Helgi Hjörvar talar fyrir í sinni grein. Þar nægir að biðja menn að skoða hvernig eignarhald á fjölmiðlum er á Íslandi og hvaða stjórnmálaöfl ráða fréttaflutningi í þeim fjölmiðlum sem eru í ríkiseign. Það er engin viðspyrna í hinu örsmáa íslenska samfélagi við stórum erlendum eða innlendum aðilum sem vilja kaupa hér auðlindir, auðlindir sem hingað til hafa  verið óseljanlegar - ekki vegna þess að enginn vildi kaupa  heldur vegna þess að almenn sátt ríkti um að þær væru hlutir sem ekki ættu að ganga kaupum og sölum. Um leið og auðlindum Íslendinga hefur verið breytt í tölur á blaði í einhverri hlutabréfavæðingu þá geta þau verðmæti flætt óhindrað hvert um heiminn sem er. 

En áfram með söguna frá Raufarhöfn. Raufarhafnarhreppur var eitt ríkasta sveitarfélag á Íslandi, hreppurinn   átti helling af peningum vegna þess að þar höfðu menn selt frá sér lífsbjörgina og kvótinn var seldur og þessi rosalegu verðmæti áttu að vera eins konar baktryggingasjóður, sveitarfélagið var að losa peninga. 

En hvað gerðist? Jú, það sama og Helgi Hjörvar stingur upp á. Helgi vill líka losa peninga og hann vill líka eins og stjórnendur Raufarhafnar fjármagna þá í einhverjum baktryggingarsjóð. Helgi sér fyrir sér að sala virkjana gæti verið "hvati fyrir frekari framrás í orkuiðnaði og útrás með tilkomu nýrra fjárfesta". Takið eftir. Breyta á auðlindum Íslendinga í spilapeninga í fjármálalotterí. Hvernig fór með baktryggingarsjóð Raufarhafnar þegar þeir höfðu breytt kvótanum í peninga? Svarið er einfalt. Sjóðurinn  hvarf. Allar fjárfestingarnar í hlutabréfum á gráa markaðnum og erlendum tækni og vaxtasjóðum gufuðu upp.  

Helgi Hjörvar segir um verkefni í fiskveiðistjórnun að það sé brýnt "... að búa svo um hnútana að eftir hálfa öld verði fiskurinn í sjónum ekki einkaeign arabískra olíufursta eða annarra framandi fjárfesta sem enga hagsmuni hafa af sterku samfélagi á Íslandi".  Þessu er ég sammála sem markmiði. Það er ekkert núna sem hindrar að kvótaeign og þar með ráðstöfun yfir veiði Íslendinga sé í eigu aðila sem búa erlendis og líta bara á það sem fjárfestingu og nútíma nýlendustefnu fjárfesta að eiga hér ítök í fiskveiðum - kannski með óbeinum og duldum hætti með gríðarflóknu neti fyrirtækja sem eiga hvert í öðru. 

En það sem ég skil ekki er hvernig Helgi Hjörvar heldur að hægt sé að koma í veg fyrir að það sama gerist varðandi íslenskar orkulindir.   Fiskimiðin eru ekki í framkvæmd nein sameign íslensku þjóðarinnar þó það standi í einhverjum lögum. Ef afnotarétturinn er seldur og  kerfi afnotaréttarins er svo sterkt að við því verður ekki hróflað þá er formlegur eignaréttur á fiskimiðunum einskis virði fyrir almenning á Íslandi.  Það eru engir nema erlendir kaupendur að íslenskum virkjunum. Þegar  eignirnar sem ameríski herinn skildi eftir sig voru seldar þá var hægt að búa til pakka sem einhverjir Íslendingar gátu keyptu t.d.  bróðir fjármálaráðherrra og fyrirtæki sem hann stýrir en ég hugsa að Íslendingar verði bara leppar þegar kemur að því að selja virkjanir, nema náttúrulega það séu búnir  til stórir og þægilegir sérsaumaðir fjárfestingapakkar fyrir valda íslenska fjárfesta á miklu undirverði svo þeir geti strax selt aftur á hærra verði.

Það er undarleg tímasetning á þessari hugmynd Helga Hjörvars. Hann kýs að viðra hana á tíma þar sem það fjármálakerfi sem hann sækir innblástur úr er að hruni komið og allt bendir til að það hrun sé einmitt tilkomið vegna þess að  tenging rofnaði milli raunverulegra verðmætra og raunverulegra viðskipta með vörur og þjónustu og þeirra viðskipta sem voru bara með mælieininguna sjálfa.

Það er alvarlegt ástand í fjármálalífi heimsins og það er að hruni komið og það er ekki rétta leiðin núna að láta eins og það kerfi virki  og búi til peninga og verðmæti  úr engu og verði eins og aligæs í draumi Helga Hjörvars, gæs  sem verpir mörgum eggjum á leiðinni á markaðinn. Þau egg munu öll brotna og styrkur Íslendinga er ekki í heimi alþjóðlegra fjárfestingamarkaða og útrásar, styrkur Íslendinga er að kunna á sitt land og sitt umhverfi og lífa í sátt við það umhverfi og í því umhverfi eru  varplönd heiðagæsa en ekki körfur fullar af eggjum aligæsa.


mbl.is Sóknarfæri að selja virkjanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Helgi Hjörvar hugsar hér greinilega ekki um hag íslensku þjóðarinnar.  Ég verð bara að vera sammála þér og finnast þessi hugmynd alveg fáranleg.  Það væri samt verðugt verkefni að komast að því hvaðan hún nákvæmlega kemur.  Því ekkert stendur um þetta í stefnuskrá Samfó eða stjórnarsáttmálanum. 

Björn Heiðdal, 25.9.2008 kl. 05:33

2 identicon

Ég sé enga ástæðu til að virkjanir þurfi að vera þjóðareign, frekar en síminn, bankarnir - nú eða vegirnir – ef út í það er farið.

Annars er bróðir þinn betur að sér um þetta en ég, og ég um margt sammála honum.

Þetta er ekki hugmynd sem maður samþykkir einn tveir og þrír, en hún er allrar athygli verð.

Svo held ég líka að fólk geri sér enga grein fyrir því hversu djúp og mikil kreppa er að ríða yfir þetta land. Hún er rétt að byrja. Fyrst kemur peningamálakreppa og svo kemur hin raunverulega efnahagskreppa.

Við þurfum að leita ýmissa leiða til að komast út úr þessu. 

Egill (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 07:41

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

þessi kreppa er hyldjúp og ég veit ekki hvað íslensk stjórnvöld eru að hugsa. kannski vilja þau fresta vandanum, fresta því að horfast í augu við að það verður að stokka allt upp á nýtt og breyta umgjörð samfélagsins og hagkerfisins. Það er óhjákvæmilegt.

Kannski vilja þau líka koma í veg fyrir panikástand. það er auðvelt að setja bankana á hausinn með því.

En það er ekki rétt leið að láta eins og sama fjárglæfra og fjárfestingasjóða ofurtrúin sé það eina sem blívur. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.9.2008 kl. 11:10

4 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Kárahnjúkavirkjun er byggð til að þjónusta einn viðskiptavin. Hvað ef þessi kúnni gefur upp öndina einhverra hluta vegna, hvort sem það er vegna lánsfjárskorts eða samdráttar í eftirspurn eftir einu vörunni sem kallar á virkjunina.

Virkjunin hefði því átt að vera fjármögnuð af kaupendum orkunnar eða fjárfestum á þeirra vegum. 

Sigurður Ingi Jónsson, 25.9.2008 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband