Viðskiptasnilld Össurar

Það er mjög erfitt að halda uppi málefnalegri umræðu í íslensku samfélagi um mál sem er þess eðlis að gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi og gera það í samfélagi þar sem nánast allir fjölmiðlar sem einhverja útbreiðslu hafa eru í eigu þeirra aðla sem hafa hagsmuni af því að komast yfir eða hafa milligöngu um hvernig auðlindum Íslands er ráðstafað. 

Þannig er núna búin til einhvers konar gerviumræða um sölu á virkjunum Landsvirkjunar og látið eins og hugmyndir hafi kviknað í höfði á minniháttar spámanni í Samfykingunni honum Helga Hjörvar sem ekki er ráðherra í ríkisstjórninni sem núna situr. Það dylst hins vegar ekki neinum að Helgi er þarna málpípa Össurar og annarra ráðherra í ríkisstjórninni sem vilja fresta því að horfast í augu við vandamálin og vilja búa til peninga  strax og núna með því að koma í seljanlegar eignir öllu því sem hægt er að selja til að gera fjármagnað  alls konar útrásarverkefni.

Það væri fróðlegt að greina orðræðu Össurar þann tíma sem hann hefur setið sem iðnaðarráðherra og skoða hve mikið hann talar í samhljómi með þeirri fjármálastefnu sem nú hefur beðið gífurlegt skipsbrot í heiminum, svo mikið er það skipsbrot að það er ennþá ekki útséð um hvort stórfelldar björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda takist að bjarga því að fjármálamarkaður hrynji algjörlega í hinum vestræna heimi. 

Ég hef oft hlustað og lesið það sem Össur hefur til málanna að leggja og ég hreinlega botna ekki í að skynsamur maður eins og Össur skuli tala svona gáleysislega og glæfralega um fjármál heillar þjóðar og tala eins og hann sé lobbýisti eða almannatengslafulltrúi hjá fjárfestingasjóði. Reyndar má nefna að  forseti okkar Ólafur Ragnar Grímsson hefur talað í sama dúr og sennilega hafa þeir báðir tendrast upp af einhvers konar Al-gore-græn-orka-voða-fínt tísku sem vissulega geri Ísland að góðri fyrirmynd. Já, það er góð fyrirmynd fyrir heiminn hvernig Íslendingar brugðust á sínum tíma við orkukreppunni og nýttu jarðvarmaorku og fallorku þjóðarinnar með því að taka höndum saman í ríkisfyrirtækjum  og fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga já ég endurtek ef þetta hefur farið fram hjá einhverjum í ríkisfyrirtækjum og fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga.  Þar er auðvitað hitaveitan í Reykjavík langstærsta og merkasta framlagið.  Þar sem ekki voru öflug sveitarfélög heldur margir hreppar þá hamlaði það framþróun orkuveitna og þróunin hefur orðið sú að lítil sveitarfélög hafa ekki haft bolmagn til að reka þessar veitur og heimamenn hafa því  selt þær til Rarik eða OR.

Núna þegar Ísland er á alþjóðavettvangi fyrirmynd um hvernig græn orka er hérna virkjuð getur þá einhver bent mér á einhverja virkjun einkaaðila og virkjun í einkaeign sem hefur virkað eitthvað á Íslandi til að skapa þetta orðspor um orkunýtingu Íslendinga? Ætla menn ef til vill að rifja upp ævintýrið um Fossafélagið og fjárglæfra Einars Benediktssonar og taka það sem gott dæmi um einkaframtak í orkumálum á alþjóðlegum markaði sem skilaði árangri?

Það dettur engum sem fylgst hefur með orðræðunni um orkumál annað í hug en að Helgi Hjörvar sé lítið peð í tafli Össurar og  útspil  Helga núna með tveimur moggagreinum dag eftir dag er til að plægja akurinn,  það kom fram í REI málinu hversu mikil andstaða var við sýn Össurar í orkumálum og það hefur margoft komið fram að almenningur á Íslandi er ekki tilbúinn til að gefa auðlindir sínar og lífsbjörg í framtíðinni inn í loftkastala og fjárfestinga spilapeningalotterí.

Þess vegna er málið reifað núna, kannski til að finna hversu andstaðan er mikil, kannski  til að búa til gervisamstöðu með þessum hugmyndum - það er tiltölulega auðvelt í samfélagi þar sem allir fjölmiðlar eru með einum eða öðrum hætti tengdir hagsmunaaðilum og margir stjórnmálamenn eru eins konar lobbíistar á þeirra vegum. 

Það er ábyrgðarlaust að tala eins og Össur hefur talað sem iðnaðarráðherra og sá ofsagróði sem hann býr til með orðum þegar hann talar um útrásir og orkufyrirtæki á sér engar stoðir í raunveruleikanum og hann lýsir umhverfi sem á ekkert skylt við það umhverfi viðskipta og atvinnulífs sem hagfræðikenningar og hagfræðilíkön og hagskýrslur lýsa. Össur stendur fyrir viðskiptasýn sem núna er á alþjóðavettvangi að falla í duftið með brauki og bramli.

Er eitthvað sem Össur hefur afrekað í íslenskri stjórnsýslu sem hefur fært íslensku þjóðinni einhver verðmæti? Eða er eitthvað í ferli hans sem sýnir að honum hefur tekist vel upp við að stýra miklum verðmætum og láta þau ávaxtast og dafna?

Sem iðnaðarráðherra stýrir Össur nú fjöreggi íslensku þjóðarinnar sem eru orkuauðlindir okkar. Gerir hann það með hagsmuni íslensku þjóðarinnar  í fyrirrúmi eða gerir hann það sem lobbýisti fyrir hagsmuni valdamikilla aðila sem vilja breyta því í fjárfestingarfé fyrir sig og sína?


mbl.is Össur: Áhugaverð hugmynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: haraldurhar

Helgi Hjörvar verður aldrei peð annars manns.  Áhugaverðar tilllögur er hann leggur fram og er í þeim að mestu sammála, þarna sýnir hann kjark og sjálfstæði er aðrir mættu taka til fyrirmyndar.

haraldurhar, 25.9.2008 kl. 23:37

2 Smámynd: Sævar Helgason

"Sem iðnaðarráðherra stýrir Össur nú fjöreggi íslensku þjóðarinnar sem eru orkuauðlindir okkar. Gerir hann það með hagsmuni íslensku þjóðarinnar  í fyrirrúmi eða gerir hann það sem lobbýisti fyrir hagsmuni valdamikilla aðila sem vilja breyta því í fjárfestingarfé fyrir sig og sína?"

Fyrir einu ári síðan voru orkulindir á Reykjanesskaganum að ganga okkur úr greipum í meðförum Orkuveitunar-Rei og Geysi Green . útrásarspegúlantar voru á 11 stundu að læsa sig í þær til eignaryfirráða. Það mistókst og brambolt varð mikið í borgarstjórn. Í framhaldi þessa hafði iðnaðarráðherra Össur Skarðhéðinsson hraðar hendur á gerð frumvarps sem síðan sigldi fljótt um þingið- Auðlindafrumvarpið.  Auðlindun um okkar var forðað frá yfirtöku erlendra aðila.

Er þessi gjörningur iðnaðarráðherra ekki þó nokkuð afrek ? 

Sævar Helgason, 26.9.2008 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband