Letigarðurinn

Eventide

Þegar ég var barn og brann af útþrá og las í sögubókum um Íslendinga fyrri tíma sem fóru út í hinn stóra heim, heim sem takmarkaðist reyndar í margar aldir við borgina Kaupmannahöfn, þá fylgdi ég þeim í huganum, mig langaði til að drekka í mig visku heimsins undir lindinni á Gamla Garði við Kanúkastræti þangað sem höfðingjasynir frá Íslandi voru sendir en mig langaði líka að slást í för með þeim sem leiddir voru í böndum af yfirvöldum til Kaupmannahafnar til að afplána.

Verstu glæpamenn Íslands voru sendir  á Brimarhólm  og síðar Stokkhúsið  eða Rasphúsið þar sem flestir dóu. Fangelsin þá voru vinnuþrælkunarbúðir, fangar unnu við skipasmíðar, réru á galeiðum og sópuðu götur borgarinnar og voru leigðir út í alls konar erfiðisverk. Einstaka  fangi lifði af vistina og kom aftur til Íslands.

Hafliði sem sem dæmdur var til Brimarhólmsvistar fyrir aðild að Kambsráninu kom aftur til Íslands 1844  og hafði með sér kartöflur sem hann ræktaði í garði sínum á Eyrarbakka en hann hafði vanist þeim mat í fangelsinu því fangarnir  munu hafa haft fátt annað til matar en kartöflur.

fattighus.jpgMér fannst líka hlyti að vera spennandi að vera í Letigarðinum en það var nafn sem ég rakst einstaka sinnum á, oftast í dramatískum frásögnum af fólki sem fór illa fyrir. Nafnið hljómaði ekki svo illa, gat maður ekki legið þar í leti og verið í makindum að spóka sig í letigarðinum, kannski var í þeim garði líka linditré sem varpaði þægilegum skugga ef maður sat þarna við lestur  og reyndi  að ráða í heiminn, var þetta ekki athvarf fyrir þá sem ekki komust inn  á Íslendingakvótanum í lestrarsalina á Gamla Garði? Svo virtist þetta vera líka eitthvað sérúrræði fyrir konur, ekki voru þær á Garði, bara á Letigarði.

En Letigarðurinn var ekki eins og  Gamli Garður þar sem stúdentar gátu legið í leti og sukki í nokkur ár upp á kóngsins reikning heldur var hann vinnuþvingunarstofnun eða vinnuþrælkunarbúðir fyrir fátæka og samastaður í tilverunni fyrir umkomulausa sem ekki áttu í annað hús að venda.  Það er lenda á Letigarðinum var verra en að segja sig til sveitar  eða vera á vergangi.  Orðið er hljóðgerving frá danska orðinu " ladegaarden"  en uppruni þess mun vera landbúnaðarhús þ.e. ekki aðalhúsið á jörðum, kannski er uppruninn sama og orðið hlaða hjá okkur.  Ladegården  við Kaupmannahöfn var fyrst  búgarður við konungshöllina, seinna spítali fyrir sjúka og sára hermenn og svo fátækrahæli fyrir bæklaða hermenn og svo fangelsi og svo vinnuhæli fyrir fátæka og húsnæðislausa og enn síðar nauðungarvinnuhæli fyrir brotamenn.

von_herkomer_the_last_muster.jpgMyndir Hubert von Herkomer af breskum stofnunum sambærilegum og Letigarðurinn hrífa mig. Þær hrifu líka Vincent von Gogh en hann málaði undir áhrifum frá Herkomer og valdi líka að mála hina smáðu og hrjáðu. Hér fyrir ofan er myndin Eventide er frá St.James's Workhouse í Soho og hér til hliðar er The last muster  eftir  Hubert von Herkomer sem er mynd af gömlum uppgjafahermönnum  sem eru á fátækrahæli við sunnudagsmessu.

Letigarðarnir voru hæli þar sem hinum bjargarþrota var safnað saman.  Þannig voru spítalar líka t.d. fyrstu holdsveikraspítalarnir á Íslandi. Það voru fátækrahús þar sem fátækir og sjúkir voru teknir úr umferð. Síðan fórum við inn í tíma þar sem stofnanir voru settar upp í stórum stíl, stofnanir fyrir geðsjúka, stofnanir fyrir fatlaða, stofnanir fyrir aldraðra. Þannig hugsun er á undanhaldi en þó er eins og samfélagsvitundin nái ekki til aldraðra. Ennþá eru byggðar stofnanir og  byggðakjarnar fyrir aldraða, eins konar umönnunarsvæði þó þau séu með lúxús í dag sem var ekki í letigörðunum til forna.

En hvernig ætli lífið hafi verið hjá þeim ógæfusömu sem enduðu á letigörðunum? Komst einhver þaðan burtu? Vandist vistin?

pass_room_bridewell_microcosm.jpg

 Fangelsið á Litla-Hrauni hefur stundum verið uppnefnt  Letigarður  en kannski er meira við hæfi að kalla fangelsið Hafliðagarður eftir kartöflugarðinum á Eyrarbakka þar sem fanginn frá Brimarhólmi varð nýtur þegn og frumkvöðull í  samfélagi og ræktaði þar  kartöflur, færni sem hann bar með sér úr fangelsisvistinni.

Hinn eini sanni Letigarður í Reykjavík stendur við Arnarhól og var byggður á kóngsins kostnað.  Það var reist tugthús á Arnarhóli árið 1764 sem átti jafnframt að vera letigarður fyrir flækinga og landshornamenn.  Fangarnir voru í vinnu hér og þar um bæinn og voru meira segja látnir róa í verstöðvum og unnu fyrir stiftamtmanninn.

Í dag er eins og starfsemin í húsinu hafi aftur breyst í letigarð, ekki þannig letigarð að þar sé ekkert gert, heldur í vinnuþvingunarstofnun fyrir þá sem eru í þjónustu - ekki danska kóngsins, hér er  lýðræðisríki og sjálfstæð þjóð, heldur vinnuþvingun til að gæta hagsmuna alþjóðlegs fjármálakerfis sem löngu er komið að fótum fram. Fangarnir eru ennþá leigðir út í alls konar skítverk.

Meira um letigarða (sem voru reyndar frekar vinnuþrælkunarbúðir):

The Workhouse

Work house

 Poor house

Letigarðurinn í Osló

Bridewell Palace

 

 


 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ágæt sagnfræðileg greining, en reyndar lá Københavns Slots Ladegård ekki við konungshöllina á Hólminum, heldur út á Rosenørns Allé, þar sem nú er Forum og Danmarks Radio (gamla byggingin). Árið 1908 voru ræflarnir sendir út á Amager á Sundholm.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 7.10.2010 kl. 15:37

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir ábendinguna. ég tók bara hugsunarlaust það sem orðabókin lexis.hi.is segir um letigarðinn: " Þannig var ,,ladegården`` við Kaupmannahöfn upphaflega búgarður undan konungshöllinni." Í Osló var letigarður þeirrar borgar í tengslum við biskupsetrið bispegaarden.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.10.2010 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband