Fokkmerki framan í konur

Helstu fréttirnar um Framsóknarflokkinn  þessa dagana eru yfirlýsingar frá karlmönnum sem ætla ekki að taka sæti á lista af því þeir eru dáldið svekktir  yfir að þeir hafi ekki fengið það fylgi sem þeir ætluðu sér í prófkjörum. Hér má nefna alþingismanninn Kristinn á Vestfjörðum, Hjálmar þingflokksformann í Suðurkjördæmi og núna seinast formann ungmennafélags Íslands (man ekki nafnið) sem ekki komst í eitt af sex efstu sætunum í prófkjörinu í Suðurkjördæmi og sendi frá sér yfirlýsingu um að hann  ætli ekki að  taka sæti  á listanum.

En það gegnir öðru máli um konur. Þar virðist ekki skipta máli um hvar konur lenda  á lista hvort þær taka þátt í prófkjöri og ganga vel í því. Í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi lentu konur í fjórða, fimmta og sjötta sæti. Karlinn sem var í þriðja sæti ætlar ekki að vera á listanum vegna þess hversu illa honum gekk í prófkjörinu.  Nú er í fréttum að það hefur verið bætt inn í þriðja sæti konu sem er starfsmaður þingflokks Framsóknarflokksins, konu sem ekki tók þátt í prófkjörinu.

Það er ekkert við þetta að athuga ef þetta er gert í samráði og sátt við þær konur sem lentu í þriðja til sjötta sætinu í prófkjörinu og almenn sátt sé um þessa tilhögun. En fyrir okkur sem horfum á þetta utanfrá og vitum ekkert um þetta annað en það sem kemur fram í fréttum þá er þetta bara eitt stórt fokkmerki framan í konur sem taka af fullum þunga þátt í prófkjörum. Var ekki hægt að finna kandidat í  í þriðja sætið í röðum þeirra kvenna sem lentu í fjórða til sjötta sæti? Er ekki eðlilegt að taka tilliti til fylgis þeirra í prófkjörinu?

Ég er ekki að gera lítið úr því að listi þurfi að vera samsettur úr mismunandi einstaklingum og endurspegla íbúana í kjördæminu en það er af og frá að níðþröngir stakkar úreltrar hreppapólitíkur eigi að reyrast bara að konum en karlmenn geti valsað frjálsir út um allar koppagrundir. 

Ég bendi á góðan pistil sem Stefán Bogi Sveinsson framsóknarmaður skrifar á blogginu sínu stefanbogi.is um þetta mál. Frá honum tek ég líkinguna um fokkmerkið sem ég nota í titli á þessu  bloggi. 

"Spunahjólin eru farin af stað í þeim tilgangi að finna út hver á að taka sæti Hjálmars á listanum. Þessi kenning er ekki verri en hver önnur. Eini gallinn við þetta allt saman er að það er í eðli sínu svindl að hrófla við niðurstöðum prófkjörs með þessum hætti. Ég hika ekkert við að segja það. Það eru bara svik við þátttakendur í prófkjörinu. Ég skrifaði eftirfarandi í tilefni af slíkum fimleikum á framboðslista Samfylkingarinnar í sama kjördæmi:

Af hverju virðist engum finnast þetta óeðlileg misbeiting? Ef menn á annað borð villast inn í það að halda prófkjör, sem að mínu mati er meingölluð leið til að velja á framboðslista, eiga menn að halda sig við niðurstöður þess.

Allt annað er eitt stórt ,,fokk"merki framan í þá sem lögðu það á sig að bjóða sig fram í prófkjörinu, og framan í þá sem kusu í því.

Ég hef ekki skipt um skoðun síðan. Það er algjörlega óviðunandi að einstaklingi sem gat, en ekki vildi bjóða sig fram í prófkjöri, sé svo lyft upp fyrir þá sem lögðu bæði tíma sinn, peninga og heiður að veði í slíkri baráttu."

Það andar köldu að konum á Íslandi á hundrað ára afmæli Kvenréttindafélags Íslands, sama hvort það eru konur dreifðar um byggðir Suðurkjördæmis eða konur sem berjast til forustu í Frjálslynda flokknum.  

Viðbót:

Ég get ekki betur séð bæði á skráningu í þjóðskrá og símaskrá en að Helga Sigrún Harðardóttir sé Reykvíkingur, skráð til heimilis í Skipholti í 105 Reykjavík. Mér finnst 105 Reykjavík vera fínt hverfi, það er nú líka átthagar mínir og ég bý þar og þar hef ég búið mestallt mitt líf fyrir utan nokkurra ára útlegð í Kópavogi og nokkur hliðarhopp í 101 Reykjavík.  En ég hefði ekki áttað mig á því áður að við 105 R-ingar værum Suðurnesjamenn og þess vegna gjaldgeng á lista í Suðurnesjamannasætin. Ég  Suðurnesjamaðurinn Salvör hugsa mér gott til glóðarinnar, það hlýtur að vanta Suðurnesjamenn til að punta einhverja fleiri lista. Grin

Hitafundur hjá Framsókn (frétt á visir.is) 


mbl.is Helga Sigrún Harðardóttir í 3. sæti hjá Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég skil nú ekki hvað þetta kemur konum sérstaklega við. Þó að það hafi verið konur í 4.-6.sæti þá finnst mér þetta ekki snúast neitt um karlar konur dæmi. Mér finnst þetta einungis snúast um grundvallaratriði að þeir sem taki þátt í prófkjöri séu á lista flokksins.

Steinn (IP-tala skráð) 27.1.2007 kl. 21:10

2 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Það er varla hægt að rökstyðja þá ráðstöfun að hafa Helgu Sigrúnu í 3. sæti, með því að hún sé íbúi á Suðurnesjum því það er hún ekki samkvæmt fréttum Rúv í kvöld og ekki er hún heldur skráð í neitt framsóknarfélag í kjördæminu.

Björg K. Sigurðardóttir, 27.1.2007 kl. 21:20

3 identicon

heyr, heyr, Salvör!  Áfram konur og til hamingju með daginn!

alla (IP-tala skráð) 27.1.2007 kl. 21:51

4 Smámynd: Helgi Sigurður Haraldsson

Ég verð að segja að ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara með þessu tali þínu.  Sex efstu sætin í prókjörinu voru bindandi og þegar sá sem hlýtur þriðja sætið ákveður að taka það ekki er ekkert sem segir í reglunum um að færa eigi upp listann.  Því má ekki gleyma. Þetta var tillaga kjörstjórnar um sigurstranglegastan listann fyrir kosningar í vor og það var samþykkt á kjördæmisþingi í dag.  Lýðræði??

Helgi Sigurður Haraldsson, 27.1.2007 kl. 22:08

5 identicon

Þetta er náttúrulega dæmigerð aðferð þessara miðaldra kalla sem enn hafa ekki fyrirgefið konum fyrir að krefjast kosningaréttar, hvað þá jafnréttis á við þá.  Þeir etja konum saman í þeim eina tilgangi að halda þeim niðri.  Þarna var strengjabrúðu flokkseigendafélagsins stillt upp til að grafa undan konu sem var orðin of sterk í kjördæminu fyrir smekk kallanna.

Þórður Eyjólfsson (IP-tala skráð) 27.1.2007 kl. 22:25

6 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Umrætt prófkjör snýst ekki um konur og jafnrétti. Fyrst Hjálmar dró sig í hlé hlaut prófkjörið að snúast um það að ná sátt sem víðast um kjördæmið.

Það virðist hafa tekist og ég segi  bara áfram konur á listanum og reynið að ná kjöri!

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 28.1.2007 kl. 00:13

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

því miður þá minnir þetta mál mig ansi mikið á Freyjumálið í Kópavogi. Sumum þótti það mál lítilfjörlegt og snúast bara um að peppa upp eitthvað lítið kvenfélag. Það varð nú samt þannig að fátt hefur verið meiri álitshnekkir fyrir Framsóknarflokkinn en einmitt það mál,  Framsóknarflokkurinn varð að athlægi um allt land fyrir það og þetta var talin ímynd spillingar. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.1.2007 kl. 00:26

8 identicon

ótrúleg umræða. það er óeðlilegt að færa menn til frá þeim sætum sem prófkjörið úthlutar, upp eða niður. kjósendur hafa raðað. þegar þungavigtarmaður eins og hjálmar stígur af vagni er eðlilegt og sjálfsagt að hann hafi rétt til að tilnefna eftirmann- annars er verið að ógilda atkvæði þeirra liðlega 1400 sem kusu hjálmar í eitt af þremur efstu sætunum og segja að framar skuli gilda atkvæði þeirra 1000 sem kusu eygló. hvurslags lýðræði er það! líklega lýðræði þeirra sem segja að gefa skuli suðurnesjamönnum á lúðurinn úr því að hjálmar treystir sér ekki til að sitja í þriðja sæti. semsagt lýðræði yfirgangsmanna og örugglega ekki þeirra sem kunna að reikna...

bjarni harðarson (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 00:38

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Bjarni, það er að sjálfsögðu eitthvað sem allar kjörstjórnir gera að reyna að stilla upp sigurstranglegum lista og það er oft hnikað til um sæti ef það raðast þannig í prófkjörum að listinn lítur illa út. Oftast líta listar afar illa út vegna þess að það er svo áberandi að það hallar á konur í prófkjörum og það gerist oft að það verður eins og í Suðurkjördæmi þar sem í þremur efstu sætum lentu karlmenn. Það hefði ekki verið flott að fara af stað með þannig lista. 

En það er afar frjálsleg túlkun að Hjálmar hafi einhvern rétt til að ráðstafa sínu sæti ef hann ákveður að ganga af skaftinu og þar er alls, alls ekkert eðlilegt né sjálfsagt að hann hafi rétt til að tilnefna eftirmann. Það er hvergi gert ráð fyrir því í prófkjörsreglum og það eru bara prettir að búa til eftir á einhverjar vinnureglur svoleiðis.

Annars er líka verulega skrýtið ef þú ert að halda fram að þetta sé einhvers konar ráðstöfun sem Hjálmar réð þegar hann var að ráðstafa 1400 atkvæðunum sínum... bæði af því Hjálmar hefur margoft talað um það í fjölmiðlum að hann vilji Suðurnesjamann í þetta sæti en svo fæ ég ekki betur séð ef flett er upp í þjóðskrá og símaskrá en Helga Sigrún búi og sé með lögheimili í 105 Reykjavík eins og ég. Er ég Suðurnesjamaður ?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.1.2007 kl. 00:58

10 identicon

Bjarni segir að óeðlilegt sé að færa menn frá þeim sætum sem prófkjörið úthlutar.  Var ekki Hjálmar færður frá 3. sæti niður í það 20.?  Eða gilda þessar reglur bara um fólk sem ekki hefur typpi?

Þórður Eyjólfsson (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 01:09

11 Smámynd: Sigurður Svan Halldórsson

Þau eru algjörlega óþolandi þessi klíku og subbuvinnubrögð. Það verður að halda vinnubrögðum sem þekkt eru sem Binga-brögð (klíku, svindl og svínarí) frá flokknum.

Sigurður Svan Halldórsson, 28.1.2007 kl. 13:27

12 identicon

Sé ekki að það sé neitt sjálfgefið að sá/sú sem fær bindandi kosningu í 4 sæti eigi að flytjast upp. Ef Hjálmar hefði ekki tekið þátt gæti vel verið að einhver annar einstaklingur á listanum hefði lent í 3. sæti.

Bjarnveig (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 17:41

13 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Sæl

þú segir: "því miður þá minnir þetta mál mig ansi mikið á Freyjumálið í Kópavogi. Sumum þótti það mál lítilfjörlegt og snúast bara um að peppa upp eitthvað lítið kvenfélag. Það varð nú samt þannig að fátt hefur verið meiri álitshnekkir fyrir Framsóknarflokkinn en einmitt það mál,  Framsóknarflokkurinn varð að athlægi um allt land fyrir það og þetta var talin ímynd spillingar. " 

Ég held að Framsókn hafi nú beðið álitshnekki fyrir fleira en þetta mál og sé í raun ímynd spillingarinnar í pólitík á Íslandi :)

Það má nefna til dæmis aðfarir þeirra að landinu í stóriðjumálum og andstöðu við lýðræðið í þeim málum. Það má líka nefna ráðningar XB í borginni og það mætti telja áfram. Framsókn er ekki að fara að komast neitt upp úr pitti spillingarinnar - hann er of gegnsýrður, því miður.  

Andrea J. Ólafsdóttir, 29.1.2007 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband