Einfríður og langan

vinnukona-student

"Það var ekkert sældarbrauð að stunda vistir í Reykjavík á þessum árum. Víða var hreinlega farið illa með vinnukonurnar. Þær fengu lágt kaup og slæma aðhlynningu. Þeim var þrælað út. Þær voru jafnvel seldar í ánauð. Þess voru dæmi, að þær voru látnar stunda fiskvinnu. Húsbóndinn tók af þeim kaupið, en greiddi þeim aftur vinnukonukaup, sem var mun lægra. Þetta munu hafa verið leifar af gamla vinnuhjúahaldinu til sveita.

Ég var óheppin með vistina. Ég fékk aldrei frí. Ég mátti ekki heimsækja unnusta minn og hann ekki mig. Ef hann þurfti að hafa tal af mér, varð hann að standa í forstofunni á meðan. Þar ræddum við saman, en ekki lengi, alls ekki lengi. Ég byrjaði að vinna klukkan átta á morganna og hætti ekki fyrr en um miðnættið. Frúin talaði eins lítið við mig og hún gat. Yfirleitt yrti hún ekki á mig nema til að segja mér fyrir verkum í hörkulegum fyrirlitningartón. Aðeins einu sinni sagði hún, að ég mætti eiga frí. Það var klukkan ellefu að kvöldi annars páskadags!

Þrátt fyrir þetta leið mér ekki illa. Það var eingöngu móður húsbóndans að þakka. Hún hjálpaði mér eftir föngum og reyndi að gera mér vistina bærilega. Mér þótti vænt um þá konu. Þegar ég ákvað að hætta 1. maí um vorið, útvegaði hún mér fiskvinnu hjá Kveldúlfi, en mjög erfitt var að fá slíka vinnu á þessum árum. Frúin kvaðst vera ánægð með mig, þegar ég hafði ákveðið að hætta. Líklega hefur hún aðeins verið full örvæntingar, því að hún hafði haft sjö vinnukonur frá hausti til áramóta. Hún greiddi mér hærra kaup en hún hafði lofað og bað mig að vera áfram. En ég var búin að fá nóg.

fiskur1925
Konur í fiskvinnslu um 1925 við Skúlagötu í Reykjavík (Wikipedia) 

Ekki tók betra við í Kveldúlfi. Ég þekkti varla þorsk frá ýsu. En ég var djörf og stórlát og vildi reyna sem flest. Verkstjórinn hafði spurt mig, hvort ég kynni að vaska fisk. Ég svaraði því játandi af ótta við, að ella fengi ég ekki vinnuna. Mér leist ekki á blikuna, þegar ég kom fyrsta morguninn. Ég hafði ekki haft vit á að búa mig þannig að ég gæti staðið við karið. Ég hafði til dæmis enga vaxdúkssvuntu, en fékk lánaða einhverja tusku framan á mig. Ég var svo heppin að lenda við hliðina á ágætri stúku, sem leiðbeindi mér. Hún hét Sigríður Guðmundsdóttir, og með okkur tókst þegar vinátta. Og þarna vann líka Rannveig Þorsteinsdóttir, sem síðar varð lögfræðingur og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn. Hún var lágvaxin, en ekki fisjað saman - og alltaf kát og fjörug.

Karlmenn óku fiskinum á hjólbörum til okkar, en Rannveig var svo harðdugleg, að hún var líka látin gera það stundum. Ég var eins og álfur út úr hól fyrstu dagana. En Sigríður kenndi mér handtökin, og brátt lærði ég þau. Verið var að vaska harðan togarafisk. Verkstjórinn hafði bannað okkur að leggja hann í bleyti. Ég ætlaði að sjálfsögðu að fara eftir fyrirmælum hans. En Sigríður aðvaraði mig og sagði, að þær gætu þetta ekki og færu ekki eftir því. Ég var líka þegar búin að fá stengi í handleggina. Ég hætti því að hlýða og fór að eins og hinar stúlkurnar.

 

En ég hafði dálítið samviskubit út af þessu. Ég óttaðist, að við gerðum fiskinn verðminni á erlendum markaði en ætlast var til. Við stúlkurnar urðum að keppast við, því að við vöskuðum í ákvæðisvinnu. Greiddar voru 2.10 fyrir hundraðið af þorskinum en 1.10 fyrir hundraðið af smáfiski. Ég náði ekki miklum hraða í fyrstu, og kaupið mitt var því lægra en hinna stúlknanna. Það þótti mér súrt í brotið, því að ég vildi ekki vera eftirbáturr annarra. Viðunandi þótti að vaska 400 þorska á dag, og þegar fram í sótti tókst mér að fá sæmileg daglaun. Best gekk mér að vaska labra, en fyrir hann fengum við 75 aura á hundraðið. Eina vikuna vaskaði ég 3500 stykki á dag til jafnaðar og fékk því yfir 150 kr. en tímakaup var um 41 kr. á viku.

Ein stúka var langafkastamest. Hún hét Einfríður og vaskaði um 1200 fiska á dag. Af þessum sökum maut hún sérstakrar hylli húsbænda sinna. Henni leyfðist sitthvað, sem við hinar hefðum fengið bágt fyrir. Stundum komu synir Thors Jensen í heimsókn. Einn þeirra hafði þann ósið að heilsa aldrei fólkinu. Ólafur Thors kom stöku sinnum, en hann heilsaði alltaf og gaf sig á tal við fólkið - enda stórbrotinn persónuleiki og alþýðlegur í besta máta eins og allir vita. Því var hins vegar ekki að heilsa um þennan bróður hans.

Dag nokkurn kemur hann, klæddur ljósum sumarfötum og spænskir gestir í fylgd með honum. Hann gengur um og sýnir þeim frystihúsið. Það þótti víst hið fullkomnasta í þá dag, þótt aðbúnaður starfsfólks væri fyrir neðan allar hellur. Hann kemur til Einfríðar, stansar fyrir aftan hana og sýnir gestunum, hvað hún er dugleg. Hún heldur áfram vinnu sinni á fullri ferð, eins og hún hafi ekki orðið hans vör. Allt í einu slengir hún gríðarstórri löngu beint í bakið á honum, þar sem hann bograr yfir körfunni. "Hvernig í ósköpunum átti ég að vita, að maður værið þarna - fyrst ekki var heilsað?" sagði Einfríður."

Þetta er frásögn í bókinni Íslenskar konur ævisögur, Helga Marín Níelsdóttir (1903-1986) lýsir hér kjörum sínum í Reykjavík sem ung stúlka um 1920.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Salvör. Margir skrítnir furðufuglar hjá Thorsunum.

Aðalbjörn Steingrímsson (IP-tala skráð) 24.3.2012 kl. 17:13

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér fyrir Salvör Kristjana .  Hér hjá þér, kemur í ljós að konur þurftu ekki einu sinni að vera svartar til að þola þrældóm.  

En ég átti mjög ærlega og góða móður, sem kvartaði aldrei en fékk frá honum pabba sin fyrsta ísskáp á fimmtugs afmæli sínu.  Þá bilaði eitthvað verulega á milli okkar feðga.     

Hrólfur Þ Hraundal, 24.3.2012 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband