Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Röð ríka fólksins - einkavædd löggæsla á flugvöllum

Það er í meira lagi undarlegt að ríkt fólk á saga class skuli geta farið í sérstaka hraðferð í gegnum vopnaleit og öryggiseftirlit. það kom fram hjá sýslumanninum í Keflavík að þessi hraðafgreiðsla væri bundin sérstakri fjárveitingu til þessa og get ég ekki skilið orð hans öðruvísi en svo að flugfélögin borgi fyrir sérafgreiðslu fyrir  þá viðskiptavini sína sem eru á forréttindafarrými.  Er eðlilegt að löggæsla og eftirlit opinberra aðila sé svona mismunandi eftir efnahag? Það er mjög niðurlægjandi að þurfa að fara í gegnum það öryggiseftirlit sem nú er á flugvöllum og get ég vel skilið að allir vilji gera það sem einfaldast og fjótlegast. Ég var fyrir nokkrum dögum að koma frá útlöndum og ég kom í gegnum Heathrow flugvöllinn og jafnvel þó það hafi gengið tiltölulega hratt þá er þetta óhemjuleiðinlegt og niðurlægjandi, alltaf einhverjar nýjar reglur (núna var bannað að fara með nema einn hlut í handfarangri) og fólki velt til og frá eins og sauðum sem leiddir eru til slátrunar. Ég hugleiddi á meðan ég beið í röðinni hvort maður ætti að láta bjóða sér þetta, hvort maður ætti ekki að haga ferðum sínum þannig í framtíðinni að fara bara til staða þar sem maður er ekki niðurlægður og rekinn til og frá og einhverju lögregluríki sem verður ömurlegra og lítur á mann sem hugsanlegan hryðjuverkamann. Mér finnst alltaf meira og og meira þegar ég fer í gegnum flugvelli eins og ég búi í ríki sem er eins og ráðstjórnarríkin gömlu, eftirlitsþjóðfélagi sem lítur á þegnanna sem sínu verstu óvini og sýnir þeim lítilsvirðingu.  Það er samt erfitt að takmarka ferðalög við staði þar sem ferðalangar mæta kurteisi, það er alls staðar þessar krumlur eftirlitssamfélagsins á flugvöllum. En hingað til hef ég þó haldið að það sama gilti fyrir alla sem ferðast á sams konar pappírum, þ.e. þegnar Evrópusambandsins og samstarfsþjóða þess. Ég hélt reyndar að þetta væri nú einmitt einn af kostunum við Evrópusambandið - að það stæði til að gera flæði milli landamæra einfaldari. Núna finnst mér alltaf meira og meira að það hafi verið blekking, þetta bandalag og þessir milliríkjasamningar snúist bara um að gera flæði peninga einfaldara og kannski líka flæði fólks ef það þarf að ferja það eitthvað á milli á vegum starfsmannaleiga til að skapa meiri peninga. Ég held líka að þessi hrakningur á fólki til og frá á flugvöllum þar sem maður þarf að veifa vegabréfi, fara úr skónum og afhjúpa handfarangur sé alveg gagnlaus, það voru menn vopnaðir plasthnífum sem stóðu að 11. september hryðjuverkunum og það verður eitthvað annars konar óvænt aðferð notuð við hryðjuverk í framtíðinni. Það má nú kannski líka benda á að hryðjuverkamennirnir 11. september ferðuðust á 1. farrými. Ég veit ekki hvort þeir fóru í gegnum einhverja hraðleit út af því.

Ég er eiginlega alltaf soldið beisk út í stjórnvöld í langan tíma eftir að ég hef farið í gegnum öryggiseftirlit á flugvöllum. Ég hugleiði þá alltaf að ganga til liðs við attac hreyfinguna og berjast fyrir frelsi fólks til að ferðast en berjast á móti óheftu og algjörlega eftirlitslausu flæði peninga. Núna þegar heilu byggðalögin eru lögð niður á Íslandi vegna þess að eignafólkið selur veiðiréttindin sín á íslensku fiskimiðunum (þið munið þessi fiskimið sem stendur í lögum að séu sameign þjóðarinnar) þá finnst mér ennþá meira varða að skoða þetta.

Ég verð ennþá beiskari og pirraðri ef Ísland er orðið þannig vettvangur auðmanna að þeir fá sérafgreiðslu á vegum löggæslu og opinberra eftirlitsaðila á flugvöllum.  Ég held að ef svona er látið viðgangast þó muni þetta bara vinda upp á sig og fleiri forréttindi koma til. Mér fannst gott að heyra að Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra finnst þetta líka einkennilegt og ég vona að hann vinni í þessu máli.

Talandi aftur um saga class, flestir Íslendingar sem ferðast á saga class eru að ferðast á vegum vinnu sinnar. Það er svo sem ekkert við því að segja þó að einkafyrirtæki vilji borga miklu meira fyrir sína starfsmenn en það er stórundarlegt að opinberir starfsmenn séu að ferðast á saga class. Það er mikið úrval og harðnandi samkeppni í flugferðum og það er engin ástæða fyrir okkur skattborgara að borga mörgum sinnum hærra fyrir flugferðir erinddreka okkar. Þeir geta bara ferðast á almennu farrými eins og við hin. 

Það er reyndar ekkert að því að fólk kaupi þjónustu í flugvélum og á flugvöllum sem er skraddarasaumuð að þörfum þess t.d.  fólk sem er mjög hávaxið eða leggjalangt kaupi sérstök þægilegri sæti í flugvélum og fólk sem þarf að bíða lengi eftir tengiflugi kaupi aðgang að setustofu, hvildarherbergi og nettengingu á meðan það bíður. En þessi snobb og forréttindahugsun sem Saga Class gengur út  þar sem forréttindastéttin á aldrei að blandast saman við almeninng er alveg á skjön við það samfélag sem ég vil lifa í. Sagan geymir allt of mörg ömurleg dæmi um svona aðskilnaðarstefnu, stundum eftir uppruna eða litarhætti, stundum eftir kynferði og stundum eftir efnahag. Á hverju ári þá held ég þann fyrsta desember upp á dag Rósu Parks sem neitaði að sitja á sérstökum stað í strætisvagni, hún var uppi á tíma þar sem eðlilegt þótti að í samgöngutækjum væri hinir þeldökku sem líka voru nú alltaf þeir fátæku mættu ekki sitja nema á ákveðnum stöðum í vagninum. Sums staðar á Indlandi er hinir lægst settu kallaðir hinir ósnertanlegu og forréttindastéttin má ekki til þess hugsa að hafa samneyti við þá, hinir ósnertanlegu mega ekki einu sinni drekka vatn úr sama brunni og forréttindastéttir.

 


Chomsky samsæriskenningar

Lími þessa löngu kanadísku mynd "Manufacturing Concent" hérna inn á bloggið. Hún er næstum þriggja klukkustunda löng. Það er aldrei að vita nema ég nenni að horfa á hana til enda. Mér finnst alltaf gaman af svona kenningum um samsæri og plott en ég vildi óska að Chomsky væri aðeins meira sannfærandi.

 

amp;hl=en"

Þessir hafa skrifað nýlega um Chomsky á íslensku:

Andrea Ólafs Chomsky, einn greindasti maður heims - talsmaður sannleikans

Jóhann Hauksson Pæling 

Áróðurslíkan fyrir lýðræði

Um hvað snýst kenning Chomskys um allsherjarmálfræði (universa

Frá Saussure til Chomskys

 Ég hef nokkrum sinnum vitnað í Chomsky t.d. hérna:

Bakslag? Getur það orðið verra?

Blóðugur endir í Beslan .... byrjun á hverju? 

 

 

 


Austurvöllur, tjaldstæði bænda

Það er gaman að rekja söguna og tíðarandann  í gegnum ákveðna staði. Ég skoðaði Austurvöll fyrri tíma. Núna glymur þar tónlist og stórar bjórauglýsingar blasa við eins og ég rakti í síðasta bloggi því núna er tími bjórbaróna og neysluhyggju á Íslandi.

Á vefsíðu Dómkirkjunnar rakst ég á þessa skemmtilegu frásögn:

 Austurvöllur var lengi helsta tjaldstæði bænda, er þeir komu verslunarferðir til Reykjavíkur. Hann var og notaður sem hirtingarpláss. Það var t.d. árið 1829, er Húnvetningur nokkur, Sveinn Sveinsson frá Breiðabólsstað í Vatnsdal, og félagar hans tveir, er uppvísir höfðu orðið að þjófnaði, voru að úrskurði Ulstrups bæjarfógeta hýddir opinberlega á Austurvelli. Hýðingu þeirra framkvæmdi böðull bæjarins, Guðmundur Hannesson, sem nefndur var "fjósarauður". Er þetta síðasta hýðing, sem sögur fara af í Reykjavík.(593) Benedikt Gröndal segir frá því í Dægradvöl, að þegar einn af brennivínsberserkjum bæjarins á 19. öldinni, Guðmundur í Traðarkoti lést, hafi annar slíkur berserkur staðið fyrir útförinni, en það var Hróbjartur Ólafsson formaður og sundkappi. Segir Gröndal svo frá: " . . . báru fjórir brennivíns-berserkir líkkistuna yfir Austurvöll augafullir, og duttu allir með hana kylliflatir. Þá var Austurvöllur eintóm flög og djúpar gryfjur, og stöku grastó á milli; þar voru heilar tjarnir á vorin og varla fært yfir." (594) Frydensberg bæjarfógeti mun hafa bannað það árið 1806, að menn bæru "ösku, móköggla eður önnur óhreinindi í kirkjugarðinn eða þann svo kallaða Austurvöll, ellegar á nokkurt kaupstaðarins pláss, heldur annaðhvort niður í fjöru eða á annan afskekktan stað".

Á þjóðhátíðinni 1874 færði borgarstjórn Kaupmannahafnar Íslendingum höggmynd þá, er Albert Thorvaldsen gerði af sjálfum sér. Var ákveðið að setja hana upp á Austurvelli, og þar var hún afhjúpuð á afmæli listamannsins 19. nóvember 1875. Vegna þessa þurfti að gera vellinum til góða. Hann var því sléttaður og tyrfður sumarið áður, lagðir um hann gangstígar og hann loks girtur. (595) Þaðan var þó stutt í sóðaskapinn, því Þjóðólfur segir frá því þetta sama ár, um leið og kvartað er yfir bágu ástandi kirkjuhússins, að það særi tilfinningu hvers þess manns, sem vill, að Guðs musteri sé haldið sem þokkalegustu "að sjá þann óþverra, sem menn eins og gjöra sér að skyldu að safna rjett fyrir framan kirkjudyrnar. Rjett fram undan dyrunum, skammt frá tjörninni, hefur einhver látið bera heilmikið af ösku; rjett hjá eru móhraukar, og svo kúamykja - þetta blasir á móti manni strax og maður kemur út úr kirkjunni, ekki að tala um rusl og óþverra, sem sjá má allstaðar í kringum hana. Þetta er ófyrirgefanlegt skeytingarleysi og bænum til minnkunar. Forstöðumaður kirkjunnar ætti þó að sjá um, að plátzinu í kringum hana væri haldið svo hreinlegu sem mögulegt væri."(596)

Austurvöllur var rammlega girtur allt fram á fjórða áratug aldarinnar og síðast með járngrindum miklum. Snemma skapaðist sá siður, að lúðrasveitir bæjarins nýttu völlinn til að leika fyrir bæjarbúa. Þetta var lengi gert, t.d. er fólk kom frá messu á páskadagsmorgun. En lúðrasveitamönnum varð ekki alltaf auðgengt inn á svæðið. Morgunblaðið birti í október 1921 skoplega frásögn af því, er hljóðfæraleikarar hornaflokkanna Hörpu og Gígju, sem komu að vellinum læstum, urðu að klifra yfir grindurnar og hætta þannig limum sínum og fatnaði. Síðan segir blaðið: "Hugsanlegt er . . . að nauðsyn geti verið á að loka þessum helgidómi (!) fyrir öllu lifandi, svo að ekki verði raskað friði þeim, sem þar á ef til vill að ríkja. En sé það á annað borð leyfilegt fyrir hljóðfæramennina að klifra þarna yfir grindurnar til að skemmta fólki, væri miklu viðkunnanlegra að láta hvorn flokkinn fyrir sig hafa lykil að vellinum, svo að þeir geti gengið þar inn eins og frjálsir menn."(597)

 Á leitarvefsíðu ljósmyndasafns Reykjavíkur má finna margar sögulegar ljósmyndir frá Austurvelli (slá inn leitarorðið Austurvöllur) sem sýna hvernig þar var umhorfs.

austurstraeti16-20-um1900-sigfus-eymundsson
Hér er mynd frá 1900 af hestum í miðbænum.

austurvollur-1920til1930-styttan-thorvaldsen
Hérna er mynd frá 1920-30 sem sýnir rimlagirðinguna sem var utan um völlinn.

Mig minnir að ég hafi einhvers staðar lesið að karakúlféð hafi verið geymt á Austurvelli fyrst eftir að það var flutt til landsins.  

Hvar skyldi styttan eftir Bertil Thorvaldsen vera núna, þessi sem stóð á Austurvelli?

Það virðist hafa verið á tímabili járngrindverk í kringum styttuna og síðan á öðru tímabili járngrindverk í kringum Austurvöll. 

austurvollur-1913ö15-bertil-thorvaldsen-stytta


Er búið að leigja Austurvöll?

austurvollur-bjor1Það eru nokkrir helgistaðir á Íslandi. Meðal þeirra eru Þingvellir, Esjan og Austurvöllur.  Það gerist allt á Austurvelli, það er miðdepill Íslands á þessari torfu þarna í miðbænum milli hafnarinnar og tjarnarinnar og  þar mætir fólk til að baula og púa á ríkisstjórnina eða mótmæla því sem þarf að mótmæla hverju sinni, þar spóka Íslendingar sig á sólardögum og sjálfur Jón forseti  er heiðraður þar árlega á sautjándanum(hér hrópum við ferfalt herra á þessu bloggi húrra,húrra, húrra, húrraGrin) og svo er kveikt þar á Oslójólatrénu fyrir öll litlu börnin í desember.  

Af því að Austurvöllur er svona heilagur og máttugur staður þá finnst mér dáldið slæmt ef það er búið  að leigja plássið  þarna undir einhverjar afar hávaðasamar bjórauglýsingar. 

Ég fór á Austurvöll í gær síðdegis með dóttur minni og litlu systurdætrum mínum og ætluðum við að setjast þar á kaffihús og njóta veðurblíðunnar. En þá var þar hvergi líft fyrir ferlegum hávaða en einhverjir menn  sem ég gat ekki betur séð að væru á vegum bjórframleiðanda voru að spila þar músík úr gjallarhorni sem þrumaði yfir allt nágrennið og höfðu stillt upp einhverjum risastórum bjórauglýsingum.  Reitingur af fólki sat á grasinu í kringum þá og reykti og drakk bjór eða annað áfengi úr dollum og flöskum. 

Er þetta viðeigandi "skemmtan" um miðjan dag á Austurvelli? Ég hörfaði undan með börnin og ég veit um nokkuð marga fullorðna og börn sem hættu við að fá sér að borða eða drekka kaffi á veitingahúsunum kringum Austurvöll.  Hvað borgar þessi bjórframleiðandi/bjórseljandi mikið fyrir auglýsingarnar og  aðstöðuna þarna á Austurvelli og fyrir að taka yfir grasflötina í miðbænum og hrekja fjölskyldufólk og fólk sem vill njóta miðbæjarins í næði  í burtu? Er skynsamlegt að að breyta Austurvelli svona í leikvang fyrir bjórframleiðendur og bjórsala til að kynna vörur sínar? Eða er þetta bara tímanna tákn, er miðdepill Íslands svona í dag og sýnir þetta hverjir ráða og hverjum bjallan glymur í íslensku samfélagi?  

hér fyrir ofan eru myndir sem ég tók á Austurvelli í gær og hér er 30 sekúndu vídeó af því sem fram fór. Ég tek fram að tónlistin var miklu háværari en virkar á vídeóinu, það heyrðist ekki mannsins mál fyrir hávaða í tónlistinni.


 
Það er áhugavert að skoða lögreglusamþykkt Reykjavíkur og spá í hvað almennir borgarar geta gert ef það sem gerist á almannafæri stuðar þá. Hér eru nokkur ákvæði:

 Samkvæmt lögreglusamþykktinni mega menn ekki  þyrpast  saman, ef það truflar umferð eða veldur vegfarendum öðrum óþægindum. Lögreglustjóri getur bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar á eða við almannafæri, ef ástæða er til að ætla að hún valdi ónæði eða truflun. Lögreglan getur vísað þeim mönnum í burtu af almannafæri, sem vegna ölvunar eða annarar háttsemi sinnar valda vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði eða hættu.Þá er óheimilt að koma fyrir auglýsingaskilti á almannafæri nema með leyfi borgaryfirvalda.Borgarstjórn er heimilt að banna neyslu áfengis á tilteknum tímum á tilteknum svæðum borgarinnar. Slíka samþykkt skal tilkynna lögreglustjóra og birta almenningi.

Borgarstjórn getur sett sérstakar reglur um umgengni í skemmtigörðum, kirkjugörðum, leikvöllum og öðrum slíkum svæðum, enda séu reglurnar festar upp við innganginn eða á öðrum áberandi stað.

Ég velti fyrir mér hvort borgarstjórn hafi sett einhverjar reglur og hvort þessi uppákoma í gær hafi verið með velþóknan og blessun borgarstjórnar. Ég hef verið mjög ánægð með hve harður Vilhjálmur borgarstjóri er í afstöðu á móti spilavítum og vona að hann og aðrir í borgarstjórn vilji beita sér fyrir betri áfengismenningu og minni drykkju í Reykjavík.


Áfram kristmenn, krossmenn

Hvaða liði heldur Jesús með í írak? Er hann kannski  í fjöllunum í Írak og veifar ameríska fánanum eins og ameríski söngvarinn syngur um í þessu lagi:


Teiknarinn Ward Sutton dregur dár að amerískri stjórnsýslu og stríðsrekstri

schlockDec25top




Ólukkupunktar

friday13thÍ dag er föstudagurinn 13.  Dagur sem er eftirlæti hryllingsmyndahöfunda og tengdur ýmis konar hjátrú og hindurvitnum. Ekki að ég trúi neitt á það að 13 sé eitthvað sérstök óhappatala, sei, sei, nei. Ég að vísu í gamla daga í frystihúsinu í Grindavík með strák sem hafði misst framan af tveimur fingrum. Hann var bara nokkur góður í að nota þessa fingurstubba svo ég pældi ekkert í því og hætti að taka eftir þessu.  En svo var það í einni puttaleitinni í frystihúsinu - það kom öðru hverju fyrir að bjallan hringi og við hættum allar að leita að ormum í þorskinum og fórum að leita að puttum sem strákarnir á vélunum höfðu misst. Það var víst hægt að græða þá á ef þeir fundust nógu snemma.  En sem sagt í einni puttaleitinni þá spyr ég strákinn að því hvernig hann missti sína putta og hvort ekki hafi verið hægt að græða þá á. Hann sagðist hafa unnið í sápugerð, það var framleiðsla á sérstakri sótthreinsunarsápu og lent í vélinni sem stimplaði vörumerkið á hvert sápustykki, stimplaði það á báða puttana sem hann missti. Sápugerðin hét 13 13.

Annars skrifa ég þetta blogg til að varpa fram hugmynd sem gæti bjargað mannslífum. Það er að merkja sérstaklega með skilti alla staði á þjóðvegum Íslands það sem slys eða árekstrar hafa orðið. Þetta hef ég séð gert í Noregi og þar merkir orðið ulykke sama og slys svo skiltin þar segja að þar sé slysastaður en ég les það alltaf sem ólukkupunktur - einhver staður þar sem ógæfa safnast í. Það er mjög sniðug leið sem hefur verið notuð í ævintýrum í þúsundir ára að búa til sögur sem vara fólk við hættum, sérstaklega börn. Sögurnar um tröllin undir brúnni eru hugsanlega sögur til að vara fólk við að fara yfir brýr, það þarf sérstaka aðgát þar.

Það er sennilega besta leiðin til að minna ökumenn á hve stutt bil er á milli lífs og dauða og á hvaða staðir eru hættulegir að setja upp merki sem sýna hætturnar, hvað hafa margir dáið eða slasast þarna, hvaða staðir eru svartir blettir og ólukkupunktar. Sumir af þessum stöðum eru einmitt þannig fyrir tilverkan mannanna, það eru krappar beygjur, blind horn og sérstaklega einbreiðar brýr.  Einn af hættulegustu vegum landsins er vegurinn um Óshlíðina til Bolungarvíkur, þar hafa mörg slys orðið. Á leiðinni eru krossar þar sem fólk hefur látið lífið og þar eru alltaf blóm til minningar um ástvin sem lést. Ég hugsa að þessi tákn eigi sinn þátt í að fækka sumum slysum á þessari leið, auðvitað ekki slysum af orsökum sem mennirnir ráða ekki við svo sem snjóflóðum. En ég hugsa að þessi minningatákn um þá sem hafa látið lífið á þessari leið fái ökumenn til að hugsa um hve hættuleg þessi leið er og að hafa meiri vara á sér.

Ég held að þessar hryllingsmyndaauglýsingar frá umferðaryfirvöldum séu ekki alveg að skila sér, sjónvarpsauglýsingarnar um ungmennin sem eru öll látin í bílnum. Ég held að hryllingsmyndamentalitet hafi ekki mikil áhrif á ungmenni á Íslandi í dag, þau eru umvafin slíku efni  í ýmis konar formi, efni sem er miklu, miklu óhugnanlegra en auglýsingar umferðarráðs. Ég held að raunalegar sögur af raunverulegum atburðum sem hafi átt sér stað og sögur með yfirnáttúrulegu ívafi um ólukkupunkta í vegakerfinu geti skilað sama árangri. Sennilega verður mikil ferðahelgi á Íslandi núna. Vonandi verða engin alvarleg umferðarslys. 


Götukubbar

006Ég sá þessa götutálma á götu í Brighton í gærkvöldi. Þeir voru fylltir af vökva. Þetta er sniðug hugmynd til að reisa veggi og götutálma. Kubbarnir eru léttir tómir og auðflytjanlegir. Svo eru þeir væntanlega fylltir af vatni  og þá eru þeir þungir og stöðugir. 

Þetta er sniðug hugmynd í ýmis konar leiktæki fyrir krakka. Ef til vill er hægt að búa til nútíma snjóhús með svona kubbum ef þeir væru úr efni sem þendist út.

Hér  er legókubba-klakamót fyrir þá sem vilja búa til legóklaka til að byggja úr. Það er líka hægt að búa til ískastalar úr ýmis konar plastílátum.


Við ströndina í Brighton og sól í Brekkuskógi

Ég er núna í strandbænum Brighton í Suður Englandi. Það er fallegt sjávarútsýni úr herberginu hér á hótelinu og hér er þráðlaust Internetsamband.

 

Hvað getur maður beðið um meira. Jú, kannski væri ágætt ef hér væri sama blíðan og í Brekkuskógi í fyrradag, hér er miklu kaldara en var í Reykjavík. Enda náttúrulega ekki eftir neinu að slægjast að yfirgefa Ísland yfir hásumarið, þá er það dýrlegasti staður á jarðríki. En ég er að fara á ráðstefnu hér í nágrenninu á morgun. Hér er myndband sem ég tók áðan út um gluggann á hótelinu á litlu stafrænu myndavélina mína. Það er ágætt að það sé bara gluggaveður, ég heng þá hér inni á Netinu eins og ég er vön. Það er samt tilbreyting að sjá ekki trén í Sigtúni heldur suðurströnd Englands. Ég fór með Kristínu Helgu og Hóffý á sunnudaginn að heimsækja systur mína og fjölskyldu í sumarbústað í Brekkuskógi. Hér held ég á Salvöru Sól. 032

Fleiri myndir úr heimsókn í Brekkuskóg má sjá hérna.


Hlustað á Live Earth á Netinu

Ég er núna að hlusta á beina útsendingu á Live Earth  tónleikunum á Netinu 

 

Mér finnst flott að alls staðar í heiminum sé fólk að gera það sama og helgi þennan dag tónlist og  íhugun um jörðina. Svona ritúalar styrkja samkenndina.  


mbl.is Live Earth tónleikarnir byrjaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sænska lögreglan gerir áhlaup á Pirate Bay

Víða um heim er hörð atlaga gerð að  tjáningarfrelsi á Netinu og frelsi manna til að miðla þar efni. Það er ekki mikil samúð í samfélaginu með svoleiðis atlögum ef þær eru gerðar fyrir atbeina höfundarrétthafa eða ríkisstjórna sem vilja halda þegnunum í helgreipum einnar hugmyndafræði og ekki leyfa gagnrýni eða umræðu. En alls staðar er mikil samúð með þeim sem sporna við barnaklámi og grófu klámefni og þetta notfæra aðilar sem vilja stöðva skráskiptisamfélög. Núna er Pirate Bay í eldlínunni í Svíþjóð. Ætli Víkingasveitin sé að undirbúa áhlaup á Torrent.is? 

Hér er grein sem birtist í sænskum dagblöðum í dag: Pirate Bay kan stoppas

Það verður sennilega mikill hasar út af þessu. Margir (flestir? ) netverjar líta á skráskiptidæmið sem athæfi í þágu almennings, iðju sem er að vísu oft ólögleg og/eða á gráu svæði - en jafnnauðsynlega fyrir flæði þekkingar í netheimum eins og svarti markaðurinn var í Ráðstjórnarríkjunum áður en þau liðuðust í sundur. Gamla kerfið sem við búum við varðandi miðlun efnis (leikreglur eins og höfundarréttarlög) er svo fúið og lúið að það gengur ekki á þessum umrótstímum.

En það verður fróðlegt að fylgjast með þessu. Svíar virðast hafa lokað fyrir aðgang þeirra sem tengjast frá Svíþjóð á Pirate Bay og bera fyrir sig barnaklám. 

Swedish Police About to Shut Down The Pirate Bay (again)

With their ongoing failure to find evidence in The Pirate Bay server seizure fiasco, the Swedish Police now seem to be resorting to any methods they can to disrupt the activities of the popular torrent site. Their latest effort appears to be an attempt to block access to the site, at least by Swedish nationals, through putting the site on a child pornography blocklist

Eina viturlega í stöðunni fyrir þá sem vilja reka og miðla efni á svona skrádeilikerfum er að taka mið af almenningsálitinu og ritskoða sig sjálfa og gera útrækt allt efni sem vekur viðbjóð almennings. Það er lífsnauðsyn fyrir svona samfélög að hafa almenningsálitið með sér. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband