Röð ríka fólksins - einkavædd löggæsla á flugvöllum

Það er í meira lagi undarlegt að ríkt fólk á saga class skuli geta farið í sérstaka hraðferð í gegnum vopnaleit og öryggiseftirlit. það kom fram hjá sýslumanninum í Keflavík að þessi hraðafgreiðsla væri bundin sérstakri fjárveitingu til þessa og get ég ekki skilið orð hans öðruvísi en svo að flugfélögin borgi fyrir sérafgreiðslu fyrir  þá viðskiptavini sína sem eru á forréttindafarrými.  Er eðlilegt að löggæsla og eftirlit opinberra aðila sé svona mismunandi eftir efnahag? Það er mjög niðurlægjandi að þurfa að fara í gegnum það öryggiseftirlit sem nú er á flugvöllum og get ég vel skilið að allir vilji gera það sem einfaldast og fjótlegast. Ég var fyrir nokkrum dögum að koma frá útlöndum og ég kom í gegnum Heathrow flugvöllinn og jafnvel þó það hafi gengið tiltölulega hratt þá er þetta óhemjuleiðinlegt og niðurlægjandi, alltaf einhverjar nýjar reglur (núna var bannað að fara með nema einn hlut í handfarangri) og fólki velt til og frá eins og sauðum sem leiddir eru til slátrunar. Ég hugleiddi á meðan ég beið í röðinni hvort maður ætti að láta bjóða sér þetta, hvort maður ætti ekki að haga ferðum sínum þannig í framtíðinni að fara bara til staða þar sem maður er ekki niðurlægður og rekinn til og frá og einhverju lögregluríki sem verður ömurlegra og lítur á mann sem hugsanlegan hryðjuverkamann. Mér finnst alltaf meira og og meira þegar ég fer í gegnum flugvelli eins og ég búi í ríki sem er eins og ráðstjórnarríkin gömlu, eftirlitsþjóðfélagi sem lítur á þegnanna sem sínu verstu óvini og sýnir þeim lítilsvirðingu.  Það er samt erfitt að takmarka ferðalög við staði þar sem ferðalangar mæta kurteisi, það er alls staðar þessar krumlur eftirlitssamfélagsins á flugvöllum. En hingað til hef ég þó haldið að það sama gilti fyrir alla sem ferðast á sams konar pappírum, þ.e. þegnar Evrópusambandsins og samstarfsþjóða þess. Ég hélt reyndar að þetta væri nú einmitt einn af kostunum við Evrópusambandið - að það stæði til að gera flæði milli landamæra einfaldari. Núna finnst mér alltaf meira og meira að það hafi verið blekking, þetta bandalag og þessir milliríkjasamningar snúist bara um að gera flæði peninga einfaldara og kannski líka flæði fólks ef það þarf að ferja það eitthvað á milli á vegum starfsmannaleiga til að skapa meiri peninga. Ég held líka að þessi hrakningur á fólki til og frá á flugvöllum þar sem maður þarf að veifa vegabréfi, fara úr skónum og afhjúpa handfarangur sé alveg gagnlaus, það voru menn vopnaðir plasthnífum sem stóðu að 11. september hryðjuverkunum og það verður eitthvað annars konar óvænt aðferð notuð við hryðjuverk í framtíðinni. Það má nú kannski líka benda á að hryðjuverkamennirnir 11. september ferðuðust á 1. farrými. Ég veit ekki hvort þeir fóru í gegnum einhverja hraðleit út af því.

Ég er eiginlega alltaf soldið beisk út í stjórnvöld í langan tíma eftir að ég hef farið í gegnum öryggiseftirlit á flugvöllum. Ég hugleiði þá alltaf að ganga til liðs við attac hreyfinguna og berjast fyrir frelsi fólks til að ferðast en berjast á móti óheftu og algjörlega eftirlitslausu flæði peninga. Núna þegar heilu byggðalögin eru lögð niður á Íslandi vegna þess að eignafólkið selur veiðiréttindin sín á íslensku fiskimiðunum (þið munið þessi fiskimið sem stendur í lögum að séu sameign þjóðarinnar) þá finnst mér ennþá meira varða að skoða þetta.

Ég verð ennþá beiskari og pirraðri ef Ísland er orðið þannig vettvangur auðmanna að þeir fá sérafgreiðslu á vegum löggæslu og opinberra eftirlitsaðila á flugvöllum.  Ég held að ef svona er látið viðgangast þó muni þetta bara vinda upp á sig og fleiri forréttindi koma til. Mér fannst gott að heyra að Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra finnst þetta líka einkennilegt og ég vona að hann vinni í þessu máli.

Talandi aftur um saga class, flestir Íslendingar sem ferðast á saga class eru að ferðast á vegum vinnu sinnar. Það er svo sem ekkert við því að segja þó að einkafyrirtæki vilji borga miklu meira fyrir sína starfsmenn en það er stórundarlegt að opinberir starfsmenn séu að ferðast á saga class. Það er mikið úrval og harðnandi samkeppni í flugferðum og það er engin ástæða fyrir okkur skattborgara að borga mörgum sinnum hærra fyrir flugferðir erinddreka okkar. Þeir geta bara ferðast á almennu farrými eins og við hin. 

Það er reyndar ekkert að því að fólk kaupi þjónustu í flugvélum og á flugvöllum sem er skraddarasaumuð að þörfum þess t.d.  fólk sem er mjög hávaxið eða leggjalangt kaupi sérstök þægilegri sæti í flugvélum og fólk sem þarf að bíða lengi eftir tengiflugi kaupi aðgang að setustofu, hvildarherbergi og nettengingu á meðan það bíður. En þessi snobb og forréttindahugsun sem Saga Class gengur út  þar sem forréttindastéttin á aldrei að blandast saman við almeninng er alveg á skjön við það samfélag sem ég vil lifa í. Sagan geymir allt of mörg ömurleg dæmi um svona aðskilnaðarstefnu, stundum eftir uppruna eða litarhætti, stundum eftir kynferði og stundum eftir efnahag. Á hverju ári þá held ég þann fyrsta desember upp á dag Rósu Parks sem neitaði að sitja á sérstökum stað í strætisvagni, hún var uppi á tíma þar sem eðlilegt þótti að í samgöngutækjum væri hinir þeldökku sem líka voru nú alltaf þeir fátæku mættu ekki sitja nema á ákveðnum stöðum í vagninum. Sums staðar á Indlandi er hinir lægst settu kallaðir hinir ósnertanlegu og forréttindastéttin má ekki til þess hugsa að hafa samneyti við þá, hinir ósnertanlegu mega ekki einu sinni drekka vatn úr sama brunni og forréttindastéttir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Hef verið að velta fyrir mér hvort þessi sérafgreiðsla sumra við öryggisleit sé ekki einfaldlega brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar? eiga ekki allir að vera jafnir fyrir lögum og þeim sem fara með vald í nafni laganna?

Eins er líka athyglisvert ef einkafyrirtæki getur keypt sér forréttindi af stjórnsýslunni. Myndi það ekki vera kallað "mútur" á mannamáli?

Viðar Eggertsson, 16.7.2007 kl. 23:42

2 Smámynd: B Ewing

Ekki gleyma öllu ríka fólkinu em ferðast með Iceland Express.

Sjá: http://www.icelandexpress.is/is/um_okkur/bloggid/?cat_id=209&ew_0_a_id=1050

B Ewing, 17.7.2007 kl. 08:32

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Viðar, ég held að þessi sérafgreiðsla sé brot á jafnræðisreglu. Dómsmálaráðherra virðist líka telja að svo geti verið, hann lætur væntanlega rannsaka það. Og mér finnst afar stutt bil á milli mútugreiðsla og þess að  fólk í forréttindastöðu geti keypt sig í einhverja sérafgreiðslu í óþægilegum eftirlitsmálum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.7.2007 kl. 11:41

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Dharma, ég ráðlegg þér skoða málefni og taka afstöðu án þess að gera fólki upp skoðanir. Hlustaðu á það sem ég segi, tíma þínum er betur varið til þess heldur en ryðja út úr þér ókvæðisorðum og kalla þá sem þér hugnast ekki öfundsjúkar kommúnistasmásálir.  Til þess höfum við málið að reyna að koma vitinu hvert fyrir annað, það er barnalegt og þjónar engum tilgangi að ausa ókvæðisorðum á annað fólk.

Það er mikið að því að fólk sem hefur borgað meira verð fyrir flugmiðann sinn fái sérstaka afgreiðslu í niðurlægjandi öryggiseftirliti og löggæslu. Það er mikið að því að fólk sé sorterar í mismunandi flokka af stjórnvöldum og fái mismunandi afgreiðslu, sérstaklega við svona íþyngjandi atriði eins og að gangast undir niðurlægjandi vopnaleit. Þessi vopnaleit er á vegum einhvers konar opinberra aðila (að mér skilst) og ég veit ekki til að það sé nein heimild í lögum fyrir svona mismunun. Þvert á móti er þá brýtur þessi regla á stjórnarskránni en 65 ákvæði hennar er svohljóðandi: " Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."

Það er vægast sagt alvarlegt ef brotið er á stjórnarskrárvörðum rétti fólks með þessari mismunun í vopnaeftirliti. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.7.2007 kl. 12:02

5 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Mér finnst ekkert að því að þeir sem vilja borga umfram aðra, fái þjónustu í samræmi við það. Hitt er annað að mér finnst ekki eðlilegt að einungis auðkýfingar geti notað Reykjavíkurflugvöll ásamt grænlendingum og færeyingum sem millilandaflugvöll.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 17.7.2007 kl. 13:47

6 Smámynd: Viðar Eggertsson

Það er merkilegt að þeir sem halda hér uppi vörnum fyrir mismunun þegnanna með peningagreiðslum, varðandi löggæslu í landinu, skrifa undir dulnefnum! Það vekur upp spurningar um hvort hér séu sérgæslumenn flugfélaganna að störfum.

Afhverju kemur fólk ekki fram undir fullu nafni og stendur við orð sín, í stað þess að vega fólk og skoðanir grímuklætt?

Viðar Eggertsson, 17.7.2007 kl. 16:06

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Mikið rosalega þykir mér þessar athugasemdafærslur frá Dhörmu ósmekklegar. Geturðu ekki sett fram gagnrýni á blogg án þess að vera með skítkast og árásir á fólk og flokka? Af hverju ertu að ráðast á VG? Hafa þeir eitthvað verið að segja um þetta? Þér er alveg leyfilegt að vera ósammála Salvöru og þér er meira að segja leyfilegt að setja út á það sem hún segir, en reyndu nú að gera það á kurteisan og uppbyggilegan hátt. Og skrifaðu svo undir nafni. Það er ekki spurning að dónalegasta fólkið á vefnum skrifar alltaf undir dulnefni því það þorir ekki að standa undir eigin skriftum. Og hananú.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 18.7.2007 kl. 00:49

8 Smámynd: Heimir Tómasson

Nú hef ég ferðast umtalsvert vinnu minnar vegna. Vinnu minnar vegna er ég núna fluttur til USA þar sem vopnaleit og "niðurlæging" eins og sumir vilja kalla það á sér engan sinn líka. Ég ferðast ýmist á Saga class eða almennu farrými og ég get sagt það að það er nákvæmlega enginn munur á þessum tveimur röðum, nema sá að önnur er styttri! Þar sem að ég var á tímabili í flugvél jafnvel á hverjum degi vikunnar þá verð ég að viðurkenna það að mér fannst oft þægilegra að geta farið í styttri röð og flýtt mér í gott sæti og slakað á. Ég lendi oft í nokkrum flugferðum sem samtals geta verið á milli 20-30 tímar. Er ekki í lagi að við fáum að fara aðeins hraðar yfir? Og borgum fyrir? Það er ekki eins og við fáum að fara með sprengju um borð.

 Og áður en menn fara að röfla yfir nafnleysi, þá heiti ég Heimir Tómasson og var tæknimaður hjá Marel.

Heimir Tómasson, 18.7.2007 kl. 05:00

9 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Kæri/a Dharma. Ef þú heldur að þetta sé að vera í fýlu þá hefurðu nú ekki séð almennilega fýlu fyrr. Ég get verið miklu skapverri. Mér finnst bara að þú mættir sýna fólki svolitla kurteisi þótt þú sért ekki sammála þeim. Mér finnst það dónaskapur að setja athugasemd á blogg annarrar manneskju þar sem þú segir þeim að skoðanir þeirra séu vitleysa. Þú getur verið ósammála og ef þú vilt benda á það þá geturðu gert það á fallegan og kurteisan hátt, en annars er best að skammast bara í hljóði og loka blogginu. Það geri ég oft þegar skoðanir annarra pirra mig. Vildi að ég hefði gert það núna. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.7.2007 kl. 03:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband