Rödd óbreytta Framsóknarmannsins

Ég fylgist svona í fjarlægð og gegnum fjölmiðla með stjórnarmyndunarviðræðum og nú þegar Framsóknarmaddaman dansar ekki við Geir þá spái ég í hverjir verða ráðskonur í nýrri ríkisstjórn. Ég er líka dottin í að skoða alls konar skrýtin mynstur í hverjir verða í stjórn og hverjir í stjórnarandstöðu. Hefur fólk tekið eftir að allir leiðtogar stjórnarandstöðunnar eru fúlskeggjaðir? Grin Það verður gaman að sjá hvernig skopmyndateiknarar lýsa stjórnarandstöðunni og teikna þá Jón, Steingrím og Guðjón. 

Hér er myndin  sem Halldór skopmyndateiknari teiknaði árið 2006 af Ingibjörgu Sólrúnu í stefnumótaþjónustunni, sjá bloggið hans Styggir vonbiðlar.

 

 

Annars skrifaði ég eftirfarandi bréf áðan inn á innanhússpóstlista Framsóknarmanna:

Ágætu framsóknarmenn,

Ég kalla aftur eftir einhverjum fréttaflutningi og umræðu forustunnar og þingmanna í Framsóknarflokknum við okkur óbreytta Framsóknarmenn. Ég hef verið að skoða vefsetur Framsóknar í Reykjavík www.hrifla.is og vefsetur framsóknarflokksins www.framsokn.is og ég hef ekkert séð sem túlka má sem fréttaflutning til grasrótarinnar í flokknum nema fréttina tvöfeldni í viðræðum.

Allir fjölmiðlar eru núna uppfullir af fréttum og analýsum um Framsókn og ég hlustaði í gær bæði á Siv í Ísland í dag og Björn Inga í Kastljósi þar sem þau lýstu fullum stuðning á formann okkar. En mér finnst afleitt að fréttaflutningur og boðskipti til okkar óbreyttra Framsóknarmanna fari eingöngu fram í fjölmiðlum - af hverju er þá verið að hafa allan þennan félagastrúktúr og stjórn í kringum stjórnmálaflokk ef  það eru engin tengsl við almenna félagsmenn?

Ég segi þetta líka vegna þess að það eru núna að birtast í fjölmiðlum og netmiðlum alls konar fréttir um hinar ýmsu ákvarðanir og plott innanbúðar í Framsóknarflokknum og gert lítið úr Jóni Sigurðssyni og ráðist m.a. á Björn Inga og hann sagður hafa hannað einhverja atburðarás. Þetta er mjög ómaklegt tal og mér myndi verða rórra sem óbreyttum Framsóknarmanni að vita af því að forusta og þingflokkur ætli að vinna í sameiningu úr þeirri stöðu sem núna er komin upp og sjá þau tækifæri sem liggja í stöðunni - tækifæri til að endurskoða og byggja upp öflugan flokk samvinnu og félagshyggju - ekki síst að byggja upp flokksstarfið sem hugsanlega er með blóma í hinum ýmsu Framsóknarfélögum en í Reykjavík Norður þar sem ég hef fylgst með því þá stendur yfir ömurlegt niðurlægingarskeið og hefur stjórn og starfsemi þess félags verið með eindæmum undanfarin ár, ég hef aldrei, aldrei kynnst því að félag sem kennir sig við lýðræðishreyfingu starfi svona og reyni  vísvitandi að drepa niður allt starf.

Það er mikið verk óunnið varðandi það að byggja upp og sætta sjónarmið innan Framsóknarflokksins. Á þeim tíma sem Jón Sigurðsson  hefur verið formaður hefur hann verið í vandasömu starfi iðnaðarráðherra og leitt kosningabaráttu okkar og staðið sig afbragðsvel og aukið mjög á tiltrú á Framsóknarflokknum. Ég hef hins vegar ekki orðið vör við að neitt hafi breyst í innra starfi Framsóknarflokksins enda átti ég ekki von á því að Jón Sigurðsson gæti einbeitt sér að þeim málum fyrr en eftir kosningar og ég bind miklar vonir við Jón Sigurðsson þar.

Ég tek undir með Birni Inga og segi að Jón Sigurðsson hefur 100% stuðning okkar Framsóknarmanna, hann hefur staðið sig eindæma vel á erfiðum tíma hjá Framsóknarflokknum en hann hefur ekki haft þann tíma sem þarf til að byggja upp traust kjósenda og til að sætta fólk og endurskipuleggja innra starfið.

Það var afar dapurlegt hvernig þessar kosningar fóru á höfuðborgarsvæðinu en það er svo sannarlega ekki Jóni Sigurðssyni að kenna. Þetta er sama niðurstaðan og í borgarstjórnarkosningunum fyrir ári síðan. Framsókn er ekki með nema 6% fylgi í Reykjavík, það er eins gott að horfast í augu við það og kryfja hvers vegna og hvað er hægt að gera til að auka fylgið og tiltrú á Framsóknarflokkinn í framtíðinni.

Ég vil reyndar færa öllu því fólki sem stóð í kosningabaráttunni þakkir, mér fannst allt starf til fyrirmyndar þar og málefnaleg og góð kosningabarátta og það mæddi mikið á öllu okkar fólki sem og bæði Siv, Jónína og Guðjón Ólafur urðu fyrir svæsnum og ómaklegum árásum fjölmiðla síðustu daga fyrir kosningar, sérstaklega hjá DV og árásin á Jónínu var ennþá heiftarlegri því hún var líka í RÚV. Ég get ekki séð þessar árásir öðruvísi en sem vísvitandi plott til að knésetja Framsókn hér á höfuðborgarsvæðinu sem mest og vil jafna þeim við hina ósmekklegu árás og heilsíðuauglýsingu Jóhannesar í Bónus á Björn Bjarnason. Það var þó miklu heiðarlegri árás því þar var ákveðin persóna skrifuð fyrir þeirri árás og það kom skýrt fram að þetta var borguð auglýsing og var kom skýrt fram hvers vegna hún var birt.

Allt skipulag kosningabaráttunnar og kosningastjórn sem ég fylgdist með hér í Reykjavík og Kópavogi  var einstaklega gott, ég kom á nokkra viðburði og fylgdist með starfinu og þar var mikið um að vera og vefir, útsendingar og dreifirit og auglýsingar áberandi og vel unnið, kosningabarátta Framsóknarflokksins fór ekki fram hjá neinum,  slagorðið um græna kallinn var gott og grípandi og slagorðið Árangur áfram - ekkert stopp kunna allir. 

Svo hefur Framsókn verið í ríkisstjórn á miklum góðæristíma á Íslandi. Hinn ríkisstjórnarflokkurinn vinnur á. Hvers vegna í ósköpunum tapar Framsókn fylgi og hrapar sérstaklega niður hérna á höfuðborgarsvæðinu?  Ég held að Framsóknarmenn verði að ræða það af hreinskilni, það er ekki hægt að skipta úr tapi í sigur einhvern tíma í framtíðinni nema skilgreina hvers vegna tapið var og horfast í augu við að það var ekki alltaf skynsamlega staðið að málum og spilað úr stöðunni af hálfu Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili.

Það er sennilega gæfuríkara spor til að breyta ósigri í sigur seinna að skoða hvað gerðist fremur en eyða orkunni í að uppnefna andstæðinganna með einhverju Baugstjórnartali. Ég vona líka að Framsóknarmenn haldi áfram að vera siðprúðir og varir í orðum og tala málefnalega og af virðingu við og um andstæðinga sína.  Það er alveg hægt að gera það en draga samt athygli að því sem þeir gera miður vel.


Bestu kveðjur
Salvör Gissurardóttir
----------------------------------------------------------------------
Meðfylgjandi er frétt sem er núna á mannlif.is, sjá hérna:
http://www.mannlif.is/ordromur/nr/623

Jón Sigurðsson afskrifaður

19 maí 2007

Mogginn afskrifar Jón Sigurðsson sem formann Framsóknarflokksins í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur í dag. Agnes er þekkt fyrir fremur ódýra fréttamennsku en hittir líklega naglann á höfuðið þegar hún spáir logandi innaflokksátökum í Framsóknarflokknum þar sem Guðni Ágústsson muni berjast til formennsku við Siv Friðleifsdóttur. Örlög Jóns Sigurðssonar eru þau að vera utanþings og áhrifalaus eftir að kjósendur höfnuðu honum. Össur Skarphéðinsson líkir klaufaskap´Jóns í eftirleik kosninganna við mistök Jóns Baldvins Hannibalssonar þegar Alþýðuflokkurinn hrökklaðist út úr Viðeyjarstjórninni:  ,,Jón Sigurðsson gerði sömu mistökin og Jón Baldvin Hannibalsson 1995. Hann átti kost á því strax í lok kosninganna að draga Framsókn út úr ríkisstjórn. Þá hefði umboð til stjórnarmyndunar að öllum líkindum farið til Samfylkingarinnar ...".

En annað er athyglisvert í fréttaskýringu Moggans. Aðalhönnuður atburðarrásarinnar innan Framsóknarflokksins og sá sem plottaði ´flokkinn í stjórnarandstöðu er Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi blaðamaður Moggans,  er ekki nefndur. Á því kunnu að vera þær skýringar að hann sé sá sem leggur til púðrið í grein Agnesar vinkonu sinnar. Enginn vafi er á því að Björn Ingi er verðugur framtíðarformaður flokksins en til þess að það gangi smurt fyrir sig þarf hann að tryggja rétta atburðarás. Þar hentar ágætlega að láta Guðna og Siv berjast en koma síðan sem frelsari og höggva á hnútiinn. Þar er Mogginn góður farvegur og gott tæki ...
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

siðgæði og siðferði fólksins í Jónínuhneykslinu er mjög ábatavant, það verður bara að horfast í augu við það - annars vex vandinn. Þið framsóknarmenn getið ekki horft undan því að Jónína er mjög skaðleg flokknum, hún er greinilega ekki góð kona og sýndi það og sannaði í útsendingu Kastljóssins. Því verður aldrei gleymt hvað hún leyndi mikið á sér og var í raun undirförul og hræðileg!!!! Aldrei hefur maður séð annan eins dónaskap í fréttaþætti, hún minnti mig á dreka. Og ég er ekki að reyna að rakka hana niður, heldur bara að segja hvernig ég upplifði þetta. Það var hræðilega erfitt að sjá hana svona! Það skipti ekki máli í hvaða flokki manneskjan var. Það er ekki árás að segja að hún og félagarnir í hneykslinu hafi hegðað sér með ólíkindum. Það á ekki að breiða yfir illskuna og hjálpa henni að grassera - ekki hjá neinum. En það getur verið erfitt að fara ekki í manngreinarálit. Ég er svo fegin að tilheyra engum flokki, þá minnka líkurnar á því verulega... Annars bara góðar kveðjur Salvör, ég fíla bloggið þitt alltaf.

halkatla, 19.5.2007 kl. 17:14

2 identicon

Framsóknarflokkurinn lifir nú á landsbyggðinni. 4 af 7 þingmönnum koma úr Norðurlandi vestra og N.landi eystra. Ég kem ekki auga á það að það sé þörf á flokki eins og Framskóknarflokknum í framtíðinni. Það er í sjálfu sér nóg að hafa Sjálfstæðisflokkinn, hægri flokk og svo Samfylkinguna, jafnaðarmannaflokk og svo verður líklega alltaf einn flokkur í viðbót út á vinstir kanntinum, VG. Best væri þó að Samfylkingin og VG yfir einn flokkur í framtíðinni og pólarnir bara 2 í íslenskri pólitík. Sé enga þörf á Framsóknarflokknum, hvert ætti hlutverk hans annars að vera?

Brattur (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 21:06

3 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Brattur, - er það vegna þess að þú sérð fyrir þér að allir Íslendingar munu innan skamms vilja láta hola sér niður á suðvesturhorninu? 

Það er nú algjör draumur í dós eða hitt þá heldur fyrir fólk sem býr út á landi. 

Ég er sannfærð um að rödd Framsóknarflokksins um hljóma um ókomin ár, enda nauðsyn á smá skynsemi í þessari firringu sem virðist einkenna ansi marga í Íslandi í dag.

Eygló Þóra Harðardóttir, 20.5.2007 kl. 11:58

4 Smámynd: Kristján Pétursson

Sjálfstæðisfl.gerði heldur bragðlausa súpu út Framsóknarfl.sem kjósendum bauð við einkanlega á Stór-Reykjavíkursvæðinu.Salvör þú segir að Jón Sigurðsson hafi staðið sig frábærlega vel sem formaður og aukið mikið tiltrú á flokknum.Mér er þá spurn,hvers vegna Framsóknarfl.fékk svona sæma útreið og formaðurinn féll? Þetta verður þú að skýra betur fyrir flokksfélögum þínum,við sem stöndum utan Framsóknarfl. skiljum ekki svona skilgreiningar.

Kristján Pétursson, 20.5.2007 kl. 16:23

5 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Framsóknarflokkurinn er sem betur fer að þurkast út.

Það hefur verið alveg makalaust hvað siðgæðið hefur verið á lágu plani hjá þessu fólki.

Mér verður enn óglatt bara á því að sjá nafnið Jónína Bjartmarz.

Jens Sigurjónsson, 20.5.2007 kl. 17:35

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Kristján, Jón hefur staðið sig vel en það er ekki endilega samasem merki milli þess og að vera loddari sem sópar að sér fylgi vegna skjáþokka. Þegar ég á við að Jón hafi staðið sig vel þá á ég við að hann hafi hvarvetna komið fram af alvöru, verið upplýstur og lagt til skynsamlega hluti, verið heiðarlegur og grandvar í málflutningi og lagt áherslu á þau gildi sem Framsóknarflokkurinn stendur fyrir. Hann er ekki maður pólítískra plotta og leikfléttna og hann teflir engar refskákir, hann er maður sem nýtur trausts og hann er hugsjónamaður með fæturnar á jörðunni 

þetta höfðaði ekki hins vegar nógu mikið til kjósenda til að það næði að rétta við þá lægð sem Framsókn hefur verið í, lægð sem ég held að sé m.a. tilkomið vegna þess að í hugum margra kjósenda er Framsóknarflokkurinn holdgervingur spillingar. Jón Sigurðsson er andstæðan við það. En því verður ekki neitað að hann kemur inn á sjónarsviðið sem útleikur frá fyrrum formanni og hópum honum handgengnum og hann kemur til höfuðs öðrum  þ.e. Siv Friðleifsdóttur sem bauð sig fram á móti Jóni. Það muna margir og það sáu líka margir að ásýnd Framsóknarflokksins var núna ásýnd karlmanna og íhaldssamra gilda.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.5.2007 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband