Byggðamál, náttúruvernd

Einn af nýjum þingmönnum okkar Framsóknarmanna er Bjarni Harðarsson. Ég óska honum til hamingju með þingsætið. Það er alltaf gaman að lesa skarpa greiningu Bjarna á þjóðmálunum, ég held að hann skrifi mest í Sunnlenska fréttablaðið en sem betur fer er hann líka moggabloggari og vonandi fáum við að fylgjast með þjóðmálaskrifum hans hér á blogginu. Bjarni ætlar að leggja áherslu m.a. á byggðamál, umhverfismál og að við höldum fullveldi okkar. Varðandi byggðamálin þá er svo sannarlega af nógu að taka.

Ísland er borgríki, ætli það sé ekki yfir 80 % af fólkinu sem býr í innan 100 km radíus frá höfuðborgarsvæðinu. En Ísland er líka geysivíðfeðmt land þar sem er sérstæð og viðkvæm náttúra - ekki bara í sveitum og á láglendi heldur á hálendinu og við strendur og í úthöfunum. Vonandi verður hafsvæðið í Breiðafirði þjóðgarður eftir einhver ár.

Ég held að brýn byggðamál séu að auka hreyfanleika og átta sig á að samfélagið er að breytast og störfin þurfa ekki að vera staðsett á ákveðnum stað og fólk getur átt heimili á tveimur stöðum og það er alveg raunhæft að vera búsettur á einum stað á Íslandi og stunda vinnu í fyrirtæki sem staðsett er allt annars staðar. Ég þekki sjálf nokkra aðila sem vinna hjá erlendum fyrirtækjum sem eru með aðsetur í London eða Kaupmannahöfn og taka flugvélarnar út á morgnana og koma svo heim um kvöldið með flugvél svipað eins og við áður tókum strætó í vinnuna. Það er orðið fjölþjóðlegt umhverfi sem margir Íslendingar vinna í og það er vel hægt að stunda vinnu í einu landi en búa í öðru því margt sem áður þurfti að gera á ákveðnum stað er vel hægt að vinna í útibúum eða í fjarvinnslustöðvum á heimilum.

Það eru ekki góð byggðamál að búa til byggðakerfi sem er eins og átthagafjötrar og flytja störf til staða sem eru að fara í eyði - bara í þeim tilgangi að reyna að viðhalda byggðinni. Það verður bara gálgafrestur. Það ættu allir stjórnmálamenn að kynna sér hvernig reynt var að halda við byggð í Flatey í Breiðafirði og láta það verða sér víti til varnaðar. Það eru sumir staðir á Íslandi sem eru þannig að  búseta þar er ekki raunhæf nema hluta úr ári en er það endilega markmið í sjálfu sér að búa til eða viðhalda heilsársbyggð alls staðar.

það er raunhæf byggðastefna að reyna að fá störf - ekki síst opinber störf þannig að þau séu ekki bundin við búsetu á ákveðnum stað heldur geti fólk sem hefur aðgang að góðu netsambandi stundað þau störf hvar sem er.

Það er líka raunhæf byggðastefna að reyna að auka þekkingu og færni í samfélaginu og aðgengi að þekkingu og námi - bæði með háskóla- og þekkingarsetrum  og því að íbúar hafi greiða möguleika á því að tengjast við þekkingarsetur annars staðar á Íslandi og erlendis í gegnum tæknimiðla. 


mbl.is Bjarni Harðarson: „Fundum fyrir heilmiklum meðbyr"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband