Kúlusukk, Orkuveituhúsið og stefna Sjálfstæðisflokksins í orkumálum

Perlan í Reykjavík var svo dýr í byggingu að gárungarnir uppnefndu húsið og kölluðu Kúlusukk. Nýja orkuveituhúsið (ég hef aldrei verið svo fræg að koma inn í það hús) hneyklar víst marga með íburði. Bæði þessi hús eru byggð af stöndugu orkufyrirtæki sem malar gull fyrir Reykvíkinga. Það er líka í eigu Reykvíkinga og gróðinn af fyrirtækinu er notaður í þágu Reykvíkinga og þó við getum hneykslast á íburði í þessum húsakynnum þá skulum við samt hafa í huga að ef þessi orkufyrirtæki hefðu verið í einkaeigu þá værum við kannski núna að hneykslast á því að gróðinn af þeim hefði verið notaður til að kaupa lúxusíbúðir á Manhattan eða spilavíti í Mónakó.

Fyrirtæki í opinberri eigu geta vel verið vel rekin og það er okkar kjósenda og borgara í þessu landi að fylgjast með eigum okkar í orkufyrirtækjunum og reyna með öllum ráðum að tryggja að farið sé þar vel með  eigur almennings.

Það tryggir alls ekki að fyrirtæki séu vel rekin að þau séu í einkaeigu. Það má reyndar leiða líkur að því að það sé betra á tímum mikils umróts í viðskiptaumhverfi að hafa fyrirtæki sem samanstanda af sjálfstæðum litlum einingum sem geta brugðist fljótt við aðstæðum - við markaðinum.  Það getur stórt fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga ekki, sérstaklega ekki ef það er fyrirtæki sem tekur tillit til annarra hluta og hefur víðari samfélagssýn en einkafyrirtæki sem hugsar bara um hagnað næsta árs. Þannig getur einkafyrirtæki í sjávarútvegi selt kvótann frá byggðalaginu bara vegna þess að verðið er hátt eitt árið en það gæti bæjarútgerð í eigu sveitarfélags aldrei gert, það væri eins og að skjóta sjálfan sig í fótinn. 

Við lifum á tíma þar sem ofurtrú er á fjármagni og óheftu frelsi til að flytja fé milli landa og þeir menn eru dásamaðir mest í fjölmiðlum sem hafa einhvern veginn búið til naglasúpu úr peningum sem þeir hræra saman og alltaf eru búnir til meiri og meiri peningar sem síðan eru teknir út í alls konar lúxuseinkaneyslu í fjarlægum löndum. Æstustu fylgjendur þessarar fjármagnstrúar eru í Sjálfstæðisflokknum og það er mikilvægt að við hin sem ennþá höfum eitthvað til að bera af heilbrigðri skynsemi reynum að hindra eins og við getum hræðilega glópsku Sjálfstæðisflokksins, glópsku sem lýsir sér hvað best í þessari heimskulegu ályktun frá síðasta landsfundi þeirra:  

Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2007 um umhverfismál og auðlindanýtingu

Landsfundur telur að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands verði best tryggð með því að nýtingar- og afnotarétturinn sé í höndum einstaklinga. Ríkisvaldið hefur ekki öðru hlutverki að gegna á þessu sviði en því að fara með fullveldisrétt þjóðarinnar yfir auðlindunum, þ.á m. að setja skorður við nýtingu og afnotum í því augnamiði að tryggja að auðlindir Íslands verði til staðar fyrir komandi kynslóðir.

Íslensku orkufyrirtækin eru í dag leiðandi þekkingarfyrirtæki Landsfundur fagnar aðkomu einkaaðila að útrás orkufyrirtækjanna. Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í þeirri útrás. Landsfundur leggur til að skoðaðir verði kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum yfir til einkaaðila, sérstaklega með tilliti til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða.

 

Afturhvarf til nýlendutímans

Ég sé ekki mikinn mun á þjóðfélagi þar sem allar auðlindir og framleiðslueiningar eru í eigu auðmanna og auðhringja sem staðsettir eru í New York og London og öðrum stórborgum og á því að vera arðrænd dönsk nýlenda.

Það var hlutskipti Íslendinga í nokkrar aldir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband