Partur af stærra stríði eða 8340 Land Cruiser jeppar

Ég er þakklát forseta Íslands fyrir að vísa Icesave 3 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur orðið til þess að miklu fleiri tjá sig og setja sig inn í málið en auðvitað líka til að margir tala um málið af tilfinningu og slegið er á strengi múgæsingar.  Ég hét sjálfri mér því að reyna hlusta á og skilja rök þeirra sem vilja segja JÁ þó ég hafi verið hatrammur andstæðingur seinasta Icesave samnings og farið með fjölskylduna í blysför til Bessastaða.  Það gengur hins vegar ekkert hjá mér að sannfærast af rökum þeirra sem nú vilja segja Já, ennþá finnst mér falskur tónn í rökum um  að við þurfum að ljúka samningum til að fá hér inn fjármagn (meiri lán), auka hagvöxt og skapa störf. Í þeirri orðræðu er undirliggjandi  ofurtrú á hagvöxt og  fjármálakerfi eins og við höfum hingað til búið við, líka bernsk  hollusta við ráðamenn og ríkjandi kerfi, svona plástrahugsun  og  trú á að  kerfið sem hrundi  sé í eðli sínu gott, þetta sé spurning um að byggja það upp að nýju með minni hnökrum  og besta leiðin til þess sé sú að ríkisstjórnir  fái  aðgang að sem mestum nýjum lánum með sem lægstum vöxtum.

Þegar fyrsti Icesave samningurinn var settur í þjóðaratkvæðagreiðslu 2010 þá var ráðamönnum tíðrætt um hvernig Ísland myndi einangrast í alþjóðasamfélaginu, "Skelfilegar afleiðingar" sagði forsætisráðherra, "Við verðum Kúba Norðursins" sagði þáverandi viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon eins og sjá má í þessu vídeó frá 2010:

Reyndin varð hins vegar önnur. Afstaða Íslendinga að snarfella samninginn vakti gríðarmikla athygli á alþjóðavettvangi og margir heimsfjölmiðlar fjölluðu um málið og útskýrðu frá sjónarhóli Íslendinga. Almenningur víða annars staðar horfði með aðdáun á viðspyrnu Íslendinga, fámennrar þjóðar sem reis upp gegn ofboðslegri kúgun voldugra grannþjóða, kúgun í formi skuldafjötra sem velta átti yfir á almenning eftir hrun fjármálakerfis. Eftir langan tíma varð til nýr samningur, samningur sem er tvímælalaus miklu hagstæðari en fyrri samningur sem stjórnvöld vildu knýja í gegn.  Þessi nýi samningur fyrir Kúbu Norðursins er allrar skoðunar verður  og ef þetta væri samningur um að Íslendingar greiddu 30 milljarða og þar með myndi þessu milliríkjamáli ljúka þá finndist mér  alveg koma til greina að samþykkja hann, vissulega græddi íslenskt samfélag á bankabólunni í mörg ár og það er gott að halda frið við grannþjóðir  þó þær noti hryðjuverkalög. Blómlegt atvinnulíf þrífst þar sem viðskipti eru og traust ríkir og við höfum vissulega hagsmuni í að halda áfram viðskiptum við Evrópuþjóðir og styrkja vinabönd þjóða þar. Það falla á ríkissjóð miklar skuldbindingar vegna Seðlabankans og ástarbréfaviðskipta,  það eru miklu hærri upphæðir er Icesave.  

En Icesave 4 samningurinn er ekki svona. Hann er samningur um að íslenska ríkið og þar með íslenskur almenningur taki áhættu og taki á sig skuldbindingar á því hvernig tekst að selja eigur fallinna banka í Bretlandi, alls konar viðskiptakeðjur sem keyptar voru í glórulausu floppi íslenskra fjárglæframanna sem stunduðu viðskipti með að búa til eigin peninga í pappírdóti sem þeir flæktu fram og til baka. Það er engin hemja að almenningur á Íslandi taki á sig áhættu af slíkum viðskiptum,  leyfi afætum að nærast á sér og framlengi með því  dauðahryglur  kapítalístakerfis sem er í andaslitrunum, kerfis sem er að kafna í eigin spýju. Það væri  hins vegar hið besta mál að skoða aftur þennan samning eftir að búið er að gera upp bú föllnu bankanna og ljóst er hvernig málið fer.

Þeir Íslendingar sem segja NEI eru ekki að velta því sem þeir eiga að borga fyrir á alþýðu annarra landa. Þvert á móti þá á ég von á því að NEI frá Íslendingum verði tekið fegins hendi af alþýðu í flestum löndum og þá sérstaklega þeim sem hvað mest sverfur að núna, löndum eins og Grikklandi, Portúgal, Írlandi og Lettlandi og verði þeim hvati til dáða. Það  er einmitt það sem stjórnvöld allra ríkja í Evrópu eru hræddust við því þessar kosningar snúast einmitt að hluta til um það að færa völdin til fólksins - frá ríkisstjórnum, frá ríkisstjórnum sem eru svo samflæktar í málið að þær geta ekki leyst vandann, bara velt honum á undan sér, ríkisstjórnum sem reyna í örvæntingu núna að semja um endurfjármagnanir skulda í kerfi þar sem þeir sem skulda mest og þurfa mestan stuðning eru jafnframt þannig að þeir fá sem óhagkvæmust lán og sem hæsta vexti.

Alveg eins og Hrunið hjá okkur og önnur fjármálahrun annars staðar í heiminum koma á stað gríðarlegum tilfærslum á verðmætum þar sem hinir ríkari verða ríkari og hinir fátækari fátækari þá stefnir í það sama um ríki heims eins og einstaklinga - peningakerfið virkar þannig að peningaeignin sogast til þeirra þjóða sem eru ríkar fyrir og það er magnað upp af þeirri trú að það sem ríki sé í ábyrgð fyrir sé traust eign.  Ríkin reyna að viðhalda þeirri blekkingu og það sem er núna að gerast í Evrópu er að sameiginlegur pottur Evrópulanda lengir í lánum einstakra ríkja og tekur lán fyrir þau af því þau hafa sjálf ekki lánstraust lengur. Ríkin gefa út ríkisskuldabréf í gríð og erg (íslenska ríkið ætlar einmitt að hemja jöklabréfin þannig) alveg bontlaust bara ef einhver vill kaupa, ríkisskuldabréf sem eru svo endurfjármögnuð reglulega og skuldin bara stækkar og stækkar og verður skattur á komandi kynslóðir.

Það er þessi vítahringur sem verður að rjúfa.
Það verður að horfast í augu við að peningakerfi heims er ekki að virka eins og hvati á viðskipti og velmegun heldur að búa til afætukerfi, kerfi sem skattleggur almenning, ekki bara í núinu heldur líka veltir vandanum á undan sér inn í framtíðina. Pappírar sem ganga kaupum og sölum í formi hlutabréfa, peninga og alls konar verðbréfa eru margfalt meiri og úr takti við  raunveruleg verðmæti, gjaldmiðlar þjóða eru ekki tengdir í neitt lengur og sum ríki eins og USA prenta peninga í gríð og erg og eru ekki hótinu betri en bankamenn sem bjuggu til eigin peninga með að vingsa milli sín pappírum. Þetta bóluhagkerfi ríkjanna sem ennþá hefur ekki sprungið byggir á hagvexti, það virkar á meðan allt virðist vera að vaxa og virkar þannig svipað og bankabólan, bólan sem óx á meðan bankarnir uxu og virtust stækka en hjaðnaði og datt niður í ekki neitt þegar ekki var hægt að feika lengur að það var enginn vöxtur, það var ekki nein framleiðni á alvöru vörum og þjónustu að aukast, það voru bara pappírar sem poppuðu upp verðmæti skúffufyrirtækja. 

Ég les núna nýjustu grein Gylfa Magnússonar (Kúbu norðursins) og núna eru myndlíkingar hans ekki sóttar einangrað kommúnistaríki eftir hrun heldur í fornöld, í Homer og greinin hans heitir Æseifskviða. Gylfi er þarna eins og í fyrri Icesave málum að reyna að sannfæra fólk um að jánka Icesave. Grein hans er einkar skynsamleg, ég kaupi alveg röksemdir um að lúkning málsins núna snúist aðallega um vexti og hann sannfærir mig um að Icesave sé ekki stórt samanborið við vexti sem Íslenska ríkið þarf að bera. Bara hvert prósentustig í hærri vöxtum þar þýði 30 milljarða. Svo segir hann að við fáum ekkert fé inn í landið til fjárfestinga og svo heldur hann áfram að reikna hvernig minni hagvöxtur mun valda töpuðum þjóðartekjum. Út frá sjónarmiði þeirra sem trúa á það kerfi sem féll og vilja endurreisa sem fyrst sams konar kerfi þá hljóma rök Gylfa ekki illa. 

Ég hef hins vegar hér fyrir ofan gert grein fyrir að þetta er bóluhagkerfi sem getur sprungið í höndunum á okkur hvenær sem er,  peningaleg verðmæti  sem fjárfestar koma með hingað til lands til að komast yfir verðmæti hérna eru partur af öllum þeim bólupeningum sem eru á sveimi í heiminum, pappírum sem engin innistæða er fyrir en haldast í bólunni á meðan almenningur trúir blekkingunni um endalausan hagvöxt og baktryggingar ríkja.

Það eru hins vegar raunveruleg verðmæti hér á landi, náttúruauðlindir, orkuver og fiskimið sem ásókn er í af ýmsum aðilum. Ekki eingöngu af ágóðasjónarmiðum þó þau vegi þyngst heldur líka vegna langtíma öryggissjónarmiða ríkja sem vilja tryggja sér aðdrætti.

 Á Íslandi hefur orðið gríðarleg eignaupptaka hjá almenningi í kjölfar Hrunsins og það gerðist ekki síst vegna hinna verðtryggðu og gegnistryggðu lána og á meðan stjórnvöld vörðu hag þeirra sem áttu innistæður í bönkum þá verðféllu raunverulegar eignir fólks bílar og íbúðir gríðarlega en skuldir stóðu í stað. Möguleikar fólks á tekjuöflun og laun lækkuðu líka gríðarlega. En okkur til furðu þá blómstra  bankarnir og innlánseigendur  raka saman fé gegnum vexti þó að peningar séu ekki settir í neitt. Það er bara einhver jöklakeðja í gangi sem getur ekki gengið nema einhver tíma, bankarnir setja peninga inn hjá Seðlabanka og vaxtastigi er haldið uppi út af hagsmunum jöklabréfaeigenda. Mér virðist þetta vera einhvers konar flétta til að skrapa saman peninga fyrir ríkið til að halda sér lengur á floti.  Ef allt væri með felldu þá ættu vextir að hafa lækkað mikið. Vextir ættu að vera komnir nálægt núlli ef hér væri spurning um einhver raunveruleg verðmæti, ekki ennþá eina bóluna, ríkisbólu í stað bankabólu.

Þess vegna hrífa vaxtapælingar Gylfa mig ekki, það er verulega mikið bogið við hvernig fjármálabúskapur ríkja er um þessar mundir, ekki eingöngu Íslands. Ríki eru að búa sér til peninga úr öllu sem þau geta  og  velta á undan sér sístækkandi skuldaböggum, sum geta það lengur en önnur ef þau eru nógu stór eins og USA. Svona lítið ríki eins og Ísland getur það hins vegar nema í skamman tíma.  

Gylfi segir að árið 2008 voru 8.340 Toyota Land Cruiser jeppar á landinu, sem myndu líklega kosta um 80 milljarða króna nýir og mér finnst eins það sé að hans mati ein röksemd fyrir að almenningur á Íslandi eigi að jánka Icesave. Hann nefnir líka tónlistarhús sem dæmi um verðmæti sem nýtast okkur og góðærið skildi eftir. En við erum mörg sem viljum hvorki þessa Land Cruiser jeppa né Tónlistarhúsið Hörpuna, mörg sem myndum ekki sýta það þó jepparnir og tónlistarhúsið væri tekið eignarnámi og boðið Bretum upp í Icesave. Ég sting upp á því sem fyrsta boði í Icesave 4:-) Við getum siglt með glerhýsið í pörtum til Bretlands og sett það upp einhvers staðar við Thames ána:-)  Við sem viljum og höfum alltaf viljað öðruvísi lífsstíl en stóra jeppa og auðmannaráðstefnuhöll getum hvorki né viljum nýta þessa hluti til að byggja hér upp blómlegt atvinnulíf og samfélag. 

Þetta blogg átti að vera um viðtalið við Michael Hudson sem var í Morgunblaðinu í dag. Það er best að koma sér á þá slóð. Það er alltaf gaman þegar útlendingar virtir í hagfræði segja það sem manni finnst sjálfum en stundum les ég greinar um ástandið á Íslandi eftir erlenda hagfræðinga sem virðast ekki átta sig á sérstökum aðstæðum hérna m.a. ekki á hver gríðarlegur baggi verðtryggingin er nú á skuldurum, þungt farg sem gerði einkaskuldir margra ennþá óbærilegri og hvernig áhættan af því hvað gat farið miður í fjármálakerfi var engin hjá þeim sem áttu að taka áhættuna þ.e. fjárfestum sem áttu einhver tilbúin félög sem gátu bara tapað 400 þúsund kalli þ.e. lágmarkshlutafé þó lánin væru milljarðar á milljarða ofan - en áhættan var öll hjá almenningi, bæði áhættan af því að verðtryggð lán hækkuðu einn daginn upp úr öllu valdi og svo núna á áhættan af því þegar hópur fjárglæframanna sem sjálfur tók enga áhættu að veltast yfir á skuldpíndan almenning sem vissi ekki einu sinni af hvað Icesave væri og þaðan af síður að hann bæri einhverja ábyrgð eða áhættu þar. Og það er vafamál um þessa ábyrgð, vafamál sem aðeins verður eytt með dómsmáli og það er ein röksemdin sem margir hafa fyrir JÁ að málið gæti farið illa, við ættum ekki að taka áhættu á því.

Ég hef alltaf forðast áhættu, ég hef alltaf verið tilbúin til að gera það sem skynsamlegast er í fjármálum en í þessu máli, máli þar sem áhættu af bankakerfi og áhættu á hruni efnahagskerfis var velt yfir á almenning og fólk er hneppt í óbærilega skuldafjötra þá er ég alveg tilbúin til að taka áhættu og hafna samningnum vitandi það að líklega höfði bresk og hollensk stjórnvöld mál.  Ekki eingöngu fyrir mig, ekki eingöngu fyrir Íslendinga heldur líka fyrir almenning í öllum löndum, fólk sem er í sömu stöðu og Íslendingar.  Þjóðir heims verða að ná samkomulagi um niðurfellingu skulda, ekki bara hjá einstaklingum heldur líka hjá ríkjum. Þetta er ekki eingöngu réttindamál, þetta er einfaldlega besta og raunar eina leiðin sem er fær til að byrja að byggja upp að nýju. Það þarf líka að horfa á "fjárfestingu"  og hagvöxt með öðrum augum, með augum sjálfbærni og manneskjulegra samfélaga sem byggjast framleiðslu og virkni  á samhjálp og samvinnu en hafna samkeppni og blekkingarleik bóluhagkerfa.

Afstaða Íslendinga í Icesave ætti ekki að mótast af sektarkennd yfir að á einhverjum tíma voru hér 8349 Land Cruiser jeppar. Afstaðan ætti að mótast af því að þetta er  partur af stærra stríði og ég vil enda á að vitna í viðtalið við Hudson í Morgunblaðinu í dag. Hann segir:

Partur af stærra stríði

Hudson segir að enginn maður á bandarískum fjármálamörkuðum, sem hann hefur talað við, skilji af hverju íslensk stjórnvöld eru svo áfjáð í að borga háar fjárhæðir til Breta og Hollendinga sem þau skulda ekki. „Ég hreinlega fæ ekki séð að ríkisstjórnin hafi haft hagsmuni íslensks almennings í huga þegar sest var við samningaborðið með Bretum og Hollendingum. Engin ríkisstjórn á að skuldsetja almenning og komandi kynslóðir svo mikið að efnahagslegri framtíð þjóðarinnar sé stefnt í voða. Eina skýringin, sem mér dettur í hug, er að einhverjir háttsettir í stjórnkerfinu hafi óhreint mjöl í pokahorninu sem ef til vill kæmi upp á yfirborðið við ítarlega rannsókn á því hvert Icesave-peningarnir fóru. Það er einfaldlega ekki hægt að skýra svo þrautseiga baráttu gegn hagsmunum þjóðarinnar með vanhæfni einni saman.“

Hudson segir að illa hafi verið haldið á málum í deilunni við Breta og Hollendinga frá upphafi. „Hvers vegna var ekki skipuð nefnd sérfræðinga til að meta greiðslugetu Íslands og íslenska ríkisins? Það er gott og blessað að tala um skuldir ríkja sem hlutfall af landsframleiðslu, en landsframleiðsla greiðir ekki erlendar skuldir. Afgangur á viðskiptum við útlönd greiðir niður erlendar skuldir og áður en samið er um að taka yfir hundraða milljarða króna ábyrgðir og skuldir verður að meta hver greiðslugetan er og haga samningum um endurgreiðslu í takt við hana. Þetta var ekki gert og ég hreinlega get ekki skilið af hverju.“

Hvað varðar afleiðingar kosninganna fyrir orðspor Íslands erlendis segir Hudson að fleiri hafi skoðanir en stjórnmála- og embættismenn. „Líta má á það sem er að gerast í Evrópu sem einhvers konar stríð sem snýst um það hvort skiptir meira máli, almenningur eða bankakerfið. Eiga ríkisstjórnir að fórna framtíð borgaranna fyrir banka og bankamenn, sem hafa keyrt fyrirtæki sín í gjaldþrot með óheiðarlegum hætti? Mér sýnist ekki fara á milli mála að almenningur í Bretlandi, Írlandi, Grikklandi, Spáni og Portúgal er á þeirri skoðun að óheiðarlegir bankamenn eigi ekki að fá að keyra heilu samfélögin í þrot. Deilan um Icesave er partur af þessu stærra stríði og ef Íslendingar hafna samkomulaginu munu þeir öðlast marga vini í Evrópu og stappa stálinu í þá sem vilja draga úr völdum fjármálakerfisins. Ef Íslendingar beygja sig hins vegar fyrir ósanngjörnum kröfum Breta og Hollendinga er allt eins líklegt að orðspor þeirra í Evrópu skaddist til mikilla muna. Athuga ber líka að mjög áhrifamikil dagblöð eins og hið breska Financial Times og hið bandaríska Wall Street Journal hafa tekið afstöðu með Íslendingum í þessu máli og telja ósanngjarnt að krefja þá um að greiða þessar háu kröfur Breta og Hollendinga. Íslendingar eru ekki vinalausir í þessari baráttu, en þeir gætu misst þá vini sem þeir hafa ef þeir samþykkja Icesave-samninginn.“


mbl.is Skuld sem ekki er hægt að borga verður aldrei borguð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 17:38

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

Glæsilegur  pistill

Sigríður Sigurðardóttir, 7.4.2011 kl. 17:45

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábær grein hjá þér Salvör. Takk.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.4.2011 kl. 18:24

4 identicon

Þetta er fáránlega barnaleg og sjálfmiðuð grein. Alþýða manna í öðrum löndum mun ekkert fagna. Hún mun varla vita af þessu. Íslendingar munu ekki breyta fjármálakerfi heimsins.

Mér þætti gaman að sjá þig, sem er sennilega í öruggu starfi á vegum hins opinbera, standa fyrir framan manneskju sem hefur verið atvinnulaus í meira en ár og segja henni að það þurfi ekkert fjármagn inn í landið. Segja henni að þú hafir kosið að fórna hagsmunum hennar fyrir þjóðrembu og draumóra.

Anna (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 21:28

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Málið er að alþýða manna í mörgum löndum fylgist með því sem er að gerast hér.  Og það er fólk sem er ekki sátt við forgangsmál þjóða í dag, sem er fjármálaheimurinn á kostnað fólks, lífs þeirra og hamingju. 

Ég á marga erlenda vini sem hafa varað mig við því að við göngum í ESB, og segja þið eruð sennilega eina þjóðin sem getur sett ykkur upp á móti peningaöflunum, því þið eigið svo margar auðlindir og frelsi.  Og sumir segja þið eruð okkar eina von um að breyta þessu. 

Ég þekki margan alþýðumann í  mörgum löndum, hve víða hefur þú farið um og verið innan um alþýðu lalnda Anna?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.4.2011 kl. 22:41

6 identicon

Anna hvaða draumórar og þjóðremba er það að vilja standa á rétti sínum og koma í veg fyrir að auðvald og nýlenduveldi fornaldarinnar komist upp með hvað sem er. Það er aðeins eitt sem vantar í þessa grein.

Þeir sem lögðu inn á Icesave reikningana gerðu það vegna græðgi og þess að þeir trúðu því sem allir vissu að var lýgi. Enginn banki getur borgað 18% vexti af innlánum hvað þá 20%. Af hverju eigum við að borga tap þessara græðgispunga?

Einu sinni lenti ég í klónum á frægum ponsí svindlara íslenskum. Ég tapaði miklu en það var enginn tilbúinn að borga tapið mitt. Og ég varð bara að læra af mistökkum mínum sem  lágu í augum uppi þegar ég leit til baka.

Og þó við segjum já við Icesave, heldur þú Anna að það væri atvinnulífi okkar Íslendinga til farsældar að menn á borð við Vilhjálm Egilsson, Vilmund Jakobsson eða Grím Sæmundsen fái meiri peninga lánaða á kostnað þjóðarinnar.

Ég held það sé farsælla að lifa í þjóðrembunni og draumórunum og það verði frekar til að atvinnulausum fækki á Íslandi

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 00:00

7 identicon

Algjörlega sammála þessum glæsilega pistli.

Herta Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 07:38

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Anna: Það sem hefur gerst hér á Íslandi vekur athygli margra erlendis. Það veit ég vel í gegnum starf mitt með alþjóðarhreyfingunni Attac sem er aktívistahreyfing sem sérstaklega skoðar fjármálagjörninga. Við fáum fjölmargar fyrirspurnir erlendis frá og beiðnir um að segja frá því hvað hér er að gerast.

Það er vilja ljúka máli með að taka á sig ábyrgð á meiri skuldum er afar ólíkleg leið til að byggja hér upp atvinnulíf. Það er líklegt að það virki í þveröfuga átt. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.4.2011 kl. 10:11

9 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir ágætan pistil Salvör

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 8.4.2011 kl. 14:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband