Keisarahallir og alþýðuhallir í Berlín og Reykjavík

Þegar ég var unglingur var ég í Myndlistaskólanum í Reykjavík í Ásmundarsal  á kvöldnámskeiðum að vetri til. Ég þurfti að fara yfir myrkvað Skólavörðuholtið til og frá skólanum.  Þá var Hallgrímskirkjan í smíðum, ég reyndar tók ekki eftir því, ég tók bara eftir dimmu og draugalegu byggingarsvæði sem ég skynjaði sem rústir, sem athvarf stigamanna og ribbaldalýðs. Frænka mín var rænd þarna einu sinni og ég heyrði mergjaða lýsingu af því hvernig hún varðist bófunum og sleppti ekki veskinu sínu, gott ef hún barði ekki bófana með veskinu og sveiflaði því með fimi í kringum sig.

En ég var ekki frænka mín og ég fór alltaf í huganum yfir hvernig ég ætti að verjast, eða öllu heldur flýja af vettvangi ef á mig yrði ráðist þarna í myrkrinu  áður en ég lagði í að ganga gegnum svæðið niður að strætóstöðinni við Hlemm þar sem ég svo beið úti í kuldanum og hríðinni eftir strætó heim vegna þess að útigangsmenn höfðu lagt undir sig litla strætóbiðskýlið sem þá var á Hlemmi og voru illvígir og hættulegir unglingsstúlkum sem hættu sér þangað inn.

Svo liðu árin og rústasvæðið þarna á Skólavörðuholtinu breyttist í kirkju og ógnarfínt og dýrt orgel kom þar inn sem sagt var að væri stærst og fegursta hljóðfæri sem Íslendingar hafi eignast. Nú eru liðin mörg ár síðan Hallgrímskirkja var tekin í notkun og hún er eitt af kennileitum Reykjavíkur, oddhvass turn  og risastórt grátt kirkjuskip blasa við af mörgum stöðum úr borginni. Ég hef tvisvar komið í kirkjuna. Í fyrra skiptið var það þegar dóttir mín fermdist þarna því við bjuggum í Þingholtunum og í seinna skiptið var það þegar snjóflóðin voru fyrir vestan og ennþá var leitað að fólki og um allt Ísland engdist fólk af sorg  vegna þeirra sem höfðu fundist látnir og kvíða yfir afdrifum þeirra sem ennþá var leitað. Þá var samkoma í kirkjunni og kveikt á kertum og kirkjan veitti skjól þeim sem grétu. 

 Ég held að minningar mínar um Hallgrímskirkju þegar hún var í smíðum liti viðhorf mitt til fegurðar hennar í dag. Svona hversdags á ég mjög erfitt með að sjá eitthvað fallegt við kirkjuna en mér finnst hún þó falleg á gamlárskvöld um tólfleytið þegar turninn ber við himinn inn í miðju sprengjuregninu. 

Vissulega er Hallgrímskirkja kennileiki og eitt af táknum Reykjavíkur eins og tómu hitaveitudúnkarnir í Öskjuhlíðinni með hattinum ofan á, eins og glerjaða ráðhúsið með mosaveggnum  sem sett var niður í Tjörninni í Reykjavík. En ég held ekki að kirkjubyggingin hafi valdið straumhvörfum í kirkjustarfi á Íslandi og ekki hef ég tekið eftir að orgelið stóra og mikla hafi breytt miklu í kirkjutónlist. Reyndar sýnist mér að mikið hafi fjarað undan Þjóðkirkjunni á þeim tíma sem liðinn er frá því að Hallgrímskirkja var reist og sennilega er kirkjan núna tákn um veldi sem einu sinni var, um tilbeiðslu og hugmyndakerfi sem er á undanhaldi og kannski horfið hjá mörgum.

Smán saman tek ég Hallgrímskirkju í sátt og reyndi að segja við sjálfa mig að þetta sé hús með starfsemi sem þjónar samfélaginu en ekki rústasvæði, ekki athvarf bófa og ribbaldalýðs. Það er reyndar alveg sama hvað ég segi oft við sjálfa mig að starfsemin í Hallgrímskirkju þjóni samfélaginu, ég næ ekki að sannfæra sjálfa mig, ég trúi því ekki og ég sé það ekki þannig. Ég sé bara sama rústasvæðið og á unglingsárunum og ég sé  líka núna sumt kirkjur og sumt í íslensku þjóðkirkjunni og raunar ýmsum öðrum trúfélögum sem skálkaskjól þar sem hilmt er yfir brotum gegn konum og börnum.

Þegar ég hugsa um Hallgrímskirkju þá hugsa ég ekki um hve öflugt þetta mikla hús hafi verið í trúarlífi Íslendinga eða mikil lyftistöng fyrir kristnihald og hve orgelið dýrmæta hafi göfgað kirkjutónlist í landinu. Hvað veit ég svo sem um það, ekki sæki ég kirkjur nema við jarðarfarir og fermingar. Ég hugsa hins vegar oft um hve mikið rými tómar tröllakirkjur hafa í borgum og hvers vegna ferðamenn skoða kirkjur og hvernig kirkjurnar merkja allt annað fyrir ferðamenn en heimamenn. Fyrir ferðamann í Reykjavík er Hallgrímskirkja ef til vill tákn fyrir borgina og menningu hennar, fyrir mér sem er fædd og uppalin í Reykjavík og hef búið þar nánast allt mitt líf er sama kirkja tákn fyrir framandleika og vald sem reynir að aga mig með því að skjóta upp í loftið táknum um mikilleik sinn.

Turnar og súlur og byggingar sem gnæfa yfir annað eru kennileiti og táknmyndir og stundum finnst mér  kirkjuturnar vera risastór möstur eins og til að beina og safna saman allri þeirri orku sem býr í tilbeiðslu og trú margra saman í einn brennipunkt og senda og taka við boðum frá heimi handan heimsins.  Í Austur Berlín  horfði ég mörg kvöld  hugfangin á sjónvarpsturninn  á Alexsandertorgi, turninn sem er hæsta bygging Þýskalands og táknmynd Berlínarborgar og hugsaði um hversu mikið hann líktist kirkjuturni og hvort hann hefði ef til vill sömu merkingu og áhrif. Turninn var reistur í Alþýðulýðveldi Þýskalands, kommúnistaríki sem vildi sýna mátt sinn og megin í ríki sem ekki var byggt á trú heldur haldið saman af miðstýrðu valdi, valdi sem útvarpaði til fólksins þeim boðskap sem  var stjórnvöldum þóknanlegur.

Glerhjúpurinn við höfnina sem vígður var 13. maí 2011 og hefur verið nefndur tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa  er fyrir sumum langþráð menningarhús höfuðborgar. Fyrir mér er þetta klakaklumpur, frosinn í tíma og rúmi, minnisvarði um bankahrun og legsteinn yfir peningaveldi sem sá göfgi íslenskrar höfuðborgar glampa mest í glerhýsi sem sneri mót hafi umvafið lúxushótelum fyrir ráðstefnutúrista en líka musteri og grafhýsi fyrir menningu og lífssýn á mótum tveggja tíma, tákn um hrun einnar siðmenningar, ísblóm sem springur út einmitt þegar ein menning visnar upp og deyr.

Að byggja óperuhús er ekki séríslenskt fyrirbæri, svoleiðis hús eru einn af borgarstólpum nútíma evrópskra borga  og það að hið íslenska standi við Atlantshafið og sé úr gleri er ekki tilviljun. Það er ekki staðsett upp á Skólavörðuholtinu þar sem fyrritíma menn sáu fyrir sér hina íslensku háborg og það er ekki steypa eða málmur sem einkennir þetta hús. Harpa er eins og innsiglingarviti í Reykjavíkurhöfn,  þetta er hús alþjóðavæðingarinnar, hús þar sem ljósið að utan flæðir inn og það stirnir á glerið, húsið segir við umheiminn "sjáið okkur við erum gegndræp, við hleypum því sem er utan inn" og ef áætlanir ganga eftir þá verður Harpa með sínum sölum umkringt lúxushótelum sem ætlað er að gera út á hinn nýja aðal, erlenda  ráðstefnutúrista og erlenda menn í viðskiptaerindum í höfuðborginni þar sem draumurinn fyrir hrun var að búa til alþjóðlega fjármálamiðstöð sem við vitum núna að er annað orð yfir aflandseyju og skjálkaskjól þeirra sem sem skjóta til og frá peningum og sölsa undir sig verðmæti með reiknikúnstum og peningafroðu.  Hallgrímskirkja í byggingu var bara hættulegt óreiðusvæði í myrkri og skammdegi, staður þar sam maður gat átt á hættu að á mann væri ráðist af ógæfufólki. Harpa er hins vegar táknmynd fyrir allt sem hrundi og sigurbogi menningar sem trúði á peninga og galdra peningaþyrlunarmanna og  alveg eins og sjónvarpsturninn í Austur-Berlín með sínum útsendingarmöguleikum og Hallgrímskirkja með sínu ofurfágaða orgeli  er það musteri hljóða og eins konar sýningargluggi sem snýr að heiminum.

Hugurinn hvarflar aftur til Austur-Berlínar þar sem sjónvarpsturninn var byggður á tímum kalda stríðsins þegar Vestur-Berlín var innikróuð og það var metnaður Vesturlanda að tryggja öll aðföng þangað.  Berlín er vettvangur og miðja í örlögum Evrópu á tuttugustu öld. Þar er verið að endurreisa gömlu keisarahöllina í Austur-Berlín, kannski er það búið núna. Það er ekki í frásögur færandi að hús hafi verið endurgerð eftir að Berlínarmúrinn féll en það sem er sérstakt við endurbyggingu keisarahallarinnar er þessi endurskrifun á sögunni, sögunni sem sögð er með minnismerkjum og táknum út um alla borg, táknum sem segja hver hefur valdið og hver skal lúta því.

Í Austur-Berlín háttaði nefnilega þannig til að það var ekki tangur eða teitur eftir af keisarahöllinni (Stadtschloss), hún var löngu horfin, hún eyðilagðist í seinni heimstyrjöldinni og leifarnar af henni voru svo fjarlægðar af stjórnvöldum og það sem meira var, það var annað hús þar. Húsið sem var fyrir var Alþingi  kommúnistastjórnar, menningarhús GDR áranna, Alþýðuhöllin var það hús nefnt.   Alþýðuhöllin var rifin til að koma að eftirlíkingu af keisarahöllinni, Alþýðuhöllin var byggð 1973-1977 og einkenni hennar var málmurinn kópar, gluggarnir voru spegilgler húðaðir  úr bronsi. Fyrir mér er bronsið í Alþýðuhöllinni tákn um það iðnaðarsamfélag 20 aldar sem hugmyndafræði GDR byggði á, samfélag þar málmbræðslurnar voru tákn um styrk. Eftirlíkingin af keisarahöllinni er endurritun á sögunni og tilraun til að slétta yfir það sem minnir á kommúnistatímann. Þegar múrinn féll var Alþýðuhöllin dæmd eitruð og henni lokað. Eitrið var hreinsað út (asbest) en samt var ákveðið af hinu nýja sameinaða þýska þingi að rífa húsið og byggja endurgerð af keisarahöllinni, sem væri nákvæm eftirlíking á þrjá vegu að utan en innan frá væri það nýtískulegt hús.  

Stórhýsi í borgum eru kennileiki og eru tákn um þann tíma sem þau eru byggð á  og það hugmyndakerfi sem valdhafar á byggingartíma aðhylltust. Hús eru líka sigurtákn, valdatákn og stundum ein aðferð til að skrifa söguna. Hús eru ekki eingöngu sú starfsemi sem er í húsunum, hún getur líka breyst.  Hvaða hús eru það í Reykjavík sem standa upp úr eins og kennileiti, hvenær eru þau byggð, af hverjum og hvernig endurspegla þau valdið, undir hvaða starfsemi og hvernig líta þau út, hvaða hugmyndafræði endurspegla þau og hvar eru þau staðsett og hvernig hefur hlutverk þeirra breyst?

Tilbeiðsluhúsin eða kirkjurnar eru áberandi en svo eru hótelin (hótel borg, hótel saga, grand hótel) og Moggahúsið gamla og Orkuveituhúsið nýja, Laugardalshöllin og Höfðatorgsturninn  og  Perlan efst á Öskjuhlíðinni og lengi vel gnæfði Stýrimannaskólinn yfir borginni. Nýlega kom ég til borgarinnar Riga í Lettlandi og sitt hvoru megin við  borgarhliðið sá ég fallbyssur sem beint var niður. Leiðsögumaðurinn sagði að þessum fallbyssum hefði Pétur mikli látið koma fyrir eftir að hann hafði sigrað borgina, hann vildi að borgarbúar minntust þess í hvert skipti sem þeir færu um hliðið að þeir hefðu tapað, þeir  væru hinir sigruðu og yfirbuguðu. 

Ég unni tónlistarfólki á Íslandi alveg þess að hafa aðgang að góðum sölum til tónlistarflutnings í hinni nýju íslensku tónlistar- og ráðstefnuhöll Hörpu og ef ég tryði því að þetta hús væri gert fyrir íslenska menningu og yrði notað fyrir íslenska menningu og yrði alþýðuhöll Íslendinga þar sem allir sem hér eru búsettir eigi athvarf í listum þá myndi ég samgleðjast núna. En ég held ekki að þetta hús sé nein höll alþýðunnar, ég held að þetta sé tákn fyrir samfélag sem tilbiður einkaeignarétt og gróða af peningum sem þyrlað er upp og ég held að þetta sé og verði alltaf eins og fallbyssunar niðurlútu í Riga, til að minna okkur sigruðu á að við erum sigruð, byggt af þeim sem eru sigurvegarar, þeim sem trúa á og treysta í sessi samfélag sem hverfist um auðmagn og peninga. Ég veit ekki betur en standi til að selja þetta hús hæstbjóðanda strax og einhver vill kaupa. Svo er líka Perlan til sölu og ráðhúsið við Tjörnina skröltir hálftómt og eiginlega óþarft núna þegar nánast öll stjórnsýsla borgarinnar hefur flust upp í Höfðatún. Ástandið á Íslandi þremur árum eftir Hrun og Búsáhaldabyltingu er ekki að hér sé annað kerfi en var áður. Það er sjónarspil í gangi, Alþingi talar og talar og hér er margt "með þjóðfundarsniði" og hér er stjórnlagaþing/ráð í gangi, hér er vinstri stjórn. En það er ekki að merkja að neinar strúktúrbreytingar hafi orðið á íslensku samfélagi, það er sama hvað mikið alþingismennirnir tala og tala, þeir eru jafnvaldalausir og áður og stjórnlagaþingið er líka valdalaust. Það sem ræður för er tilbeiðsla á peningum og markaðskerfum sem hverfast um peninga sem hverfast svo og spinna alls konar aukahringi. Í íslensku samfélagi í dag er allt til sölu. Perlan er til sölu. Orkuveituhúsið er til sölu. Harpa er til sölu. Orkufyrirtæki  eru til sölu. Fiskveiðifyrirtæki sem ráða yfir kvóta eru til sölu. Jarðir og landareignir eru til sölu. Vatnsréttindi eru til sölu. Eina sem hefur breyst er að nú er allt ódýrara fyrir "erlenda fjárfesta".  

Það er í svona samfélagi sem mér finnst Harpa vera eins og fallbyssur úr stríði sem komið hefur verið upp til að minna þá sigruðu á ósigurinn. 


mbl.is Harpa tekin formlega í notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg færsla að mörgu leiti en þó ég sé búin að lesa hana þrisvar sé ég engin tengsli  í textanum við fyrirsögnina : "bankahrunsmenjar"  (?) og ég átta mig ekki á hvaða "kirkjurústir" fyrirsögnin vísar til.

Ég skil ekki heldur samlíkinguna á Hallgrímskirkju og sjónvarpsturninum á Alexandertorginu. Kannski má finna  hugsanlega skýringu á þessum samanburði  í skrifum Freud.

Agla (IP-tala skráð) 14.5.2011 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband