Skrýtin umsvif Skúla .... og sérbankaþjónustan

Í mörgum löndum sem sem bóla fjármagns hefur sprungið eins og gerðist á Íslandi þá er slagnum milli alþýðu (99 % fólksins) og fjármálaelítu (1% fólksins) ekki lokið við það heldur verður í kjölfarið gífurleg eignatilfærsla og það myndast ástand hamfarakapítalisma. Við á Íslandi ættum að skoða hvað gerist annars staðar við svipað galopið kapítalískt aflandseyjuhagkerfi og einnig að læra af hvað gerðist á Íslandi þegar Björgólfur kom frá Pétursborg með sitt fé inn í íslenskt bankakerfi og hvað skamman tíma tók að setja hér allt á hvolf og breyta samfélaginu, atvinnulífinu, stjórnmálalífinu og fjölmiðlum í skopparakringlur sem skoppuðu í kringum hans hagsmuni og sog afar fárra manna á auðlegð Íslands. Í þessu sogi voru bankarnir eins og háþrýstiryksugur. Í ljósi þessa þá er eðlilegt að við spyrjum spurninga um aðkomu og umsvif Skúla Mogesens núna í íslensku athafnalífi. Hann er skrifaður fyrir félagi, Títan en hrein eign þess mun ekki vera nema 35 milljónir en félagið hefur samt haft mikil umsvif, keypt hér upp eignir. Skúli hefur líka keypt sig inn í MP banka og keypt hús og jarðir og sitt hvað smálegt og stórt. Það er engin ástæða til annars en skoða aðkomu manna eins og Skúla og ráða í hver greiðir leið þeirra og hvort þeir eru að vinna að uppkaupum í ástandi hamfarakapítalisma og tryggja hagsmuni fjárfesta, hugsanlega sín sjálfs en hugsanlega líka annarra sem  eru ekki í sviðsljósinu en eru    vinir Íslands eða úlfar í sauðagæru?

Við vitum að erlendir fjárfestar eins og Endre Røsjø  og Joe Lewis  http://en.wikipedia.org/wiki/Joe_Lewis_(British_businessman)    hafa tengst MP banka og það er fróðlegt að fara yfir feril þeirra og velta fyrir sér hvort slíkir menn  og fjárfestingar þeirra eru það sem við viljum á Íslandi. Viljum við keppast  við að búa í haginn fyrir slíka fjárfesta, fjárfesta sem hafa sópað til sín fé með gjaldeyrisbraski eins og Joe Lewis eða fjárfesta sem hafa verið í vafasömu samkrulli til að komast yfir orkulindir í fjarlægum löndum eins o og Endre Rosjo. 

Kannski er besta leiðin til að komast yfir eignir á Íslandi í dag að vera tengdur í banka og ekki skaðar að hafa ýmis samband til að fá sérfyrirgreiðslu í bönkum. Bestu sérfyrirgreiðsluna fá þeir sem eiga bankana, þannig var það á björgólfatímanum og þannig virðist það vera núna. Það er margt sem bendir til að Skúli Mogesen hafi fengið sérstaka fyrirgreiðslu í  björgólfsbankanaum  fyrir hrun, afar sérstaka.

Ég vil hér benda á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur  um sérbankaþjónustunaÞ

MP og endursýningin http://www.ruv.is/pistlar/sigrun-davidsdottir/mp-og-endursyningin

Ég lími hann hér inn:

MP og endursýningin

20.04.2011

 

Skúli Mogensen fer fyrir hópi fjárfesta sem eru að endurfjármagna og ná undirtökunum í MP banka. Spegillinn kannar viðskipti Skúla við Landsbankann 2003. Oz virtist framsækið fyrirtæki en draumarnir rættust ekki. Í kjölfarið lá svo skuldaslóð. Margir trúðu á að fyrirtækið ætti mikla möguleika, keyptu hlutabréf í Oz á gráa markaðnum og fóru illa út úr því. Landsbankinn hafði lánað Skúla Mogensen einn milljarð. Af því voru rúmlega 400 milljónir afskrifaðar, samkvæmt gögnum sem Spegillinn hefur undir höndum.

                                         ***

Margt af því sem gerðist í íslensku viðskiptalífi á 10. áratugnum varð eins og aðalæfing fyrir uppsveifluna og hrunið áratuginn á eftir. Það var mikið kapp og ekki alltaf mikil forsjá. Gullæði greip um sig, það var Oz og Íslensk erfðagreining. Það fóru margir flatt á viðskiptum með bréf þeirra á gráa markaðnum sem er, eins og nafnið bendir til, ógagnsær og ætti aðeins að vera fyrir fagfjárfesta. En ekki á Íslandi.

Oz var tæknifyrirtæki og eins og oft er með slík fyrirtæki reyndu menn fyrir sér með hitt og þetta, allt mjög snjallt en viðskiptamódelið gekk ekki upp. Samningur við Ericsson lofaði góðu en kom of seint, dotkom bólan sprakk.

Það sem einkennir oft frumkvöðla í tæknigeiranum er gríðarleg einbeiting á viðfangsefnið. Öðruvísi hefst þetta ekki. Þetta er þrotlaus vinna, menn uppskera iðulega lítið lengi framan af, endalaus barningur og öldungis óvíst hvort þetta verði nokkurn tíma barn í brók. Þetta er hin klassíska frumkvöðlasaga. Og oft sagt að besta leiðarljósið sé vonin um að skapa gott fyrirtæki, ekki gróðavonin.

Tilfinningin með Oz er að þar hafi gróðinn átt að vera heldur skjótfengnari. Og athyglin verið á öðru braski, ekki bara verið að byggja upp öflugt fyrirtæki. Lánasaga Skúla Mogensens hjá Landsbankanum bendir í þessa átt.

Spegillinn hefur undir höndum afskriftayfirliti Landsbankans frá 30. júní 2003. Þar segir að Skúli hafi gengið í Sérbankaþjónustu Landsbankans árið 2000 ,og tók veruleg lán í bankanum á því ári og setti að veði hlutabréf sín í Oz og önnur hlutabréf sem hann fjárfesti í. Skuldir Skúla urðu hæstar rúmar 1.000 milljónir króna árið 2001.’ Hækkuðu meðal annars það ár vegna gengislækkunar krónunnar.

En hvernig var þessi Sérbankaþjónustu Landsbankans?* Þetta var einkabankaþjónusta, átti að vera fyrir gulltryggða eignamenn og svo mikið einkamál að lán til þeirra voru ekki afgreidd í lánanefnd bankans. Það átti enginn að vita um lánin nema sá sem fór með málin í Sérbankaþjónustunni og auðvitað átti að velja viðskiptavinina vel. Það mistókst þó í tilfelli Skúla.

Skúli skuldaði persónulega rúman milljarð. Að veði voru að mestu óskráð hlutabréf. Í árslok 2001 yfirtók bankinn um helminginn af hlutabréfunum sem hann  hafði að veði en þau voru að hrapa niður í nánast ekkert. Hlutabréf Skúla í Oz voru metin á 2-3 milljarða en fóru niður í lítið. Þá stóð enn eftir 500 milljón króna skuld. Þegar kom fram á 2003 afskrifaði bankinn þetta allt. Setti 421 milljón króna til að mæta fyrirsjáanlegu útlánatapi í þessu máli og lagði til að afskrifaðar yrðu endanlega 400 milljónir króna.

Þetta er sagan úr afskriftaryfirlitinu. Árið 2004 afskrifaði Landsbankinn svo 45 milljónir á Oz Communications. Það lán var tryggingalausir tékkar.

En hvernig var þá staðan hjá Oz árið 2000 og 2001 þegar Skúli er að taka lán upp á milljarð til hlutabréfakaupa? Hún var reyndar ekki burðug. Heildartap Oz á fyrsta ársfjórðungi 2000 nam tæpum 100 milljónum sem var ríflegt tap miðað við að tapið allt árið 1999 var tæpar 70 milljónir króna. Veltan allt árið 1999 var um 70 milljónir, var 130 milljónir á þessum fyrsta ársfjórðungi 2000. Þetta eru ekki tölur sem virðast réttlæta lán út á bréf á gráa markaðnum upp á milljarð. Og það er varla rífandi jákvætt fyrir fyrirtæki að forstjórinn sé með hugann við eigið brask.

Sagan sem þarna er sögð er af umsvifamanni sem ætlar ekki að bíða eftir að fyrirtækið sem hann er að byggja upp skili arði heldur tekur lán til hlutabréfakaupa. Og þetta er líka kunnugleg saga um banka sem tekur léleg veð og þarf síðan að afskrifa eftir því. Þess má geta að í breskum bankaheimi og reyndar víðast á þroskuðum mörkuðum líta bankar ekki við óskráðum bréfum sem veðum. Bara alls ekki.

Bankinn afskrifar þarna yfir 400 milljónir króna. Á þessum tíma kostuðu meðal einbýlishús 20-24 milljónir svo afskriftin hefði dugað fyrir 17-20 einbýlishúsum, híbýli fyrir 80-100 manns. En bankinn fékk reyndar aldrei mikið af þessum milljarða láni sínu til baka. Hér er áhugavert að hafa í huga að lánin eru veitt áður en Björgólfsfeðgar koma að bankanum en afskriftirnar verða eftir aðkomu þeirra.

Það hefur áður verið nefnt að það er leiðinlegt að vera með stöðuga neikvæðni þegar menn taka til höndunum og byggja eitthvað upp. Það er ekkert útilokað að Skúli hafi lært af óförum Oz og óförunum sem Landsbankinn létti af honum. En sagan um endurreisn MP banka á sér kunnuglegar hliðstæður. Þarna kemur til sögunnar Íslendingur sem hefur selt fyrirtæki erlendis, þó ekki vitað hvort það eru þeir peningar eða lán, líkt og þegar Björgólfur Thor Björgólfsson og faðir hans keyptu Landsbankann. Samkvæmt heimildum Spegilsins þekkjast þeir Skúli og Björgólfur Thor vel frá fornu fari. Svo eru það erlendir fjárfestar sem eru engir fagfjárfestar í bankageiranum. Og fenginn mætur maður sem stjórnarformaður en sem hefur þó hvorki reynslu af né sérþekkingu á bankarekstri. Og menn stefna á 15-20 prósenta arðsemi eigin fjár sem er bratt í umhverfi með 1-5 prósenta vexti. Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að þetta hljómi allt eins og endurflutningur á gömlu leikriti.

*Þessi lýsing á Sérbankaþjónustunni var höfð eftir heimildarmanni sem áður vann í Landsbankanum. Eftir flutning pistilsins fékk Spegillinn þær upplýsingar frá öðrum fyrrum starfsmanni að viðskiptavinir þjónustunnar hefðu verið sérvaldir, bestu viðskiptavinir bankans með að lágmarki 50 milljónir í reiðufé í eignastýringu. Þeir áttu að geta fengið skjóta lánafyrirgreiðslu en með samþykki lánanefndar 1 þar sem stjórnendur bankans sátu. Stjórnendur vissu því hverjir fengu lán í gegnum Sérbankaþjónustuna. - Það breytir því þó ekki að í tilfelli Skúla Mogensen tókst ekki vel til og mál hans ollu, samkvæmt heimildum Spegilsins, miklu hugarangri í Landsbankanum. 

 

 


mbl.is Stofna nýtt flugfélag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessar upplysingar Salvör, það er ágætt að rifja upp söguna svona af og til.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.10.2011 kl. 11:57

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Upprifjun er nauðsynleg, þegar ekkert virðist breytast...  Það má ábyggilega skipta út Lýðveldið fyrir Bankaveldið Ísland

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.10.2011 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband