30.8.2007 | 10:07
Hvar er andspyrnuhreyfingin á Íslandi?
Mesta fjörið og mesta andspyrnan á Íslandi í gær var á fundi Staðlaráðs Íslands í gær. Það þurfti ekki neinn speking til að sjá að fundarmenn þar voru ekki beinlínis í hollvinafélagi Microsoft fyrirtækisins. Þar var tekist á um OOXML staðalinn Það var múgur og margmenni á fundinum, áður hafði farið fram umræða á Netinu t.d. Sigurður Fjalar skrifað pistilinn Segjum nseei við OOXML! og heit umræða hefur verið á rgug póstlistanum.Á vefsíðunni noooxml.org og víða á vefsíðum er hægt að lesa meira um gagnrýnina á OOXML.
Hér er 7. mín. vídeó sem ég tók á fundinum í gær.
Athugasemd!!!
Ég fjarlægði vídeóið sem ég birti hér í morgun vegna sérstakrar beiðni og ábendingar (sjá athugasemdir með þessu bloggi) um að upptaka mín og birting á efninu stangaðist á við persónuverndarlög. Ég hafði í framhaldi samband við Rakel lögfræðing hjá Persónuvernd og spurðist fyrir um það. Af svörum hennar get ég ekki ráðið að ég hafi gert neitt ólöglegt. Hér stangast á sjónarmið tjáningarfrelsis og persónuverndar og það er mat mitt eftir samtal við Rakel að ég sé í fullum rétti að birta þessa upptöku eftir að ég hef gert á henni þá breytingu að ég hef tekið út upptöku af þeim sem hafa lýst sig mótfallna birtingu þess. Það var náttúrulega sjálfsögð kurteisi hjá mér að gera það og ég mun verða við þannig óskum frá öllum þeim sem birtast á vídeóinu. Ég mun hins vegar ekki fjarlægja það eins og beðið var um því þetta vídeó er höfundarverk mitt og mín sýn á stemmingu á þessum fundi og skráning mín á samtímaatburði. Allt sem kemur fram á þessu vídeó er gert af virðingu við fólkið sem þar er sýnt og þetta fjallar ekki um nein einkamálefni. Þetta eru umræður á opinberum fundi og þeir sem taka til máls tala afar skynsamlega og segja frá hvernig til hafi tekist varðandi tæknileg mál og eða ræða rök með eða móti því að gagnasnið sem upprunnið er hjá Microsoft verði að alþjóðlegum staðli. Það er hins vegar ekkert launungarmál að ég reyni að draga taum þeirra sem tala fyrir opnum hugbúnaði og vinna í þannig umhverfi, ég reyni að sýna stöðu þeirra m.a. með að sýna hvernig á þessum opinbera fundi margar hendur voru á lofti og margir vildu tjá sig en fengu ekki tækifæri til þess. Ég er að leitast við að sýna þennan veruleika sem við búum við þar sem afar völdugir hugbúnaðarrisar eru í nánast einokunaraðstöðu og ekki tekið tillit þeirra sem þó hafa þekkingu og færni og benda á aðrar leiðir. Ég tók einnig út vídeó sem var af fulltrúa frá Microsoft sem var á upprunalega myndbandinu þar sem ég var að leitast við að sýna báða málstaði. Það var allt skynsamlegt sem hann sagði. En af því að ég held að birting mín og öll opinber umræða um þetta mál sé Microsoft í óhag þá vil ég ekki draga viðkomandi starfsmann inn í þetta á neinn hátt. Það voru kurteislegar, upplýsandi og málefnalegar umræður á þessum fundi. Ég tel að almenningur eigi gjarnan að fá að fylgjast með slíkum fundum m.a. í gegnum skráningar þeirra sem eru á fundum. Það er hins vegar hætta á að frásagnir af svona fundum séu litaðar af viðhorfum þeirra sem vilja fá einhverja ákveðna niðurstöðu. Þannig er ekki gott að öll skráning á því hvað gerist á svona fundum komi frá stjórnvöldum eða stórum hagsmunaaðilum.
hér er frásögn Sigurðar Fjalar frá fundinum: Stál í stál á opnum fundi Staðlaráðs
það eru engir skæruliðar í hlíðum Esju og það eru engir liðsmenn Hróa hattar sem fela sig í skógarkjarrinu í Heiðmörk og það eru engir alþýðuherir hérna með fyrirsát og götuvirki á Reykjnesbrautinni. Það er meira segja allur vindur úr herstöðvarandstæðingum núna þegar herinn er farinn og allir hvort sem er á móti Bush og stríðinu í Írak, það er erfitt að halda uppi dampi með eitthvað baráttumál sem allir eru hvort sem er sammála um.
það er enginn grundvöllur fyrir Keflavíkurgöngum lengur og tímanna tákn að baráttujaxlinn Birna þórðardóttir er farin að leiða göngur túrísta um götur Reykjavíkur fyrir utan að klæða sig upp á einn dag á ári og berja svipur í Gaypride. Femínisminn er búinn að gjörsigra á Íslandi, margir yfirlýstir femínistar eru í ríkisstjórninni og búið að banna súlunektardansinn. Ég get þessa daganna ekki fengið af mér að ráðast mikið að andstæðingum okkar femínistanna því það er eins og að sparka í liggjandi fólk. Sennilega verður þess ekki langt að bíða að Keflavíkurgangan verður endurvakin sem heilsubótarganga fjölskyldunnar svona eins og súludans eða súlufitness er núna aðaltískan í heilsuræktinni.
En hvar er andspyrnuhreyfing nýrra tíma á Íslandi? Eru engir undirstraumar sem síðar munu renna saman í stórt fljót og brjóta sér leið upp á yfirborðið? Ég held að slík hreyfing muni vaxa upp í því net- og tölvuumhverfi sem umlykur okkur. Það er áhugavert að skoða hakkarasamfélög og samfélög um opinn og frjálsan hugbúnað og samfélög um opið aðgengi að gögnum opg sjá hvernig smám saman eru þar að vaxa upp félagslegar hreyfingar. Wikipedia samfélagið er ekki bara samfélag þar sem saman kemur fólk sem vill endilega skrifa greinar í alfræðirit, það er líka samfélag þar sem að dregst fólk sem flest deilir þeirri sýn að þekking eigi að vera opin og frjáls til afnota fyrir hvern sem er en ekki sérstök gæði valdastétta til að tryggja áframhaldandi völd.
Búin að setja vídeóið aftur inn eftir ritskoðun!
Sjá efst í þessu bloggi
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:49 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Salvör.
Ég varð ekki vör við að þú værir að taka vídeó á fundinum í gær og sat þó ekki langt frá þér, við háborðið. Þú baðst ekki um leyfi til þess og ég býst við að flestum eða öllum sem á fundinum voru sé ókunnugt um að þú hafir verið að taka upp. Því langar mig að spyrja þig hvaða reglur (ef einhverjar) gildi um að birta opinberlega upptökur eins og þessa, sem gerðar eru í heimildarleysi og án vitundar þeirra sem þar birtast og tjá sig. Við áttum orðastað eftir fundinn og þá nefndir þú ekki að þú hefðir verið að taka upp - fannst þér ekki ástæða til að segja mér frá því?
Með kveðju
Guðrún Rögnvaldardóttir
Guðrún Rögnvaldardóttir (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 11:19
Sæl aftur.
Ég hafði samband við Persónuvernd og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk þar þá brýtur bæði upptaka þín og birting upptökunnar í bága við lög um persónuvernd, nr. 77/2000, þar sem hvort tveggja er gert án heimildar og vitundar þeirra sem birtast og tjá sig í vídeóinu.
Ég vil því biðja þig vinsamlegast að fjarlægja upptökuna af vefsvæði þínu og YouTube og öðrum stöðum þar sem þú kannt að hafa birt hana. Einnig bið ég þig um að birta hana ekki víðar.
Bestu kveðjur
Guðrún Rögnvaldardóttir
Guðrún Rögnvaldardóttir (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 11:58
Ég man ekki eftir að hafa séð Guðrúnu í myndbandinu, ég hinsvegar var þar, og hef ekkert út á það að setja.
Þó ég verði nú að vera sammála að yfirleitt er það ef ekki annað en lágmarks kurteisi að tilkynna fólki að verið sé að taka upp myndbönd.
Steinn E. Sigurðarson, 30.8.2007 kl. 13:37
Þakka þér fyrir að fjarlægja upptökuna, Salvör. Ég treysti því að þú hafir líka fjarlægt hana af YouTube. Ég mun leita aftur til Persónuverndar ef svo er ekki.
Steinn, ég er reyndar í upptökunni, en það skiptir í sjálfu sér ekki máli. Það sem skiptir máli er að upptakan, og birting hennar, var gerð án heimildar og vitundar fundarmanna. Það er ólöglegt. Ég er sem fulltrúi fundarboðenda að gæta réttar þeirra sem mættu á fundinn. Þetta er prinsippmál.
Guðrún Rögnvaldardóttir (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 14:00
Sæl Salvör.
Ég komst því miður ekki á fundinn þrátt fyrir áhuga á efninu. Ég hefði áhuga á að sjá þetta myndskeið og furða mig í raun á því Guðrún Rögnvaldsdóttir er svona mikið í mun að það sé ekki birt. Fundurinn var jú opinn og staðlaráð hélt ég að flokkaðist sem opinber stjórnsýsla og erfitt að sjá að persónuvernd komi málinu við á þessum grundvelli.
Einar Th. Einarsson (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 14:05
Mig rekur minni til þess að dómstólar hafi úrskurðað að myndefni sem tekið er á opinberum stöðum falli ekki undir persónuverndarákvæði og þessi fundur var opinn, ekki satt?
kv.
Einar
Einar Th. Einarsson (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 14:11
Ég tók vídeóið strax út en hafði jafnframt samband við Persónuvernd. Ég ræddi þar við Rakeli Jensdóttur og spurðist fyrir um samkvæmt hvaða lagagreinum upptaka og birting bryti gegn.
Eftir því sem ég kemst næst þá var ekkert ólöglegt við upptöku og birtingu mína á þessu vídeó og þetta er dæmi um hvernig tjáningarfrelsi og persónuvernd geta stangast á. Ég get hins vegar ekki skilið orð þín Guðrún öðru vísi en svo að þú viljir ekki að þú sjáist í vídeóinu og ég mun taka þig út. Það er að ég held bara ein setning þar sem þú segir hvernig vinnuferli samþykktar í staðlamálum er.
Ég mun hins vegar birta vídeóið aftur þegar ég hef gert það. Ég mun því ekki verða við þeirri beiðni að fjarlægja upptökuna. Það stangast á við tjáningarfrelsi mitt og í þessu tilviki það að tjá hvernig stemmingin var á þessum fundi.
Ég m.a. sýni margar hendur á lofti, það voru afar margir sem vildu fá að tala en fengu ekki að tala á þessum fundi. Ég reyndi að sýna það. Það er partur af sögunni sem ég er að segja með þessu litla vídeó.
það hefði auðvitað verið best að leita samþykkis allra fyrir þessari upptöku. En ég mat þetta á sama hátt og ég met hvenær ég birti ljósmyndir af fólki, ég reyni að birta ekki efni sem sýnir fólk í niðrandi ljósi. Allir sem eru sýndir í þessu vídeó eru að segja skynsamlega hluti og þetta eru frásagnir eða rökfærsla um tæknileg mál á opinberum fundi, þetta er ekki spjall um viðkvæm persónuleg málefni.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.8.2007 kl. 14:12
Sæl Guðrún, ég er líka prinsipmanneskja og hér tekst á tjáningarfrelsi og persónuvernd og þar er ágætt að fá úr því skorið hvort viktar meira við þessar aðstæður
Ef á þetta reyndi í dómsmáli þá kæmi það mér verulega á óvart að þetta athæfi mitt væri talið ólöglegt á grundvelli persónuverndarlaga, ekki síst vegna þess að það eru mjög augljós rök tjáningarfrelsis fyrir því að ég set þetta svona fram og tók upp senur af því sem gerðist á fundinum og vegna þess að lög um persónuvernd voru ekki sett fyrir svona aðstæður. Það væri afarkostir að búa í þannig samfélagi að lög um persónuvernd væru öflugt verkfæri hjá valdamiklum aðilum sem eiga að þjónusta almenning til að tryggja að ekki mætti segja frá og skrásetja hvað færi fram á fundum sem sérstaklega eru boðaðir til að fólk geti sagt skoðun sína og fært rök með og móti.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.8.2007 kl. 15:56
Bravó, Salvör!
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 30.8.2007 kl. 16:26
Sæl Salvör.
Mér finnst sjálfsagt að fólk segi frá því sem fram fer á opnum fundi sem þessum. Það sem ég geri athugasemd við er að birta opinberlega upptöku sem gerð er án heimildar og vitneskju þeirra sem þar koma fram. Ég hefði gert athugasemd við það hvort sem ég sjálf sést þar eða ekki, þar sem fundurinn var haldinn á vegum Staðlaráðs. Við hjá Staðlaráði, sem fundarboðendur, berum ábyrgð á því að skrásetja það sem fram fer á fundinum og ég vona að okkur takist að gera það þannig að allir séu sáttir. Það fór auðvitað ekkert það fram á fundinum sem ekki má koma fyrir augu alls almennings. Hvers vegna baðstu ekki bara fundinn um leyfi fyrir upptöku og birtingu fyrirfram? Hefði það verið veitt þá væri allt í fína lagi.
Ég er sammála þér með að það er rétt að fá úr því skorið hvort vegur þyngra, réttur einstaklingsins til að hafa eitthvað um það að segja hvort myndskeið af honum, tekið án hans vitundar, er birt á netinu, eða réttur annars einstaklings til að birta myndskeið sem hann tekur án vitundar þeirra sem þar sjást.
Með bestu kveðju
Guðrún Rögnvaldardóttir
(sem vildi óska að það væri alltaf svona gríðarlegur áhugi á stöðlum.....)
Guðrún Rögnvaldardóttir (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 16:52
Guðrún:
Afhverju tókuð þið hjá Staðlaráði ekki upp fundinn á myndband og settuð á netið?
Mér finnst þetta frábært framtak hjá Salvöru og í anda opinnar stjórnsýslu.
Hefðuð þið veitt leyfi fyrir myndatökunni ef beðið hefði verið um það?
Því miður er þessi mikli áhugi á þessum staðli tilkominn útaf því að fólk er skíthrætt um að þið standið ykkur ekki í stykkinu og veitið Microsoft liðsinni ykkar við að fá samþykktan skemmdan og slæman staðal sem mun veita MS defacto einkaleyfi á notkun hans. Sjá http://www.sfjalar.net/2007/08/25/segjum-nei-vi%c3%b0-ooxml/
"OOXML er það flókinn og það tengdur Microsoft hugbúnaði að það mun enginn geta útfært hann 100% nema Microsoft. Því miður er það nokkuð ljóst að einmitt það er tilgangur Microsoft að skapa staðal sem einungis þeir sjálfir munu geta útfært."
Með von um að þið kynnið ykkur vel allar hliðar málsins og áttið ykkur á að skyldur ykkar liggja við almenning á Íslandi en ekki stórfyrirtæki með einokunarþrá.
Gunnar, 30.8.2007 kl. 22:30
"""Mér finnst þetta frábært framtak hjá Salvöru og í anda opinnar stjórnsýslu.""
Amen.
Baldur Fjölnisson, 30.8.2007 kl. 22:55
Mjög gott hjá þér, Salvör, að vekja athygli á þessu máli, og andspyrnan við einokurþrá Microsoft. Mér finnst myndbandið gefa betri mynd af hversu fjölmenn og breid hún sé, og um rök þeirra, en frásögn hefði gert.. Skil reyndar bæði þig og þá sem brá í brún við birtingu myndbandsins.
( En það er önnur saga )
Mig langar að svara spurninguna sem þú varst með :
Þú nefnir ein undirstraum, og fjallar um ein birtingarmynd þess, en spurningin var í fleirtölu. Þess vegnafinnst mer við hæfi að benda á nokkra undirstrauma, sem standa í baráttu við að láta sín sjónarmið heyrast :
Hjólreiðamenn.
Íbúasamtök
- Eru að spretta upp um alla Reykjavík og eflaust viðar.
- Baráttan er nokkuð ójöfn við yfirvöld og framkvæmdaaðila þrátt fyrir nokkra "hálf-sigra".
- eyndar er hætta á að of mikið er unnið út frá hugsuninni "Not in my back yard", en núverandi lögjöf ýta undir þessu. ( Skilgreinig á hverjir eiga hagsmuna að gæta ofl )
Svo er fullt af meir eða minna skrýtnum jaðarhópum, sem kannski eða kannski ekki geta orðið hluti af meginstraumnum, eins og til dæmis Framtíðarlandið, em er með nokkrum starfshópum, þar á meðal um lýðræði, eða ýmislegt sem má tengja við Hljómalind.Morten Lange, 1.9.2007 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.