Norræn velferðarstjórn - íslensk skrípamynd

Þegar bankarnir á Íslandi hrundu þá  keypti ég mér rautt hjól, ég átti þá nálægt milljón á bankareikning því ég hafði verið að safna fyrir bíl.  Ég taldi nánast öruggt að ég myndi tapa þeim peningum og það var þá ekki um neitt annað að velja en skipta yfir í hjól og strætó. En þá var tilkynnt að öll innlán í íslenskum bönkum yrðu tryggð fyrir þá sem hefðu íslenska kennitölu. Á sama tíma hrundi bílamarkaður, allt yfirfylltist af bílum sem fólk gat ekki borgað af lengur. Ég gat því tekið út peningana í bankanum og  keypt nánast nýjan bíl á hálfvirði. Núna ek ég þess vegna um á nýjum rauðum kreppubíl en hjóla ekki um á rauðu kreppuhjóli. 

Ríkisstjórn Íslands sló vissulega skjaldborg í kringum þegna sína með neyðarlögum og með því að borga út úr peningasjóðum úr bönkum. En sú skjaldborg var bara í kringum suma þegna, bara í kringum þá sem áttu innistæður í bönkum og innistæður í peningamarkaðssjóðum, bara í kringum fjármagnseigendur. Það er ekki ónýtt að  sleppa svona vel þegar kerfishrun verður að eiga alla peningana sína og allt í kringum mann er orðið miklu ódýrara, það er hægt að kaupa bíla og hús og fyrirtæki á slikk í dag miðað við hvað verðið var fyrir hrun.  Það var mjög fallegt af ríkisstjórninni að passa upp á að ég gæti keypt bíl en þyrfti ekki að notast við hjól og strætó.

Margar vörur hafa  hrapað í verði, olía og ál kostar bara brot af því sem verðið var fyrir hrun fjálmálamarkaða heimsins. Þetta er því mikil gósentíð fyrir þá sem eiga peninga og íslenska ríkisstjórnin var örlát við fjármagnseigendur og gaf og gaf  og fylgdi  "gakktu í sjóðinn nr. 9 og sæktu þér hnefa" stefnu þegar borgað var út úr íslenskum peningamarkaðssjóðum.

Sumir fjármagnseigendur hafa hugsanlega tekið peninga sína úr landi til að geta svo komið með þá aftur hingað þegar allt hefur lækkað ennþá meira hérna með hruni gengis og almennu hruni. Þeir geta þannig margfaldað ágóða sinn af kerfishruninu, kannski alveg á löglegan hátt og með með aðstoð og góðvilja íslensku ríkisstjórnarinnar.

En það búa fleiri á Íslandi en fjármagnseigendur.
Satt að segja þá er flest ungt fólk og flestir sem reka fyrirtæki frekar skuldarar en fjármagnseigendur. Fyrirtæki hafa um langt skeið verið rekin þannig að ekkert eigið fé er í fyrirtækjum, allar vélar, húsnæði og bílar eru á kaupleigu og það gefur augaleið ef allir kostnaðarliðir hækka skyndilega um 25 % út af gengisfalli og verðbólgu á sama tíma og verðhrun og sölutregða verður á afurðum þá eru nánast engin fyrirtæki sem lifa af svoleiðis aðstæður.

Það varð kerfishrun, ekki bara á Íslandi heldur í öllum heiminum. Gjaldmiðlar. ekki bara íslenska krónan heldur allir gjaldmiðlar heimsins eru ekki að virka í því samfélagi sem við búum í og með þeim eru búnar til alls konar  bólur og froða sem á sér enga stoð í raunverulegum verðmætum. Það er skrýtið að í þannig kerfi sé helgasta eignin peningar í banka. Reyndar er kreppan skýrð eftir þessu, kölluð "lausafjárkreppa" og  sögð hafa verið hrint af stað af "undirmálslánum". 

Undirmálslánin eru glötuð lán, lán sem verður að afskrifa. Þau ganga kaupum og sölum í hinu kapítalíska kerfi, stundum er verðið fyrir lánapakkana ekki nema 10 % af upphæð lánanna. En í alveg kapítalísku kerfi þá ganga lánapakkarnir kaupum og sölum í bankaheiminum og fjármálaheiminum án tillits til þess hvað gerist þegar gengið er af lánunum. Þau hafa verið afskrifuð af því að gert er ráð fyrir að þegar bíllinn er tekinn aftur af kaupleigufyrirtækinu og húsið er tekið yfir af bankanum þá fáist ekki nema lítið brot fyrir þetta á uppboði.

En á meðan þetta gerist þá eru milljónir gerðar heimilislausar og settar á vergang. Lánin eru ekki afskrifuð á þessar fjölskyldur, lánin eru afskrifuð í viðskiptum um viðskipti um viðskipti í einhverju alþjóðlegu bólu- og froðukerfi sjokkkapitalista. Við horfum upp á þetta gerast í Bandaríkjunum og íslenska ríkisstjórnin fylgir sama módeli, bara kallar þetta hérna  norræna velferðarstjórn.

Hér er íslenski viðskiptaráðherrann í viðtali um norrænu velferðarstjórnina á Íslandi, þið vitið, þessa sem slær skjaldborg utan um fjármagnseigendur og tjaldborg utan um skuldara.

8abf7104dd7a1da


mbl.is „Viljum hafa fast land undir fótum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband