Lífsýni og pabbi hans Lúðvíks

Ég var að lesa grein Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag. Þetta er áhugavert mál bæði vegna þess að það vekur til umhugsunar um hvernig fara má með lífssýni  og svo vegna þess að  sú fjölskylda sem um ræðir  var um langt skeið í valdaaðstöðu á Íslandi.  Lúðvík telur sig son fyrrum forsætisráðherra og hálfbróður fyrrum forsætisráðherra. Þetta er ekki spurning um peninga, það kemur fram í grein Agnesar að erfðakröfur eru löngu fyrndar. Þetta er spurning um að aldraður maður vill fá viðurkenningu á faðerni sínu. Lúðvík er einnig lögfræðingur og hefur aðstöðu til að sækja mál sitt fyrir dómstólum.

Þetta minnir mig á annað mál sem fór fyrir héraðsdóm fyrir nokkrum árum. Ég þekki mann sem þá var sviptur faðerni sínu. Ég held hann hafi ekki mætt þegar málið var tekið fyrir.  Hann var ekki í þannig aðstöðu í lífinu að kunna á lagaflækjur eða geta kostað lögfræðinga til að verja rétt sinn. Í því tilviki var höfðað mál til ógildingar á nokkurra áratuga faðernisúrskurði. Þetta hafði mikil áhrif á manninn sem nú er einskísson. Sennilegt er að það mál hafi verið höfðað vegna erfðamála, til að tryggja að væntanlegur arfur úr útgerðarfyrirtæki rynni ekki til  utanhjónabandsbarns. Baráttan um fiskveiðikvótann birtist á ýmsa vegu.

Ég var að blaða í  bókinni Öldinni okkar í kringum siðskiptin. Þá voru endalaust málaferli í gangi þar sem reynt var að komast yfir eignir með því að reyna að finna meinbugi á hjónaböndum t.d. að hjónaband hefði verið ógilt og hjónabandsbörnin því arflaus vegna þess að hjónin hefðu verið fjórmenningar. Allt gekk út á að hjónin sýndu fram að að þau væru ekki fjórmenningar. Ég velti fyrir mér hvort svona lífsýnamálaferli muni þykja jafnfurðuleg eftir einhverjar aldir eins og þessi fjórmenningmálaferli. Sem í ljósi sögunnar var klárlega sjónarspil gert til að geistleg yfirvöld gætu komist yfir eignir og beygt fólk til hlýðni og tryggt völd sín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband