Ríkisstjórn Íslands frussar á almenning og gengur erinda fjármögnunarleigna og bílasala

Það er heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu í dag frá Ríkisstjórninni undir heitinu "Aðgerðir í þágu heimilanna". Seinast á þeirri síðu er "Endurgreidd gjöld af útfluttum bílum". Hvernig vogar Ríkisstjórnin sér að kynna slíkt sem aðgerð í þágu íslenskra heimila? Ríkisstjórnin  hugsar mun betur um hag bílasala og  þeirra sem eiga kaupleigur en hag barna á Íslandi.  Þessi aðgerð gerir ekkert fyrir heimili á Íslandi nema gera bílakaup þeirra í framtíðinni erfiðari  en hún verður hugsanlega til þess að bílasalar og  fjármögnunarleigur geta skrapað sér inn pening og hugsanlega er einhverri sposlu hent í fólk svo það sætti sig betur við að bílarnir séu teknir af því. Venjulegt fólk sem hefur keypt bíl á kaupleigu er löngu hætt að eiga neitt í bílnum. 

Það að hreinsa sem flesta nýlega bíla af Íslendingum og selja úr landi er hins vegar hlutur sem  mun ekki gera annað en hækka verð á notuðum bílum mjög snarlega til Íslendinga. 

utrasarvikingar

 Það var ekki venjulegt fólk eða konur og börn á Íslandi sem átti  porsche bíla  eða lúxusjeppa.

Það hefur ekkert að gera fyrir framtíð Íslands þó að lúxúskerrrur í eigu fallinna stjarna útrásarinnar verði seldar úr landi og það er bara flott að losna við þá sem fyrst og þann ömurlega lífstíl sem þeim fylgdi.

En þegar til lengri tíma er litið þá er það verulega fólki hérna í óhag að greiddar séu útflutningsbætur með nýlegum bílum til að selja þá hræódýra í öðrum löndum. Gengisskráning er núna þannig að bílar án útflutningsbóta eru hérna miklu ódýrari en í grannlöndum okkar.

Til lengri tíma litið mun sú aðgerð Ríkisstjórnarinnar að greiða útflutningsbætur á bíla eingöngu gera kosti fólks sem ætlar að kaupa sér notaða bíla miklu, miklu lakari. Bílar eru atvinnutæki í mörgum tilvikum og í tilviki Íslands sem ætlar að satsa á ferðamennsku þá eru bílar mjög nauðsynlegt atvinnutæki og það er tækifæri fólgið í því fyrir atvinnusköpun að hér séu fyrir hendi ódýrir bílar. Eða halda þeir sem trúa á ferðamennsku að hún sé eingöngu fólgin í að rusla túristum í hópum upp í rútur í the golden circle and the blue lagoon? 

Það er mjög skammsýnt og vitlaust að stuðla að því að greiða útflutningsbætur með bílum til að flytja þá úr landi. Það er að engu leyti í þágu heimilanna í landinu.

Ríkisstjórnin sýnir með þessu sitt grímulausa andlit. Þetta er ríkisstjórn sem gengur erinda bílasalanna, fjármögnunarleignanna og þeirra sem núna vilja selja allt sem hægt er að selja sem útsölufóður og brotajárn en skilja okkur hérna eftir  bjargarlaus án allra verkfæra sem gætu komið okkur af þessum stað sem við erum á núna.  

 


mbl.is Íslensk þjóðarsál í sárum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Afleiðingarnar verða að með þessum útflutningsbótum þá geta bílaumboðin (sem eiga stærsta hlutann af notuðu bílum) minnkað framboðið af notuðum bílum. Þar með hækkar verð á notuðu bílunum sem eftir verða.

Hvernig þetta á að hjálpa heimilinum í landinu er mér fyrirmunað að skilja.

Sigurður Haukur Gíslason, 15.11.2008 kl. 12:46

2 identicon

Sammála Sigurði

Þetta mun fyrst og fremst bjarga þeim sem lánuðu fyrir þessum bílum. Almenningur mun missa af ágóðanum.

Gunnar (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 13:08

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

þessi aðgerð er fyrst og fremst aðgerð fyrir fjármögnunarleigurnar og bílasalana. Bílasalarnir græða á því að það hverfa notaðir bílar af markaði hérna. Fjármögnunarleigurnar geta væntanlega lækkað tap sitt. Fólkið sem tók þessi bílalán og vill núna losna við bílana mun græða eitthvað. En þetta er ekki aðgerð fyrir heimilin í landinu og það er ógeðfellt að sjá hana kynnta sem slíka.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.11.2008 kl. 13:41

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sennilega munu þeir sem nú eru að missa bíla sína tapa í raun á þessu sérstaklega ef það er fólk sem hvort sem er er gjaldþrota. Það þýðir að það skiptir það ekki máli hvað fæst fyrir bílana, það er fyst og fremst mál þrotabússins hvað fæst upp í kröfur.

En fyrir fólk sem þarf að byrja aftur á núllpunkti þá skiptir máli að hlutir eins og notaðir bílar séu ekki dýrir. Að borga útflutningsbætur til að flytja bíla úr landi þýðir minna framboð af notuðum bílum og erfiðleika við að kaupa sér bíl í framtíðinni.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.11.2008 kl. 13:45

5 identicon

Sæl Salvör. Hlustaðir þú á jómfrúarræðu Helgu Sigrúnar á Alþingi?

En þarna eru gjaldeyristekjur, hægt að forðast gjaldþrotum og uppsögnum, færri bílar=minni mengun => mengunarkvóti Kyoto

Þetta spilar allt saman og bílasalar eiga fjölskyldur líka, og störf þar í húfi. Það voru greidd vörugjöld(skattur) af þessum bílum þegar þeir voru fluttir inn. Ef einstaklingar geta losað sig við bíla án þess að kveikja í þeim með tilheyrandi útgjöldum fyrir trygginarfélögin => hækkun iðgjalda þar => aukin verðbólga

Hægt að skoða þetta frá mörgum hliðum.

Soffía (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 13:54

6 identicon

Sæl Salvör,

ég er alveg sammála þér í þessu. Þetta verður til þess að notaðir bílar hækka margfallt í verði enn eitthvað verður að gera til að þessir bílar ryðgi ekki á bílasölum landsins og verða verðlausir.

Annað, fór í Krónuna eftir hádegi og keypti inn mat og aðrar nauðsynjavörur. Þetta voru fjórir og hálfur poki. Verð 23000kr takk fyrir. Er engin að ræða hvað verð á matvörum hefur hækkað mikið undanfarið? Ég áætla að í fyrra hefði þetta kostað ca. 50% minna. Þetta er svakalegt.

Pétur Stefánsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 14:33

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Soffía: Það er líka vissulega hægt að fá gjaldeyri með því að selja frá okkur allt sem getur skapað tekjur í framtíðinni.  En það er eins mikið fávísi og að selja allt útsæðið og geta þess vegna ekki sett niður kartöflur að vori. 

Þessi aðgerð er EKKI aðgerð til styrktar heimilunum í landinu. Þetta er aðgerð til að selja burt allt sem er ekki naglfast og huga þar ekkert að það getur verið eitthvað sem skapar verðmæti. Vissulega má gjarnan henta þessum porche bílum út á haf mín vegna en að fara að borga útflutningsbætur á bíla til að flytja þá úr landi til að selja á spottprís annars staðar - á tíma þegar bullandi heimskreppa er alls staðar - er ekki aðgerð sem hjálpar Íslandi. Þetta er aðgerð sem hjálpar bílasölum og fjármögnunarleigum.

það er ágætt að ríkisstjórnin komi hreint til dyranna, segi að þetta sé ríkisstjórn sem fyrst og fremst gætir hagsmuna athafnamanna, það hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf haft að leiðarljósi - en ég varð reið í morgun þegar þetta var falið inn í einhverjum aðgerðapakka og látið eins og þetta væri í þágu heimila í landinu. Svo er ekki.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.11.2008 kl. 14:51

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er í þágu allra Íslendinga að halda hér á landi eins miklum verkfærum og aðföngum sem geta hjálpað okkur að takast á við nýja tíma. Það er ill ríkisstjórn og vitlaus sem hjálpar til að flytja slíkt úr landi og niðurgreiðir slíkt.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.11.2008 kl. 14:53

9 identicon

Þetta held ég að sé mjög mikill misskilningur. Þetta er aðgerð sem ríkisstjórnin hefði þurft að grípa til fyrir löngu, auk annarra aðgerða sem mögulega hefðu bjargað þjóðinni frá því að lenda í þessum miklu hremmingum.

Íslendingar hafa langflesta bíla miðað við höfðatölu í Evrópu.Minnir að það séu um 650 bílar per 1000 manns eða eitthvað ámóta. Þannig að það er klárlega borð fyrir báru þar. Rekstrarkostnaður af bíl er stór partur af heimilisbókhaldinu. Ef heimili fækkar sínum bifreiðum úr 2 í 1 eða úr 3 í 2 t.d. þá er þar ávinningur upp á 500.000-1.000.000 kr eða meira á ári fyrir heimilið!

Ástæðan fyrir að ríkið þarf að endurgreiða vörugjöldin af bílunum ef þeir eru fluttir út er sú að ef þú skoðar heimasíður bílasala í Evrópu þá er ekki hægt að bjóða upp á samkeppnishæft verð vegna þess að ríkið er búið að hækka verð íslensku bílana um tugi prósenta með tollum og vörugjöldum. Núna er mikill skortur á gjaldeyri og verðbólga er að stórum hluta vegna þess að krónan hefur veikst. Ef  bílar eru seldir út þá fæst þar gjaldeyrir, og þar sem uppgreiðslu lána er ekki lokið þá hætta lánagreiðslurnar um hver mánaðamót að veikja gengi krónunnar. Þetta á sérstaklega við um myntkörfulán.

Ef 10 millj. bíll hefur verið keyptur á 90% láni þá er enn eftir að skipta 9 milljónum króna í evrur með tilheyrandi krónuveikingu.

Hér var því möguleiki á að bjarga okkur frá gjaldeyriskrísu með því að búa til þessa tímabundnu útflutningsgrein enda liggja sennilega nokkur hundruð milljarða í þessum bílum okkar.

Kv. Þorgeir

P.s. þekki engan bílasala, þekki enga á fjármögnunarleigum, sé einfaldlega þennan stóra kostnaðarlið í mínu heimilisbókhaldi.

Þorgeir Gestsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 15:22

10 Smámynd: Ágúst Hjörtur

Ég er sammála þér Salvör - það var ansi snautlegt að sjá Ingibjörgu boða þessa "bjargræðisleið" í gær. En þú minnist ekki orði á það mér þykir þó sýnu verra: Allar þessar aðgerðir eiga það sameiginlegt að kosta ríkið ekki krónu til lengri tíma. Þetta snýst allt um greiðsluflæði og lengja í hengingarólinni hjá fólki; það á að lána fólki sem hefur ekki efni á að borga verðbæturnar fyrir þeim - fólkið á bara að borga seinna. Og það á að borga barnabæturnar út oftar - ekki hækka þær. Ég veit ekki með aðra en mér finnst þær furðulega lágar og skil ekki að þetta hafi mikið áhrif. Og síðan á leyfa þeim sem missa húsin sín að leigja þau. Útaf fyrir sig í gott og gilt, en hvernig væri nú að koma í veg fyrir að fólkið missi húsin? Fyrir utan nú að þetta lámarkar skaðann, því enginn getur hvort sem er keypt húsin og betra fyrir ríkið að fá leigutekjur en sitja uppi með auð hús og heimilislaust fólk. Allar þessar aðgerðir eru þannig frá sjónarhóli frá sjónarhóli fjármálaráðherra - því það er jú það sem Geir er ennþá, hann er ekki farinn að hugsa eins og forsætisráðherra allrar þjóðarinnar heldur hugsar hann eingöngu um ríkiskassann. Svo enn og aftur spyr maður sig: Hvar er Samfylkingin?

Ágúst Hjörtur , 15.11.2008 kl. 16:35

11 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Þetta gefur fólki tækifæri á að losa sig bíla sem það ræður ekki við að eiga og fá viðunandi verð fyrir

Það liggja bílar fyrir 10-20 milljarða á bílasölum og koma þeim í verð fyrir evrur hjálpar til við að styrkja gengi krónunnar

Þetta er mikilvægt til að bjarga verðmætum frá því að grotna niður 

Þessi ákvörðun er hið besta mál og kemur okkur öllum til góða

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.11.2008 kl. 18:01

12 Smámynd: Egill Jóhannsson

Sæl Salvör

Gott að fá gagnrýni. Ég tek hana til mín þar sem ég er bílasali. Vil koma með rök á móti gagnrýni þinni.

Áður en ég tek til við að svara þá vil ég að ein staðreynd komi fram. Fyrirkomulag gjalda á notuðum bílum þ.e. vörugjalda og virðisaukaskatts á Íslandi er í dag öfugt við það sem gerist í flestum löndum í kringum okkur. Mjög íþyngjandi.

Ef þú átt bíl í Þýskalandi og vilt selja hann úr landi færðu að sjálfsögðu virðisaukaskattinn endurgreiddan. Sama á við um Bandaríkin. Kanada. Og fleiri lönd. Þessi lönd hafa engin vörugjöld þannig að það er ekki vandamál þar.

Og hvað gerist. Í þessum löndum er jafnt og þétt flæði elstu bílanna úr landi og til landa þar sem fólk hefur síður efni á nýjum bílum. Endurnýjun eðlileg.

En snúum okkur að blogginu og athugasemdum við það. Í fyrsta lagi vil ég nefna að það er rangt sem Sigurður Haukur segir í fyrstu athugasemd við bloggfærsluna þína þ.e. að bílaumboð eigi "stærstan hluta af notuðum bílum".

Að sjálfsögðu ekki. Í landinu eru sennilega um 250-260 þús. bílar. Gróft skotið þætti mér ekki ólíklegt að bílaumboðin ættu um 1%. En hverjir eiga bílana? Nú, auðvitað fjölskyldurnar í landinu, fyrirtækin og þ.á.m. bílaleigur.

Þætti mér ekki ólíklegt að bílaleigur eigi annað eins þ.e. 1%. Í þessu samhengi er gaman að nefna gott dæmi um vitleysuna í umræðunni þegar í fréttum kom að bílar væru fleiri en ökuskírteini. Að sjálfsögðu.

Þessi vitleysa kom líka upp árið 2002 ef ég man rétt. Og hver er vitleysan. Nú auðvitað eru ekki bara einstaklingar sem eiga bíla. Fyrirtæki eiga bíla. Fyrirtæki eru ekki með ökuskírteini. Bílaleigur eru ekki með ökuskírteini. Bílaumboð eru ekki með ökuskírteini.

En skoðum færsluna þína nánar. Þú segir m.a;

"Þessi aðgerð gerir ekkert fyrir heimili á Íslandi nema gera bílakaup þeirra í framtíðinni erfiðari  en hún verður hugsanlega til þess að bílasalar og  fjármögnunarleigur geta skrapað sér inn pening og hugsanlega er einhverri sposlu hent í fólk svo það sætti sig betur við að bílarnir séu teknir af því. Venjulegt fólk sem hefur keypt bíl á kaupleigu er löngu hætt að eiga neitt í bílnum."

Í þessum orðum eru margar  mótsagnir. Ef offramboð er á notuðum bílum þá hrynur bílverð. Það gerir bílakaup erfiðari í framtíðinni. Þess vegna er það gott ef létt er á flotanum til að bílverð nái eðlilegu jafnvægi. Gott endursöluverð notaðra bíla er stærsti þátturinn í því hvort fólk geti endurnýjað bílinn sinn.

Ef endursöluverð hrynur þá er einmitt MEIRI líkur á því að fólk sem á bíla geti ekki staðið undir afborgunum eða seld bílinn og greitt upp lánið. Þetta hefur ekkert með sporslur til bílasala eða fjármögnunarfyrirtækja að gera.

Langflestir kaupa bílana sína á bílasamning (ekki kaupleigu). En í raun skiptir það engu máli. Ef afborganir hafa hækkað hvort sem er af bílasamning eða kaupleigu eða einkaleigu eða rekstrarleigu þá er einmitt mikilvægt að viðkomnandi geti selt bílinn og greitt upp lánið. Ef hann kýs svo. Nú er það mjög erfitt. En yrði betra ef frmvarpið yrði samþykkt.

Þú talar um lúxuskerrur;

Það hefur ekkert að gera fyrir framtíð Íslands þó að lúxúskerrrur í eigu fallinna stjarna útrásarinnar verði seldar úr landi og það er bara flott að losna við þá sem fyrst og þann ömurlega lífstíl sem þeim fylgdi.

Þessa orðanotkun ber að varast. Í umræðunni tala menn mjög um lúxusbíla en sú umræðu er eingöngu til þess fallin að selja blöð og hentar stjórnmálamönnum í lýðskrumi. Lúxusbílarnir skipta engu máli í þessu samhengi því þeir eru það lítið brot af öllum fjölda bílanna. Fljótt á ltið gæti ég giskað á að þeir næmu kannski 3-4% af heildarfjölda bíla í landinu.

Er ekki ráð að einbeita sér að því að ræða hin 97 prósentin. Þetta er nákvæmlega sama gildra og menn féllu í þegar umræðan var sem hæst um mengandi risapallbíla frá Bandarikjunum. Heildarfjöldi þeirra var sennilega um 0,5% af heildarsölu bíla. En það hentaði ákveðnum hópum að setja hlutina svona fram.

Þú segir;

En þegar til lengri tíma er litið þá er það verulega fólki hérna í óhag að greiddar séu útflutningsbætur með nýlegum bílum til að selja þá hræódýra í öðrum löndum. Gengisskráning er núna þannig að bílar án útflutningsbóta eru hérna miklu ódýrari en í grannlöndum okkar.

í fyrsta lagi er rangt að tala um útflutningsbætur heldur er verið að setja notaða bíla á Íslandi jafnfætis þeim mörkuðum sem þeir færu til. í öðru lagi er það rangt að bílarnir séu miklu ódýrari en í öðrum löndum. Það er einmitt öfugt, notaðir bílar á Íslandi eru mun dýrari en í öðrum löndum einmitt vegna fyrrgreindra gjalda. Og ekki nóg með það. Þegar bílarnir færu til annarra landa þá myndi virðisaukskattur og hugsanlega vörugjöld leggjas OFAN Á íslensku gjöldin og virðsiaukaskattinn.

Þetta gerist EKKi ef menn kaupa notaða bíla frá Þýskalandi, USA eða Kanada svo stærstu löndin eru tiltekin.

Þú segir;

Til lengri tíma litið mun sú aðgerð Ríkisstjórnarinnar að greiða útflutningsbætur á bíla eingöngu gera kosti fólks sem ætlar að kaupa sér notaða bíla miklu, miklu lakari.

Nei, og hafa rökin verið færð fyrir því hér á undan. Ef ég samt endurtek. Flestir bílkaupendur eiga bíla fyrir og ef þeir hrynja í verði þá verður erfiðara fyrir þá að endurnýja.

Þú segir;

Bílar eru atvinnutæki í mörgum tilvikum og í tilviki Íslands sem ætlar að satsa á ferðamennsku þá eru bílar mjög nauðsynlegt atvinnutæki og það er tækifæri fólgið í því fyrir atvinnusköpun að hér séu fyrir hendi ódýrir bílar. Eða halda þeir sem trúa á ferðamennsku að hún sé eingöngu fólgin í að rusla túristum í hópum upp í rútur í the golden circle and the blue lagoon? 

Þetta er einnig rangt. Þú ert væntanlega að tala um bílaleigur. Ein stærsta ástæðan fyrir háu verði bílaleigubíla hér á landi er einmitt sú staðreynd að EKKI er hægt að flytja þá úr landi vegna hárra gjalda. Í raun er staðan orðin þannig í bílaleigubransanum að það er EKKI HÆGT að taka við fleiri ferðamönnnum sem vilja leigja bílaleigubíla.

Og afhverju ætli það sé? Jú, ferðamannatíminn á Íslandi er mjög stuttur og á þeim tíma kemur gífurlegur fjöldi ferðamanna. Mjög margir vilja leigja bíla og því þarf mikið magn bílaleigubíla til landssins á stuttum tíma.

En þegar þetta stutta tímabil er búið þarf að selja bílana aftur og þá koma allt of margir bílar inn á markaðinn. Því gæti verið gott að selja þá úr landi. En það er ekki hægt vegna fyrrgreindra ástæðna.

Að lokum segir þú;

Ríkisstjórnin sýnir með þessu sitt grímulausa andlit. Þetta er ríkisstjórn sem gengur erinda bílasalanna, fjármögnunarleignanna og þeirra sem núna vilja selja allt sem hægt er að selja sem útsölufóður og brotajárn en skilja okkur hérna eftir  bjargarlaus án allra verkfæra sem gætu komið okkur af þessum stað sem við erum á núna

Svarið við þessu er einfalt.

Í fyrsta lagi er hverjum og einum í sjálfsvald sett að selja bílinn sinn eða ekki. Reynum nú að vera ekki eins og stjórnvöld og treystum fólkinu sjálfu til að taka skynsamar ákvarðanir.

Í  öðru lagi er þetta frábær leið til að afla gjaldeyris á þeim tíma sem hann sárlega vantar og margar krónur fást fyrir gjaldeyrinn sem getur komið bíleigendum vel.

Í þriðja lagi eru of margir bílar í landinu m.v. þau efnahagsumsvif sem við erum líkleg til að sjá næstu mánuði

Og í fjórða lagi þegar og ef okkur vantar verkfæri (bíla) til að skapa tekjur þá einfaldlega kaupum við þá aftur, nýja eða notaða (frá Þýrskalandi, USA eða Kanada) á betra verði því þá verður gengið orðið betra.

Með kveðju

Egill Jóhannsson

Egill Jóhannsson, 15.11.2008 kl. 18:30

13 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Egill: Takk fyrir þetta greinargóða svar. Það er auðvitað út frá sjónarhóli bílasalans og þessar aðgerðir geta ekki annað en verið þóknanlegar bílasölum.  Flestöll rök þín eiga við markaðskerfi sem gengur eins og smurð vél og mun halda áfram að gera það. Þannig er ekki með Ísland í dag og ekki neinar líkur á að það gerist á næstunni, það kemur ekki í bráð sú tíð þar sem við fáum bíla "á betra verði því þá verður gengið orðið betra".

Sumt er mjög skrýtið í röksemdafærslu þinni t.d. varðandi bíla sem nýtast í ferðamennsku. Vissulega er ferðamannatímabilið stutt en hvernig stendur á því að hér eru hótel byggð og gististaðir fyrir ferðamenn sem ekki eru í notkun nema yfir ferðamannatímann.  þú segir: "En þegar þetta stutta tímabil er búið þarf að selja bílana aftur og þá koma allt of margir bílar inn á markaðinn. Því gæti verið gott að selja þá úr landi. En það er ekki hægt vegna fyrrgreindra ástæðna."

þetta er skrýtið, eru bílar seldir strax eftir hvert ferðamannatímabil?  það er alla vega afar óvistvænt og skrýtið ef flytja á bíla til landsins á hverju vori fyrir túristavertíð og flytja þá út á haustin. Það hlýtur að vera til skynsamlegri lausn á þessu, hugsanlega er það ekki lausn sem passar við túrisma eins og hann er rekinn núna.

Varðandi þá röksemd að það sé mikilvægt fyrir þá sem eru að endurnýja bíla að það sé sé gott verð fyrir gamla bílinn þá er ástandið bara þannig núna að það er mikilvægast að endurnýja alls ekki neina bíla með því að flytja bíla til landsins. það er út frá þjóðarhag en þáð horfir náttúrulega öðruvísi út frá sjónarhóli bílasala. 

það er mikilvægt að við séum öll næstu misseri á þeim bílum sem núna eru til í landinu en hingað verð alls ekkert keypt af nýjum bílum. Allra vitlausast er að selja bíla sem hingað eru komnir út á spottprís til að rýma markaðinn svo það verði að flytja inn bíla. Það er fáránlegt. En þetta mál horfir öðruvísi við frá sjónarhóli einstaklinga og bílasala og frá þjóðarhag og líka miðað við skammtíma og lengri tíma.

Til lengri tíma litið (þ.e. lengur en bara næstu þrjá mánuði) þá er betra fyrir þjóðarhag að hafa þann bílaflota í landinu sem hér er og ENDURNÝJA ENGA BÍLA og flytja enga bíla inn til landsins. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.11.2008 kl. 19:05

14 Smámynd: Egill Jóhannsson

Sæl

Ég er ósammála þér varðandi markaðskerfið. Það er einmitt gríðarlega mikilvægt að það fari að fúnkera sem fyrst og það mun gera það.

Varðandi röksemd mína um stutt ferðamannatímabil þá gilda þau rök líka um hótel og reyndar alla fjárfestingu í ferðaiðnaðinum. En hótelin er að sjálfsögðu ekki hægt að flytja úr landi eftir tímabilið.

En hvert er vandamálið. Ég hefði átt að skýra það betur en það er margþætt:

1. Fjárbinding (þ.e. mikil binding í bílum, hótelum, o.s.frv. yfir vetrarmánuði þegar ekki er þörf á þessum atvnnnutækjum) þ.e. slæm lausafjárstaða

2. Fjármagnskostnaður þ.e. fyrrnefnd fjárbinding veldur miklum vaxtakostnaði

3. Trygginar bíla sem standa yfir veturinn en leigjast ekki út

4. Bílar hafa ekki gott af því að standa og geta bilað við það

5. Bílar falla í verði eftir því sem þeir eldast (afskriftir) og því er slæmt að þeir falli í verði yfir veturinn á meðan ekki er hægt að leigja þá út.

6. Geymslusvæði er dýrt því bílar taka mikið pláss

Vegna þessara ástæðna reyna bílaleigur að selja bílana aftur eftir sumarið (eða gera endurkaupasamninga við bílaumboð). Of mikið magn á sama tíma á Íslandsmarkað lækkar endursöluverðið sem hækkar leiguverðið til ferðamanna.

Fyrri rök varðandi hækkun á endursöluverði halda enn en til viðbótar gilda líka atriðin sem ég setti hér varðandi rök fyrir að selja bílaleigubíla.

Já, ég hef hagsmuni og þess vegna setti ég strax inn í upphafi að ég væri bílasali. En ég bið alla að lesa þetta með opnum huga.

Þá sjá menn að rökin halda og vel það.

Egill Jóhannsson, 15.11.2008 kl. 19:33

15 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Egill!

Ég var að sjálfsögðu að meina að bílaumboðin ættu stærstan hluta af notuðum bílum sem eru til sölu.  Að tilgreina hvað margir bílar eru til í landinu kemur þessum útflutningsbótum við.

En þú getur kannski útskýrt eitt þar sem þú ert nú framkvæmdastjóri yfir því fyrirtæki sem flytur inn hvað mest af nýjum bílum?

1.  Bílaumboðin eiga u.þ.b. 5000 nýja bíla á hafnarbakkanum og u.þ.b. 5000 notaða bíla. Af hverju er betra að borga með gömlu bílunum heldur en nýju? Ef það er búið að eyrnamerkja 1,5-2 milljarða í þessar útflutningsbætur þá skiptir það ríkiskassann ekki máli hvort bílarnir eru nýjir eða gamlir.

2.  Hvort hækkar verð eða lækkar á þeim u.þ.b. 3000 óseldum bílum sem eftir verða ef við gefum okkur að 8000 bílar séu nú til sölu?

3.  Hvort er betra eða verra fyrir bílaumboðin að gömlum bílum sé fækkað á Íslandi?

4. Hvað ætla bílaumboðin að gera við þessa  nýja 5000 bíla sem standa á hafnarbakkanum?

Sigurður Haukur Gíslason, 15.11.2008 kl. 23:17

16 Smámynd: Egill Jóhannsson

Sæl aftur Salvör

Ég gleymdi að gera athugasemd við upphafsorð þín í síðustu athugasemd þinni. Þar segir þú;

"Það er auðvitað út frá sjónarhóli bílasalans og þessar aðgerðir geta ekki annað en verið þóknanlegar bílasölum."

Þessi orð eru eingöngu til þess fallin að draga úr trúverðugleika mínum VEGNA ÞESS að ég er bílasali. Ekki vegna þess að þú hafir greint orð mín og rök og hafir fært rök gegn þeim. Nei, þvert á móti, var andsvar þitt gegn rökum mínum máttlaust og ekki til þess fallið að hrekja neitt af því sem ég hafði þegar skrifað.

Upphafleg gagnrýni þín á frumvarpið var mjög óvægin, lítt ígrunduð og var augljóslega til komin vegna mikillar vanþekkingar á bílamarkaði og rekstri fyrirtækja almennt og þá sérstaklega bílaleiga.

Ég kom með rök með frumvarpinu en tók fram að ég væri bílasali þannig að það færi ekki á milli mála en vonaði um leið að lesendur greindu rök mín og kæmu með vandaða gagnrýni á þau út frá þeim sjálfum en ekki út frá því hver ég væri eða hvað ég gerði.

Nú mætti alveg eins skoða skrif þín út frá sömu forsendum og þú skoðaðir mína athugasemd. Ég hef því miður engar forsendur til þess vegna þess að ég veit ekki við hvað þú starfar eða hverra annarra hagsmuna þú gætir haft til að gera þessar athugasemdir við frumvarpið.

Því les ég skrif þín á sama hátt og ég myndi lesa skrifin ef þau væru skrifuð undir dulnefni þ.e. eingöngu út frá þeim rökum sem sett voru fram. Án fordóma. Það væri áhugavert fyrir þig og aðra lesendur á þessu bloggi að íhuga ef ég hefði komið með sömu rök undir dulnefni hvernig þau hefðu verið metin.

Kannski hefði einhver sagt. Huh. Þetta er örugglega bílasali. Eða einhver hefði sagt. Já, þarna eru sannfærandi rök fyrir framlagningu þessa frumvarps. Í þessu samhengi er líka rétt að skoða þögn annarra kommentara gagnvart rökum mínum. Hún er alger. Ennþá.

Ergó: Gagnrýni er nauðsynleg og þess vegna þakkaði ég fyrir gagnrýni þína á frumvarpið. En gagnrýni er til lítils ef hún er ekki vel rökstudd og byggir að mestu á sleggjudómum. Það er ekki þar með sagt að það megi ekki setja þannig gagnrýni fram. En hún hefur engin áhrif.

Að lokum þakka ég fyrir að fá að setja inn þessar athugasemdir, óritskoðaðar, því það eru ekki allir bloggarar jafn hugrakkir hvað það varðar eins og þú og ég. Jafnvel ekki bloggarar sem dásama lýðræði og hvetja til mótmæla en þegar þeim hentar þá annaðhvort eyða þeir út athugasemdum eða banna þær alveg.

Maður veit þá a.m.k. hvernig þeir myndu stjórna landinu ef þeir kæmust til valda. Alveg eins og þeir sem nú stjórna.

Með kveðju

Egill

Egill Jóhannsson, 15.11.2008 kl. 23:29

17 Smámynd: Egill Jóhannsson

Sæll Sigurður

Þú segir í upphafi þinnar athugasemdar;

"Ég var að sjálfsögðu að meina að bílaumboðin ættu stærstan hluta af notuðum bílum sem eru til sölu. Að tilgreina hvað margir bílar eru til í landinu kemur þessum útflutningsbótum við."

í fyrsta lagi er það einnig rangt hjá þér að bílaumboðin eigi stærstan hluta þeirra bíla sem eru til sölu. Ef talan mín er nálægt raunveruleikanum þ.e. að umboðin eigi 1% af bílaflotanum á hverjum tíma þá eiga bílaumboðin kannski 2500 - 3000 notaða bíla til sölu á hverjum tíma.

Ég býst við að heildarfjöldi bíla til sölu núna gæti verið um 10-12 þús. En í raun eru flestir bílar í raun til sölu á hverjum tíma. En þeir eru ekki settir á sölu ef vonin um sölu er lítil. Því er fjöldinn í raun miklu meiri.

Í öðru lagi er mikilvægt að hafa í huga að ef fólk vill ekki selja en verður að selja vegna lána þá er það mjög slæmt núna. Þess vegna er svo mikilvægt að þetta frumvarp verði sett fram og samþykkt. Til þess að almenningur eigi einhverja von til að geta selt og fengið þokkalegt verð fyrir bílana.

En ég tek fram. Ég veit ekki hvernig frumvarpið mun líta út og mín reynsla af stjórnmála- og embættismönnum við samningu frumvarpa af þessari gerð er vægast sagt slæm. Ástæðan er vanþekking á markaðnum og lítil viðleitni til að afla sér þekkingar. Því býst ég ekki við miklu en vona það besta. Ég get fært rök fyrir þessu en sleppi því í bili nema óskir komi fram um það því athugasemdin verður nógu löng samt

En varðandi spurningar þínar:

1. Þín spurning: "Bílaumboðin eiga u.þ.b. 5000 nýja bíla á hafnarbakkanum og u.þ.b. 5000 notaða bíla. Af hverju er betra að borga með gömlu bílunum heldur en nýju? Ef það er búið að eyrnamerkja 1,5-2 milljarða í þessar útflutningsbætur þá skiptir það ríkiskassann ekki máli hvort bílarnir eru nýjir eða gamlir."

Mitt svar: Ég held þú gætir verið nálægt réttri tölu varðandi nýja bíla sem eru á bakkanum þó ég hafi enga staðfesta tölu. Varðandi notaða bíla held ég að þeir séu nærri 2500 - 3000 í eigu umboðanna eins og áður sagði.

Ég skil aftur á móti ekki spurninguna varðandi að fella niður vörugjöld og virðisaukaskatt af nýjum bílum á bakkanum þvi þeir bílar bera engin slík gjöld. Þeir eru nýir og eru á bakkanum af því þeir hafa ekki verið tollafgreiddir. Gjöldin leggjast ekki á þá fyrr en við tollafgreiðslu og skráningu á götuna.

2. Þín spurning: Hvort hækkar verð eða lækkar á þeim u.þ.b. 3000 óseldum bílum sem eftir verða ef við gefum okkur að 8000 bílar séu nú til sölu?

Mitt svar: Burtséð frá því hvort við erum sammála um fjölda notaðra bíla í sölu og í eigu bílaumboða þá er ég búinn að svara þessari spurningu í minni fyrstu athugasemd. Það er ákveðinn vandi við umræður á blogginu hvað fólk er óduglegt við að lesa nákvæmlega hvað sagt er.

En það er ljóst að það eru meiri líkur en minni á því að ef bílar væru fluttir úr landi þá fækkar þeim bílum sem er í sölu hér á landi sem dregur úr því verðhruni sem orðið hefur. Það gerir almenningi sem á bíla betur kleift að selja þá á verði sem er nær áhvílandi lánum eða bara yfirleitt að selja þá.

En ekkert er öruggt í þessum heimi og það getur verlð að þetta frumvarp hafi engin áhrif á sölu notaðra bíla úr landi. Þá sitja fjölskyldur þessa lands bara uppi með bílana áfram eitthvað lengur en það ætti þá að gleðja þig og Salvöru.

3. Þín spurning: Hvort er betra eða verra fyrir bílaumboðin að gömlum bílum sé fækkað á Íslandi?

Mitt svar: Þessari spurningu er ég líka búinn að svara í mínu kommenti hér á undan en svara því aftur. Frumvarpið eykur líkur á því að hægt sé að selja bíla úr landi sem léttir á bílamarkaði. Það hjálpar bílaumboðum, fjölskyldum sem eiga bíla, bílaleigum og öðrum fyrirtækjum.

Hugsanlega er það þó einna síst fyrir bílaumboðin því á þessum tímum samdráttar í bílasölu er mikill kostur fyrir bílaumboð að sem flestir bílar séu í landinu því þá gengur verkstæðisþjónusta vel og sala varahluta.

Þannig að ef meta ætti hverjir hagnast mest í krónum sem hópur og í hvaða röð þá væri röðin þessi:

Almenningur (þ.e. bíleigendur m.a. almennings)

Bílaleigur

Almenn fyrirtæki

Fjármögnunarfélög

Bílaumboð

Ef meta ætti hvaða hópur hagnast hlutfallslega þá er það líklega bílaleigur því afleidd áhrif væru það jákvæð á rekstur félaganna í heild.

4. Þín spurning: Hvað ætla bílaumboðin að gera við þessa nýja 5000 bíla sem standa á hafnarbakkanum?

Mitt svar: Eins og allir sjá eru augljóslega aðeins tveir möguleikar varðandi þá nýju bíla sem eru á bakkanum.

Annar er að selja bílana hér á landi. Hinn er að selja þá úr landi. Mér sýnist flest ef ekki öll umboðin vera að nota báða möguleikana. Og ég ítreka að það þarf ekki að fella nein vörugjöld eða virðisaukaskatt af þeim bílum. Hann hefur aldrei verið lagður á þá bíla og því hefur þetta engin áhrif á ríkissjóð.

Með kveðju og þökk fyrir að fá að setja inn óritskoðaðar athugasemdir á þetta blogg. Það gerist ekki allsstaðar.

Kveðja

Egill

Egill Jóhannsson, 16.11.2008 kl. 00:06

18 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Egill!

Þú svarar þessu varðandi spurningu 1:

Ég skil aftur á móti ekki spurninguna varðandi að fella niður vörugjöld og virðisaukaskatt af nýjum bílum á bakkanum þvi þeir bílar bera engin slík gjöld. 

Ég minntist ekkert á að fella niður vörugjöld og vask af nýjum bílum. Þú breytir spurningunni svo hún verður marklaus. Spurningin var svona:

1.  Bílaumboðin eiga u.þ.b. 5000 nýja bíla á hafnarbakkanum og u.þ.b. 5000 notaða bíla. Af hverju er betra að borga með gömlu bílunum heldur en nýju? Ef það er búið að eyrnamerkja 1,5-2 milljarða í þessar útflutningsbætur þá skiptir það ríkiskassann ekki máli hvort bílarnir eru nýjir eða gamlir.

Þú ert sammála því að þessi aðgerð verður til þess að notaðir bílar hækka í verði sbr. orð þín hér að ofan.

Ef offramboð er á notuðum bílum þá hrynur bílverð. Það gerir bílakaup erfiðari í framtíðinni. Þess vegna er það gott ef létt er á flotanum til að bílverð nái eðlilegu jafnvægi. Gott endursöluverð notaðra bíla er stærsti þátturinn í því hvort fólk geti endurnýjað bílinn sinn.

Tökum tvö dæmi sem sýna fram hversu “gott” það er fyrir fólk ef markaðsverð á notuðum bílum hækkar t.d. um 20 %

a) Ungt fólk að kaupa fyrsta bílinn sinn. Það er augljóst að það hentar ekki þessu fólki.

b) Maður sem á bíl kostar núna 500 þús ætlar að endurnýja og fá sér bíl á 1500 þús. Hann þarf því að borga eina milljón á milli.

Ef markaðurinn hækkar um 20% þá er bíll mannsins verðlagður á 600 þús en bílinn sem hann ætlar að kaupa á 1800 þús. Hann þarf því að borga  1,2 milljónir á milli eða 200 þúsundum meira en í dag.

Og svo heldurðu því fram að þetta komi fólki vel. Að borga meira?

Það segir sig sjálf að því ódýrari sem bílar eru því hagkvæmara er fyrir alla að versla með bíla (nema kannski bílaumboðin).

Sigurður Haukur Gíslason, 16.11.2008 kl. 11:09

19 Smámynd: Egill Jóhannsson

Sigurður

Nú er ég alveg hættur að skilja þig og ég skal svara þér aftur. Spurning þín var svona.

"Bílaumboðin eiga u.þ.b. 5000 nýja bíla á hafnarbakkanum og u.þ.b. 5000 notaða bíla. Af hverju er betra að borga með gömlu bílunum heldur en nýju? Ef það er búið að eyrnamerkja 1,5-2 milljarða í þessar útflutningsbætur þá skiptir það ríkiskassann ekki máli hvort bílarnir eru nýjir eða gamlir."

Það væri auðvitað alveg út í hött að "borga með" útflutningi á nýjum bílum. Af þeim hefur ekkert verið borgað og því hefur ríkissjóður ekkert fengið. Aftur á móti varðandi notaða bíla þá hefur ríkissjóður fengið vörugjöld og virðisaukaskatt.

En hvað er verið að gera með þessu frumvarpi.

1. Í fyrsta lagi er verið að setja kerfið hér á landi jafnfætis við það sem gildir i öðrum löndum þ.e. gera útflutning JAFN samkeppnishæfan og ef menn flytja notaða bíla inn til Íslands. Afhverju á það að vera hagstæðara að flytja inn en út?

2 Í öðru lagi eru notaðir bílar í dag meðhöndlaðir vasklega séð öðruvísi en öll önnur vara í þessu landi. Ef vara í þessu landi er flutt út þá ber hún engan virðisaukaskatt. Frumvarpið væri leið til að jafna þetta.

Varðandi liði 1. og 2. þá byggja mín svör auðvitað á því að frumvarpið verði faglega unnið. Það er auðvitað ekki tryggt.

Þú gleymir algerlega að taka inn í þína breytu það sem ég nefndi hér áður ítrekað. Ef fjölskylda á notaðan bíl sem núna hvílir meira á en virðið er og hún vill selja beint. Þá er verðið það lágt að hún getur það ekki. Þetta er stærsti hópurinn. Og í niðursveiflu eru fleiri sem vilja losa bílinn og kaupa ódýrari eða hætta alveg að eiga bíl eða hætta við bíl númer tvö. Þess vegna er þessi hópur svo stór núna.

Varðandi hinn hópinn sem þú nefnir og eru að skipta upp í dýrari þá jú hækkar verð bílsins sem keyptur er. Eðli málsins samkvæmt þá eru á markaði jafn margir sem selja og jafn margir sem kaupa. Því er það helmingurinn sem hagnast á þessu og hinn tapar á þessu.

En þú virðist alltaf gleyma því að þeir sem eiga þá bíla eru líka fjölskyldur en ekki bara bílaumboð. Og bílaumboðin eiga aðeins brot af þessum bílum. Flestir eru í eigu almennings, fyrirtækja og bílaleiga.

Og þá má ekki gleyma stærsta hópnum sem sem ég nefndi hér á undan og vill bara að selja. Ekki að kaupa.

Þannig að það eru hagsmunir lang flestra að þetta gangi í gegn en í því samhengi vil ég ítreka að mín stærstu rök eru sú að þetta eigi bara að vera eins og í öðrum nágrannalöndum okkar. Jafnræði í viðskiptum er alltaf best.

Það grátbroslega við þessa umræðu alla að við höfum haft annað og betra kerfi á vörubílum og vinnuvélum. Þar eru engin vörugjöld og því þarf ekkert að fella niður. Þar er virðisaukaskattur settur á við sölu en við útflutning er hann felldur niður.

Þetta hefur verið svona svo árum skiptir og hvað gerist. Nú, auðvitað, myndast þarna jafnvægi. Við stórar framkvæmdir kemur inn mikið af vörubílum og vinnuvélum. Þær eru notaðar og þegar dregst saman í framkvæmdum eru þær seldar úr landi því innanlandsmarkaðurinn þolir ekki svona mikið magn.

Og engin talar um niðurgreiðslur því þetta er einfaldlega sama kerfi og í öllum okkar nágrannalöndum. Nei, stundum vefjast augljósir hlutir fyrir fólki.

Egill Jóhannsson, 16.11.2008 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband