Hin undursamlega stjórn íslenskra efnahagsmála

Það verður mjög áhugavert að heyra hvað Geir Haarde segir þjóð sinni í ennþá einum blaðamannafundi í dag.  Hvernig mun hann útskýra fyrir okkur að fyrst þurfti að setja neyðarlög, síðan kemur í ljós að Evrópuþjóðir lýsa frati á þessi neyðarlög og taka ekkert mark á þeim, það sé ekki hægt að mismuna innlánseigendum banka eftir því hvort þeir hafi kennitölu eða ekki. Hvernig mun hann útskýra fyrir okkur allt málþófið í kringum Icesave reikningana,  getur það verið að núna vilji hann af örlæti sínu tryggja  allar innistæður upp í topp og senda þann óútfyllta reikning á íslenska skattgreiðendur? Ætlar hann að semja fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að borga meira en þarf samkvæmt þeim evrópsku skuldbindingum sem Íslendingar hafa undangengist?

Ætlar hann núna að segja okkur að það hafi komið í ljós að til væri eignir fyrir megninu af þessu og ætlast hann til að við trúum því?

Höfum við góða reynslu af því að treysta Geir Haarde og efnahagslegu hyggjuviti hans?

Hefur hann alltaf sagt okkur satt?

xdskopmynd

Hér er kosningamynd af Geir og Sjálfstæðisflokknum sem fór inn á hvert heimili í Reykjavík fyrir síðustu kosningar. Skyldu kjósendur Geir ennþá sjá hann sem tákngerving fyrir trausta efnahagsstjórn? 

Með hverjum deginum sem líður dvínar tiltrú mín á íslensk stjórnvöld og getu þeirra til að ráða fram úr þeim vanda sem þau hafa fyrst með andvaraleysi sínu og síðan með flaustri og flumi steypt okkur í.  Svo hefur opinberast fyrir mér mikið fúafen íslenskra fjármála, ég vissi að það var eitthvað bogið við hvernig hinum föllnu hetjum útrásarinnar tókst að galdra fram fé  en ég hafði ekki áttað mig á hve gegnsósa af spillingu og óheiðarlegum vinnubrögðum þetta kerfi var og hve samsek stjórnvöld eru í að í besta falli snúa blindu augu að þessu með máttlausu og slæmu eftirlitskerfi og í versta falli vera eins og gráðugir mávar sem hirða upp slógið og þá afganga sem fjárglæframennirnir gátu ekki torgað sjálfir.

Fyrir mér er farið eins og Önnu Ólafssdóttur Björnsson en hún hefur ómótstæðileg löngun til þess að vakna vongóð og glöð einhvern morguninn og skrifar í dag:

"Í fyrstu fólst það í því að ég vonaði að morgunfréttirnar færðu okkur eitthvað jákvætt varðandi efnahagsmálin. Síðan óskaði ég þess að morgunfréttirnar færðu okkur eitthvað ekki alltof neikvættekki katastrófu á hverjum morgni og nú er ég komin á það stig að ég vona að morgunfréttirnar færi okkur einhverjar raunverulegar fréttir af efnahagsástandinu."

Tenglar 

Eignir til fyrir 80% af Icesave skuldum?

 Í dag er afmælishátíð Viðskipta- og hagfræðideildar. Ég lauk þaðan námi úr þjóðhagskjarna en ég var í deildinni á þeim tíma sem hún skiptist í fyrirtækjakjarna og þjóðhagskjarna. Nú hefur deildin klofnað í viðskiptafræði og hagfræði. Við vorum fá í þjóðhagfræði og það þótti skrýtið og nördalegt þá og alls ekkert skemmtilegt. Það er af sem áður var, nú er hagfræði  sú fræðigrein sem fær mesta umfjöllun, sjá þetta skemmtilega blogg  Verðlausir og verðmætir hagfræðingar


mbl.is Ríkisstjórnin boðar blaðamannafund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það sem stendur uppúr í huga mér á þessum fundi, er að gerðar voru tilslakanir til að auðvelda mönnum að selja Range Roverana sína. Frábært. Þjóðin andar mikið léttar og sárabót gegn þeim hörmulegu fréttum að við séum ekki gjaldgeng með mál fyrir alþjóðadómstóla.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.11.2008 kl. 17:53

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér er nú minnisstæðast það sem Þorgerður Katrín sagði á blaðamannafundinum í Valhöll. "Það eru geysilega skemmtilegir og spennandi tímar framundan hjá okkur sjálfstæðismönnum!"

Treystir sér einhver til að finna af handahófi í Símaskránni einhvern kandídat í pólitík sem vænta mætti að treysti sér til að varpa fram jafn yfirvegaðri athugasemd við þjóðfélagsástand á borð við það sem við stöndum frammi fyrir í dag?

Verður þessi glæsilega kona ekki neydd til þess að segja af sér ráðherratign á morgun?

Einfaldlega af völdum heimsku.

Árni Gunnarsson, 14.11.2008 kl. 18:23

3 identicon

Ég held ekki að hægt sé að persónugera vanda okkar í nokkrum stjórmálamönnum eins og GH, bankamönnum eins og BTh, DO eða hvað þeir nú allir heita (fáar konur í fremstu víglínu nema e.t.v. VS?). Þegar það gerist fara einstaklingar eins og Bjarni Harðarsson núna síðast eða Þórólfur Árnason og verða táknmynd eða sökudólgur fyrir alla hina sem sleppa - frítt.

Ég held að embættismenning okkar, samtryggingin, þrásetan og krosstengslin hafi leitt okkur í þennan vanda. Menning okkar hyglir já-fólki en ýtir óþæginlegum röddum út í ystu myrkur. Við hyglum steypu og áli en fussum á mannvit og nýsköpun. Ég hef því miður ekki raunhæfa hugmynd um það hvernig við breytum þessu.

Allavega ekki með því að þegja og vera heima hjá okkur á laugardögum!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 18:30

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Carlos. Líklega þurfum við annað þing. Borgarasamtök, sem starfa á ársbasis með færu fólki, sem veitir þessu aðhald. Hér er einræði, þar sem ríkistjórnin aktar án samráðs við alþingi og stjórnarandstaða nær aldrei tillögum og frumvörpum í gegn.

Þar sem ekki er hægt að virða lýðræði á þingi, þar þarf fólkið að taka það í eigin hendur.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.11.2008 kl. 18:40

5 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Ég vill nota tækifærið og lýsa yfir fullum stuðningi við stefnu stjórnvalda og tek heilshugar undir orð Carlosar þar sem að mér finnst fólk persónugera þetta alls herjar hrun of mikið, aðalega vegna þess að þjóðin sjálf, fólkið sjálft í landinu er hluti af vandanum.

Ég er viss um að margir tóku ekki þátt í gæða og græðgiskapphlaupinu en þeir hinir sömu ættu hins vegar að vera sammála mér í því að það voru ansi margir sem að gerðu það. Bankarnir buðu fram ótæpilegt magn ódýrs lánsfjármagns, og fólkið tók ótæpilega stór og mörg lán, og allt upp í skuld erlendis.

Salvör þú hlýtur að vera sammála mér í því að þetta voru nú ekkert venjulegar aðstæður sem að fólkið, Geir og fleiri voru að vinna við. Getur þú bent á fólk og sagt að þau hefðu gert betur?

Svo vil ég setja stór spurningamerki við þekking Jóns Steinars á lýðræði. Við búum ekki við algert lýðræði þar sem að öll mál, stór og smá fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum með svokallað fulltrúalýðræði þar sem að meirihluti þeirra fulltrúa sem við kjósum ráða, eða mynda meirihluta á þingi. Reyndar er það nú svo að í fjölmörgum málum leggja stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar sameigilega fram frumvörp sem að eru svo samþykkt, þannig að það er ekki eins og stjórnarandstaða sé valdalaus þó hún sé valdalítil.

Mér finnst alveg komin tími til að fólk svari þeirri spurningu, átti þjóðin ekki einhvern þátt í því ásandi sem varð hér, árin fyrir hrunið og hvort að það eigi ekki einhvern þátt í því hvernig málin hafa þróast síðustu mánuði? Með því er ég ekki að afsaka nokkurn einasta mann, hvorki í bönkum eða í ríkisstjórn. En er þjóðin ekki líka sek?

Jóhann Pétur Pétursson, 14.11.2008 kl. 19:45

6 identicon

Um mótmælin á morgun:

http://this.is/nei/?p=525

Birgir (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband