Fólk í gíslingu og fólk sem vill ekki sjá og heyra

Ódæðisverk Josef Fritzl hafa nú komið upp á yfirborðið. Það gerðist ekki vegna ákafrar leitar lögreglu að horfinni stúlku, það gerðist ekki vegna eftirgrennslan fjölskyldu um hvernig gengi hjá stúlku sem þó var talið  að væri á lífi  því af henni bárust fréttir en allar þær fréttir komu í gegnum faðirinn Josef Fritzl sem þrisvar sinnum bar inn í húsið börn sem hann sagði að hefðu verið skilin eftir af dóttur sinni, dóttur sem enginn hafði séð eða verið í sambandi við nema hann. Það hefur komið fram í fréttum(sjá hérna) að hann var dæmdur kynferðisafbrotamaður og hafði setið í fangelsi og margir virðast hafa vitað af því í umhverfi hans. Það hefur líka komið fram í fréttum að leigjendur sem bjuggu í íbúðinni fyrir ofan kjallarann heyrðu oft í börnum og ýmis skrýtin hljóð úr kjallaranum. "Þetta var venjuleg fjölskylda" er orðalag sem sést oft þegar talað er við nágranna. En það eru margar vísbendingar komnar fram um að eitthvað hafi verið skrýtið og það eiga örugglega eftir að koma fram fleiri.

Það  var fanginn Elísabet  í kjallaranum sem fékk Josel Fritzl til að fara með dótturina Kerstin fárveika á spítala og það var fanginn Elísabet sem sá auglýst eftir sjálfri sér í sjónvarpinu sem hún hafði í prísundinni. Ráðþrota læknar vissu ekki hvað gekk að stúlkunni og þurftu sjúkdómssögu hennar frá móðurinni og því var brugðið á það ráð setja boð í sjónvarpsfréttir og  biðja móður hennar að gefa sig fram. Elísabet tókst í framhaldinu að fá Josef Fritzl til að fara með sig á spítalann. Þar vaknaði grunur hjá  lækni um að eitthvað hroðalegt væri að og hann kallaði til lögreglu og fólkið var kyrrsett og ódæðisverkin komust upp.

Það er margt fólk í gíslingu í heiminum í dag. Það eru margar konur og börn sem búa við ömurlegar aðstæður og er ofurselt kúgurum sínum og háð  þeim um alla aðdrætti. Það er margt fólk bæði karlar og konur sem eru í nokkurs konar þrælahaldi og vinnubúðum. Sumar af þeim vörum sem við kaupum mjög ódýrt eru framleiddar af fólki sem hefur yfirgefið heimili sín og er hrúgað saman í vinnubúðir þar sem það vinnur við aðstæður sem líkjast fangavist. Það er margt fólk sem hefur hrakist frá heimilum sínum og hefst við í flóttamannabúðum. Það eru margir karlmenn í fangelsum í heiminum í dag. Sumir eru í fangelsum vegna stjórnmálaskoðana sinna og stjórnmálastarfs og viðhorfa, sumir eru í fangelsum vegna uppruna síns og lýðræðisríki á Vesturlöndum hafa orðið uppvís að því að planta fangelsum í ríki þar sem réttarkerfi þeirra nær ekki yfir og flytja þangað fanga sem sæta pyntingum og harðræði. Hinir illræmdu fangaflutningar eru dæmi um það.

Fangarnir eru margir en það er hins vegar mörgum sinnum fleira fólk sem vill ekki sjá  það sem er í kringum sig, vill ekki sjá hvernig mannréttindi eru brotin á öðru fólki þó margs konar ummerki séu um að eitthvað verulega mikið sé að. Þannig er erfitt að fá fólk til að trúa og horfast í augu við hvað kvennakúgun og ýmis konar kynferðisleg misbeiting er hrikalega algeng. Það er líka erfitt að fá fólk til að sjá hvað sum börn búa við kröpp kjör. 

Það er erfitt að fá fólk til að trúa einhverju slæmu upp á "fólk eins og okkur", upp á þá sem eru í sams konar þjóðfélagstöðu og við, búa við sams konar siði og menningu og aðhyllast sams konar trú.  Það er hins vegar lítið umburðarlyndi og auðvelt að fá fólk til að trúa öllu slæmu upp á þá sem lifa öðruvísi. Það virðist auðvelt fyrir þorra fólks að loka augunum fyrir og jafnvel réttlæta mannréttindabrot gagnvart hópum sem eru öðruvísi.

Stundum er eins og heimsbyggðin og heil samfélög séu sofandi og vilji ekki sjá að það er kerfisbundið verið að murka lífið úr fólki, pynta það, halda því í ánauð og vinnuþrælkun. Þegar mál ódæðismannsins Josef Fritzl kom upp á yfirborðið þá fletti ég upp á Wikipedia þessum stað Amstetten sem ég hafði aldrei heyrt um. Ég vildi vita eitthvað um það samfélag sem ól af sér svona ófreskjur. Það stóð ekki mikið um þetta samfélag. Ekki nema það að í síðari heimstyrjöldinni voru í Amstetten tvær bækistöðvar í  Mauthausen-Gusen útrýmingarbúðunum

 


mbl.is Hótaði börnum sínum dauða í kjallaranum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sá yðar sem syndlaus er....

Þú getur tengt ansi marga staði í Evrópu við útrýmingarbúðir Nazista.  Þetta mál er hræðilegt en það er líka óþarfi að vera með svona dylgjur gagnvart samfélagi sem þú þekkir ekki neitt.  Kannski er bara betra að líta sér nær.

Það hafa mér vitanlega aldrei verið neinar útrýmingarbúðir á Íslandi en samt sem áður hafa komið upp hroðaleg mál sem varða misnotkun og valdbeitingu sem allir nákomnir lokuðu augunum fyrir.  Nægir það að nefna Súðavíkurmálið og svo og mál Telmu Ásdísardóttir...   Flest samfélag eiga sér sína barna- og svefnnauðgara, svo ekki sé fleira upp talið.  

Hvaða niðurstöðu heldur þú að utanaðkomandi aðili sem aðeins vissi um aðstæðru Telmu og systra hennar en hefði annars aldrei heyrt um Ísland eða Hafnarfjörð, hefði komist að um samfélag okkar? 

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 01:48

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þú getur kallað mín skrif dylgjur. Ég kalla þetta sjálf  listrænar vísanir. Ég reyni að skrifa öll mín blogg eins og bókmenntatexta og í þessu bloggi þá var ég að tvinna saman ódæðisverk einstaklinga og ódæðisverk þjóða og hvernig fólk snýr blindu auga að því sem er að gerast fyrir framan það.

Það er líka áhugavert að í báðum þessum ömurlegu málum sem upp hafa komið í Austurríki þ.e. fangavist Natösju Kampusch og Elísabetar Fritzl þá var þeim haldið föngnum í neðarjarðargrenum sem voru byggð voru í hernaðartilgangi sem byrgi til að verjast kjarnorkuárásum. Það eru ýmsir þræðir sem liggja á milli stíðs og voðaverka í stríði og ofbeldisverka einstaklinga á fólki. Stríð er eins konar massaofbeldisverk sem heilu þjóðirnar (stjórnvöld) réttlæta. En það er þitt val að kalla allt sem bendir á að eitthvað sé að og eitthvað geti tengst öðru dylgjur. Með því ertu reyndar líka að taka þér stöðu með þeim sem vilja ekki sjá.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.4.2008 kl. 11:57

3 identicon

"Either you are with us or you are against us" er það það sem þú ert að segja?  Ég er á móti sleggjudómum á samfélögum sem fólk kannast ekki við, út frá, hvað, tveimur breytum.  Mér finnst þú bara setja þig á háan hest. Það er voðalega auðvelt að benda á það sem er að einhvers staðar í fjarskanistan, í stað þess að líta sér nær og kannski komast að þeirri niðurstöðu að það sé jafnvel ekkert meira að því fjarlæga samfélagi en okkar litla Íslandi.  

Það að mér bjóði við dómhörku þinni á þessu samfélagi þýðir ekki að ég sé fylgjandi því að það sé hulið yfir svona glæpi, það voru þín orð.  

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 21:03

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er bara ein leið til að komast hjá gagnrýni. Hún er að gera ekki neitt.Ég reyni ekki að komast hjá gagnrýni. Ég er fegin að skrif mín hafa eitthvað hreyft við þér. Það skiptir mestu máli.  Éf þú kýst að túlka skrif mín sem sleggjudóma og dómhörku  þá verður bara að hafa það. En það er alveg dagsatt að einu upplýsingarnar sem voru í wikipedia um Amstetten voru um fangabúðirnar. Núna hafa bæst við upplýsingar um þetta mál.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.4.2008 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband