Hvað er blogg? Talandi hausar

Youtube myndböndin frá Commoncraft hafa farið sigurför um heiminn en þar eru ýmis fyrirbæri í netheimum útskýrð. Hér er eitt nýjasta myndbandið þeirra og það fjallar um blogg og ber titilinn "Blogs in Plain English". Fleiri myndbönd frá þeim má skoða á commoncrafts.com/show.


Þessi myndbönd eru frábært dæmi um hvernig hægt er á ódýran og einfaldan hátt að útskýra fyrirbæri og með því að nota líkingamál sem notendur skilja, vísa til annarra verkfæra sem þeir nota í daglega lífinu. Það eru svona myndbönd sem ég vil að nemendur mínir geti gert, svona stutt og skemmtileg og hnitmiðuð sýnikennsla. Það eru margir sem líta svo á að kennsla eigi að vera talandi hausar og kennsluvídeó eigi að vera kennari við töflu.

berkley-youtube

 Skjámynd af  myndböndum um líffræði frá Berkeley sýna að kennslutæknin er hefðbundin

Núna hefur Berkeley háskólinn í Bandaríkjunum sem og aðrir háskólar sett fullt af kennslumyndböndum á vefinn, á Google videó. Þetta eru fín myndbönd en þetta eru bara upptökur úr kennslustundum, kennari að flytja fyrirlestur við græna töflu. Sumir kennarar gera það reyndar mjög vel og það er fínt að fá að skyggnast svona inn í háskólatíma í einum besta háskóla heimsins. Stundum er ekki verið að skrifa á töflu heldur er kennarinn með glærur eða blöð sem hann sýnir. En það sem ég hef séð af efni þar er ekki efnistök sem taka mið af nýjum miðlum, það að taka upp kennslustundir og setja á Google videó er að sumu leyti líkt og taka prentað efni og setja það á vefinn í pdf skjali.

Vissulega er vefumhverfið ágætis leið til að miðla efni, ef til vill besta leiðin sem við höfum í dag og vissulega getur svona miðlun gert hefðbundna kennslu betri, nemendur geta átt aðgang að upptökum af kennslustundum og spilað aftur þá þætti sem þeir ná ekki í fyrstu. En svona notkun á tækninni er ekki byltingarkennd. Svona notkun á tækninni er það sem flestum dettur fyrst í hug - að nota tæknina til að gera það sem ég geri í dag betur. En til langs tíma þá mun breytt miðlunatækni gegnum vefinn verða til þess að við sem vinnum við kennslu og ýmis konar fræðslu verðum að breyta vinnubrögðum okkar og endurskilgreina hvað felst í starfi okkar. Það getur verið að inn í starf okkar komi ný viðfangsefni og það er öruggt að við getum miðlað efni betur með því að nota þau tækifæri sem ný miðlunartækni gefur og sjá okkur sem kennara ekki eingöngu sem talandi hausa fyrir framan krítartöflu

Myndbandið "Hvað er blogg?" er aðeins meira í takt við nýja tíma í Netheimum en myndbandsupptökurnar af talandi hausum að halda fyrirlestra í Berkeley. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Jökulsson

Internetið er æðislegur staður

Sigurður Jökulsson, 9.12.2007 kl. 18:39

2 identicon

Svo má líka horfa til þess að samvinnunet, á borð við docs.google.com eða www.mindmeister.com eru frábærar leiðir til að koma hlutunum frá sér.

Carlos (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband