Drukkin stúlka fer á klósettið

Það er ekki í frásögur færandi að fólk sem situr að drykkju á vínveitingastöðum í Reykjavík fari á klósettið. Á veitingahúsinu Hótel Saga er klósettið niðri í kjallara og þarf að fara tröppur til að komast inn á það. Það er nú reyndar alþekkt á veitingastöðum að klósettin eru í kjallaranum og á fínum stöðum eins svona lúxus hóteli er náttúrulega allt mjög smart og fyllsta öryggis gætt. Það eru öryggismyndavélar sem mynda fólkið þegar það fer niður stigann. Þegar drukkin stúlka spurði hvar klósettið var og var sagt það og fór niður stigann inn á klósettið þá fylgdi henni eftir maður sem hún þekkti ekki og hafði aldrei séð áður. Það sést á öryggismyndavélum.  Það var önnur kona fyrir á kvennaklósettinu og hún varnaði þessum manni inngöngu á kvennaklósettið en hann mun hafa komið inn þegar sú kona var farin upp og nauðgar þá drukknu stúlkunni sem er stjörf af hræðslu og getur ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar.

Hér má lesa  dóm héraðsdóms Reykjavíkur í þessu máli. 

Það er mjög einkennilegt að það sé ekki ofbeldi af hendi karlmanna að læðast á eftir drukknum konum inn á kvennaklósett, læsa þær þar inni og rúnka sér á líkama þeirra og nauðga þeim. í þessu tilviki eru vitni, það eru upptökur úr eftirlitsmyndavélum og það eru áverkar á líkama stúlkunnar sem leitaði til neyðarmóttöku vegna nauðgunnar. 

Það er mjög einkennilegt að héraðsdómur skuli sýkna manninn á þeirri forsendu að honum hafi ekki verið ljóst að konan vildi ekki hafa samræði við hann.

Sumt er stórfurðulegt í þessu máli og maður hefur á tilfinningunni þegar maður les dóminn að það skipti einhverju máli að maðurinn sem nauðgaði konunni á klósettinu eru pólskur, það hafi verið tekið á málinu  með einhverjum silkihönskum út af því og mikið lagt upp úr því að manninum hafi ekki verið ljóst að hann var að nauðga stúlkunni. Mikið er gert úr tungumálaörðugleikum. En við dómarana og aðra vil ég segja að það gildir það sama á Póllandi og á Íslandi, það er alls, alls ekki í lagi að fara á eftir drukkinni stúlku inn á klósett, læsa hana þar inni og nauðga henni. Fólk í þeim aðstæðum sem stúlkan var í er mjög varnarlaust. En það er áhugavert að sjá hvað fólki finnst mikilvægt að komi fram í dómnum eins og t.d. þessi orð sem höfð eru eftir móður pólska mannsins þar sem hún er að verja son sinn með því að segja að hann hafi ekki verið æstur eins og maður sem sé nýbúinn að nauðga stúlku heldur sé maður sem líti niður á íslenskar stúlkur. Vitnisburður móðurinnar um að  að manninum þyki íslenskar stúlkur heimskar virðist notaður til að sýna fram á að maðurinn hafi talið að ókunn dauðadrukkin íslensk stúlka vilja þýðast hann og hafa við hann mök ef hann króaði hana af inn á  klósettklefa á kvennaklósetti.

Svona er þetta í dómnum:

Þegar hún sótti hann þangað hafi hann virst eðlilegur í útliti og fari.  Hafi hann sagt að hann hefði viljað koma heim af því að hann nennti ekki að skemmta sér lengur.  Hafi hann sagt að eldri bróðir hans hefði rétt fyrir sér í því að íslenskar stelpur væru heimskar.  Hefði hann þurft að slást út af einni þeirra.

Verður því ekki séð að ákærði hafi, fram til þess að þau fóru inn í salernisklefann, haft ástæðu til að halda að hún væri honum andhverf. 

Svo eru þessi orð í dómnum alveg nægileg til að láta alla femínista froðufella af reiði:

Ef byggt er á frásögn X af því sem gerðist eftir orðaskipti þeirra inni á snyrtingunni lítur dómurinn svo á, að það að ákærði ýtti X inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf, geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hefur verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd.  Nægir þetta eitt til þess að ákærði verði sýknaður af ákærunni.

Í því sambandi ber sérstaklega að hafa í huga að hún reyndi ekki að kalla á hjálp þegar hún heyrði að einhver kom inn á snyrtinguna.  Þá er að einnig að líta til þess að X þykir, fram til þess að þau fóru inn á salernisklefann, ekki hafa gefið ákærða ástæðu til að halda það að hún væri honum andhverf.   Þegar allt þetta er haft í huga álítur dómurinn að ákærða hafi ekki hlotið að vera það ljóst að samræðið og kynferðismökin væru að óvilja X. 

 Ég vona að stúlkan kæri þetta mál til Hæsta réttar.

Baldur R. skrifaði  þetta í athugasemd við  blogg.

Í niðurstöðu dómsins  er vitnað í 194. gr. hegningarlaga:

"[Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti." (Leturbreyting mín).

Samt "...lítur dómurinn svo á, að það að ákærði ýtti X inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf, geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hefur verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd." (Leturbreyting mín).

 Fyrir utan að ýta stúlkunni inn klefa og læsa honum innan frá þá get ég ekki skilið hvers vegna það hafði ekki áhrif hvert ástand stúlkunnar var og á hvaða stað verknaðurinn átti sér stað. Ég hélt að það væru sérstök ákvæði í lögum að ekki mætti notfæra sér eymd annarra (í þessu tilviki að stúlkan var dauðadrukkin) og svo var maðurinn klárlega að ryðjast inn á svæði þ.e. kvennaklósett þar sem konur eiga að vera óhultar fyrir nauðgurum (reyndar eru einmitt kvennaklósett vettvangur margra nauðgunarsena í bíómyndum) vegna þess að karlmenn eiga ekki að hafa þar aðgang.


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Kjarni málsins nákvæmlega Salvör, takk fyrir.

Maður eltir einfaldlega ekki dauðadrukknar stúlkur sem maður þekkir ekki inná kvennasalerni, læsir að sér og lætur reyna á það hvort hún hafi burði í sér eða getu til að berjast á móti manni. Þessi gerandi hefur líklega talið að planið ( hann sést laumast á eftir henni niður á salernin í öryggismyndavél ) hafi heppnast fullkomlega, en gleymdi að gera ráð fyrir að þó að stúlkugreyið hafi ekki haft burði til að verjast árásinni hafði hún fulla burði til að kæra ódæðið eftir að hún slapp frá honum og lét taka áverkaskýrslu.

Hver eru skilaboðin í þessum undarlega dómi ? að það sé í góðu lagi að króa konur af á salernum landsins og láta á það reyna hvort þær séu í standi til að verjast ? ef að konan er ofurölvi eða of dópuð eða of uppburðarlaus af einhverjum ástæðum til að verjast með kjafti og klóm sé lítil hætta að vera dæmdur!

Georg P Sveinbjörnsson, 7.7.2007 kl. 14:02

2 Smámynd: Þarfagreinir

Skömm að þessu. Algjör skömm. 'Veiðileyfi á konur' og 'Þögn er sama og samþykki' eru frasar sem maður hefur heyrt, og ég tek alveg undir að þeir eiga vel við.

Þarfagreinir, 11.7.2007 kl. 16:07

3 Smámynd: halkatla

Salvör ég er orðlaus! þú ert sem aldrei fyrr hetjan mín og ég er bara að heyra um þetta núna eftir frí og ég bara

halkatla, 14.7.2007 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband