Sunnudagskastljós : Svafa Grönfeldt

Ég horfði á Sunnudagskastljósið seinasta á Netinu, það var viðtal Evu Maríu við Svöfu Grönfeldt, nýjan rektor Háskólans í Reykjavík. Þetta var mjög skemmtilegt viðtal og mér fannst m.a. áhugaverð pæling um hvað mótar börn, hvort börn sem alast upp á ákveðnum stöðum (Borgarnes í þessu tilviki) og stunda  keppnisíþróttir hafi þegar þau verða fullorðin forskot í ákveðnum störfum t.d.d viðskiptaumhverfi. Breskur skólamaður sagði mér einu sinni frá því að frumkvöðlar og hugsuðir breskir hefðu margir komið úr litlum sveitaskólum.

Andinn í samfélaginu skiptir  miklu máli, fótboltastjörnur framtíðarinnar hafa byr með sér strax í bernsku á Akranesi og krakkar sem hafa áhuga á skíðum eiga nú auðveldar uppdráttar á Akureyri og Ísafirði en í Reykjanesbæ. Poptónlistarmenn okkar gátu hins vegar vaxið upp í Keflavík í nágrenni herstöðvarinnar. Það er gaman að pæla í hvort það var hafi haft áhrif á þá  Davíð Oddsson og Þorsteinn Pálsson  að þeir voru í bernsku búsettir á Selfossi og margir íslenskir stjórnmálamenn sem hafa ruggað bátnum í átt til vinstri hafa komið frá Ísafirði, þar hefur verið einhvers konar hugmyndavagga. 

Jón úr Vör sagði líka í ljóðlínum sínum um Þorpið að enginn gæti flúið sinn fæðingarhrepp. Það er mismunandi kúltúr í hverju byggðalagi og   það er gaman að spá hvaða áhrif það hefur á börn að vaxa upp í ákveðnu umhverfi. Ég held að frjóasta umhverfið sé þar sem eitthvað er að gerast, á straumamótum þar sem menningarstraumar mætast - það geta verið  landfræðileg mót á jaðrinum þar sem borgin mætir sveitinni eða það getur verið mót í tíma þannig að ný hugsun eða stjórn eða vinnubrögð eða tækni kollvarpa því sem fyrir er eða það getur verið þannig að fólk flytji búferlum og sái menningu átthaganna í svörðinn þar sem þar staðnæmist.

Núna eru straumamótin tengd alþjóðavæðingu og erlendu fólki sem flytur til landsins, það getur verið að  með tímanum  vaxi upp  kröftug menning á Ólafsvík eða Tálknafirði  eða öðrum sjávarplássum sem byggir á þessum mótum, fólki sem hefur flutt langt að og varðveitir minningar um átthaganna og mótar samfélagið sem það staðnæmist í. Það er menningarlandslag í mótun á höfuðborgarsvæðinu og nærsveitum, þar er ekki bara hvaða spurning um hversu mikla peninga fólk hefur hvar það býr heldur líka um lífstíl. 

Í Kastljósþættinum var fjallað um keppnisíþróttir og hversu góður undirbúningur þær eru fyrir líf í fjármálum og viðskiptum. Ég held að þannig félagsmótun sé ágætis undirbúningur undir það frjálshyggjusamfélag sem við höfum búið til í dag, samfélag þar sem einstaklingnum sem sigrar er hampað og þar sem markmið einstaklingsins er mjög skýrt og mælanlegt t.d. með því hversu ábatasamt í peningum einhver starfsemi er.  Ég hins vegar held að það sé ekki endilega besta tegund að samfélagi sem er svoleiðis þó það sé það módel sem er haldið að okkur núna. Ég held að við séum að fara inn í tíma þar sem mikilvægt er að geta unnið með öðrum í hópum sem eru samsettir af mismunandi einstaklingum sem eru ekki allir að gera það sama og að geta greint mynstur í umhverfinu, ég hugsa að það sé alveg eins mikilvægt að taka þátt í að setja upp leikrit og að spila á hljóðfæri. 

Svafa Grönfeld hefur verið nemandi á listabraut FB um svipað leyti og ég kenndi þar. Ég kenndi reyndar bara nemendum á tölvubraut. Svafa sagði í viðtalinu frá því að hún hefði misst föður sinn og mér skilst að það hafi haft áhrif á starfsval. Þetta rifjar upp fyrir mér að ég fór í viðskiptadeild HÍ beint úr menntaskóla og margar af vinkonum mínum þar voru börn ekkna, við vorum ekki margar stelpurnar þá í viðskiptafræðinni en ég held ég hafi talið að um helmingur okkar skólasystranna sem byrjuðu með mér í viðskiptafræðinni hafi verið börn ekkna. Ég sjálf valdi að fara í viðskiptafræði vegna þess að ég hafði átt barn í menntaskóla og var einstæð móðir og mér fannst þetta vera skynsamlegasta starfsvalið í mínum aðstæðum, þetta var praktískt nám, ekki mjög erfitt og atvinnuhorfur góðar eftir námið. Eftir á að hyggja þá finnst mér ég hafa gert mistök, þetta nám átti engan veginn við mig og ég kvaldist af leiðindum. Ég hef hins vegar alltaf haft áhuga á hagsögu og sérstaklega hvernig tæknibreytingar hafa áhrif á samfélag og lífskjör fólks, sá áhugi kom löngu áður en  ég fór að vinna við tölvur.

En svo ég víki aftur að því hvað mótar börn þá er eitt sem mótar þau mikið og það er sú trú og vissa á hvað þau muni geta gert, þær væntingar sem eru gerðar til þeirra og þær vonir sem foreldrarnir og samfélagið hafa um þau. Sum börn hafa ekki sjéns af því að enginn býst við sigrum þeirra og enginn tekur eftir árangri þeirra og enginn hvetur þau til dáða. Ég var í framhaldsnámi í  háskóla í USA. Flestar skólasystur mínar voru af asísku bergi brotnar, þær voru flestar frá Taiwan. Ég tók eftir að margar þeirra höfðu staðfasta trú á sjálfum sér sem námsmönnum m.a. vegna uppruna síns. Það kom oft fram í fjölmiðlum að asiskir námsmenn voru í fremstu röð. Það voru hins vegar oft fréttir um slakt gengi blökkumanna í bandarísku skólakerfi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

vá æðislegur pistill, maður verður að sjá þetta viðtal, ekki grunaði mig að þessi kona væri að spekúlera í svona spennandi hlutum - ég er viss um að það er grunnur fyrir þessum pælingum með þorpin/umhverfið og mótunina, það er mjög sniðugt að skoða það  

halkatla, 24.1.2007 kl. 18:19

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

já, þetta var skemmtilegt viðtal í Kastljósinu og komið inn á mál sem varða alla.  Í bloggpistlinum eru mínar pælingar út frá því sem Svafa sagði.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.1.2007 kl. 08:18

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég hafði mikið gaman af að lesa þessar pælingar. Var einmitt að ræða það bara í gærkveldi við manninn minn um hvort það hefði áhrif á framgöngu fólks í lífinu hvort einhver hefði veitt hæfileikum þess athygli og stutt við þá. Og hvort það væri erfiðara fyrir þá sem ekki hafðu fengið neinn stuðning að koma hlutum í framkvæmd en hina sem fóru af stað með sterkan meðvind í formi stuðnings og athygli.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 25.1.2007 kl. 12:27

4 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Ég er að prófa bloggið, sjá hvort innskráning hafi tekist.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 28.1.2007 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband