Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Áfram Eygló - taka tvö

Það er vissulega sorglegt  fyrir Framsóknarmenn að sjá á eftir foringja sem við berum virðingu fyrir og þykir vænt um en það er líka gleðilegt að nú fær Eygló tækifæri til að spreyta sig á Alþingi. Eygló lenti í fjórða sæti  í prófkjöri Framsóknarmanna  á eftir þremur körlum en Hjálmar sem stefndi á fyrsta sætið en lenti í þriðja ákvað að taka ekki sæti á listanum.  Eygló  var hins vegar ekki færð upp um  sæti, að ég held út af einhverjum byggðasjónarmiðum, einhverjum (Hjálmari sem vildi ekki vera á listanum?)  fannst mikilvægt að fólk tengt Suðurnesjum væri í þriðja sæti. Eygló skrifaði bloggið Karlaplott og þúfupólitík og ég  skrifaði þá bloggið  Áfram Eygló

Ég skrifaði 22.1.2007 þegar reynt var að þrykkja Eygló niður um sæti á framboðslista eftirfarandi klausu þar sem ég bar saman þá tvo Vestmanneyinga sem núna sitja á þingi þ.e. Eygló Harðardóttir og Árni Johnsen og hve misjafnlega auðvelt var fyrir þau að komast í þá valdastöðu. :

Það er nú umhugsunarvert að einmitt núna um helgina þá var tilkynnt að annar Vestmanneyingur Árni Johnsen myndi sitja sem fastast í  sæti á lista Sjálfstæðismanna skv. niðurstöðum prófkjörs hjá þeim. Ég hvet fólk til að bera nú saman Vestmanneyinganna Eygló og Árna og hvaða ástæður menn finna fyrir að þau eigi ekki að vera á lista í þeim sætum sem þau hafa barist fyrir og fengið styrk í prófkjöri í. 

Mér finnst þetta sýna í hnotskurn hvað er að gerast í íslenskum stjórnmálum. Annars vegar er gífurlegt umburðarlyndi við karlmann sem orðið hefur uppvís að spillingu og  fjársvikum og iðrast einskís og kallar gjörðir sínar tæknileg mistök og hins vegar er lagt ofurkapp á að bregða fæti fyrir konu sem hefur vegnað vel í prófkjöri. Það sem aðallega er fundið henni til foráttu er að hún búi í Vestmanneyjum.

Það er nú umhugsunarvert að einmitt núna um helgina þá var tilkynnt að annar Vestmanneyingur Árni Johnsen myndi sitja sem fastast í  sæti á lista Sjálfstæðismanna skv. niðurstöðum prófkjörs hjá þeim. Ég hvet fólk til að bera nú saman Vestmanneyinganna Eygló og Árna og hvaða ástæður menn finna fyrir að þau eigi ekki að vera á lista í þeim sætum sem þau hafa barist fyrir og fengið styrk í prófkjöri í. 

Mér finnst þetta sýna í hnotskurn hvað er að gerast í íslenskum stjórnmálum. Annars vegar er gífurlegt umburðarlyndi við karlmann sem orðið hefur uppvís að spillingu og  fjársvikum og iðrast einskís og kallar gjörðir sínar tæknileg mistök og hins vegar er lagt ofurkapp á að bregða fæti fyrir konu sem hefur vegnað vel í prófkjöri. Það sem aðallega er fundið henni til foráttu er að hún búi í Vestmanneyjum.

 

Það er nú dáldið segjandi fyrir ástandið í samfélaginu að núna þegar illa árar í þjóðlífinu og illa árar hjá Framsóknarflokknum þá komast konur til valda. Nú setjast tvær ágætar Framsóknarkonur þær Helga Sigrún og Eygló á þing í staðinn fyrir Guðna og Bjarna.  Það er svo sannarlega ekki þannig ástand að líklegt sé að þingmenn Framsóknarflokksins taki við sigurlaunum eftir þetta kjörtímabil. 

Það er erfitt að vera ljóðrænn þegar svona erfiðar aðstæður eru í samfélaginu og í flokknum sem maður starfar í en það er ef til vill við hæfi að skrá hér inn ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttir

Þetta er sams konar ljóð og Konan sem kyndir ofninn minn (sjá bloggið Svartir svanir á Íslandi) nema ljóð Ingibjargar er skrifað út frá sjónarhóli konunnar.

Það er svona:

Kona

Þegar allt hefur verið sagt
þegar vandamál heimsins eru
vegin metin og útkljáð
þegar augu hafa mæst
og hendur verið þrýstar
í alvöru augnabliksins
-kemur alltaf einhver kona
að taka af borðinu
sópa gólfið og opna gluggana
til að hleypa vindlareyknum út.

Það bregst ekki.


mbl.is Eygló tekur sæti á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir þingmenn af 63 axla ábyrgð

Það eru þung tíðindi fyrir Framsóknarmenn að Guðni hafi núna sagt af sér þingmennsku og sagt af sér sem formaður Framsóknarflokksins. Það er ekki hægt að segja að friður hafi ríkt inn í Framsóknarflokknum undanfarin ár. Halldór Ásgrímsson sagði af sér formennsku, Jón Sigurðsson sagði af sér formennsku og nú segir Guðni af sér formennsku. Svo hafði hópur fólks í Framsóknarflokknum augastað á Finni Ingólfssyni sem arftaka Halldórs og undirbjó innkomu hans og m.a. birtist opnuviðtal við Finn í Morgunblaðinu en það varð brátt um innkomu Finns, aðrir hópar vildu hann alls ekki. Svo hafa efnilegir foringjar eins og Árni Magnússon og Björn Ingi yfirgefið leikvanginn sárir og mæddir eftir slaginn. Svona úr fjarlægð þá virðist mér kvenskörungar Framsóknarflokksins þær Siv og Valgerður frekar vaxa af þrótti við hverja ágjöf en ég held að það hljóti nú samt núna að vera erfiðir tímar fyrir alla sem starfað hafa að íslenskum stjórnmálum lengi og setið á þingi.

Guðni nýtur virðingar þeirra sem þekkja til starfa hans og hann er sannur Framsóknarmaður með miklar og djúpar rætur í sveitina. Núna er hins vegar ástandið þannig að innan allra flokka fer fram uppgjör, bæði á fortíðina og fyrri stefnu og svo hafa flokkar endurskoðað afstöðu sína til aðildar að Efnahagsbandalaginu. Guðni hefur verið harður andstæðingur inngöngu í það.  Einnig mun á miðstjórnarfundi um helgina hafa komið fram mikil gagnrýni á flokksforustuna. Það er samt augljóst að Guðni vill gefa skýr svör um að hann vill gera það sem hann telur flokknum fyrir bestu.

Þetta er missir Framsóknarflokksins. En þetta er líka annað dæmi um þingmann sem axlar ábyrgð. Svo ég haldi áfram niðurtalningunni. Nú hafa tveir þingmenn af 63 axlað ábyrgð.  Sjá fyrra blogg Einn þingmaður af 63 axlar ábyrgð

Eru þetta þeir þingmenn sem mesta ábyrgð báru á strandi íslenskrar þjóðarskútu?

Hvað með alla hina 61 sem eftir sitja?


mbl.is Guðni segir af sér þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn þingmaður af 63 axlar ábyrgð

bjarni-hardar.jpg

Ríkisstjórn Íslands hefur staðið sig með eindæmum illa. Það hlýtur að vera krafa okkar að hún segi af sér og boðað verði sem fyrst til kosninga. Stjórnarandstaðan hefur líka staðið sig illa og andvaraleysi allra þeirra 63 þingmanna sem nú sitja á Alþingi hefur verið mikið, svo mikið að það er spurning hvort þessu fólki sé treystandi til að bera ábyrgð á efnahag og velferðarmálum heillar þjóðar. Eftirlitskerfi og fjármálastjórn er í molum og athafnalífið og fjölmiðlarnir virðast gjörspillt og fléttast saman við stjórnmálamenn í alls konar vafningum og undarlegum gjörningum, sérstaklega saman við stjórnmálamenn tengda Sjálfstæðisflokknum.

Þegar ég segi að ríkisstjórnin hafi staðið sig með eindæmum illa þá á ég ekki síst við að ríkisstjórnin virðist hafa flotið sofandi að feigðarósi. Hvers vegna var það fólk sem er á launum hjá íslensku þjóðinni við að stjórna þjóðmálum og hefur til þess alls konar undirstofnanir og aðstoðarfólk ekki betur undir þessar aðstæður búið?

Það getur ekki verið að það hafi verið fyrst í september sem ríkisstjórnina fór að gruna að eitthvað gæti verið að hjá íslensku bönkunum, það voru ýmis teikn á lofti þegar  í mars 2008 um hræðilega erfiðleika banka og margir höfðu áhyggjur af því. Það veltu margir því fyrir sér hvernig bankabólan var hérna og hvenær hún myndi springa og hvað myndi gerast hérna Í þessu bloggi tóta er t.d.  skrifað um málið og Ívar Pálsson skrifar 13. mars t.d.

" Sjóðir bresta

Hugsanlega verða stærstu skellirnir þegar stórir sjóðir fara að bresta hver af öðrum á Íslandi eins og gerst hefur  í Bandaríkjunum síðustu vikur. Milljarða dollara sjóðir sem voru ofgíraðir upp fyrir haus, fá nú veðköll upp á hundruð milljóna dollara og eru þá leystir upp og renna inn til bankans. En hvað með verðbréfasjóði íslenskra banka? Rýrnunin er augljós, en einhverjir þeirra hljóta að verða leystir upp. Enn er spurt, hvernig tekst íslenskum banka að vera stikkfrí frá raunveruleikanum sem heimsbyggðin horfir á?"

Tóku stjórnvöld hérna ekki eftir því þegar Bear Stearns fjárfestingarbankinn féll í mars? Var það bara hálfu ári seinna sem þau þustu út í örvæntingu og bjuggu til neyðarlög sem þau keyrðu í gegnum þingið?

Aðgerðir íslenskra stjórnvalda eru fálmkenndar og eins og ekki sé eða hafi verið  unnið eftir  skipulagi. Sá sem býr sig undir ógnanir og gerir ráð fyrir að allt geti farið á versta veg  og hefur viðbragðsáætlun um hvernig þá eigi að bregðast við er ekki jafnóundirbúinn undir aðstæður eins og íslensk stjórnvöld voru.

Neyðarlögin virðast hafa verið skrýtin. Bæði standast þau sennilega ekki stjórnarskrá Íslands og svo eru þau ekki tekið alvarlega af neinum Evrópuþjóðum.  Það er líka mjög einkennilegt ef maður hugsar út í það að sami aðili og býr til regluverk sem gerir bankastofnunum kleift að starfa og veitir þeim starfsleyfi skuli einn daginn geta sett lög sem þjóðnýta slíkar stofnanir og svo ákveðið hverjir af þeim sem geymdu þar fé fá endurgreitt. Aðrar Evrópuþjóðir sætta sig ekki við að bara fólk með kennitölu þ.e. Íslendingar hafi rétt til endurgreiðslu. Sem betur fer hefur heimspressan ekki komist í þetta undarlega og að manni virðist óheiðarlega  möndl með Sjóður nr. 9 þegar bankinn þ.e. Glitnir keypti sjálfur út bréf aðalaeiganda bankans þ.e. Stoðir úr Sjóði nr. 9. 

Enn sem komið er hefur hins vegar aðeins einn maður axlað ábyrgð í þessari orrahríð. Það er grátbroslegt að það er nýr þingmaður sem ekki átti þátt í að steypa þjóðinni í glötun og hann hafi sagt af sér þingmennsku. Tilefnið var að hann varð uppvís að því að beita lævísri og óhreinskiptinni aðgerð til að ná sér niðri á samherja í stjórnmálum, samherja sem var á öndverðum meiði við hann í Evrópumálum og samherja sem lá vel við höggi af því hún var viðskiptaráðherra í síðustu ríkisstjórn. 

Í ljósi þess hve afdrifarík mistök  og aðgerðarleysi stjórnvalda er að taka ekki fyrr á málum og vera ekki viðbúnari undir svona aðstæður og í ljósi þess hve undarlega málum virðist hafa verið skipað í athafnalífi, seðlabanka, fjármálaeftirliti og ríkisstjórn og fjölmiðlum og hve hagsmunatengslin hafa verið ofin saman  þá er furðulegt að ekki skuli fleiri fara að dæmi Bjarna Harðarssonar. Yfirsjón hans er vissulega stór og hann reyndi að bregða fæti fyrir samherja(sjá málið hérna Áframsendi gagnrýni á Valgerði) en yfirsjón Bjarna  virkar bara svo örsmá samanborið vil yfirsjónir og svik margra þeirra sem sitja í ríkisstjórn, á Alþingi, í eftirlits- eða fjármálastofnunum og fjölmiðlum.

Það væri gott ef það fólk sæi sóma sinn í að segja strax af sér.


mbl.is Vaxandi styrkur mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær mun liggja fyrir hvað þetta er há upphæð?

Ég skildi aldrei með hvaða rökum íslensk stjórnvöld gætu neitað að greiða þessa lágmarksupphæð sem skylt er að tryggja fyrir hverja innistæðu á evrópska efnahagssvæðinu. Það hefur reyndar komið á daginn að stjörnvöld alla annarra Evrópulanda skildu það heldur ekki.  Mér fannst borðleggjandi að það hlyti að vera forsenda fyrir að bankar fengju leyfi til að starfa og vissulega störfuðu þessir íslensku bankar löglega á erlendri grundu eða í netríki þarlendra. Fjármálaeftirlit hefur hins vegar brugðist stjórkostlega m.a. að aðvara ekki almenning og ríkisstjórn hvað miklar ábyrgðir íslenska þjóðin hefði tekið að sér út af skuldafylleríi útrásarmanna. Aldrei óraði mig fyrir að Ísland væri í ábyrgðum fyrir einhverjum reikningum breskra sveitarfélaga í einhverjum netbanka. Aldrei óraði mig fyrir því að litla bankakreppan 2006 hefði verið  velt undan sér eins og eldhnetti með því að fá almenning í Bretlandi til að leggja fé inn á netbankareikninga tengda við Ísland.  Aldrei óraði mig fyrir því að hið kasínókapítaliska kerfi sem drifið hefur áfram umsvif íslenskra banka erlendis væri þannig að umfangi að það gæti sogað allan lífsþrótt úr íslenskri þjóð.

En ég skil núna ekki heldur hvernig það heldur ekki áfram að vera mismunun á þegnum að greiða upp í topp innistæður íslenskra (þ.e. þeirra sem eru með kennitölur) en eingöngu ákveðið lágmark af innistæðu erlendra.  Bresk og hollensk stjórnvöld hafa eftir því sem ég best veit ákveðið að tryggja að fullu innlán  einstaklinga en munu þau gera einhvern endurkröfurétt á Íslendinga? Bresk og hollensk stjórnvöld tryggja ekki neitt af innistæðum stofnana  t.d. sveitarfélaga  því þau teljast upplýstir fjárfestar en það mun hafa verið mjög vinsælt hjá sveitastjórnum breskum að eiga peninga á Icesave. Munu þessir aðilar ekkert fá nema 20 þús evrur? Munu þeir ekki í hrönnum höfða mál á hendur íslenska ríkinu vegna mismununar því hér á Íslandi var meira að segja borgað út stór partur af áhættusjóðum eins og Sjóður nr. 9 hjá Glitni og það eftir að mokað hafði verið fé inn í sjóðinn til að kaupa upp ónýtar kröfur frá aðaleiganda bankans? Inneign í peningamarkaðssjóði er svo sannarlega ekki sama og innistæða á bankareikningi sem stofnanir í rekstri hafa til að greiða laun og sjá um daglegan rekstur. Hvernig  ætla íslenskir bankar að útskýra þessa skrýtnu mismunum milli erlendra og innlendra viðskiptavina?

Ég styð alveg alla viðleitni íslenskra stjórnvalda til að stöggla á móti því að borga og ef það var einhver smuga til að borga ekki einu sinni þessa lágmarkstryggingu þá hefði átt að nota hana. Þessi smuga er ekki fyrir hendi, það hefur komið á daginn. En það er mikilvægt að tryggja að Íslendingar þurfi ekki að ábyrgjast nema þessa lágmarkstryggingu - að fá sátt um að ekki verði hér stjórnvöld og bankar hundeltir af málaferlum vegna annarra krafna.

Það er hins vegar afar erfitt að taka á sig skuldbindingar sem enginn veit hversu miklar eru. Ég hef á tilfinningunni að við séum leynd upplýsingum, það getur ekki annað verið í nútímabankakerfi á dögum upplýsingaaldar en að það liggi algjörlega ljóst fyrir hversu miklar þessar ábyrgðir eru þ.e. um hve marga innlánsreikninga er að ræða og hversu margir voru með inneign undir 20 þúsund (sem sennilega voru mjög margir) og þá hve samanlögð var þessi upphæð sem er á reikningum sem eru með innistæður undir lágmarki.

Ég vona að ástæðan fyrir því að ekki sé birt hve mikil þessi ábyrgðin sé að hún sé svo lág að það virki ekki nógu vel á alþjóðavettvangi, það sé plott hjá íslenskum stjórnvöldum að láta eins og Íslendingar séu að taka á sig miklar byrðir.  Sennilega er það til að komast hjá því að taka á sig ennþá meiri endurgreiðslu á innlánum. Ég vona líka að það sé rétt að miklar eignir séu til sem nægi fyrir þessum skuldum. 

hér er fréttin á bloomberg.com 

Iceland Reaches Accord With U.K., Netherlands to Repay Icesave Depositors


mbl.is Icesave-deilan leyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slagur í Kraga eru Siv og Páll tilbúin í formannsslag?

Það er þróttur í Framsóknarflokknum þó að andstæðingar flokksins hafi árum saman spáð  endalokum þessa rótgróna stjórnmálaflokks. Meira segja forustumenn flokksins gantast með brandarann alþekkta: "Þar sem tveir Framsóknarmenn koma saman, þar er spegill".Já, og þeir geta það alveg því að núna er góð þátttaka á alla fundi Framsóknarflokksins og vakning í flokknum. Það er reyndar  vakning í öllu pólítisku starfi á Íslandi, við höfum vaknað upp við vondan draum, við höfum uppgötvað að með því að fylgjast ekki með stjórnmálamönnum og hvað þeir eru að gera og með því að berjast ekki fyrir að þar væri valinn maður í hverju rúmi og þar væri unnið af hugsjónum og framsýni þá höfum við boðið hættunni heim á að fólk með annarleg sjónarmið og skerta dómgreind og litla framsýni tæki mikilvægar ákvarðanir sem skuldbinda okkur öll - skuldbinda okkur í orðsins fyllstu merkingu - gera okkur að skuldaþrælum sem eiga að borga fjármálalotterí sem við tókum engan þátt í.

Það er siðferðileg skylda allra borgara á Íslandi að taka þátt í stjórnmálum og láta sig varða hvernig landinu er stjórnað, hlusta á rök og mótrök og koma milliliðalausum skilaboðum til stjórnmálamanna ef það er eitthvað sem fólki blöskrar eða finnst að mætti betur fara.  Þetta hef ég reynt að gera í Framsóknarflokknum öll þau ár sem ég hef verið þar. Ég hef starfa í Framsóknarflokknum í Reykjavík. Fyrstu árin gekk mjög illa. Nú hafa hins vegar orðið umskipti í Reykjavík.  Það kannski gerðist þegar Framsókn missti völdin. Þá hófst mikill slagur - ekki hnífaslagur - frekar ætti að tala um hinn mikla hnífasettaslag þar sem vopnin voru líka reikningar um jakkaföt og skyrtur og punt og prjál til að skreyta frambjóðendur í prófkjörsbaráttu eins og frægt er orðið í fjölmiðlum. Svo hurfu á braut þeir sem annað hvort höfðu fengið nóg af leðjuslagnum og þeir sem  töldu ekki eftir neinum bitlingum að slægjast lengur sem og þeir sem voru svo sárir af hnífstungum og í svo götóttum jakkafötum að það næddi alls staðar í gegn. Síðan þá hefur verið friður í Framsóknarflokknum í Reykjavík, félög hafa verið sameinum og margir lagst á eitt að byggja upp aftur starf í flokknum. Það var líka Framsóknarflokkurinn undir forustu Óskars Bergssonar sem létti því oki af Reykjavík sem stjórn (eða stjórnleysi sem er nú réttara orð) Ólafs Magnússonar borgarstjóra var. Síðan þá hefur allt verið með kyrrum kjörum í borginni og það er unnið af heilindum og hugsjón, skynsemi og yfirvegum  í Framsóknarflokknum í Reykjavík að borgarmálum. 

Eftir að Framsóknarflokkurinn tók aftur að sér að stýra Reykjavíkurborg með Sjálfstæðisflokknum hefur skapast kyrrð um málefni borgarinnar og Óskar og Hanna Birna hafa unnið samstillt að því sem þarf og lagt kapp á að virða minnihlutann og vinna mál í sátt meirihluta og minnihluta og og upplýsa borgarbúa heiðarlega og hreinskiptið um gang mála. Svona er unnið í borgarmálum en því miður er ekki unnið á þennan hátt í ríkisstjórn Íslands. Það getur enginn sagt að það sé hreinskiptin og heiðarleg upplýsingamiðlum frá ríkisstjórninni núna eða hún hafi á þessum erfiðu tímum reynt eitthvað til að fá samþykki stjórnarandstöðu. Það hefði aldrei verið meiri ástæða til að hafa þjóðstjórn á Íslandi en því miður þá kann þessi ríkisstjórn ekki að vinna þannig, því miður kann hún ekki að vinna öðru vísi en með þjösnaskap þess sem hefur meirihluta, hún kann ekki að taka tillit til allra sem búa í íslensku samfélagi. Sérstaklega kann Sjálfstæðisflokkurinn það ekki, hann kann ekki annað en ganga erinda fjármagnseigenda og atvinnulífs og kann það ekki með öðrum ráðum en þeim að trúa í blindni á einkaframtak og gróðahyggju og hömluleysi fjármagnsins. Slík er blindni sumra (allra?) þar á bæ að jafnvel þótt þetti trúarbrögð markaðshyggjunnar hafi fengið þá verstu brotlendingu sem hugsast getur þá er talað um að aðalatriðið sé að endurreisa sams konar kerfi, sams konar banka, sams konar fjármagnshringrásir.

Það er í raun óhjákvæmilegt að allir flokkar fari í einhvers konar innri skoðun núna og það verði einhverjar breytingar á hverjir leiði flokkanna. Annars verður þetta spurning um leiði flokkanna, hvaða grafskrift eigi að setja á leiðið. Hvers konar gildi og hvers konar vinnubrögð og hvers konar hugsjónir viljum við sjá í flokkunum? Viljum við endurtaka skrípaleik síðustu ára, þar sem byggð var upp svikamylla og pýramídaviðskipti og kasínó í fjármálalífi og þar sem stjórnmálamenn kunna ekki annað en lofa upp í ermina á sér, lofa gulli og grænum skógum, lofa og lofa og kunna engin önnur ráð en að taka lán? Eða viljum við ábyrga efnahagsstjórn, fólk sem hefur vit og skilning og hugsjónir á þeim verkefnum sem ríkisstjórnum er ætlað að sinna og geti bæði verið sjálft í forustu sem og  haldið uppi öflugri  og ígrundaðri  stjórnarandstöðu ef aðrir eru í forustu.

Nú veit ég ekki hvort að formaður og varaformaður Framsóknarflokksins hafa hugsað sér að bjóða sig áfram til forustu.  Ef svo er þá munu flokksmenn að sjálfsögðu fylkja sér á bak við þau enda njóta bæði Guðni og Valgerður mikillar virðingar innan Framsóknarflokksins. Hins vegar hefur það gerst að stefna formanns í EBE málum en hann hefur talað á móti aðildarumsókn hefur beðið skipsbrot. Eins var varaformaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þeirri tíl sem mjög afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar og hún var yfirmaður t.d. fjármálaeftirlits. Hún mun örugglega ekki víkja sér undan neinni ábyrgð í þeim efnum. 

En ef svo fer að það verða kosningar fljótlega um formann og varaformann Framsóknarflokksins þá er gaman að heyra að það sé hart barist um þau sæti og það löngu áður en nokkuð er vitað hvort formaður eða varaformaður gefa kost á sér aftur.  

Það er gaman að heyra marga Framsóknarmenn nefnda í umræðunni um væntanlegan formann, það sýnir að það er líf í flokknum og hann er svo sannarlega ekki í neinum dauðateygjum. Ég er náttúrulega mjög ánægð að talað um Siv, hún hefur svo sannarlega sýnt að hún er baráttukona sem gefst ekkert upp þó á móti blási. Svo held ég að Páll Magnússon sé hæfileikamaður þó því miður hafi mín fyrstu kynni af þeim bræðrum Árna og Páli í Framsóknarflokknum verið með þeim hætti að ég tók fyrst eftir þeim út af hinu fræga Freyjumáli í Kópavogi. Siv hefur verið ráðherra í ríkisstjórn og ber eins og allir ráðherrar ábyrgð á því sem sú ríkisstjórn gerði þó hennar verksvið hafi ekki verið efnahags- eða viðskiptamál. Það auðvitað vinnur nú ekki með Páli að hafa í sjö ár verið aðstoðarmaður þess ráðherra sem var ábyrgur fyrir viðskiptamálum og fjármálaeftirliti. En hann hefur frá 2006 verið bæjarritari í Kópavogi og þar hefur ábyrgðarsvið hans m.a. verið fjármál Kópavogs. Vonandi eru fjármál Kópavogs ekki sama rjúkandi rústin núna og fjármál íslenska ríkisins. Vonandi hefur Páll séð fyrir að það væri ekki skynsamlegt að taka risastórt gengistryggt lán fyrr en gengið hefði fallið eitthvað og ráðlagt bæjarstjóra það, allir sem eitthvað fylgjast með gengismálum vissu að stutt væri í að gengið myndi hrapa, það er langt síðan tímarit eins og Economist sagði íslensku krónuna þá mynt í heiminum sem væri ofmetnust og það eru margir mánuðir frá því að ljóst var að mikið gengisfall yrði á krónunni, það hefði fyrir löngu átt að vera en henni hefur verið haldið uppi með handafli af einhverjum seðlabankatiktúrum. Vonandi hafa skynsamir menn eins og Páll  sem stýra fjármálum í Kópavogi séð þetta fyrir og afstýrt því að Kópavogur tæki þetta 35 milljóna evrulán sem Kópavogur ætlaði að taka í apríl síðastliðnum. Ef Páll Magnússon  hefur afstýrt þeim glæfrum og vitfirringu að Kópavogur tæki þetta lán og breytti lánum sem voru að hluta í íslenskum krónum í gengistryggt lán þá vex virðing mín mikið fyrir honum. En ef hann hefur ekki gert það þá spyr ég - hvað var hann að hugsa?  


mbl.is Formannsslagur í Framsókn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkur útifundur á Austurvelli - Þung undiralda

Það er furðulegt hve lengi íslensk stjórnvöld komast upp með að sniðganga almenning á Íslandi og láta eins og sömu vinnuaðferðirnar sem áttu stórar þátt í þeirri brotlendingu sem við horfum á agndofa. Hve sterk þarf sú undiralda að vera sem nú magnast upp á Íslandi til að ríkisstjórnin taki sæng sína og gangi á braut?  Þær vinnuaðferðir og sú sýn sem verið hefur í stjórnmálum, eftirlitsstofnunum, fjármálastofnunum og athafnalífi á Íslandi munu ekki virka til ná okkur upp úr því díki sem við erum í núna.

Það var mjög góður útifundur á Austurvelli í dag og frummælendur hver öðrum betri. Hægt er að hlusta á ræðurnar   á á visi. Það eru sífellt fleiri sem bætast í hóp mótmælenda og þetta eru friðsamlegar aðgerðir upplýsts fólks, fólks sem veit og skilur að það er óstjórn á Íslandi í dag.  það er eins og  mbl.is og ruv.is hafi vísvitandi ákveðið að láta eins og þessi mótmæli séu ekki til og geri lítið úr þeim. Það urðu þá umræður vegna fréttaflutnings síðasta laugardag þegar skrílslætin voru í algleymingi í fréttamiðlun, skrílslæti sem voru ekki partur af mótmælunum. Það er fyndið að lesa fréttina: Örsmár hópur ungmenna grýtir þinghúsið en það er líka fyndið að kalla mótvælafundinn á Austurvelli  með fyrirsögninni Friður og Blóm. Þetta voru vissulega friðsamleg mótmæli en nú er úti um friðinn.  Það finna allir sem eitthvað skynja íslenska þjóðarsál. 

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók í dag á Austurvelli:

IMG_2051

IMG_2058

IMG_2032 IMG_2017 IMG_2009

IMG_1993

IMG_2013

 Hér eru fleiri myndir frá útifundinum 15. nóvember

Hér eru myndir frá 8. nóvember


mbl.is Friður og blóm á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn Íslands frussar á almenning og gengur erinda fjármögnunarleigna og bílasala

Það er heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu í dag frá Ríkisstjórninni undir heitinu "Aðgerðir í þágu heimilanna". Seinast á þeirri síðu er "Endurgreidd gjöld af útfluttum bílum". Hvernig vogar Ríkisstjórnin sér að kynna slíkt sem aðgerð í þágu íslenskra heimila? Ríkisstjórnin  hugsar mun betur um hag bílasala og  þeirra sem eiga kaupleigur en hag barna á Íslandi.  Þessi aðgerð gerir ekkert fyrir heimili á Íslandi nema gera bílakaup þeirra í framtíðinni erfiðari  en hún verður hugsanlega til þess að bílasalar og  fjármögnunarleigur geta skrapað sér inn pening og hugsanlega er einhverri sposlu hent í fólk svo það sætti sig betur við að bílarnir séu teknir af því. Venjulegt fólk sem hefur keypt bíl á kaupleigu er löngu hætt að eiga neitt í bílnum. 

Það að hreinsa sem flesta nýlega bíla af Íslendingum og selja úr landi er hins vegar hlutur sem  mun ekki gera annað en hækka verð á notuðum bílum mjög snarlega til Íslendinga. 

utrasarvikingar

 Það var ekki venjulegt fólk eða konur og börn á Íslandi sem átti  porsche bíla  eða lúxusjeppa.

Það hefur ekkert að gera fyrir framtíð Íslands þó að lúxúskerrrur í eigu fallinna stjarna útrásarinnar verði seldar úr landi og það er bara flott að losna við þá sem fyrst og þann ömurlega lífstíl sem þeim fylgdi.

En þegar til lengri tíma er litið þá er það verulega fólki hérna í óhag að greiddar séu útflutningsbætur með nýlegum bílum til að selja þá hræódýra í öðrum löndum. Gengisskráning er núna þannig að bílar án útflutningsbóta eru hérna miklu ódýrari en í grannlöndum okkar.

Til lengri tíma litið mun sú aðgerð Ríkisstjórnarinnar að greiða útflutningsbætur á bíla eingöngu gera kosti fólks sem ætlar að kaupa sér notaða bíla miklu, miklu lakari. Bílar eru atvinnutæki í mörgum tilvikum og í tilviki Íslands sem ætlar að satsa á ferðamennsku þá eru bílar mjög nauðsynlegt atvinnutæki og það er tækifæri fólgið í því fyrir atvinnusköpun að hér séu fyrir hendi ódýrir bílar. Eða halda þeir sem trúa á ferðamennsku að hún sé eingöngu fólgin í að rusla túristum í hópum upp í rútur í the golden circle and the blue lagoon? 

Það er mjög skammsýnt og vitlaust að stuðla að því að greiða útflutningsbætur með bílum til að flytja þá úr landi. Það er að engu leyti í þágu heimilanna í landinu.

Ríkisstjórnin sýnir með þessu sitt grímulausa andlit. Þetta er ríkisstjórn sem gengur erinda bílasalanna, fjármögnunarleignanna og þeirra sem núna vilja selja allt sem hægt er að selja sem útsölufóður og brotajárn en skilja okkur hérna eftir  bjargarlaus án allra verkfæra sem gætu komið okkur af þessum stað sem við erum á núna.  

 


mbl.is Íslensk þjóðarsál í sárum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti dagur í kreppu í Evrópu

Á meðan hér á Íslandi er allt fullt af fréttum um hvernig stjórnmálaflokkar umpólast og að svarnir andstæðingar aðildar að EBE hafa núna á nokkrum dægrum orðnir eldheitir fylgjendur Evrópusambandsins þá urðu þau tímamót að í dag föstudag er fyrsti opinberi kreppudagurinn í Evrópu.  Reuters og BBC eru voða lítið að fjalla um umpólanir í Sjálfstæðisflokknum eða hvað Geir Haarde segir um Icesave.

Það er núna opinberlega kreppa í Evrópu og það er talið að það sé líka kreppa í Bandaríkjunum en tölur sem staðfesta það berast hins vegar ekki fyrr en í janúar. Það verður panikfundur voldugustu þjóðarleiðtoga heims í Evrópu um helgina.

Sjá greinarnar:

Europe in recession, U.S. in pain as world leaders meet

Eurozone officially in recession

Úr frétt Reuters um kreppuna sem breiðist út yfir heiminn: 

NEW YORK (Reuters) - Europe officially fell into recession on Friday and the U.S. economy suffered further blows as world leaders headed to Washington to address the worst financial crisis in 80 years....The United States is probably already in recession, most economists agree, but official data showing that will not come out until January.

Hér á Íslandi er engin kreppa samkvæmt skilgreiningum sem Geir Haarde styðst við. Við skulum minnast þess að það eru bara nokkrar vikur síðan hann hélt því oft fram í viðtölum. 

Hér er skrípó sem ég gerði fyrir akkúrat tveim mánuðum síðan eða 14. september um orð Geirs í sjónvarpinu en hann kallaði þá kreppuna mótvind. Kreppu sem allir sem eitthvað fylgdust með heimsmálum fundu að var að skella yfir okkur eins og flóðbylgja af hafi.

Það voru engar viðbragðsáætlanir í gangi út af mótvindinum, það var engin samstillt aðgerð til að taka á móti þessum miklu hamförum. 

 motvindur2008

þetta skrípó átti að vera fyndið hjá mér. Mér fannst þá svo fyndið að forsætisráðherrann fullyrti eitthvað í fjölmiðlum sem væri tóm vitleysa og væri eins og strútur sem stingi höfðinu í sandinn.

En nú eru tveir mánuðir liðnir. Hver dagur með nýjum hörmungum og traust mitt til stjórnvalda hættir bráðum að minnka, því það getur ekki minnkað mikið úr þessu, það er  að verða  komið á núll. 

En það er organdi falsetta að það sé eitthvað grænna grasið hinu megin, að Evrópusambandið verði vin oog skjól í kreppunni og þeim hörmungum sem henni fylgja. Því miður mun kreppan slá þar sum svæði ennþá harðara en Ísland. Sums staðar eins og í vissum héruðum á Spáni er mjög mikið atvinnuleysi og stöðnun fyrir. Hvað verður um þau svæði þegar kreppan herðir að með sinni verðhjörnun? 

Hér er skilgreining á kreppu:

Vísindavefurinn: Hvað er kreppa?

 


mbl.is Skref í átt að ESB væru jákvæð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin undursamlega stjórn íslenskra efnahagsmála

Það verður mjög áhugavert að heyra hvað Geir Haarde segir þjóð sinni í ennþá einum blaðamannafundi í dag.  Hvernig mun hann útskýra fyrir okkur að fyrst þurfti að setja neyðarlög, síðan kemur í ljós að Evrópuþjóðir lýsa frati á þessi neyðarlög og taka ekkert mark á þeim, það sé ekki hægt að mismuna innlánseigendum banka eftir því hvort þeir hafi kennitölu eða ekki. Hvernig mun hann útskýra fyrir okkur allt málþófið í kringum Icesave reikningana,  getur það verið að núna vilji hann af örlæti sínu tryggja  allar innistæður upp í topp og senda þann óútfyllta reikning á íslenska skattgreiðendur? Ætlar hann að semja fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að borga meira en þarf samkvæmt þeim evrópsku skuldbindingum sem Íslendingar hafa undangengist?

Ætlar hann núna að segja okkur að það hafi komið í ljós að til væri eignir fyrir megninu af þessu og ætlast hann til að við trúum því?

Höfum við góða reynslu af því að treysta Geir Haarde og efnahagslegu hyggjuviti hans?

Hefur hann alltaf sagt okkur satt?

xdskopmynd

Hér er kosningamynd af Geir og Sjálfstæðisflokknum sem fór inn á hvert heimili í Reykjavík fyrir síðustu kosningar. Skyldu kjósendur Geir ennþá sjá hann sem tákngerving fyrir trausta efnahagsstjórn? 

Með hverjum deginum sem líður dvínar tiltrú mín á íslensk stjórnvöld og getu þeirra til að ráða fram úr þeim vanda sem þau hafa fyrst með andvaraleysi sínu og síðan með flaustri og flumi steypt okkur í.  Svo hefur opinberast fyrir mér mikið fúafen íslenskra fjármála, ég vissi að það var eitthvað bogið við hvernig hinum föllnu hetjum útrásarinnar tókst að galdra fram fé  en ég hafði ekki áttað mig á hve gegnsósa af spillingu og óheiðarlegum vinnubrögðum þetta kerfi var og hve samsek stjórnvöld eru í að í besta falli snúa blindu augu að þessu með máttlausu og slæmu eftirlitskerfi og í versta falli vera eins og gráðugir mávar sem hirða upp slógið og þá afganga sem fjárglæframennirnir gátu ekki torgað sjálfir.

Fyrir mér er farið eins og Önnu Ólafssdóttur Björnsson en hún hefur ómótstæðileg löngun til þess að vakna vongóð og glöð einhvern morguninn og skrifar í dag:

"Í fyrstu fólst það í því að ég vonaði að morgunfréttirnar færðu okkur eitthvað jákvætt varðandi efnahagsmálin. Síðan óskaði ég þess að morgunfréttirnar færðu okkur eitthvað ekki alltof neikvættekki katastrófu á hverjum morgni og nú er ég komin á það stig að ég vona að morgunfréttirnar færi okkur einhverjar raunverulegar fréttir af efnahagsástandinu."

Tenglar 

Eignir til fyrir 80% af Icesave skuldum?

 Í dag er afmælishátíð Viðskipta- og hagfræðideildar. Ég lauk þaðan námi úr þjóðhagskjarna en ég var í deildinni á þeim tíma sem hún skiptist í fyrirtækjakjarna og þjóðhagskjarna. Nú hefur deildin klofnað í viðskiptafræði og hagfræði. Við vorum fá í þjóðhagfræði og það þótti skrýtið og nördalegt þá og alls ekkert skemmtilegt. Það er af sem áður var, nú er hagfræði  sú fræðigrein sem fær mesta umfjöllun, sjá þetta skemmtilega blogg  Verðlausir og verðmætir hagfræðingar


mbl.is Ríkisstjórnin boðar blaðamannafund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauð málning á Valhöll

3026532857_edaa2b268d_oÉg sá í morgun þegar hreinsunarmenn voru komnir á stjá að þvo rauða litinn utan af Valhöll og tók nokkrar myndir.

Þetta var svolítið jólalegt með allan þennan rauða lit. Ef ég vissi ekki betur þá hefði ég haldið að þetta væri einhvers konar jólaskreyting.

Ég er að búa mig undir hið stafræna jólaföndur og notaði litadýrðina á Valhöll til að setja inn vatn og snjó á myndirnar til að minna á hringrás vatnsins.

Hér eru fleiri myndir:

Valhöll rauðmáluð

 það er gaman að vinna með myndir í verkfærum eins og Lunapic, það er hægt að sækja myndir úr Flickr eða Facebook til að vinna með.

Slóðin er hérna fyrir þetta myndaverkfæri:

http://www.lunapic.com/editor/

 

3026542857_ec58490aef_o


mbl.is Máluðu Valhöll rauða í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband