Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Ljóstvistar og ljósahátíð

Ég er hugfangin af LED tækni í ljósum, ég held að þetta sé byltingakennd tækni í svona skammdegisborg eins og Reykjavík. Þetta heita ljóstvistar eða ljósdíóður á íslensku. Ég byrjaði áðan á grein um LED á íslensku wikipedia.

Hugsanlega mun þessi tækni gera okkur kleift að lýsa upp vegi og umhverfi á hátt sem ekki er mögulegt núna. Núna sér maður sums staðar svona ljósdíóður notaðar í jörðinni til að lýsa upp heimreiðar.  Nokkrar borgir eru farnar að skipta út  venjulegri götulýsingu í svona LED lýsingu, sjá þessa grein á Engadget

Ætli  vegir í dreifbýli á Íslandi og hafnir og skip og fleiri mannvirki verði lýst á þennan hátt í framtíðinni? 

Mér sýnist óteljandi notkunarmöguleikar fyrir þessa nýju ljósatækni í dimmu landi  á Norðurslóðum.

Það væri flott ef ljósahátíð í Reykjavík tæki fyrir ljóstvista.

Best að gera tillögu um það.


Svartur eða grár mánudagur

Það er titringur í löfti núna á hlutabréfamörkuðum heimsins og mikið verðfall orðið á mörkuðum. Ég fæ ekki betur séð en mikið verðfall sé líka á íslenska markaðnum.  Fólk er hrætt um einhvers konar endurtekningu á mánudeginum svarta árið 1987 en þá féll  Dow Jones um 23% sem í dag myndi þýða að sú  vísitala félli um meira en 3000 stig. Hún er nú ekki búin að falla nema um 366 stig núna en það er heilmikið eftir af deginum.

Hér er wikipedia greinin um mánudaginn svarta fyrir 20 árum.

Black Monday (1987) - Wikipedia, the free encyclopedia

Það er kannski ágætt að búa sig í tíma undir kreppu ala BBC

A beginner's guide to the crisis

Stemming panics
What lessons we can learn from financial crises in the past 

 


mbl.is Evrópsk hlutabréf hafa lækkað í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moggabloggarasjónvarpsþáttur hjá Ólínu

Ég var fyrr í dag í upptöku á nýjum sjónvarpsþætti á sjónvarpsstöðinni ÍNN, þætti sem  Ólína Þorvarðardóttir stýrir. Fyrsti þátturinn verður að ég held sendur út á föstudaginn. Það verður víst svo hægt að horfa á þáttinn á Netinu.

Ólína fékk þrjár konur með skoðanir til sín og leitaði náttúrulega ekki langt yfir skammt heldur kallaði til nokkra valinkunna moggabloggara.  Það var ég, Marta og Jóna sem vorum í þessum fyrsta þætti. Það var mikill heiður að vera í þessum fyrsta þætti og við töluðum náttúrulega út í eitt.  Vonandi verða bloggarar tíðir gestir í þættinum hennar, það er nú oftast fólk með sterkar skoðanir og viðhorf, fólk sem hefur frá einhverju að segja.

Hér er mynd af okkur eftir upptöku þáttarins.  

inn1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Sitjandi Salvör og Ólína, standandi Marta og Jóna

inn2b

Hér eru gamlar samstarfskonur Ólína og Maríanna og þær Jóna og Marta. Ólína og Maríanna unnu saman á RÚV í gamla daga undir stjórn Ingva Hrafns. Það er einmitt Ingvi Hrafn sem rekur sjónvarpsstöðina ÍNN.  Ingvi Hrafn er femínisti eins og ég.


Tortryggin út í Myspace

Ég er nú búin að vera tortryggin úr í Myspace alveg síðan þeir lokuðu Myspace síðunni minni um árið. Það var út af því að ég gagnrýndi að þeir lokuðu á vídeó frá Youtube. Á þeim tíma þá voru eigendur Myspace sennilega að reyna að kaupa upp eigin vídeóþjónustu og lokuðu fyrir aðgang frá öðrum.

Hér eru mín blogg um þetta (á ensku): 

Myspace and Web 2.0

Myspace censorship continues

 Misunderstanding??? MySpace swallows and silences YouTube

 Flushing Myspace Down the Tubes

Myspace in the Brave New World

Það var nú svo mikið ergelsi út af þessu að Myspace opnaði fyrir Youtube aðgang aftur. Það er fyndið að á þeim tíma þá leit ég á Youtube sem litla og óþekkta vídeóþjónustu sem bara ég og nokkrir sérvitringar notuðu. Svo bara nokkrum mánuðum seinna þá kom í ljós að þetta er ein mest heimsótta vefslóð í heiminum.

Annars líst mér þrælvel á þetta samstarf Myspace og Skype. Vonandi kemur Skype líka til að virka með ning.com og facebook.com. Það eru félagsnet sem passa betur við sum kennslunot.


mbl.is MySpace og Skype hefja samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sköpunarkenning og þróunarkenning

Í gær þá rölti ég um á bókasafninu í KHÍ, ég var ekki að leita að neinu sérstöku, bara svona að tékka á því hvort eitthvað nýtt væri komið í safnið og eitthvað sem gæti nýst mér í  að skrifa greinar á íslensku wikipedíu, leita að einhverju flokkunarkerfi  á heimsmynd okkar. Áður en varði þá var ég komin með tvær bækur, önnur bókin var "Á Hafnarslóð" og hin bókin var "Íslenskur jarðfræðilykill".

Svo blaðaði ég aðeins í þessum bókum samtímis og dett þá strax inn í ítarlega umfjöllun um Finn Magnússon leyndarskalavörð og rúnasérfræðing sem talinn var einn merkasti vísindamaður Íslendinga á sinni tíð, velgjörðarmann Jónasar Hallgrímssonar með meiru. Finnur hefur vitrast mér marg oft  í lífinu, hann var viðstaddur við matborðið á bernskuheimili mínu, saga Finns var eftirlætissaga föður míns, sagan sem hann sagði margoft til að gera grín að fræðimönnum, sagan um manninn sem las heilu kvæðin út úr jökulrispum ísaldar. Finnur vitraðist mér líka árið 2001 þegar ég var að næturlagi í lest milli Kaupmannahafnar og Ronneby á þeim slóðum þar sem dularfullu táknin í Blekinge eru. Ég skrifaði þá  þetta blogg:

Tina sagði í lestinni til Ronneby að rúnaristan sem Magnússon réð hafi verið nálægt næstu járnbrautarstöð við Ronneby en það er Bräkne-Hoby. Ég leitaði á Netinu að efni um Bräkne-Hoby og Magnússon en fann ekkert, breytti leitinni þá í Bräkne-Hoby og rúnasteina og eftir dálitla leit fann ég söguna um dularfullu táknin í Blekinge og hvernig Íslendingurinn Finnur Magnússon fór um þær sömu slóðir og ég núna árið 1833. Hann var í vísindaleiðangri og það var í ferðinni líka jarðfræðingur sem átti að ákvarða hvort táknin í Runemo væru mannanna verk eða náttúrunnar. Fræðimaðurinn Finnur Magnússon gerði uppgötvanir í Runemo og var næstu árin að ganga frá niðurstöðunum. Svo var það árið 1841 sem hann var loksins búinn með sitt mikla ritverk um rúnalesturinn, það var Runamo og runestenene og var verk upp á 742 blaðsíður. Finnur Magnússon var á sínum tíma heimsþekktur fræðimaður og saga hans er svo sérstök að það er hreint furðulegt að minningu hans og þessari skrýtnu sögu sé ekki haldið meira á lofti. Þetta er saga vísinda allra tíma, saga um hvernig manneskjan leitar að merkingu í umhverfi sínu og hvernig við erum öll rúnaspekingar í okkar fræðum. Þau fræði geta hins vegar haft mismunandi sjónarhorn og það sem einn sér sem kvæði fyrri kynslóða getur öðrum birst sem eyðingarkraftur náttúrunnar. Þetta er líka sagan um hin hverfulu mörk milli vísinda og skáldskapar og hvernig skáldskapur flæðir inn í vísindi og við skynjum að sannleikurinn er ekki ein uppsprettulind heldur gegnsætt flæði og straumur sem við sjálf berumst með.

Ég skrifaði grein um Finn Magnússon á íslensku wikipedíu. Ég byrjaði líka á grein þar um langfrægasta raunvísindamann Norðurlandanna á sinni tíð. Það er Tyche Brahe. Hann var heimsfrægur fyrir stjörnufræðikenningar sínar og athuganir, kenningar sem ekki er haldið mikið á lofti í dag.  Ég byrjaði á greininni um Tyche í mars 2006 og skrifaði þá þetta:

Tycho Brahe ( 14. desember 1546 – 24 október 1601) var danskur stjörnufræðingur og gullgerðarmaður. Hann byggði stjörnuathugunarstöð sína Stjörnuborg og höllina Úraníuborg í eyjunni Hveðn og bjó þar.

Tycho Brahe fékk áhuga á gullgerðarlist þegar hann lenti sem ungur maður í ryskingum með þeim afleiðingum að hann missti nefið. Hann gekk eftir það með gullnef.

Ég var að skoða áðan hvort greinin hefði eitthvað breyst. Það hefur enginn fundið hjá sér neina hvöt til að fjalla um kenningar hans og fræðistörf, það hefur bara verið bætt við einhverju um þvagblöðru hans og salernisaðstöðu í veislum og svo hefur því  verið breytt  að í stað gullnefs þá hafi hann verið með nefbrodd úr kopar.

Vísindamennirnir Tyche Brahe og Finnur  Magnússon hafa ekki sama stall og þeir höfðu á sínum tíma í fræðasamfélaginu. Aðrir hafa komið fram sem kollvarpa þeirra tilgátum. Þannig er gangur lífsins, þannig er gangur vísindalegrar þekkingar, þannig byggist samsöfnuð þekking heimsins upp. Hún byggist upp að hluta til með því að ráðast á fyrri þekkingu og kenningar.

Þannig kollvarpaði  þróunarkenningin ýmsu sem haldið er  fram um sköpun heimsins, ekki eingöngu í kristnum trúarbrögðum. Mér virðast öll trúarbrögð hafa einhvers konar sköpunarsögur, sögur sem gera hlut mannanna meiri  og gera jarðvistinni aðeins bærilegri. Það er pínulítið óþægilegt að hugsa um okkur sem agnarlítil kríli á plánetunni jörðu sem sjálf er agnarlítið kríli í vetrarbraut sem er 100.000 ljósár í þvermál og þessi lífmassi sem hér flæðir um jörðu  og við erum hluti af sé byggður á efnaferlum vatns. Það er nú miklu skemmtilegra að aðhyllast  guðskenningar sem segja að maðurinn sé einhvers konar afrit af Guði, afrit sem hann hafi mikla velþóknun á.

Ég hef ekki myndað mér skoðun á hvort afstaða Guðfinnu var skynsamleg en vonandi skýrir hún viðhorf sitt betur. Ég var að lesa samþykkt líffræðiskorar 

það er allt mjög skynsamlegt sem þar stendur og auðvitað er ég sammála líffræðingunum, ég er  alin upp í þeirra hugmyndakerfi, þetta er mín heimsmynd í dag. En það er samt þannig að seinasta setningin stingur mig, setningin um hvað   á erindi  í  umræðu og kennslu í vísindum.

Síðasta setningin er svona:

"Sköpunarkenningin" og "kenningin um vitræna hönnun"  eru ekki prófanlegar tilgátur og eiga ekkert erindi í umræðu og kennslu í vísindum.

Hver er dómari yfir hvað á erindi í umræðu og kennslu í vísindum? Hafa allar vísindaframfarir síðustu árþúsunda byggst á  prófanlegum tilgátum?


mbl.is Harma afstöðu Guðfinnu Bjarnadóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laumupukurslegur flumbrugangur

Ég ætlaði nú að hvíla mig svolítið á þessu orkuveituútrásaræði en þetta er góssentíð fyrir okkur almenna borgara í  upplýsingastreymi. Það er sjaldan sem við fáum að fylgjast svona náið  með  hve mikilvægar ákvarðanir sem varða okkur almenna borgara í Reykjavík virðast teknar í laumupukurlegum flumbrugangi.

Mér finnst Vilhjálmur fyrrum borgarstjóri vægast sagt ekki koma vel út í þessu REI máli. Upplýsingastreymi  um þessi mál til borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hefðu  eðli málsins átt að koma í gegnum hann.

En það er svo sannarlega miklu meira athugavert við þetta REI mál heldur er hvernig borgarstjóri hefur komið að því.  

  


mbl.is Borgarstjóri upplýstur um samning til 20 ára þann 23. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óefnislegar eignir

Mér finnst þetta mjög loðið og óskýrt hvað felst í þessum óefnislegum eignum og hvort fyrirtæki í eigu sveitarfélaga geti afsalað sér réttindum í hendur einkafyrirtækja sem engin trygging er fyrir því að þau geti ráðið yfir. Það var áhugaverð grein í 24 stundir í dag þar sem prófessor í jarðefnafræði heldur því fram að útrásarumræðan byggist á áróðri og að nánast allar framfarir í bortækni komi frá olíuiðnaðinum. Hvar er þessi íslenska sérþekking? Hvað felst í tíu milljarða matinu? Er það að Hitaveitan og Orkuveitan séu að styðja það að einkafyrirtæki geti fengið aðgang að auðlindum erlendis?

"Tuttugu ára samningur um að öll erlend verk Orkuveitunnar renni til Reykjavík Energy Invest var undirritaður daginn áður en samruni REI og Geysir Green Energy var samþykktur. Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins í dag en Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI, staðfesti þetta þar.

Haft var eftir Guðmundi, að tíu miljarða króna mat á óefnislegum eignum Orkuveitu Reykjavíkur felist í þessum samningi, auk þekkingar OR á jarðvarma og samningur um þjónustu OR við REI."


utrasin-er-arodur
mbl.is REI fær verk Orkuveitunnar erlendis í 20 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér á REI-ki er einhver óhreinn andinn...

Þessi íslensku valdarán eru frekar brosleg nema náttúrulega maður sé í þeim hópi sem völdunum er rænt frá. Þetta virðist vera orðin einhver tíska í íslenskum stjórnmálum að stjórnmálamenn plotta viðstöðulaust bak við tjöldin en hafa á meðan einhverja sýningu á yfirborðinu til að villa um fyrir andstæðingum. þetta  er auðvitað margra árþúsunda stríðskúnstir - að koma andstæðingnum á óvart og koma bak við hann. Til langs tíma litið þá verður fólk að átta sig á því að samskipti manna á milli byggjast á trausti og þeim sem leikur oft svona leiki verður ekki treyst í framtíðinni.

Það er áhugavert að tveir sem nefndir eru til sögunnar í þessari atburðarás eru menn sem höfðu harma að hefna gagnvart Sjálfstæðismönnum - annar vegna þess að Sjálfstæðismenn í borginni þóttust hafa áhuga á samstarfi við hann þó þeir  væru sennilega löngu búnir að gera samkomulag við Björn Inga og hinn vegna þess að honum hefur nýlega verið ýtt út úr starfi af Guðlaugi Þór. 

Það er mjög áhugavert hvernig sagan mun meta áhrif Alfreðs Þorsteinssonar. Var það Alfreð sem kom Vilhjálmi til valda á sínum tíma og var það Alfreð sem kom Dag til valda núna? En eitt er víst og það er að það var R-listinn sem kom Alfreð til valda í Orkuveitunni.

Annars er líka soldið broslegt að heyra Margréti Sverrisdóttur útskýra hvers vegna hún er núna fulltrúi Frjálslynda flokksins í borgarstjórn þó hún sé löngu búin að segja sig úr þeim flokki. Það er nefnilega þannig segir hún að flokknum var rænt.  Ég ætla bara rétt að vona að hefndarþyrstir Sjálfstæðismenn fái ekki einhverjar hugmyndir út af þessu, ég ætla að vona að þeim detti ekki í hug að ræna Framsóknarflokknum. Það er annar svona auðrænanlegur lítill flokkur. Hmmm... hvernig vitum við hvort Framsóknarflokknum hafi verið rænt??  


mbl.is Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi féllust í faðma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðarfararsvipur

442608Aþað er áberandi drungi í svip borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins eftir fréttir dagsins. Á myndum lítur út eins og þau séu í jarðarför. Það er kannski af því það er svo hráslagalegt og haustlegt núna.

En mér fannst líka vera svona jarðarfararsvipur á Svandísi Svavarsdóttur fyrir framan ráðhúsið. Kannski af því hún var svartklædd og kannski af því að því að það er erfitt að vera orðinn samherji þeirra sem maður hefur örskömmu úthrópað áður fyrir spillingu. Dagur var glaður á svip, er hann kannski sá eini sem er glaður?

Ég er ekki alveg viss um hvað mér finnst um hinn nýja meirihluta. Ég hefði strax viljað svona stjórn eftir kosningar en ég held að svona umhleypingar veiki stjórnsýsluna í borginni. Á þessari stundu vorkenni ég líka afar mikið Vilhjálmi borgarstjóra, mér finnst þetta REI mál og það klúður sem er í kringum það hafa tekið  æruna af honum í stjórnmálum. Ég held að hann eigi það ekki skilið, hann hefur margt gott gert.

Ég vona að nýji meirihlutinn reynist vel en það verður samt ekki á móti mælt að hann er ákaflega veikur og hann byrjar leiðinlega  - hann byrjar ekki með góðum málefnasamningi og bakvinnu heldur meira á stríðsástandi og baktjaldamakksvinnu. Svo er það náttúrulega veikt að þetta séu fulltrúar fjögurra flokka. En ég er nú ánægð með þetta fólk, ég ber fyllsta traust til þeirra og ef þessi meirihluti springur þá verður það sennilega ekki fyrir tilstilli Björns Inga. Það er hins vegar öruggt mál að Sjálfstæðismenn munu reyna að gera sitt til að sprengja meirihlutann.


mbl.is Vilhjálmur: Vorum að nálgast niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkulindir, miðhálendið, fiskimiðin

Ég var að fletta upp í Google lögum um stjórnun fiskveiða og rifja upp fyrir sjálfri mér fyrstu greinina. Þessa þið munið um að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar.

Nema hvað að það fyrsta sem ég fæ upp er ágæt þingræða frá okkar ágæta iðnaðarráðherra sem reyndar var þá ekki orðinn iðnaðarráðherra (umræðan er hérna)  þar sem hann er að benda á veilurnar í sambandi við miðhálendið. Össur bendir hér á að forsjáin með miðhálendinu hafi verið tekin frá okkur þó í orði kveðnu sé miðhálendið sameign þjóðarinnar.

Hann segir

Í þessu fólst að verið var að ganga frá því að þjóðin ætti miðhálendið. Þá gerist það skyndilega í lok þeirrar atlögu, þ.e. að ljúka landnáminu, að hér er lagt fram frv. sem tekur þessa nýfengnu eign í rauninni af landsmönnum. Það er gert með því að miðhálendinu er skipt upp á milli allra sveitarfélaganna í landinu sem að því liggja. Um leið er þeim fært vald til stjórnsýslunnar, fært hvers kyns vald samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi um sveitarfélög og réttindi þeirra. Það þýðir með öðrum orðum, herra forseti, að verið var að taka miðhálendið frá okkur með nákvæmlega sama hætti og búið er að taka frá okkur fiskimiðin. Samsvörunin er þessi:

Til eru lög um stjórnkerfi fiskveiða þar sem segir í 1. gr. að fiskimiðin séu sameign íslensku þjóðarinnar. Síðan er örfámennum hópi færður rétturinn til að nýta þessi fiskimið. Með öðrum orðum, eignarrétturinn sem okkur er færður samkvæmt lögunum er einskis virði vegna þess að nýtingarrétturinn verður að einokunarrétti í hendi tiltölulega fámenns hóps.

Hið sama gerist með miðhálendið. Í lögum um þjóðlendur er sagt að það land sem enginn getur sannað beinan einkaeignarrétt á sé eign þjóðarinnar. En um leið og búið er að samþykkja þau lög er svo að segja í sama mánuðinum samþykkt önnur lög sem segja:

Þrátt fyrir að þjóðin eigi þetta land þá fær hún ekki að ráða því. Yfirráðin eru færð í hendur 44 sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu. Í þessum sveitarfélögum er að finna 4% íslensku þjóðarinnar. Með öðrum orðum. Dæmið er nákvæmlega hið sama varðandi miðhálendið og varðandi fiskimiðin. Lögin segja: Þjóðin á þetta sem sameign en önnur lög gera það að verkum að sameignin er ógild og ráðstöfunarrétturinn, hinn raunverulegi nytjaréttur er færður í hendur óskaplega fámenns minni hluta.

.......................... 

Hvers vegna er það þannig að langstærsti hluti þjóðarinnar, sem býr í tveimur þéttbýlustu kjördæmum landsins, Reykjavík og Reykjanesi, hefur einungis tvo fulltrúa, þ.e. hvort kjördæmi hefur einn fulltrúa. Hvað búa margir á þessu svæði? Ætli það séu ekki 67--69% þjóðarinnar? Og það hefur tvo fulltrúa.

 Þetta er kröftug ræða hjá Össuri og hún opnaði augu mín fyrir hversu mikið þessi þrjú stóru mál orkulindirnar, miðhálendið og fiskimiðin  eiga sameiginlegt og hvernig við getum lært af því  hvernig auðlindir sjávarins og nytjaréttur þeirra voru fengnar endurgjaldslaust í hendur á fámennum hópi útgerðarmanna sem hafa nú margir breytt þessari eign í "peninga sem þeir láta vinna fyrir sig" og hvernig forsjá miðhálendisins var tekin úr umsjá þjóðarinnar og yfirráð þeirra færð til sveitarfélaga þar sem búa 4% þjóðarinnar en íbúar þéttbýlisins þar sem flestir búa hafa hverfandi áhrif.

Það er ekkert núna sem hindrar að erlendir auðhringir kaupi upp aðganginn að íslenskum fiskimiðum í gegnum félög sem eru skráð á Íslandi sem eru í eigu félaga sem eru skráð einhvers staðar erlendis sem eru í eigu aðila sem hafa lögheimili sitt og skattasetur í einhverri skattaparadís .... þannig er hægt að búa til eignarhaldsfléttu félaga svo að enginn viti lengur hver á hvað. Svo sorglegt sem það nú er þá er tímapunkturinn þegar passar fyrir Íslendinga að sækja um inngöngu í Evrópusambandið sami tímapunktur þegar megnið af fiskveiðikvótanum við Íslandsstrendur verður kominn í hendur slíkra auðhringja. Á þeim tímapunkti verður ekkert lengur eftir til að verja.

Ég held að þó að stjórnmálamenn og áhrifamenn í viðskiptum og stjórn orkufyrirtækja tali fjálglega um þjóðareign þá eigum við að skoða vandlega hvernig framkvæmdin verður. Hvað á Össur við að orkulindir sem nú eru í samfélagslegri forsjá verði það áfram? Ef t.d. á að vinna olíu á Tjörnessvæðinu er það þá eitthvað sem á að vera í forsjá einhverra annarra? Hverra? 


mbl.is Orkulindir í samfélagslegri eigu verða það áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband