Harmur almennings

Víst er almenningur á Íslandi í dag beygður og harmi sleginn, við horfum núna á íslenska þjóð liðast í sundur. Það gerist ekki í einni sviphendingu en það gerist hratt því  að á hverjum degi slitna fleiri og fleiri þræðir sem halda fólki hérna saman. Þessir þræðir eru margir hverjir snúnir saman af því trausti sem við höfðum á stjórnvöldum og athafnalífi hérna. Þeir þræðir eru  slitnir og tættir núna. Þó þeir sem mest tengjast spillingunni hafi hrakist frá völdum þá standa málin þannig að núverandi stjórnvöld hafa nánast engin völd, eru aðeins lítil peð í refskák stórvelda sem reyna að sópa vandamálum líðandi stundar undir teppi svo þau gleymist um stund, þetta teppi er hér á Íslandi kallað Icesave. 

En það er ekki harmur almennings á Íslandi varðandi Icesave sem ég ætlaði að fjalla um í þessu bloggi.  Þetta átti að vera afmælisblogg um sjö ára afmæli Creative Commons

Svona er staðan á Íslandi í dag, maður getur ekki tjáð sig nema byrja með harmakveinum.

Það er heldur ekki harmur heimsbyggðarinnar yfir mengun og lakari lífsskilyrðum sem stafa af manna völdum s.s. hlýnun jarðar sem ég ætla að fjalla um. En samt tengist umfjöllunarefni mitt heilmikið bæði umhverfi hins alheimsvædda fjármálasamfélags sem byggir á einkaeignarétti  og því umhverfi sameiginlegrar umhverfisvitunar sem nú er ráðslagað um á umhverfisráðstefnunni í Kaupmannahöfn.

Þessi fyrirsögn "Harmur almennings" er sóttur í rit heimspekingsins Whitehead Tragedy of the Commons og hugmyndafræði sem segir að takmörkuðum almannagæðum (auðlindum) sem eru aðgengileg til notkunar án  hindrana verði að öllum líkindum spillt eða eytt fyrr eða síðar. Þess vegna  þurfi að koma til auðlindastjórnun. Margir kapítalistar hafa notað þessa "Tragedy of the Commons" hugmyndafræði  sem röksemdir fyrir að það sé betra að auðlindir séu í einkaeigu en í almannaeigu. Þegar ég píndist í viðskiptafræðinni í Háskóla Íslands forðum daga þá vorum við látin lesa  greinar um sjávarútvegsmál sem einmitt var ætlað að útskýra og sýna fram á að miklu betra væri fyrir fiskveiðistjórnun að vera í einkaeign, það var mörgum árum áður  útgerðarmönnum voru færð  á silfurfati yfirráð yfir sjávarútvegsauðlind Íslendinga. Ég man sérstaklega eftir einni grein um álaveiðar fyrir ströndum Danmörkur sem útskýrði á sannfærandi hátt hvað allt hefði verið betra þegar landeigendur réðu líka yfir sjónum og stýrðu álaveiðunum.  Mig minnir að það íslenska námsefni sem við lásum á þessum tíma sem einhvers konar fræðiefni í háskólanámi í hagfræði hafi verið kostað af samtökum útgerðarmanna eða sölusamtökum með fisk.  

Það hefur aldrei verið meiri ástæða til að staldra við og spá í hvort að einkaeignaréttur sé betri en samfélagsleg eign. Þetta skiptir gríðarlegu máli fyrir Íslendinga, hér er samfélag þar sem miklar auðlindir eru bæði auðlind sjávar og  orkuauðlindir sem og mikilvægur umráðaréttur yfir hafsvæðum á Norðurslóðum, á svæði þar sem verður hatrömm auðlindabarátta á næstu áratugum. 

Við lifum líka núna á hruntímum þar sem við sjáum hvernig engin fyrirstaða er við því að eignaréttur og yfirráð yfir verðmætum og auðlindum hér á Íslandi geti komist í  eigu fjarlægra aðila sem engan hag hafa af áframhaldandi blómlegri búsetu á Íslandi. Raunar stöndum við á þröskuldi tíma þar sem Íslendingar (þ.e. stjórnvöld og opinber fyrirtæki)  hafa eða eru að glata yfirráðarétti sínum á flestum auðlindum hér á Íslandi og við Ísland bæði vegna ofboðslegs skuldafargans og svo vegna þess að  allt stefnir í að Íslendingar gangi í ESB og framselji stjórnun fiskveiða  til þess.  Almenningur á Íslandi veit ekkert hver á og hver hefur yfirráð yfir íslenskum veiðiheimildum og verið getur að þær séu að stórum hluta í eigu erlendra vogunarsjóða í gegnum keðjunet skúffufyrirtækja.

Opinber orkufyrirtæki á Íslandi eru skuldum vafin og virðast geta riðað til falls og opnað hefur verið á lukkuriddara og gullgrafarafyrirtæki sem stefna að 1000% hagnaði fyrir eigendur sína. Einn stærsti stjórnmálaflokkur landsins Sjálfstæðisflokkurinn hefur leynt og ljóst reynt að selja íslensk orkufyrirtæki til einkaaðila í einhvers konar frjálshyggjutrúboði og virðist manni sem sú stefna sé rekin núna þar sem reynt sé að keyra orkufyrirtæki í opinberri eigu eins og hægt er í þrot svo auðvelt verði að réttlæta sölu þeirra síðar fyrir almenningi, almenningi sem áttar sig ekki á hver raunveruleg verðmæti eru fólgin í þessum fyrirtækjum sem við öll héldum að væru samfélagslegar veitustofnanir. Almenningi sem áttar sig ekki á því að ef fjárfestar í leit að ofsagróða vilja kaupa orkufyrirtæki hér þá er líklegt að það sé vegna þess að það er góð fjárfesting fyrir þann sem kaupir en afarkostir fyrir þann sem selur. 

Það er þannig aðstæður á Íslandi bæði hjá sveitarfélögum og ríki að það er látið eins og við lifum í núinu og aldrei komi að skuldadögum, þetta sé spurning um að "endurfjármagna sig" á nokkurra ára eða missera fresti og selja smán saman frá sér allt sem getur orðið að arði í framtíðinni - en passa vel að halda dauðahaldi í rekstur sem passaði fyrir 2007 samfélag útrásar eins og að byggja stásshús og kreppuhöll eins og tónlistarhúsið í Reykjavík sem kallar á mörg hundruð milljóna árleg útgjöld um aldur og ævi frá borginni, útgjöld sem  ekki verður með nokkru móti séð að lamað hrunsamfélag geti risið undir.

Á Íslandi er ástandið þannig núna að yfir íslenskum auðlindum voma núna hrægammar sem vilja komast yfir sem mest fyrir sem minnst og við erum í sömu sporum og Indjánaþjóðflokkar sem reknir voru frá heimkynnum sínum af því að aðrir og máttugri sáu þar hagnaðarvon. Það hefur aldrei verið vandamál fyrir sigurvegara og volduga aðila að finna réttlætingu gerða sinna og þagga niður sjónarmið þeirra undirokuðu. Íslendingar unnu í þorskastríðunum og bjuggu lengi að sínum sigri þar og úthlutuðu svo íslenskum útgerðarmönnum leyfum til að veiða fiskinn sem breskir veiddu áður.

En í því fjármálastríði sem nú hefur lagt Íslendinga að velli þá var stærsti taparinn almenningur á Íslandi og núna eru þar röksemdir þeirra erlendu aðila sem vilja viðhalda og byggja upp óbreytt fjármálakerfi kapítalisks einkaeignaréttarsamfélags sem hljóma hérna hæst og Íslendingar láta margir gleypjast  og leggja áherslu á að við séum að spila spil og við verðum að virða leikreglurnar. Spyrja ekki um hve fáránlegar þessar leikreglur eru og á skjön við veruleikann og hve mikið þessar leikreglur hygla fjármagnseigendum en íþyngja almenningi og þaðan af síður hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenskt samfélag að búa við skuldafarg sem það getur ekki risið undir.

Það getur verið að það skipti ekki sköpum fyrir heiminn hvernig litlu eyríki norður í Atlantshafi reiðir af í fjármálastríði nútímans. En það eru ekki bara örsmá markaðshyggjusamfélög sem eru að brotna niður. Það eru mörg teikn á lofti að það sama sé að gerast í stórum samfélögum og að sá strúktúr sem núna er á flæði verðmæta um samfélög, sá strúktúr sem passaði ágætlega við iðnaðarsamfélagið og tryggði auðlegð þjóðanna, að sá strúktúr passi ekki núna og sé í versta falli kyrkingartök á framþróun. Í hinu samtengda og stafræna heimssamfélagi er annars konar vinnubrögð við framleiðslu og neyslu möguleg og raunar æskileg. Það er hollt að lesa skrif hugsuða um þetta samfélag sem við erum nú að fara inn í og skoða hvað er að gerast með því að skoða bæði hagræna þætti og tæknilega þætti. 

Hér eru tvær bækur um það efni, bækur sem að sjálfsögðu eru undir CC höfundarleyfi og hægt að hlaða niður

The Future of Ideas: the Fate of the Commons in a Connected World

 Wealth of Networks: How Social Production Transforms Markets and Freedom

Þeir sem fylgjast  vel með því hvað er að gerast í hinu netvædda og samtengda samfélagi ætti að vera ljóst að markaðs- og fjármálakerfi iðnaðarsamfélagsins er ekki að virka og það er þörf á annars konar leikreglum en við búum við núna og þessi gróðahyggja þar sem gengið er út frá einkaeignaréttinum sem helgasta vé samfélagsins og  því að hámarkságóðavon, framboð og eftirspurn og sem mest markaðsfrelsi  sé drifkraftur viðskipta- og athafnalífs er ekkert að virka sérstaklega vel. Eiginlega mjög illa í sumum tilvikum. Það hefur vaxið upp ný tegund af samvinnu og ný tegund af vinnumáta, vinnumáta þar sem allir leggja saman í púkk og allir græða á samlegðaráhrifum, líka þeir sem leggja mest inn. Eignaréttarskilgreinar okkar eru þrúgandi fyrir margs konar sköpun, sérstaklega eru eignaréttarlög og reglur sem lúta að efni sem hægt er að afrita og fjölfalda mjög þrúgandi og eiginlega þannig að  margir tapa á að halda sig í þannig kerfi.

Margir framleiðendur og höfundar efnis hafa því kosið að halda sig við annars konar kerfi og t.d. tekið þátt í að byggja upp höfundarréttarkerfi eins og Creative Commons. Þessir framleiðendur átta sig á því að efni má endurnota og endurblanda í önnur verk og við lifum ekki í samfélagi þar sem útgáfa á efni frá framleiðenda er endapunktur. Við erum flutt út úr prentsamfélaginu inn í netsamfélag. Efni er ekki lengur gefið út í endanlegu formi eins og prentverk, efni sem berst frá einum til annars er efniviður annars og er eins og orð og setningar og sögur í munnlegri geymd sem berast á milli og umbreytast og verða efniviður í nýjar sögur og nýjar samsetningar og ný form.

Þetta umbreyting frá prentsamfélagi, frá miðstýrðu samfélagi, frá iðnaðarsamfélagi yfir í síkvikt, samtengt netsamfélag sem er stýrt eins og starfendafélagi, stýrt af þeim sem taka þátt.

Creative Commons er meira en ein gerð af höfundarrétti. Þetta er einn liður í þjóðfélagshreyfingu, sömu þjóðfélagshreyfingu og núna leggst á árarnar og færir heiminum ókeypis aðgengilega þekkingu og forrit og verkfæri m.a. gegnum open source hreyfingu og wikipedia samfélög. Það er engin ástæða til annars en fylgjast vel með þessari þjóðfélagshreyfingu, hún mun í fyllingu tímans verða talin eins merkileg og Upplýsingin og raunar líkist henni á margan hátt. En eins og er þá er þessi hreyfing eins og undirstraumur sem ekki margir taka eftir nema þeir séu á kafi í pælingum um hvernig stafræn verðmæti og þekking flyst um heiminn.

Ég held að það sé kominn tími til að afneita harmleik almenningeignar  (tragedy of the commons) og horfast í augu við að það gagnast öllum vel að ná sátt um sameiginleg gæði og nýta sameiginleg gæði og byggja upp sameiginlega visku- , verkfæra og þekkingarbrunna  sem allir geta gengið í að vild.  Sérstaklega er brýnt að losa sem mest aðgangshömlur á þau gæði sem eru gætt þeirri náttúru að þau vaxa eftir því sem fleiri nýta sér þau. Spakmælið "Það eyðist sem af er tekið" á nefnilega alls ekki við framleiðslu  í heimi  þar sem tekin eru (eða afrituð/fjölfölduð)  verðmæti til að búa til önnur verðmæti. Það er öfugmæli að núna eru þeir tímar að hefðbundinn eignaréttur t.d. höfundarréttur  er oft eins og helsi sem hindrar aðgang og notkun og hindrar að viðkomandi eign verði efniviður í önnur verðmæti og skapi meiri verðmæti í samfélaginu. 

 

Hér koma slóðir og annað sem ég hef skrifað þessu tengt (ef ég finn það)

Ég skrifaði árið 2003 eftirfarandi blogg um almenningseign og lími það blogg inn hérna: 

 

Auðlindahagfræði, sjálfbær þróun, almenningseign og fullveldi


Einu sinni var Sahara skóglendi. Nú er þar eyðimörk. Þetta er víst út af ofbeit öldum saman. Sumir hagfræðingar telja að meinið liggi í því að það sem sé almenningseign hljóti alltaf að vera étið þangað til það er uppurið. Þeir bera fyrir sig ritið Tragedy of the Commons eftir Whitehead frá seinustu öld en í hann og Hardin er gjarnan vitnað með svona lífspeki:
A tragedy because of the "solemnity of the remorseless working of things" (Whitehead). "Ruin is the destination toward which all men rush, each pursuing his own best interest in a society that believes in the freedom of the commons. Freedom in a commons brings ruin to all." (Hardin)

Það er spurning hvort að hin sameiginlegu afréttarlönd hafa ekki gert Hálendi Íslands að þeirri auðn sem það er. Annars sá ég að Ísland var tekið sem dæmi á vef um sjálfbæra þróun, bæði þessar stærstu eyðimerkur í Evrópu sem eru í íslenskum óbyggðum og svo fiskimiðin. Þetta er borið saman við Price Edward eyju og bent á hve mikilvægt fullveldi er og sjálfákvörðunarvald þeirra sem búa hjá og yrkja auðlindir. :

"These examples show that concentrated, abstract ownership can drive a number of system trends relentlessly toward Whitehead’s “inevitable tragedy”. Sovereignty, properly understood, can be seen as a powerful counter force for self-sufficiency or sustainability. It is from that perspective that we need to view more carefully the trend in Newfoundland and Prince Edward Island toward reducing their sovereignty over the last hundred years, while Iceland moved in the other direction. Indeed, Iceland even endured the so-called “cod wars” with the United Kingdom in order to preserve the sovereignty of its fishery. We can see the same drives toward sovereignty at work now in the Faeroe and Aland islands, so that they too may assert a firmer hold upon their own political and economic space.

Now, of course, it is easy to romanticize the struggle and to become misled. One such way would be misread this exercise as simply a nostalgic call to return to the past. It is important to recognize at the outset that the subsistence model was itself no utopia. A visitor’s challenging introduction to the traditional Icelandic cuisine based on using all parts of an animal’s body tells us how hard and practical life must have been. Nor was the subsistence model free from ignorance. A first time visitor to Iceland is struck by the lack of trees and soil. The naïve assumption is that this lunar landscape is solely the result of it being a volcanic area. In fact, this desolate landscape is largely the result of generations of poor grazing and agronomic practice."

Ef fiskiskiptafloti Íslendinga og kvótaeign kemst mestallur í eigu ópersónulegra aðila innlendra og erlendra og stýringin verður kannski í höndum erlendra aðila sig eiga fyrirtæki sem eiga fyrirtæki sem eiga banka sem á fyrirtæki o.s.frv. er þá ekki hætta að við lendum í svona Tragedy of the Commons stöðu? Hér er ég að pæla hvort að svona abstrakt eignarhald eins og hlutabréfaeign í gegnum verðbréfamarkaði er ekki ákkúrat eins mikil ógnun við gjöful fiskimið og almenningseign á afréttarsvæðum...þarf að pæla betur í þessu. #

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Persónulega finnst mér of mikið að segja að heil þjóð sé harmi slegin. Kannski er það vegna þess að ég þarf sjálf ekki að svelta sáru hungri og ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem kannski þurfa að gera það út af ástandinu, en ég er ekki svo viss um að Icesave hafi slíkar afleiðingar, a.m.k. ekki strax. Ég myndi samþykkja svona orðalag ef t.d. eitt stykki þorp hefði verið nánast þurrkað út af kortinu í náttúruhamförum, eins og við höfum lent í að upplifa. Mér finnst mikilvægt að nota rétt orð yfir hlutina og yfirdramatísering gerir ekkert nema ógagn. Ég vildi bara benda á þetta, í fullri vinsemd. Takk.

Kristín í París (IP-tala skráð) 17.12.2009 kl. 23:15

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

orðalagið "harmur almennings" er orðaleikur hjá mér, svona lausleg þýðing á "tragedy of the commons" sem myndi ef til vill þýðast réttar sem "harmleikur almenninga" og þá er almenningur í merkingunni almannaeign til almannanota en ekki um alþýðu manna. Þetta blogg fjallar um "tragedy of the commons" sem er hagfræðikenning og "creative commons" sem er ný tegund af höfundarrétti.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.12.2009 kl. 23:29

3 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Mikið áhyggjuefni, ákvæði Icesave þ.s. eignir ríkisins, eru í reynd settar að veði.

Mín skoðun er nefnilega sú, að efnahagsplan AGS sé einungis uppsetningur á því tekjustreymi, sem til þarf svo ríkið geti borgað af sínum skuldum, þ.e.:

  • Afgangur af utanríkisviðskiptum milli 160-180 milljarða, næstu 10 árin.
  • Tekju-aukning ríkisins, upp á 50 milljarða á ári, næstu 10 árin. Tekjur ríkisins árið 2010 verði svipaðar, og árið 2008.
  • Hagvöxtur upp á 3,4% árlega, næstu 10 árin.

Ég er sannfærður orðinn um, að þetta geti ekki mögulega gengið upp:

Skýrsla Hagfræði Stofnunar HÍ um Icesave

Á árunum 1980-2004 óx landsframleiðsla að meðaltali um 2,8% á ári. Þar af mátti rekja 1,3% til fólksfjölgunar og 1,5% til aukinnar framleiðni. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar fram til 2050 mun landsmönnum öllum fjölga um 0,7% að meðaltali á ári fram til 2023 og fólki á vinnualdri (20-64 ára) um 0,5%. Ef framleiðni vinnu eykst með líku lagi og undanfarna áratugi má búast við að VLF aukist að jafnaði um 2-2,5% á ári næstu 15 árin sem er nokkuð minna en Seðlabanki gerir ráð fyrir. Einstakar framkvæmdir ættu ekki að breyta miklu um þetta mat."

Mér hefur alltaf fundist mat Hagfræðistofnunar HÍ miklu mun sennilegra, þegar kemur að áætlun um framtíðarhagvöxt.

Þetta, miðast að sjálfsögðu við, að ekki komi á móti þættir sem draga úr getu hagkerfisins, til hagvaxtar; en þættir sem gera það, og eru til staðar:

  • skuldastaða almennings, en viðurkennt er að 20% skuldi umfram eignir og aðrar 20% munu gera það skv. spá Seðló um lækkun verðgildis húseigna. Skv. spá AGS fyrir Iðnríkin, mun skuldastaða almennings vera dragbítur á næstu árum á hagvöxt. Samt, er skuldastaða almennings, verri en í stóru iðnríkjunum, sem getur vart annað en þítt, en að þær skuldir verði enn verri dragbítur á hagvöxt hérlendis.


"Skýrsla AGS fyrir síðasta G20 fund 

The global economy has returned to positive growth following dramatic declines. However, the recovery is uneven and not yet self sustaining, particularly in advanced economies. Financial conditions have continued to improve, but are still far from normal. Despite recent momentum, the pace of recovery is likely to be sluggish, since much remains to be done to restore financial systems to health, while household balance sheet adjustment and bank deleveraging will be drags on growth. Downside risks have reduced somewhat. A key risk is that policy support is withdrawn before the recovery can achieve self-sustaining momentum, and that financial reforms are left to languish."

  • Atvinnulífið, er einnig mjög skuldsett, sem væntanlega hefur sömu áhrif, þ.e. að draga úr getu til hagvaxtar, þ.s. þá hafa aðilar augljóslega minna fé handa á milli til síns rekstrar, til þess að kaupa aðföng, til þess að fjárfesta í nýjum framleiðslutækjum, sinna viðhaldi, o.s.frv. Skoðaðu hvað AGS, segir hér að neðan.

Skýrsla AGS fyrir síðasta G20 fund 

A sustained rebound in private demand is likely to be held back by limited credit availability, a desire by households to rebuild balance sheets, and unemployment rising well into 2010, indicating the need for caution. Unemployment continues to rise in many economies, and financial sectors and confidence are still fragile. The recent rebound in GDP growth seen in some economies is largely accounted for by policy support and a turn in the inventory cycle. The inventory cycle may still support growth this year but would then gradually lose impetus. 

  •  Ég þarf varka að taka fram, að ríkis og sveitarfélög eru hér einnig skuldsettari, en gerist og gengur í ríkjunum sitt hvoru megin við okkur.


  • Svo, má ekki heldur gleyma því, sem ekki er gert hér, þ.e. hér er ekki verið að eyða stórfellt, sbr. "stimulus packages", til að efla atvinnulífið. OK, við höfum ekki efni á því. En, punkturinn er sá, að þ.s. við erum ekki að hvetja atvinnulífið með sambærilegum hætti og gert er erlendis, þá virkar það einnig sem bremsa á okkar hagkerfi, samanborið við þ.s. verið er að gera annars staðar.


  • Vextir eru hærri en gengur og gerist í löndunum, báðum megin við Atlantshafið. Það hefur einnig bremsandi áhrif á hagvöxt af ástæðum, sem ættu að vera augljósar - sbr. þeir draga fjármagn úr hagkerfinu, aðilar hafa minna handa á milli til allra hluta, o.s.frv., enda, er vaxtastig ein af klassísku samdráttaraukandi aðgerðunum.


  • Atvinnuleysi dregur úr getu hagkerfisins til hagvaxtar.


Skýrsla Hagfræði Stofnunar HÍ um Icesave

                           Meðalbreyting                        Verst ástand

Fasteignaverð

(raunvirði)

-35,5%

 6,0 ár

Hong Kong (-54%)

Japan, 1992 (6 ár)

 

Hlutabréfaverð

(raunvirði)

-55,9%

 3,4 ár

Ísland (-91%)

Spánn, 1977, Malasía og

Tæland (5 ár)

 

Atvinnuleysi

7,0%

4,8 ár

USA, 1929 (22%)

Japan, 1992 (11 ár)

 

VLF á föstu

verðlagi

-9,3%

1,9 ár

USA, 1929 (-30%)

Finnland, Argentína, 2001,

og USA, 1929 (4 ár)

 

Ríkisskuldir*

86,0%

 

Finnland,

Kólumbía

  

Heimild: Carmen M. Reinhart og Kenneth S. Rogoff, "The Aftermath of Financies Crises," American Economic

Review: Papers & Proceedings, 99 (2), 466-472. * Aukning ríkisskulda á þremur árum eftir upphaf kreppu.

Áhugavert, að yfirfæra þetta á Ísland:

  • Hefst hagvöxtur hérlendis árið 2010.
  • Verðmæti hlutabréfa hérlendis nær lágmarki árið 2012.
  • Hámark atvinnuleysis verður um mitt ár, 2013.
  • Botninn á kreppunni á húsnæðisverði, verður síðla árs 2015.

Hagvöxtur, held ég þó að hefjist ekki fyrr en 2011. Koma þar til samdráttaraukandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar, og hins vegar, hávaxtastefna Seðlabankans.

---------------------------------------------------------------

Niðurstaða:

Ég nota sem viðmið spá Hagfræðistofnunar HÍ, sem að mínu mati færir ágæt rök fyrir sinni spá um líklegan hagvöxt, burtséð frá öðrum þáttum en þeim sem þeir nefndu.

Síðan, þegar maður hefur í huga, alla þá þætti sem draga úr hagvexti, þá finnst mér langlíklegast, að hagvöxtur verði umtalsvert minni, en spá Hagfræðistofnunar HÍ gerði ráð fyrir, enda viðurkenna þeir reyndar sjáfir að þeir hafi ekki reiknað inn fyrir neikvæðum áhrifum þátta, er draga úr getu til hagvaxtar.

Einhvers staðar, á bilinu 0,5 - 1,5%

Ég tel mig hafa, ágæt rök fyrir þessari niðurstöðu.

-------------------------------

Útkoma, við erum fullkomlega og óhjákvæmilega gjaldþrota.

Nema, að við semjum við kröfuhaga um afslátt af skuldum.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 18.12.2009 kl. 02:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband