Icesave núllað út til að selja okkur þrælafjötra

Allir ruglast í prósentureikningi og það er auðvelt að blekkja fólk með tölum. En það er ömurlegt að fjölmiðlar landsins leggist á sveif með stjórnvöldum sem eru að reyna að kýla í gegn eitthvað sem á ekkert skylt við samning, eitthvað sem er ekki annað en þvingun voldugra ríkja gagnvart máttvana smáríki þar sem efnahagslíf hefur lagst á hliðina. Í fyrirsögninni á þessari frétt er sagt "verði endurheimt á eignum Landsbankans í Bretlandi nálægt 90% ... þá er skuldbinding íslensku þjóðarinnar ekki nema 253 milljarðar.

Þetta er sama ruglfréttamennskan og var á þeim tíma  þegar hetjudáðir  bankaútrásarmannanna voru dásamaðar í fjölmiðlum sem þeir áttu meira og minna sjálfir. Það er látið líta út fyrir að Icesave sé ekki áhætta fyrir íslenska þjóð, við munum auðveldlega vera búin að greiða okkar skuldbindingar eftir einhvern tíma. 

Þeir sem reyna núna að telja okkur trú um að þetta sé ekki áhætta eru sama marki brenndir og þeir sem töldu almenningi á sínum tíma trú um að það væri engin áhætta að  setja  peninga sína áhættu í bankakerfinu eins og í Sjóður 9. Og það var mörgum sinni minni áhætta á að setja peninga á reikninga til að kaupa á skammtímaskuldabréf fyrirtækja í rekstri eins og Sjóður 9 gerði  heldur en að vera svo bjartsýn núna að gera ráð fyrir að 90 % af verðmæti eigna Landsbankans í Bretlandi innheimtist.  Það er ákaflega einkennilegt að á sama tíma og svona gríðarleg bjartsýni ríkir um þessar eignir þá seljist skuldabréf  Landsbankans  á 5 % af nafnvirði meðal erlendra spákaupmanna, það  er spá sem endurspeglar  væntingar markaðarins um þessar eigur.

Það væri vel kljúfanlegt fyrir Íslendinga að ráða við 253 milljarða skuldbindingu og þó það væru blóðpeningar að borga slíkar skuldir vegna bankahrunsins þá myndi það sennilega ekki eitt og sér setja Ísland á hvolf. En hér er ekki verið að tala um neina 253 milljarða. Það er ef ég les fréttina rétt aðeins lítill hluti af þeirri skuldbindingu sem íslenska ríkisstjórnin hefur gengist undir með því að skrifa undir Icesave og miðaður við að allt fari á besta hugsanlega veg.

Ísland er lagt að veði fyrir skuldir banka sem hvorki íslensk né bresk stjórnvöld höfðu bolmagn til að fylgjast með.  Íslenskt eftirlit í stjórnmálum og regluverki brást gjörsamlega. Við getum öll verið sammála um það. En það sem er að gerast núna er að því er sópað undir teppið að breskt eftirlit og breskt og evrópst regluverk brást líka algjörlega að það eru gríðarlegir brestir þar sem reynt er að mála yfir með þessum gjörningi.  En því miður þá er líklegt að sá stífluveggur sem svona er farið með muni bresta fyrr eða síðar.

Staða Íslands er slæm og við erum vissulega öll með blóðbragð í munninum eins og Guðfríður Lilja orðaði það í Kastljósi RúV í gær. En það sem er átakanlegast er að meðan Ísland er þvingað að einhverju sem kallað er samningaborð en er ekki annað en fallöxi þá er orkunni á Íslandi varið í að blekkja fólk til að halda að þetta sé einhver díll og næstum engin áhætta. Fólk sem núna er komið til valda, fólkið sem feyktist til valda eftir búsáhaldabyltingu og sem  ég hélt að stæði fyrir annars konar hugsun og annars konar vinnubrögð í stjórnmálum kemur núna og segir hluti eins og "við verðum að borga skuldir okkar" og "við verðum að sættast við alþjóðasamfélagið".

Sér þetta sama fólk ekki að það er orðið ginningarfífl í að viðhalda kerfi sem er löngu hrunið og er orðið að leiksoppum í kerfi kasínókapítalismans. Af hverju ættum við að sættast við  alþjóðasamfélag sem virðist ekki vera annað er þröngur klúbbur í  bakherbergjum stjórnmálamanna og stjórnenda alþjóðastofnana eins og AGS, fólks sem virðist fyrst og fremst vera að gæta hagsmuna fjármagnseigenda?  

Er einhver skynsemi í því að láta eins og skuldbindingar séu næstum engar skuldbindingar og ákveða fyrirfram að líklegast sé að þetta fari allt á  besta veg, það muni 90 % af kröfum innheimtast og  "þetta reddast allt".

Af hverju berjumst við ekki til þrautar strax og áttum okkur á því að þeir sem við eigum að berjast við  og kalla eftir stuðningi frá eru einmitt alþjóðasamfélagið og þá sérstaklega grannþjóðir okkar. Sérstaklega er það mikilvægt ef staðan er virkilega eins slæm og menn eins og Gunnar Tómasson segja, sjá þessa grein:  Hagfræðingur: Greiðsluþrot verður vart umflúið


mbl.is 253 milljarða skuldbinding
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Erfitt er fyrir okkur að takast á við afleiðingar Icesave reikninganna. Við skulum muna hverjir hleyptu þeim af stað og í hverra skjóli það var gert. Jafnframt hverjir báru ábyrgð á Seðlabanka og Fjármálaeftirliti fram að hruni og stjórnarskiptum. Það er hinsvegar liðin tíð sem ekki verður breytt.

Sérgrein Framsóknarflokksins lengi undanfarið hefur verið að villa um fyrir kjósendum með gylliboðum. Nú þurfum við að varast falsspámenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem láta sem það sé minnsta mál að hlaupa frá ábyrgð á gerðum okkar í fjármálaheiminum. Tilgangurinn er aðeins einn. Ríkisstjórnin skal felld til þess að koma í veg fyrir réttlátt uppgjör við ábyrgðaraðila hrunsins.

Sverrir (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 08:55

2 Smámynd: Ellert Júlíusson

Vinsamlegst hættið að nota orðið "okkar" þegar rætt er um ábyrgðina á Icesave klúðrinu.

Ég ber enga persónulega ábyrgð á því, og börnin mín ekki heldur. Við þurfum bara að pikka upp reikninginn.

Ellert Júlíusson, 20.10.2009 kl. 09:13

3 identicon

Ellert

Þingmenn eru valdir í kosningum á okkar ábyrgð. Þeir efna til ríkisstjórna.  Útgangspunkturinn er sá að við berum endanlega ábyrgð á því sem þetta lið efnir til.

Sverrir (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 09:24

4 Smámynd: Ellert Júlíusson

Ég valdi ekki þá þingmenn sem að stóðu við völd þann tíma sem verið var að fremja landráð. Börnin mín kusu ekki þá þingmenn sem stóðu "vörðinn" þegar verið var að fremja landráð.

Ég viðurkenni það þó með sorg í hjarta að ég ber ábyrgð á Steingrími, enda kaus ég hann á allt öðrum forsendum en hann vinnur nú eftir.

Ég tel jafnframt að allt flokkahjal á tímum sem þessum jaðri við landráð. Að slá á hendur fólks að óathuguðu máli vegna þess að það er í "röngum" flokki finnst mér nánast glæpsamlegt, í besta falli heimskulegt.

Þessir leppalúðar eiga að hunskast til að vinna saman og setja til hliðar allt það hatur og andúð sem þeir hafa byggt upp sín á milli í gegnum árin.

Góðar stundir.

Ellert Júlíusson, 20.10.2009 kl. 09:32

5 Smámynd: Elfur Logadóttir

Salvör hvernig færðu þetta út?

Að til staðar sé 2530 milljarða skuldbinding vegna Icesave? Ertu ekki að ruglast eitthvað, einhvers staðar? Hefurðu skoðað http://mbl.datamarket.net/icesave/ þar sem sýnt er fram á hvernig skuldbinding þjóðarinnar myndast og hægt er að nota mismunandi forsendur til þess að átta sig á mismunandi stærðum í "worst case" og "best case" kringumstæðum.

Annað sem virðist misskilningur um er endurheimt krafna. Málið er að allar eignir gamla Landsbankans á Íslandi eru undir, þar sem Icesave var í útibúi í Bretlandi, ekki í dótturfélagi. Jafnframt er rætt um að þessar eignir gangi upp í 90% af forgangskröfum - ekki heildarkröfum.

Ég er sammála þér að það er vont, og erfitt, þegar fjölmiðlarnir geta ekki haft þetta rétt, en það breytir ekki því að stærð Icesave er ekki og hefur aldrei verið sett fram sem 2530 milljarðar. Skoðaðu slóðina sem ég birti hér ofar og þá sérðu hvernig þessi fjárhæð, 253 milljarðar, fæst - hún er ekki 10% af heildarfjárhæð Icesave.

Elfur Logadóttir, 20.10.2009 kl. 11:39

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Elfur: Takk fyrir ábendinguna, það var villa í fyrirsögninni hjá mér og ég leiðrétti hana. Icesave skuldin mun vera tæplega 700 milljarðar með 5.5. % vöxtum.

Lánið er 2,35 milljarðar punda og 1,3 milljarðar evra sem á að endurgreiðast á 15 árum. Tryggingarsjóðurinn á að endurgreiða lánin. Ríkissjóður á að ábyrgjast vexti og höfuðstól. Greiða á 2016-2034 32 jafnar afborganir
5,55 % vextir frá 1. jan 2009

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.10.2009 kl. 16:12

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er reyndar magnað hvað Icesave skuldirnar virðast minnka mikið dag frá degi og ég hef beðið mér færari menn um útskýringar á því. Mér finnst þetta minna á REI málið á sínum tíma þar voru líka einhverjar reikningskúnstir til að sannfæra okkur um að það væri einhver díll þetta REI.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.10.2009 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband