Moggabloggið og mbl.is veslast upp

Allir hlutir hafa sinn tíma og ekkert varir að eilífu. Frá því að nýir eigendur komu að Morgunblaðinu og ekki síst frá því að nýir ritstjórar settust þar í stól þá er áberandi að Morgunblaðið á Netinu er ekki eins öflugur vettvangur og áður og fréttamennska þar er nánast engin. Margir bloggarar hafa líka yfirgefið þennan vettvang og sækja í sig veðrið á öðrum stöðum  en það skiptir þó meira máli að stjórnendur Morgunblaðsins núna virðast ekki leggja áherslu á þennan vettvang.  Fréttirnar sem birtast núna í mbl.is eru afar lítið í takt við það sem mér finnst fréttnæmast á Íslandi í dag. Sem dæmi um mest krassandi fréttina í dag er þessi frétt sem ég vel að blogga um, frétt um að lögmenn hafi meira að gera núna við að  krafla sig í gegnum lagaflækjur Hrunsins. Í því sambandi er í niðurlagi fréttar  vitnað í stjúpson Geirs Haarde og fyrrum formann Samband ungra sjálfstæðismanna Borgar Þór Einarsson sem segir „Hjá þeim sem starfa á lögmannsstofum er mikið að gera, þó verr gangi að fá greitt en áður. Hvað umsvifin á stofunum haldast fylgir öðru í þjóðfélaginu,“. Svo fylgja með fréttinni als konar prósentur. Svona er mbl.is vesældarlegt núna, meira segja plögg fyrir Sjálfstæðismenn er svo aumingjalegt að það slokknar á manni bara við að lesa það.

En mbl.is og moggabloggið er kannski eins og íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf í dag. Það er allt efnislegt til staðar, þetta er fínt dreifingakerfi á upplýsingum og gæti verið öflug fréttaveita en það er nánast ekkert verið að nota þá möguleika, þeir sem stýra og vinna í kerfinu virðast hvorki hafa áhuga eða þekkingu á að nota þennan vettvang.

Reyndar er metnaðarleysið varðandi netmiðlun ekkert bundið við mbl.is. Þetta er furðulegt, það er búið að vera nám í fjölmiðlun í mörg, mörg ár í Háskóla Íslands og fjöldi blaðamanna er atvinnulaus. Hvers vegna eru engir þeirra að skrifa alvöru fréttir fyrir íslenska netmiðla?  Og þó að fréttamennskan hjá mbl.is sé svo flatneskjuleg og leiðinleg að  það eru allir sofnaðir sem reyna að fara inn í miðja fréttina þá jafnast þau leiðindi ekki við  einn af toppum íslenskrar lágkúru í fréttamennsku sem eru fréttir á vísir.is um fræga fólkið. Þar eru fréttir um að einhver stjarna sé með appelsínuhúð og þessa og hina brjóstagerðina. Þau skrif lýsa ekki bara kvenfyrirlitningu heldur almennri mannfyrirlitningu og því að þeir sem skrifa á vefinn kunna ekkert til blaðamennsku. Það hefur verið stofnaður facebook hópur til að mótmæla þeim hroða. Sjá hérna

Maður ætti kannski að stofna facebook grúppu til að berjast fyrir að mbl.is fari að flytja einhverjar meira krassandi fréttir af fyrrverandi og núverandi formönnum Samband ungra Sjálfstæðismanna og  jafnvel skjóti stöku sinni inn fréttum sem varða einhverja aðra en Sjálfstæðismenn.

Og úr því að ég er byrjuð á annað borð þá langar mig til að benda á grynnkuna í Morgunútvarpinu á rás II í ríkisútvarpinu. Vissulega eiga fréttir dagsins að vera þar matreiddar á mannamáli og sum mikilvæg mál dagsins í dag eru flókin þannig að það er vanmeðfarið. Núna hef ég hlustað á brot úr þessu tvö morgna í röð og þetta er ótrúlega billeg fréttamennska. Núna í morgun var verið að útskýra hvernig allt í einu skuldin vegna Icesave hefði nánast gufað upp, útlit fyrir að bankarnir næðu inn 90 %. Þetta var sett upp á einstaklega grunnan hátt og nánast verið að ljúga að fólki (hér hefði ég viljað segja "það var verið að ljúga að fólki" en af því ég er svo varkár í orðum þá læt ég það ekki eftir mér:-)


mbl.is Aukið álag hjá lögfræðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það er ekki hægt að ætlast til að blaðamenn Morgunblaðsins séu áhugasamir í sínum störfum.  Þegar ljóst er að útgefandi blaðsins Óskar Magnússon ver nær öllum sínum tíma við að lesa tölvupósta blaðamanna.  Íslenska þjóðin gaf núverandi eigendum nokkra milljarða í byrjun með afskriftum skulda Árvakurs hjá Íslandsbanka.

Jakob Falur Kristinsson, 14.10.2009 kl. 09:44

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Æ, já:-) Gleymdi þessu með tölvupóstana. Þessar óinteressant fréttir eru kannski eins konar mótmæli blaðamanna mbl.is:-)

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.10.2009 kl. 10:01

3 identicon

Netmogginn er að molna niður, það er rétt hjá þér Salvör. Það er afar einkennilegt að eigendur hans skuli ekki sinna honum betur. Vefsíðurnar höfðu verið byggðar upp af hugkvæmni og myndarskap og voru jafnan fréttnæmar og fréttanæmar. Besta eign Árvakurs, hefði maður haldið.

Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 10:31

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Alveg sammála.  Ég hef tekið eftir að mbl.is er sjaldnast fyrstur með fréttirnar og þær fréttir sem birtast eru valdar á mjög furðulegan hátt.  Sama á við blaðið, það skiptis upp í þrjá hluta nú:

1. Stjórnarandstöðuskrif og væl út í Seðlabankann

2. Léttmeti og íþróttir

3. Minningargreinar

Með þessu áframhaldi lognast vefurinn og blaði út.

Andri Geir Arinbjarnarson, 14.10.2009 kl. 10:31

5 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Jakob Falur :  Gömlu Árvakurseigendurnir voru neyddir til að afskrifa hlutafé sitt og færa það niður í 0. Bankinn yfirtók félagið og leitaði tilboða í það. Erlendir kröfuhafar voru búnir að afskrifa meginstofn skuldarinnar sem bankinn var í við útlönd vegna Árvakurs að því er kunnugir segja. Þannig er Íslandsbanki sennilega að koma út í plús við söluna til nýrra eigenda, sem voru með hagstæðasta tilboðið í félagið.

Þetta með tölvupóstana : ´´I MOrgunblaðinu í gær skýrði Óskar þetta mál vel með eftirfarandi hætti :

AÐ undanförnu hafa fjölmiðlar fjallað um meðferð tölvupóstsmála á Morgunblaðinu.

Rétt er málið svona:

Ég fékk ábendingu um að blaðamaður, sem látið hafði af störfum hér, hefði boðist til að afhenda DV trúnaðargögn. Ég taldi ástæðu til að kanna þegar í stað hvort þetta gæti átt við rök að styðjast. Til þess var tölvudeildin beðin að athuga hvort póstar hefðu farið frá mbl.is til dv.is á einum ákveðnum degi. Í ljós kom að þrír póstar, allir frá sama blaðamanninum, höfðu verið sendir á DV. Einn þeirra greindi frá því að úr því sem komið væri mætti birta þessa tilteknu trúnaðarkönnun. Í framhaldinu var haft samband við blaðamanninn. Hann viðurkenndi brot sitt, baðst afsökunar á þessum mistökum og fullyrti að ekkert yrði úr birtingu þessara trúnaðargagna. Um þetta var hann tekinn trúanlegur og málinu þar með lokið af hálfu Morgunblaðsins.

Reglur gera ráð fyrir því að kallað sé á viðkomandi þegar póstur er opnaður „ef hægt er að koma því við“. Í þessu tilviki er augljóst að birting upplýsinganna var yfirvofandi og gat þess vegna gerst á vef DV á næstu mínútum. Það kom því ekki til greina að kalla á blaðamanninn.

Rétt er að geta þess að aðeins þessir þrír póstar sem stílaðir voru á DV voru opnaðir. Einn þeirra hafði þegar birst á DV.

Óskar Magnússon útgefandi.

Úr reglum Morgunblaðsins um meðferð tölvupósts:

Meginreglan er að allur póstur á póstmiðlara Morgunblaðsins í persónulegum pósthólfum er álitinn einkapóstur viðkomandi starfsmanns og verður ekki opnaður af öðrum nema með leyfi starfsmannsins.

Undantekning: Sé álitið að pósthólfið innihaldi efni sem er mikilvægt rekstrarhagsmunum Morgunblaðins, þá er hólfið opnað, með vitund starfsmanns ef hægt er að koma því við.

Þau bréf sem starfsmaður geymir í hólfi sínu ætti hann að flokka. Einkatölvupóst ætti hann að setja í möppu sem merkt er Einkamál.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 14.10.2009 kl. 14:06

6 Smámynd: halkatla

sjitt bara hvað ég er sammála þér annars finnst mér ekki hægt að gera uppá milli dv.is, mbl.is eða visis.is í hroðalegri framsetningu á heimskulegum fréttum og/eða mannfyrirlitningu... mér finnst t.d tónninn í fréttaskrifunum hjá dv.is oft svo viðbjóðslegur og mannhatrið þar óstjórnlegt að ég er eiginlega hætt að skoða þann vef því það lætur manni ekki líða vel, samt er visir.is farinn að draga í land að því leitinu líka því miður, það eru ekki fréttirnar um appelsínuhúð fræga fólksins sem því valda það er þó hægt að hlæja að mbl.is vegna framsetningarinnar og þar er ekki þessi ógeðslega orðnotkun í innlendum fréttum sem er farin að einkenna allt hjá dv. En það er samt fyrirlitning fólgin í því að bjóða uppá þetta

halkatla, 14.10.2009 kl. 14:31

7 Smámynd: halkatla

úff, heyrðu, ég geri mér líka grein fyrir því að þetta fyrra komment mitt var ekki sérlega gáfulega framsett frekar en það sem ég var að gagnrýna, en það kemur bara vel á vondan (ég vildi sko meina að það væri farið að draga saman með visi og dv í viðbjóðslegri orðanotkun og tóni gagnvart manneskjum en ekki að visir væri að draga í land)

halkatla, 14.10.2009 kl. 14:37

8 Smámynd: halkatla

Ég er ósammála um að mbl.is hafi verið með góðar veffréttir hingað til, þær voru (nánast) allar stútfullar af stafsetningar- og málfarsvillum og þ.a.a mjööög stuttar og yfirleitt heimskulegar. Ég skildi aldrei hvernig starfsmennirnir fóru að því að skila þessu svona af sér, það hljóta að hafa verið alveg sérstakir hæfileikar eða spes fag í háskólanum, amk þekkist það hvergi erlendis að lesendum sé boðið uppá svona snubbótt og illa framsett efni... visir.is skrifaði alltaf amk 3x lengri texta um sömu mál þannig að maður gat skilið þó að einhverjar innsláttarvillur kæmu inn hjá þeim.

halkatla, 14.10.2009 kl. 14:44

9 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Salvör - mikið er ég sammála þér.  Hef verið á athugasemdakerfi á Eyjunni sem og á facebook að stinga upp á vefmiðli sem einbeitti sér að beittri fjölmiðlagagnrýni - beittri og faglegri.

Hvar skyldi besti vettvangurinn vera ?

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 14.10.2009 kl. 20:33

10 Smámynd: Katrín

Hefur heimsóknum fækkað mikið hjá þér Salvör??

Sé að athugasemdum hjá fyrrum moggabloggurum sem hafa flutt sig yfir á eyjunna hefur fækkað töluvert.  Hvað ætli það merki?

Katrín, 14.10.2009 kl. 20:39

11 identicon

Þeim hefnist fyrir að banna mig og sannleikann ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 21:10

12 identicon

Tvö orð:

game over

Einar Hansson (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 21:16

13 identicon

Til hvers ertu með þetta gamaldags athugasemdakerfi?

Nennir enginn að taka þátt nema að hann skrái sig (aftur) hjá blog.is.

Ekki ég.

Einar Hansson (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 21:21

14 Smámynd: Guðbjörg Hildur Kolbeins

Ég er innilega sammála ummælum þínum um netmiðlana. Ég botna ekkert í því af hverju netmiðlarnir hafa aldrei verið notaðir eins og hægt væri að nota þá.

Guðbjörg Hildur Kolbeins, 14.10.2009 kl. 21:39

15 identicon

Hvert er samspillingarliðið farið?

Albína (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 23:00

16 identicon

Kræst pirringur, varlega með broskarlana, það er svakalega 2007 eða jafnvel eldra.

Halldór (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 23:04

17 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Albína hvernig í ósköpunum nærð þú að tengja þessa umræðu við Samfylkinguna. Það einmitt vegna svona málflutnings sem fólk nennir ekki að taka eins mikinn þátt í umræðum. Svona eftir á að hyggja ert þú kannski að tala um Sjálfstæðisflokkinn? Ég þekki ekki neinn hóp sem heitir"samspillingarfólk"

Magnús Helgi Björgvinsson, 14.10.2009 kl. 23:14

18 identicon

Salvör. Góð grein. Þetta með blaðamenn er bara rugl frá A-Ö. Það þekkist líklegast hvergi að jafn fáir menntaðir blaðamenn starfi við fjölmiðla og einmitt hér á landi.

Ástæðan er fyrst og fremst sú að þegar það eru bjánar sem eru ritstjórar, þá verða þeir að hafa menn og konur sem þeir geta auðveldlega stjórnað. Blaðamaður með snefil af sjálfsvirðingu, metnaði og sem hefur menntun í faginu lætur ekki bjóða sér það kjaftæði sem fjölmiðlar hér ganga út á.

 Information control er málið.

Þegar ég sótti um starf hjá DV um mitt ár 2007 þá var mér sagt að ég vissi mjög mikið (er með háskólamenntun í faginu) en þeir réðu inn unga stelpu sem var að klára stúdentinn.

Fyrrum moggabloggari (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 00:21

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sumir virðast halda að Davíð skrifi Morgunblaðið einn. 

Og undantekningalítið virðast flestir ætla að Davíð skrifi alla ritstjórnarpistla þó hann sé annar tveggja ritstjóra. Mér er það til efs.

En hvernig sem á því stendur eru ritstjórnarpistlarnir beittari og betri en kannski er ég hlutdrægur vegna þess að ég er oftar sammála þeim.

"Það sér hver sínum augum silfrið."

Sigurður Þórðarson, 15.10.2009 kl. 00:56

20 identicon

Maður sér t.d. að það líða oft 2 dagar eða meira,  þar sem skipt er um fólk, sem heyrir undir heitar umræður.  Það eitt finnst mér stöðnun.  Þetta á í mesta lagi að vera l sólarhringur.......

Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 08:25

21 identicon

Svipan.is er nýr fréttamiðill sem fer hægt af stað en ætlar sér að vera með harðar fréttir og fréttaskýringar.

http://svipan.is/blog/

er nýr blogg-vettvangur sem býður alla velkomna.

Erla (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband