Skandallinn eftir Hrunið - útgreiðslan úr peningamarkaðssjóðum

Það er langt í land að undið verði ofan af hinu að því virðist gerspillta íslenska fjármálakerfi sem féll með bauki og bramli  fyrir ári síðan.  En spillingin og óráðsían endaði ekki með "Guð blessi Ísland" ræðu Geirs. Ég get ekki betur séð en það hafi verið vítaverð meðferð á almannafé og afar mikil mismunun milli þegna þegar stjórnvöld ákváðu eftir hrunið að hygla sérstaklega þeim sem áttu hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum.

Ég fæ ekki betur séð en þarna hafi stjórnvöld farið ránshendi um þær eignir sem til voru inn í gjaldþrota bönkum og skúffað peningum til að eigin geðþótta, hugsanlega af pólitískum ástæðum til að leyna því hve illa þessum peningamarkaðssjóðum var stjórnað, hugsanlega til að bjarga fé stórra innlendra aðila svo sem fé sveitarfélaga og lífeyrissjóða, aðila sem eru fagfjárfestar og sem átti að vera fullkunnugt um að inneign í peningamarkaðssjóðum sem lofa hárri ávöxtun er ekki sama og inneign inn á bankareikningi.

Þessi ráðstöfun á útgreiðslu á fé úr peningamarkaðssjóðum er  illa verjanleg  fyrir Íslendingum sem velflestir töpuðu fé á einhvern hátt sem þeir fengu ekki bætt, sumir af því að hlutabréf urðu verðlaus, sumir af því að vísitölutryggð lán eða myntkörfulán ruku upp, sumir af því að fasteignir og atvinnutæki urðu verðlaus eða atvinna þeirra hvarf. Þaðan af síður er þessi útgreiðsla úr peningamarkaðssjóðum úr gjaldþrota bönkum, þessi ríkisniðurgreiðsla á tapi til eigenda innstæðna í peningamarkaðssjóðum skiljanleg eða verjanleg fyrir erlenda kröfuhafa en samkvæmt neyðarlögunum voru ekki einu sinni bankainnistæður þeirra bættar, það var miðað við kennitölu.

Það er vel verjanlegt og augljós neyðarráðstöfun að tryggja bankainnistæður, það hefði allt lagst á hliðinni samstundis ef það hefði ekki verið gert og bankakerfið orðið fullkomlega óstarfshæft en það sama gilti ekki um peninga í áhættusjóðum þó þeir séu í umsjá banka. Það er mikill munur  áhættusjóðum sem kaupa hlutabréf fyrirtækja og peningum sem eru í veltu fyrirtækja og einstaklinga inn á bankareikningum.

Það er mér engan veginn ljóst sem borgara á Íslandi hvers vegna það var nauðsynlegt að greiða strax út úr peningamarkaðssjóðum og nota fé sem ennþá var í bönkunum og hefði t.d. komið sér ágætlega til að afskrifa húsnæðislán sem bankar veittu og skuldarar geta ekki staðið undir skuli hafa verið tekið traustataki til að greiða út fé í áhættusjóðum. Þeir sem áttu fé inni í peningamarkaðssjóðum eru í hópi kröfuhafa bankanna og þeim var hyglað umfram öðrum á þennan hátt og hér er ekki um að ræða eðlilega bankastarfsemi, hér er um að ræða áhættusama fjárfestingarsjóði sem fjárfestu í fyrirtækjum í eigu eigenda bankanna.  Einum stærsta af þessum sjóði Sjóði 9 var stýrt af þingmanni Sjálfstæðisflokksins Illuga Gunnarssyni og það er bæði óeðlilegt hvernig bréf voru keypt á að því er virðist fáránlegu yfirverði út úr Sjóði 9 þegar alveg var ljóst í hvað stefndi hjá fyrirtækjum eigenda bankanna og hve mikil áhersla var lögð á útborgun úr þessum sjóðum. 

Núna er hins vegar ekki verið að skoða hvað ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði eftir Hrunið, núna er skandallinn þegar stjórnendur og eigendur þessara peningamarkaðssjóða voru í örvæntingu að reyna að breiða yfir hver staðan væri og hugsanlega reyna að bjarga einhverju korter fyrir Hrun. Það er agalegt ef rétt er að hér komi endurskoðunarfyrirtækin  KPMG og PriceWaterhouseCooper (PWC)við sögu og séu verkfæri í svona svikamyllum, fyrirtækin sem eigendur bankanna áttu eru að verða gjaldþrota þá eru keypt af þeim bréf í peningamarkaðssjóðum sem eiga þessi fyrirtæki sem eru að verða gjaldþrota og allir heilvita menn (líka endurskoðendur) sáu í hvað stefndi.

Þetta eru t.d.  fyrirtækin Milestone, Baugi, Exista, Stoðum/FL Group, Samson, Atorku og Landic Property.  

Við vitum að eigendur þessara fyrirtækja gátu keypt upp fjölmiðla og fjölmiðlaumfjöllun. Við vitum að þeir gátu keypt upp banka og okkur grunar að þeir gætu keypt liðsinni sumra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. En við héldum að alþjóðleg endurskoðunarfyrirtæki væru eitthvað meira en bara vörumerki, við héldum að  KPMG og PriceWaterhouseCooper (PWC) væru tengdir einhvers konar vönduðum vinnubrögðum við endurskoðun.

Hér er það sem ég hef skrifað áður um þessa peningamarkaðssjóði

Illugi Gunnarsson og Sjóður 9

Það er frjóðlegt að lesa núna aftur réttlætingu Illuga Gunnarssonar á því að einkabankinn Glitnir keypti út úr peningasjóðnum Sjóður 9 rétt fyrir Hrunið bréf fyrirtækja sem stóðu á brauðfótum  úr sjóðnum. Okkur grunar og sá grunur okkar hefur styrkst að hér sé samsæri margra aðila til að bjarga og skjóta undan verðmætum stórra aðila sem áttu hagsmuna að gæta í Sjóði 9.

En Illhugi segir sjálfur um þetta:

Vegna fyrirsjánlegs vanda Stoða ehf. seldi sjóðurinn út eignir sínar í því félagi til Glitnis sem þá var einkabanki. Við þetta lækkaði gengi sjóðsins um 7,0% og eftir þá gengislækkun var sjóðurinn opinn í þrjá viðskiptadaga og fjöldi sjóðsfélaga innleysti eignir sínar á þeim tíma. Í heildina lækkaði gengi sjóðsins um 20,8% frá 26. september og til útgreiðsludags sem var 30. október.

Peningamarkaðssjóðir þurfa að geta greitt út um leið og sjóðsfélagarir æskja þess. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir var engin leið var að finna kaupendur að skuldabréfum Stoða á markaðinum. Með kaupunum var Glitnir að bregðast við vana sjóðsins og viðskiptavina sinna sem áttu hlutdeildarskírteini og vildu innleysa. Bankinn var líka að nýta sér viðskiptatækifæri sem fólst í því að kaupa eignir á afslætti.

Utanaðkomandi endurskoðendastofa var fengin til að meta verðmæti skuldabréfanna sem sjóðurinn átti. Það mat ásamt mati sjóðsins sjálfs á eignunum leiddi til þess að Glitnir banki bauðst til að kaupa bréfin á 30% afslætti miðað við upphaflegt verðmæti.

Takið eftir síðustu málsgreininni.
Þar er vitnað í tvö möt.
Á þeim mötum eru göt.


mbl.is Of hátt mat á virði bréfa í peningamarkaðssjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andspilling

Það segir allt sem segja þarf um þá veruleikafirringu sem Sjálfstæðismenn eru haldnir um hvað felst í hugtakinu endurnýjun að Illugi Gunnarsson Sjóðs 9 sukkari, Tryggvi Þór Herbertsson Auðar Capítal kúlulánaþegi og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kúlulánadrottning skuli hafa verið kjörin á þing í kosningunum.

Andspilling, 3.10.2009 kl. 15:45

2 Smámynd: Ragnar G

Þetta er gott mat hjá þér Salvör. Þetta er ægilegt að vera vitni að annari eins spillingu eins og við höfum orðið vitni að. Þetta er ekkert að lagast og lagst ekki fyrr en allt þetta forréttindalið sem þykist hafa verið að stjórna hérna kemur sér frá völdum.

Ragnar G, 3.10.2009 kl. 17:32

3 identicon

Hárrétt athugað hjá þér Salvör eins og  oft áður. Ég fæ hroll af að heyra
ráðamenn sjá allt því til foráttu að leiðrétta höggið sem almenningur fékk
þegar fjársvika og blekkingablaðran sprakk. Blaðra sem almenningur átti
enga þátt í að skapa heldur var hann teymdur áfram í vitleysunni í gegnum
fjölmiðla með úthugsuðum áróðri. Ráðmönnum fannst sjálfsagt að henda stórum
upphæðum í sjóðina  og henda 300
milljörðum út um gluggann í Kaupþing korteri fyrir hrun en almenningur sem
fótunum var kippt undan þegar spilaborg fjárglæfrafólksins hrundi má éta
það sem úti frýs. Maður er farin að spyrja sig fyrir hverja þingmenn og þeir einstaklingar úr hópi þingmanna sem gegna ráðherra embættum vinni,mér finnst ekki eins og þetta fólk sé að vinna fyrir þjóðina því miður.

Jon Magnússon (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 17:38

4 identicon

Það er nú bara svo skrýtið að 29% af þegnum þessa lands, geta hugsað sér nákvæmlega þetta fólk við völd AFTUR...

Furðulegt, þetta minnir orðið mikið á rússana,  þeim líður ekki vel nema verið sé að berja þá

sigthor (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 17:48

5 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Haltu áfram góðum og hlutlausum og skýrum greiningum þínum á aumum málum íslensku þjóðarinnar, sem kastað var í fangið á almenningi til að súpa seyðið af þegar komið var í óefni. Það er ólíðandi uppákoma.

Nú er spurning hvernig glíma ber við þá ófreskju sem ól og elur á óréttlæti gagnvart almenningi. Verður böndum á hana komið og henni fengin makleg málagjöld? Hvaða leiðir eru líklegar til árangurs í því? Hvers konar stjórnvöldum er treystandi til þess í stöðunni?

Kristinn Snævar Jónsson, 3.10.2009 kl. 18:32

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er áhugavert að lesa um að til stóð á sínum tíma að KPMG rannsakaði hrunið og viðskiptin í Glitni. Frá því var horfið vegna tengsla Sigurðar framkvæmdastjóra KPMG við Stoðir, áður FL Group en sonur hans mun hafa verið framkvæmdastjóri þar. Sjá hérna http://www.amx.is/vidskipti/840/

Sjá líka hérna  meiri  Sjóður 9 hugleiðingar

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.10.2009 kl. 18:42

7 Smámynd: Hörður Þórðarson

Heir heir. Góð færsla hjá þér Salvör.

Hörður Þórðarson, 3.10.2009 kl. 19:53

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er STÓRA óuppgerða málið.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.10.2009 kl. 22:32

9 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

góður pistill

Hólmdís Hjartardóttir, 4.10.2009 kl. 00:29

10 Smámynd: Hörður Hilmarsson

Það hryggir mig að lesa þessa grein þína Salvör.
Það hvað Landsbankinn með stuðningi ríkisins kaus að endurgreiða innistæðueigendum í peningabréfum bankans er hér til umræðu. Fólk geymdi sparnað sinn á þessum reikningum, oftast skv. ráðleggingum starfsmanna bankans og átti að sjálfsögðu að fá eign sína 100 % til baka, eins og aðrir innistæðueigendur enda var því sagt að þessir reikningar væru án áhættu. Og  það sem meira er, innistæður á hefðbundnari bankareikningum voru ekki tryggðar nema sem svaraði 20.000 EUR, þ.e. fram að setningu neyðarlaganna sem mismunuðu innistæðueigendum. Hvað átti fólk að gera sem átti meira?

Peningabréfin voru ekkert annað en ICESAVE á Íslandi. Nákvæmlega sama dæmið, stofnað til af sömu ástæðu (fjárþörf Landsbankans) og síðan sukkað með, án þess að FME, ríkisstjórn og Alþingi tækju í taumana til verndar íslenskum almenningi sem grunlaus treysti bankanum sínum og geymdi ævisparnaðinn á þessum reikningum. Það er rangt að stilla þeim Íslendingum sem áttu sparnað upp sem fjármagnseigendum og öðrum Íslendingum sem almenningi. Það var íslenskur almenningur, ekki síst eldra fólk sem tapaði sparnaði sínum í peningabréfum Landsbankans. Þið eigið að skammast ykkar sem haldið öðru fram og hafið ekki samúð með fólki sem sýndi ráðdeildarsemi og ástundaði sparnað í áratugi. Það eina sem þetta fólk gerði rangt var að treysta bankanum sínum og orðum starfsmanna hans. Á bara að hjálpa þeim sem skulda, ekki þeim sem spara? Hvaða réttlæti er í því?

Það er verið að hjálpa fólki sem tók lán sem hafa hækkað vegna hruns ISK. Það er gott og blessað, en í þeim hópi er fólk sem missti sig í eyðslu í hinu svo kallaða góðæri, keypti betri bíla en það átti fyrir, stærri húseign en það í raun þurfti og hafði efni á. Á sama tíma er ekkert gert fyrir hinn þögla meirihluta, sem minnkaði við sig húsnæði og/eða færði ævisparnaðinn eftir 30-40 ára strit í peningabréf Landbankans.

Perningabréf Landbankans voru ekki kynnt sem hlutabréf eða fjárfesting, heldur sem fjárvarsla, ein tegund sparnaðar. Fólk sem keypti hlutabréf í fyrirtækjum, þar með talið bönkunum, veit að hlutabréf eru áhættusöm fjárfesting. Almenningur sem geymdi sparifé sitt á peningabréfareikningum a.m.k. Landsbankans vissi ekki annað en að sparnaður þess væri 100 % tryggur á þessum reikningum.
Á að refsa fólki fyrir að ástunda sparnað og eiga e-ð sparifé inni á bankareikningum?

Hörður Hilmarsson, 4.10.2009 kl. 03:06

11 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Takk fyrir Salvör. Við þurfum að halda öllu þessu til haga þegar Skýrsla Rannsóknarnefndar Þingsins verður byrt.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.10.2009 kl. 04:58

12 Smámynd: Billi bilaði

Hörður, kíktu örlítið út fyrir þinn eigin garð.

Billi bilaði, 4.10.2009 kl. 08:00

13 identicon

Við megum aldrei gleyma hlut Sjálfstæðisflokksins í þessari klíkuvæðingu samfélagsins. Þökk sé Sjálfstæðisflokknum og fólki sem styður spillingu til valda með því að kjósa þennan flokk aftur og aftur, hvað sem á dynur.

Valsól (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 08:15

14 identicon

Hörður,

Það var alveg á hreinu allan tímann að peningamarkaðssjóðir voru áhætta.  Öldruð móðir mín lagði sitt sparifé inn á kjörbók í Landsbankanum vegna þess að hún vildi ekki taka neina áhættu.  Hún va áður búin að tapa á hlutabréfum, m.a. í Decode á sínum tíma.  Þjónústufulltrúar sögðu fólki kannski að innstæður í peningamarkaðssjóðum væru öruggir, en ef fólk hefði nennt að skoða málið þá gat fólk lesið um mat á áhættunni t.d. á netinu.

Margir trúðu því að það væri gott að setja sparifé sitt í fasteign og tóku lán hjá þessum sömu þjónustufulltrúum í góðri trú.  Verðtryggð lán hækka um hundruðir þúsunda á mánuði.  Verðtryggingin er eignatilfærsla frá íbúðalánaskuldurum til fjármagnseigenda.  Bara síðan haustið 2005 er verðtryggt lán búið að hækka um hátt í 50%.  Þetta blessaða land okkar er bananalýðveldi.  Það eina sem íbúðalánaskuldarar hafa farið fram á er leiðrétting á stökkbreyttum höfuðstól lána vegna forsendubrests.  Það má ekki vegna þess að það kemur sér illa fyrir fjármagnseigendur.

Margrét S. (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 09:10

15 Smámynd: Fannar frá Rifi

hefurðu spáð í þeim skandal sem er núna, hversu margföld sú upphæð sem greidd var út úr peningamarkaðssjóðunum er núna verið að greiða til eigenda þeirra í gegnum vexti? stýrivextir seðlabankans er beint að flytja allan auð landsmanna og íslenska ríkisins til fjármagnseigenda. 100 milljarða á hverju ári. vaxtagreiðslur vegna innlendra skulda sem stýrt er af stýrivöxtum seðlabankans. næstum því fimmtungur fjárlaga ríkisins. það þarf að afnema lög um sjálfstæði seðlabankans og lækka vextina niður fyrir 5%.

Fannar frá Rifi, 4.10.2009 kl. 11:20

16 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Já. Má ekki líka spyrja, hvar er aðhald þeirra sem að eiga hlutabréf í fyrirtækjum. Fyrir það fyrsta virðist sem að hinn almenni hlutabréfaeigandi hafi verið svívirtur (sjá m.a. sögu FL).  Þetta er það fyrsta sem þarf að laga. Og svo þegar að kemur í ljós að fyrirtækin voru í tómu tjóni, þá ættu hlutabréfaeigendurnir að fá skellinn, það segir sig sjálft - þeir vissu ekkert um viðskipti. Og ef að kemur í ljós að bankarnir héldur þessu að fólki með ósiðlegum hætti, þá þarf að gera eitthvað í því, en einstaklingurinn getur ekki varpað ábyrgð sinni á þjóðfélagið endalaust. Einhverjir myndu jafnvel ætla að þetta væri megininntak í stefnu Sjálfstæðisflokksins, svona af gamla skólanum allaveganna, en inntak þeirrar stefnu var kannski gleymt?

Þeir einstaklingar sem að fjárfesta í hlutabréfum bara vegna þess að þau hafa aukist í virði og án þess að velta fyrir sér hvað er að baki, ættu svo að lesa sér til um Warren Buffet.

Pétur Henry Petersen, 4.10.2009 kl. 12:07

17 identicon

Það gleymist allt of oft í þessu samhengi að ríkisstjórnin tryggði líka að fullu innistæður í íslensku bönkunum, langt umfram lögbundið lágmark. Þetta eru miklu hærri upphæðir en lagt var í peningamarkaðssjóðina, en aldrei talað um þær.
Fyrir neyðarlög var ekkert öruggt að “leggja peninga á bók” nema upp að um 3 milljónum kr. Þess vegna var skynsamlegt að dreifa áhættunni m.a. með fjárfestingum í peningamarkaðssjóðum. Með neyðarlögunum var leikreglunum breytt á einni nóttu þegar innistæður voru gerðar rétthærri skuldabréfum, og lokað á úttektir úr peningamarkaðssjóðunum án þess að sparifjáreigendur fengju að bregðast við breyttum raunveruleika. Með öðrum orðum STAL ríkisstjórnin með einu pennastriki allt að þriðjungi sparnaðar fólks í peningamarkaðssjóðum bankanna, til að tryggja innistæður annars fólks og fyrirtækja umfram gildandi lög og reglur. “Innspýtingin” í sjóðina var til þess eins að þjófnaðurinn yrði þolanlegur og fæstir nenntu að höfða mál.
Sannleikurinn er sá að sparnaðarform landsmanna hefur breyst verulega á síðustu áratugum og einskorðast ekki lengur við sparisjóðsbækur. Regluverkið hefur hins vegar ekki tekið tillit til þessa. Það má þannig færa rök fyrir því að það hafi verið gróf mismunun gagnvart viðskiptavinum bankanna að tryggja bara sum sparnaðarform en ekki önnur.

Tryggvi (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 13:58

18 identicon

Takk fyrir þessa færslu Salvör.

Það er nauðsynlegt að halda þessu á lofti og fá réttmæti þessarra aðgerða metin og draga svo menn til ábyrgðar. Þetta var auðvitað rán og sama er að segja um að láta skuldsettan almenninginn ábyrgjast allar innistæður peningfólksins í bönkunum umfram þær 3 milljónir sem tryggðar voru samkvæmt lögum.

Sérstakt hvað ríkir mikil þögn um þetta mál í þjóðfélaginu, eins illa og það lyktar. Fnykurinn af þessu máli er að gera útaf við þjóðina.

Brynjar (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 16:19

19 identicon

Viðbjóðslegur og rangur áróður gegn fólki sem var blekkt til að setja fé sitt á þessa "öruggu reikninga". Hafðu skömm fyrir Salvör. Þetta er ógeðfellt. Ég átti allt mitt þarna inni og bankinn í skjóli ríkisins sagði að þetta væru öruggir reikningar. Ríkið/fme ber þarna ábyrgðina. Það er voða auðvelt eftirá að tala um "áhættusama fjárfestingarsjóði", en það vissi ekki nokkur maður sem setti sparifé sitt inní þetta, var lofað að þetta væri öruggt (þetta hét þar "bréf" en ekki "sjóður" svona til að rugla mann). Hefði ríkið haft nokkurra ábyrgðartilfinningu eða bara gáfur þá hefðu þeir stöðvað þetta rugl, en það gerðu þeir ekki og bera því alla ábyrgð á þessu.

Annaðhvort tryggirðu allt sparifé eða ekki ef þú ert ríkið. Þú skilur ekki fólk eftir sem var blekkt í að setja sparifé sitt á þessa “öruggu reikninga” á hausnum en bjargar hinum.

Ari (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 18:02

20 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Ég fæ ekki betur séð en þarna hafi stjórnvöld farið ránshendi um þær eignir sem til voru inn í gjaldþrota bönkum og skúffað peningum til að eigin geðþótta, hugsanlega af pólitískum ástæðum til að leyna því hve illa þessum peningamarkaðssjóðum var stjórnað, hugsanlega til að bjarga fé stórra innlendra aðila svo sem fé sveitarfélaga og lífeyrissjóða, aðila sem eru fagfjárfestar og sem átti að vera fullkunnugt um að inneign í peningamarkaðssjóðum sem lofa hárri ávöxtun er ekki sama og inneign inn á bankareikningi."

---------------------------------

Þ.e. klárlega 2. hliðar á þessu. Saklaust fólk, sem setti fé inn á þessa reikning í góðri trú, margt af því eldra fólk.

En, það má einnig velta fyrir sér, út af æðibunuganginum, um að greiða út þetta fé, hvort aðilar með pólitísk tengsl, hafi átt verulegt fé inni í slíkum sjóðum.

--------------------

Annað af tveggja, hefur milljarðatugum af almanna fé, verið varið til þessa, af góðum hug.

Eða, að bak við hafi staðið, að verja hagsmuni einstaklinga, sem voru pólit. tengdir, en sú aðgerð hafi verið matreidd í fjölmiðla, sem aðgerð til bjargar eldri borgurum, er höfðu lagt fé sitt í þessa sjóði.

-----------------------

Á þessum tímapunkti, er engin leið að velja á milli þessara 2. kosta.

Í reynd, gæti sannleikurinn verið svo, að hvorttveggja hafi verið í gangi, þ.e. að pólit. tengdir aðilar hafi barist fyrir þessu til að verja eigin hagsmuni, en fengið menn til liðs við sig með þeim rökum, að rétt væri að bjarga öllu þessu gamla fólki, er hafði lagt inn sinn ævisparnað.+

Ég man eftir umræðunni í fjölmiðlum. Það komu einmitt fram, mjög hjartakremjandi sögur, um eldra fólk og ævisparnað.

---------------------

Ef til vill best, að spara dómhörkuna, þar til við vitum meira.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 4.10.2009 kl. 20:13

21 Smámynd: Eygló

Jón Sigurðsson forstjóri FL Group, sonur Sigurðar Jónssonar forstjóra/framkvæmdastjóra KPMG.

Eygló, 5.10.2009 kl. 03:01

22 Smámynd: Eygló

Peningamarkaðssjóðsútgreiðslur:

Mjög skiptar skoðanir, - enda horfa málin mismunandi við fólki.

Væri ekki snjallt að gera greinarmun á þessum "fjármagnseigendum"

Sumir áttu ekki mjög mikið; 2-10 milljónir. Undirrituð átti þarna milligjöf vegna íbúðarkaupa.

Á mörgum yfirlitum sá maður hundruð milljóna. Gamall tannlæknir minn átti 700 milljónir.

Mér tókst í lengri tíma að leggja til hliðar 10þús kall á mánuði af lífeyri mínum. Það átti að mæta ef eitthvað kæmi "uppá" eða einhverju skemmtilegu sem byðist.

EKKI  LÍTA  Á  ÞESSA PENINGAMARKAÐSHLUTDEILDAREIGENDUR SEM EINSLEITAN HÓP.

ÞAÐ ER EKKI HÆGT AÐ TALA UM ÞÁ SAMA DAGINN - VARLA VIKUNA

Eygló, 5.10.2009 kl. 03:11

23 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Takk fyrir - Eygló.

Þetta hljómar sanngjarnt, að gera greinarmun á þeim, sem áttu ekki meira en á bilinu 10 - 20 milljónir, sem dæmi og þeirra, sem áttu ef til vill 100 milljónir og þaðan meira.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 5.10.2009 kl. 12:03

24 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk fyrir þessa fínu færslu Salvör. Hef ekki alltaf lesið þig sem skildi (á hundavaði) og biðst forláts á því!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.10.2009 kl. 17:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband