Fanginn Saddam tekinn af lífi

SaddamHussein_2004July01_croppedÉg hrökk upp áðan, það hringdi einhver útlendingur á slaginu þrjú um nótt. Það var skakkt númer, hann spurði eftir einhverri  Moniku heyrðist mér en símhringingin hljómaði eins og sú líkhringing sem núna er send út um heimsbyggðina. Ég sé að nú er komin á forsíðu BBC frétt um að Saddam hafi verið hengdur rétt fyrir kl. 3 eins og áður hafði verið tilkynnt.

Ég vona að Saddam hafi verið sýnd virðing á dauðastund hans en ég er ekki allt of vongóð um það. Í fréttum gærdagsins kom fram að til stæði að kvikmynda líflát Saddams til að tryggja að ekki kæmust á kreik sögur um hetjudauða hans. Á dauði Saddams að vera til sýnis? Er það í samræmi við alþjóðasamþykktir um réttindi fanga? 

Ég rifja upp það sem ég hef skrifað á blogg  undanfarin ár um Saddam. Ég skrifaði um Saddam þegar fréttir bárust af handtöku hans: 

"...... Og það allra mikilvægasta er að beina fólki að því að velta sér ekki upp úr ógæfu annarra og niðurlægingu - í gær var Saddam  handtekinn og ég hef sá á ótal breiðbandsstöðvum sömu niðurlægjandi senuna af handtöku hans - lúsaleit og svokallaða læknisskoðun. Samt er þetta brot á alþjóðasamþykktum um meðferð fanga, þeir eiga ekki að vera til sýnis á niðurlægjandi hátt. Ég heyrði líka marga ágæta menn íslenska tala af lítilsvirðingu um manninn sem hefur verið handtekinn, ég heyrði forsætisráðherra tala um kallinn í holunni, ég heyrði Jón Orm tala og ég las blogg Hr. Muzak um málið:"..... Sitjandi á botni þriggja metra djúprar holu, skítugur og skeggjaður, auðmjúkur og aumingjalegur með 750.000 dollara í ferðatösku... Hversu lágt leggjast menn? Hversu aumingjalega er hægt að enda feril sinn sem harðstjóri? Hann gat ekki einu sinni sýnt þann dug að skjóta sig í hausinn..."

Þarna er verið að tala um beygðan mann sem hefur þolað mikið mótlæti undanfarið, synir hans hafa verið drepnir og hann hefur ennþá ekki verið dæmdur. Ég held ekki að Saddam sé góður maður og hann lét fremja voðaverk í stjórnartíð sinni en ég held að við séum ekki á réttri braut ef við látum blindast af hefndarþorsta og múgæsingu. Það var vestrænum fjölmiðlum til skammar hvernig fréttaflutningur var af handtöku Saddams og það var til skammar þessi líksýning af sonum hans á sínum tíma. Herra Muzak skrifar nokkrum dögum áður í bloggið sitt undir yfirskriftinni Verðug áminning þar sem hann vitnað í óhappasöguna hans Togga. Sú frásögn lætur engan ósnortinn og látum frásögn Togga verða verðuga áminningu - ekki bara um eitthvað sem gerðist í fortíðinni - heldur um að réttlát og manneskjuleg umfjöllun á líka að vera um allt fólk sem er handsamað fyrir glæpi. Jafnvel þó okkur finnist þeir glæpir viðurstyggilegir og við teljum að viðkomandi sé hættulegur. Fólk telst líka saklaust þangað til það hefur verið dæmt af dómstólum. En fólk sem hefur verið dæmt fyrir glæpi og afplánað refsingu sína á heldur ekki að sæta eilífri útskúfun. 

15.12.2003 hugleiðing  um fréttir sem nútímaþjóðsögu

Skrýtið hvað fólk heldur að fréttir séu mikill sannleikur... eiginlega er það rétt að þessi handtaka var einhvers konar opinber aftaka... og var einhvers skonar goðsaga - svona hraðsoðin nútíma þjóðsaga - sögð frá sjónarhóli vestrænna fjölmiðla. Sagan af manni sem sem var lítill í sér, var svona moldbúi og grafinn niður í jörðina, sagan af hvernig hann sveik og ætlaði að svíkja (peningarnir), sagan af því hvernig hann var svikinn (uppljóstrunin) og af hverjum hann var svikinn (meðlimi úr eigin fjölskyldu). Kannski var tilbúningur á þessari þjóðsögu ekki verk eins manns... en það var óhugnanlegt að fylgjast með hvað hún var tekin fljótt upp og með hve miklum leifturhraða hún barst um heimsbyggðinni.

7.4.03  Táknmyndir og stríð

Í greininni Metaphor and War, Again eftir George Lakoff fjallar hann um hvernig táknmyndir eru notaðar til að réttlæta stríð. Hann bendir á hvernig utanríkisstefna Bandaríkjanna notar einn mann sem tákn fyrir þjóð, hvernig Saddam  Hussein er tákn fyrir óvininn og hvernig stríðið sem nú er háð felur alla aðra Íraka sem þjást í stríðinu

5.4.03 Stemming í stríðinu
Sé á fréttavefjum að nú er hart barist í Bagdad. Allir eru að frelsa íröksku þjóðina. Eftir fréttamiðlunum að dæma finnst fólki þar mjög gaman að láta frelsa sig. Ég sá myndskeið með Saddam þar sem hann er umkringdur fullt af fólki og rífandi stemming hjá þeim og þeir voru glaðir og sigurhreifir í bragði. Ég sá líka myndskeið af þegar hersveitir USA fara inn í bæi og glaður og fagnandi almúginn vinkar þeim á götunum í svona 17 júní stemmingu.Svo voru líka í DV í gær myndir af amerískum hjúkrunarliða í einni hersveitinni með nýfætt barn í fanginu og yfirskriftin var Hermenn koma barni í heiminn. Allir eru sem sagt að hjálpa öllum og allir velkomnir.

Er stríðið svona? Eða er stríðið sprengjuregn og eldglæringar og götubardagar? Eða er stríðið fyrir flesta seta fyrir framan fréttamiðlanna bíðandi eftir fréttum og metandi áreiðanleika þeirra


mbl.is Segir Saddam verða tekinn af lífi í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrés Magnússon

Miðað við hvernig sögusagnir grasseruðu um árabil um það að Hitler hefði komist undan úr byrgi sínu í stríðslok, held ég að öllum (þ.m.t. Saddam, sem notaði tækifærið til þess að koma hinstu skilaboðum sínum á framfæri) sé fyrir bestu að dauði hans sé engum vafa undirorpinn. Hið sama á við helstu böðla hans, enda hygg ég að margir Írakar sofi rórra vitandi að þeir hafa hlotið makleg málagjöld.

Reglur um meðferð stríðsfanga eiga við um hermenn, en blóði drifnir stríðsherrar mega vita nú sem áður að þeir geta ekki vænst meiri griða en þeir veita öðrum. Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla. (Matt. 26:52). Eða hefði Hitlers aðeins átt að bíða betrunarvist og skrefin tólf?

Annars hjó ég eftir færslu þinni um táknmyndir og stríð, sem George Lakoff reit um. Á notkun táknmynda eitthvað sérstaklega við um stríð eða utanríkisstefnu Bandaríkjanna öðru fremur? Notum við ekki tákn um alla skapaða hluti? Hvernig er okkur enda annað fært? Við erum menn með öllum þeim takmörkunum, sem því fylgir.

En röksemdafærsla Lakoffs er gölluð, því hann virðist ganga út frá því að stríðið hafi verið háð gegn írösku þjóðinni, sem er fjarri öllum sanni, þó hún hafi vissulega goldið fyrir einræðisherra sinn, sem hörmungunum olli. Svo má velta vöngum yfir því hver hafi verið höfundur hugmyndarinnar um einn mann sem tákn fyrir írösku þjóðina. Hét hann ekki Saddam Hussein?

En auðvitað er hugmyndin um konunginn sem líkamning þjóðarinnar miklu eldri og því gat fylgt veruleg ábyrgð eins og Ynglingar reyndu.

Andrés Magnússon, 30.12.2006 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband