Trú, víma og umburðarlyndi

Ég fann eftirfarandi pistil sem ég skrifaði fyrir tveimur árum inn á malefnin.com en þar var þá mikil umræða um Byrgið.  Í kjölfar Kompásþáttarins sem sýndur var í kvöld þá geri ég ráð fyrir að fari í gang mikil umræða í samfélaginu um  meðferðarheimili sem trúfélög reka

 Einn málverji beindi til mín þessari spurningu:

Kannski er betra að vera í trú en vímu.  En er það lífsins ómöulega hægt að þurrka upp fólk án þess að dæla í það öfgatrú?

Finnst þér það bara allt í lagi ef mamma þín yrði hare krishna liði, vottur eða mormóni svo lengi sem það gerir hana þurra?  Þætti þér ekki betra að hún yrði bara þurr og héldi síðan áfram sínu lífi?

Öfgasamtök reka meðferðarstofnanir til að afla sér meðlima... finnst þér það hið besta mál?

Ég svaraði svona:

Mér hefði fundist allt í fína þó mamma mín hefði verði í hare krishna liðinu - hefði reyndar verið  ótrúlega stolt af því - og ein mágkona mín er vottur og önnur sennilega ennþá innskráð ásamt sínum börnum í Klettinn. En því miður var mamma mín ekki í neinum sérstrúarsöfnuði nema Framsóknarflokknum og faðir minn trúði meira á sæluríki kommúnista en Guð.

Þú segir: "Öfgasamtök reka meðferðarstofnanir til að afla sér meðlima..". Þessi orð þín bera vott um mikinn hroka og lítinn skilning á lífinu. Trúfélög sem trúa á eitthvað sem þú trúir ekki á og þar sem safnaðarmeðlimir kjósa að hegða lífi sínu öðru vísi en þú eru ekki öfgasamtök. Bara öðruvísi.

Og það er ekki til að afla fleiri meðlima sem trúarstofnanir reka meðferðarheimili. Það er frekar vegna þess að margt trúað fólk hefur samlíðan með öðru fólki og vill bjarga því frá glötun - ekki bara líkamanum heldur líka sálinni.

Ég held að fólk sem hefur ekki þörf fyrir trú og sem hefur ekki skilning á trúarþörf annarra sé eins farið og litlum börnum sem hafa ekki náð þroska - á vissu stigi (nokkurra mánaða) eru öll börn þannig að það sem er ekki fyrir framan augun á þeim er ekki til - jafnvel þó þau horfi á þegar maður tekur einhvern hlut og hylur hann - þá dettur þeim ekki í hug að leita að hlutinum þar sem hann er hulinn sjónum - hann er ekki til af því þau sjá hann ekki.

Ég held líka að fólk sem er ófært um að hafa samlíðan með öðru fólki eða skilning á að aðrir láti sig örlög samferðafólks varða hafi ekki náð þroska og dýpt sem manneskjur. Ef maður horfir á ógæfu annarra bara til að spegla sjálfan sig í henni og sér ekkert annað en að þar séu aumingjar sem hafi staðið sig illa, breytt rangt og eigi skilið að hafa ratað í raunir - þá er maður að horfa á aðstæður bara út frá sjálfum sér og eins og að hlakka yfir óförum annarra og dáðst að sjálfum sér fyrir að hafa ratað beina og breiða veginn.

Ég er ekki viss um að allir nái þeim þroska í lífinu að hafa samlíðan með öðrum eða skilning á því að það er eitthvað til æðra en þeirra eigin vitund. En ég held að umburðarlyndi og trú - alls konar trú - hjálpi fólki til þess þroska.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Bergz

Mjög góður pistill hjá þér. Kv. SGB

Snorri Bergz, 18.12.2006 kl. 08:37

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, þakka þér pistilinn, Salvör. Þó err vissulega sorglegt að lesa fréttina á bls. 2. í Fréttablaðinu í dag, þótt ég leyfi mér ekki að fullyrða neitt í þeim efnum og dæmi engan fyrir fram að órannsökuðu. En meginatriði þín eru rétt.

Jón Valur Jensson, 18.12.2006 kl. 10:25

3 Smámynd: halkatla

snilld! 

halkatla, 18.12.2006 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband