Íslenskur hryllingstúrismi - 3400 kr kostar í sund

Það kostar 3400 krónur að fara einu sinni í sund í Bláa lóninu, sjá verðskrána hérna. Fyrir fjölskyldu með tvö börn kostar sundferðin um 10 þúsund krónur. Það er svo sem ekkert við því að segja, þetta var eyðihraun áður en orkuverið við Svartsengi hóf starfsemi þarna og lónið er tilbúið vatn, affall frá orkuveri. Það er hið besta mál að menn geti nýtt iðjuver á þennan hátt. En er þetta módelið sem við viljum sjá víðar á Íslandi?

Viljum við sjá fallegar náttúruperlur eins og Kerið í Grímsnesi innikróaðar í einkaeigu eigenda sem geta takmarkað aðgang að þeim og gera það til að geta selt aðgang. Eða að ríkið eða sveitarfélög afhendi nytjarétt yfir slíkum stöðum til einkaaðila? Kerið í Grímsnesi mun vera í einkaeign. Það er sumt æði undarlegt varðandi ferðamennsku á Íslandi og hvernig meira segja fé almennings er notað til að borga endurbætur og samgöngukerfi svo eigendur geti nytjað náttúruperlur og takmarkað aðgang, sjá hérna  Ríkisstyrkt Ker í einkaeigu

Það er óréttlát kosningalöggjöf á Íslandi þar sem  vægi fólks á þéttbýlissvæðum kringum höfuðborgina er miklu minna en í fámennum dreifbýlisbyggðum, sérstaklega er vægi fólks í suðvesturkjördæmi lítið. En það er fleira sem er óréttlátt misskipt en vægi atkvæði  því  nokkrir fámennir dreifbýlishreppar ráða yfir bróðurpartinum af íslenska hálendinu. Vægi almennings á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að því að hafa vald yfir Íslandi, yfir hálendi Íslands, yfir óbyggðum Íslands og yfir náttúruperlum Íslands er sárgrætilega lítið. Við þetta verður ekki unað. Það er ekki hægt að tala um réttlátt samfélag þar sem langstærsti hluti fólksins er króaður inn á litlu svæði landsins og hefur ekkert að segja um það sem þó er stærsta eign Íslendinga þ.e. landið og miðin. 

 

800px-laugarvatn1.jpg

Ég er núna stödd á Laugavatni. Ég horfi út á vatnið og beint fyrir framan mig er rústasvæði. Ég er vön rústasvæðum í Reykjavík. Ég er líka vön laugasvæðum, eiginlega hef ég búið allt mitt líf á laugasvæðum.

gomlu-laugarnar.jpgÉg er alin upp í Laugarnesinu, minningar frá sumrum bernsku minnar eru minningar af gömlu laugunum og hvernig við vorum í fyrstu oft gerðar afturreka af starfsfólk laugarinnar því við vorum svo litlar að okkur  var ekki hleypt einum ofan í laugina. Í þá daga fóru mömmur okkar fóru aldrei  með okkur börnunum í  laugar þá þó þær uppgötvuðu heilsumátt sundlauganna mörgum áratugum seinna þegar þær voru orðnar rosknar og voru þá á hverjum degi í sundleikfimi með eldri borgurum. Ég brosi að minningu frá gömlu laugunum, það var nefnilega þannig að Ágeir forseti Íslands var mikill sundmaður og fór í gömlu laugarnar á hverjum degi, alltaf á sama tíma minnir mig. Við litlu stelpurnar tókum eftir því að ef við pössuðum að vera rétt á undan fosetanum í röðinni þá var okkur hleypt athugasemdalaust í laugar, starfsfólkið var miklu liprara í þjónustu þegar forsetinn var á vettvangi.  

Ég bý núna í Sigtúni í Reyjavík á stað þar sem heita vatnið í Reykjavík var einu sinni nytjað til að rækja jurtir í gróðurhúsum sem stóðu hinu megin við götuna. Gróðurhúsin voru seinast notuð sem söluskemma til að selja allt dótið sem ameríski herinn skildi eftir þegar hann fór. Svo voru þau rifin og síðan hefur útsýnið út um stofugluggann minn verið afgirt rústasvæði í eigu Eyktar, rústasvæði þar sem einu sinni átti að byggja ennþá eitt stórhýsið í því sem þá var eins konar fjármálahverfi Reykjavíkur.

Ég horfi núna út um gluggann hér á Laugavatni, horfi á nýslegna grasflötina, horfi á gárurnar í vatninu og gufuna sem stígur upp við vatnið, alveg eins og eitthvað sé að brenna. Grasið var slegið hér í fyrradag, svo kom fólk og bankaði upp hjá mér og bað um vatn til að slökkva eldinn. Ég leit út um gluggann og sá þá að sláttutraktorinn stóð í ljósum logum.  Þau stökktu mörgum fötum af vatni á traktorinn og það gaus upp reykjarmökkur, þykkur og svartur af olíu, ekki svona  hvítur og þokukenndur eins og gufan sem kemur upp af laugum.  En laugagufan er samt merki um eld og orku, eld sem er falinn einhvers staðar langt inn í iðrum jarðar.

Þarna sem gufan stígur upp við vatnið var einu sinni gamla gufubaðið á Laugarvatni. Það var nú bara hverasvæði þar sem hús hafði verið reist yfir. En það var rifið. 

 

Þegar ég fletti á Netinu þá virðist mér að það séu einhver áform sem þó hafa sem betur fer ekki hafist um að Bláa lónið reisi hér gufubað og heilsulind. Mér virðist að menntamálaráðherra hafi framselt svæði við vatnið til 30 ára til einhverra samtaka sem ég átta mig ekki á hver á hvað í. 

800px-blue_lagoon-3-.jpg

Það er vissulega sorglegt að gamla gufubaðið hafi verið rifið hér á Laugarvatni og ekkert hafi komið í staðinn. Það er vissulega fengur í að hafa slíkt náttúrulegt gufubað hérna. En mesta hryllingsmynd sem ég get þó samt séð fyrir mér varðandi ferðamennsku á stöðum eins og Laugarvatni og Mývatni væri sams konar ferðamennska eins og í Bláa lóninu. Þar er einhvers konar heilsulind sem ég hugsa að sé ágæt. En það kostar 3400 krónur núna að fara í sund í Bláa lóninu. Það er því ekki fyrir Íslendinga og ekki fyrir auralitla náttúrutúrista að fara í sund í Bláa lóninu.  

Er það svona ferðamennska sem við viljum á Íslandi? Viljum við að Ísland verði eingöngu fyrir sterkefnað fólk og þannig aðgangstakmarkanir settar að Íslendingar séu útilokaðir frá því að njóta landsins. Viljum við að hér sé stílað inn á elítutúrisma ríks fólks? Viljum við að sífellt meira af landinu sé lokað  almenningi og aðgangur seldur í gegnum einhvers konar lúxusfyrirtæki?

Það er kannski ágætt að hugmyndir um gufubað og heilsulind hér á Laugarvatni hafi ekki gengið eftir ef það var meiningin að búa til svona Bláa lóns lúxus hérna sem er neitt að þjóna Íslendingum. Hvers vegna í ósköpunum ætti að gefa afnot af landi á fallegum stöðum til lúxuseinkafyrirtækja. Það verður í svoleiðis tilvikum að reikna fórnarkostnað, reyndar fórnarkostnað sem ekki verður metinn í peningum  heldur fórn sem felst í því að landi og náttúruaðgangi er spillt með því að girða það af fyrir einhvers konar lúxustúrisma þannig að almenningur á Íslandi hefur ekki lengur aðgang að því (m.a. vegna verðlags). 

En það er áhugavert að spá í hvað er að gerast hér á Laugarvatni. Hvaða félag er þessi Gufa ehf og hvers vegna er slíkum samtökum afhent svæði við vatn, svæði sem er í eigu ríkisins að ég best veit? Það stendur "Hollvinasamtök Smíðahúss og Gufubaðs á Laugarvatni höfðu forgöngu um að stofna Gufu ehf., en félagið kemur til með að reisa og eiga ný mannvirki sem byggð verða við gufubaðið á bökkum Laugarvatns."

 Vísir - Bláa lónið: Gufubað og heilsulind á Laugarvatni byggt á ...

Tólf hundruð fermetra heilsulind rís við Laugarvatn - mbl.is

 Bláa Lónið hf. og Gufa ehf. - samstarf um uppbyggingu Gufubaðsins við Laugarvatn

Bláa Lónið hf. og Gufa ehf. hafa gert með sér samstarfssamning sem lýtur að markvissri uppbyggingu og eflingu heilsulindar- og gufubaðsstarfsemi við Laugarvatn. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins og Kristján Einarsson, stjórnarformaður Gufu undirrituðu samninginn í Bláa Lóninu fyrr í þessum mánuði.

Hollvinasamtök Smíðahúss og Gufubaðs á Laugarvatni höfðu forgöngu um að stofna Gufu ehf., en félagið kemur til með að reisa og eiga ný mannvirki sem byggð verða við gufubaðið á bökkum Laugarvatns.

Bláa Lónið hf. mun sjá um rekstur aðstöðunnar og verður félagið jafnframt faglegur ráðgjafi við uppbygginguna að Laugarvatni en Bláa Lónið gegnir forystuhlutverki í heilsutengdri ferðarþjónustu á Íslandi.

Gufubaðið á Laugarvatni er náttúrulegt þar sem það er byggt yfir hver með hreinni vatnsgufu. Að auki býður staðsetning gufubaðsins alveg á vatnsbakkanum upp á möguleika til að skapa fjölbreytta og sérstaka aðstöðu fyrir gesti.

Meginmarkmið Gufu og Bláa Lónsins með uppbyggingunni er að hafa í heiðri og efla þá baðhefð sem gufubaðið við Laugarvatn hefur skapað og gera þar einstakan baðstað fyrir íslenska og erlenda gesti. Starfsemin mun skapa ný störf í Bláskógabyggð.

Að mati samstarfsaðilanna mun uppbyggingin styrkja heilsuímynd Laugarvatns og nágrennis og efla ennfremur ímynd Íslands sem heilsulands.

Áætlað er að nýja Gufubaðið við Laugarvatn hefji starfsemi á vordögum 2008.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég, eiginkonan og sonurinnn fórum í Bláa lónið þegar við komum til Íslands fyrir skemmstu.  Það kostaði 6800 kr (frítt fyrir drenginn sem er ekki nema 5. ára).

Ég verð að viðurkenna að við fyrstu hugsun þá fannst mér það skratti dýrt.  En fært yfir í Kanadadollara er það ekki nema tæpir 30 dollarar.  Það þykir ekki hár aðgangseyrir fyrir "Spa" hér í Toronto.  Hér kostar gjarna u.þ.b. 30 dollara að fara í gufubað.

Ég hef ekki trú á því að erlendum ferðamönnum þyki þetta dýrt (og hef ekki heyrt fólk hér tala um það) en ég skil vel að Íslendingum þyki það.

Hér í Kanada er oft aðgangseyrir að ferðamannastöðum, þar með talið þjóðgörðum.  Við (2+2) borgum gjarna 8 til 10 dollara fyrir aðgang að þjóðgarði.

Það er þó ekki algilt, t.d. kostar ekkert að sjá Niagarafossana, en ef áhugi er fyrir að leggja bíl þar kostar það að mig minnir ríflega 10 dollara. 

G. Tómas Gunnarsson, 29.5.2009 kl. 14:03

2 identicon

Ég bjó á Suðurnesjum fyrir tveimur áratugum síðan,skrapp stundum í lónið síðdegis og minnir mig að það hafi kostað svipað og í sund ,allaveganna ekki margfalt verð í sund.Í dag myndi ég ekki tíma þessu og læt mér nægja sundið .

Hörður Halldórss... (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband