12 ráðherrar, 9 ráðuneyti, atvinnuleysi, lánleysi og kreppa

a comic strip!

Ég óska nýju ríkisstjórninni velfarnaðar í starfi. Þetta eru merk tímamót, fyrsta lýðræðislega kjörna stjórnin eftir kerfishrun á Íslandi, þessa stjórn hefur næstum helming íslenskra kjósenda á bak við sig og leikreglurnar í stjórnkerfi okkar eru þannig að þau geta virt að vettungi fulltrúa þeirra rúmlega rúmlega 50 % þjóðarinnar sem ekki kusu þessa stjórn og þau kjósa að gera það. Ég læt hér fylgja með skrípó sem ég gerði af því hvað mér fannst standa upp úr þegar þau kynntu nýju stjórnina og hver ég held að örlög hennar verði.

Einn ágætur þingmaður Vinstri Grænna Atli Gíslason vildi að hér yrði reynt að mynda þjóðstjórn og ég held raunar að það hefði verið eina vitið, þau vandamál sem Ísland stendur frammi fyrir núna er ekki hvenær Ísland eigi að ganga í Efnahagsbandalagið og hvernig sé hægt að gera það án þess að Steingrímur foringi Vinstri grænna missi andlitið, þau vandamál eru miklu meiri og dýpri og snúa að ástandinu hérna innanlands og þeim kröfum sem erlendir aðilar gera nú á íslenska ríkið.

Það er runninn einhver hofmóður á þá sem eru í forustu og núna skipta með sér ráðherrasætum. Það er ekki langt síðan Steingrímur J. Sigfússon  sagði að þjóðstjórn væri besti kosturinn, það var í janúar síðastliðinn. Hefur ástandið batnað eitthvað síðan þá? Er ekki ennþá jafnmikil ástæða til að sem flestir ráði fram úr þessari ömurlegu stöðu íslensku þjóðarinnar? Framsóknarmenn hafa reynt að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að tryggja að hér yrði ekki algjör upplausn og vörðu stjórn VG og Samfylkingar vantrausti til að hér loguðu ekki eldar á torgum og götubardagar væru ekki við lögreglu af reiðum almenningi.

Er ekki full ástæða fyrir þessa nýju stjórn að horfast í augu við stöðuna í stað þess að  eyða sínu púðri í að planta eins mörgum og hægt er inn í ráðherraembætti með tilheyrandi hlunnindum. Reyndar trúi ég ekki öðru en að ráðherrarnir nýju afsali sér þingfararkaupi og ýmsum hlunnindum eins og einkabílstjórum og ráðherrabílum. Það er  rosalega mikið  2007 og ekki samboðið þessari stjórn að spreða fé í ráðherra en lofa svo að leggja niður ráðuneyti... bara ekki strax.

Ríkisstjórnin verður að hlusta á fólk eins og Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur, hún verður að skilja að hér er lamað atvinnulíf og þjóðfélag í upplausn. Það var bara brandari að lækka stýrivexti hérna um einhver prósent, eftir sem áður eru vextir hérna brjálæðislega háir og engir að taka lán nema þeir sem eru fastir í lánagildru og þurfa að endurfjármagna eldri lán. Engin lán eru tekin til nýsköpunar, engin nýsköpun á sér stað á Íslandi í dag. Hér eru fjölskyldur og atvinnulíf þar sem allt eigið fé er uppurið vegna kerfishruns. Það þarf margháttaðar aðgerðir við svona aðstæður og ekki þær aðgerðir helstar að fjölda ráðherrum.  það skapar ekki vinnu, það skapar bara aukavinnu handa fólki sem þegar hefur vinnu. 


mbl.is Ný ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

Þvílíkir útúrsnúningar Salvör. Það eru 12 ráðherrar fram til næstu áramóta - strax þá fækkar ráðherrum um einn og næstu áramót þar á eftir fækkar ráðherrunum um aðra tvo. Að reyna að halda því fram að það eigi að sitja 12 ráðherrar í 9 ráðuneytum er bara slappir útúrsnúningar.

Einnig gætir hjá þér nokkurs misskilnings um launakjör ráðherra. Ráðherra fær greitt þingfararkaup og að auki nokkurs konar ráðherra viðbót. Þannig að ráðherrann fær ekki bæði full ráðherralaun (sem eru hvað, 900þ núna?) og að auki þingfararkaup (sem er ca 600þ núna) heldur samanstanda ráðherralaunin af þingfararkaupi + ráðherraviðbót (ca 600 + ca 300).

Ég er auk þess ekki viss um að bílstjóri ráðherra geti kallast hlunnindi og er heldur ekki viss um að við myndum vilja að ráðherra keyrði alltaf bílinn sjálfur. Ég trúi því að tíminn nýtist betur með þessum hætti, þar sem hægt er að taka mikilvæg samtöl og/eða símtöl í bílnum á leiðinni - þegar einhver annar keyrir. Tíminn er nefnilega líka peningar - og við þurfum alveg svakalega mikinn tíma til vinnu núna.

Elfur Logadóttir, 11.5.2009 kl. 13:18

2 identicon

Hver verða hlutföllin þegar ráðherrar verða 9

Arnar Ívar Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 13:23

3 Smámynd: Elfur Logadóttir

Hvaða hlutföll?

Elfur Logadóttir, 11.5.2009 kl. 13:53

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Elfur. Takk fyrir upplýsingarnar, það er sem sagt cirka eins og atvinnuleysisbætur fyrir tvo sem ráðherrar fá í viðbót við þingfararkaup.  það er ekkert sérlega hátt kaup fyrir æðstu menn í stjórnsýslu að fá 900 þús. á mánuði, menn sem þurfa að vera í vinnunni næstum allan sólarhringinn. En það er mikið fyrir gjaldþrota og févana þjóð að halda uppi stórum flokki fólks sem ekki er þörf fyrir og hvert ráðherraembætti kostar miklu meira t.d. í skrifstofu, starfsfólki, bifreiðakostnaður, ráðherrahlunnindi t.d. ferðalög erlendis og dagpeningar o.s.frv.  Muni þessir 12 ráðherrar ekki fá biðlaun þegar þeir hafa látið af ráðherradómi?

Mun hver af þessum 12 ráðherrum núna ráða sér aðstoðarmann úr hópi samflokksmanna?

En það er alveg út hött að hafa 12 ráðherra núna en þykjast ætla að fækka ráðuneytum. Það er bara ekki trúverðugt.

Varðandi bílamál ráðherra þá  verða ráðherrar auðvitað að hafa ferðir á milli staða en það vel hægt að leysa það á betri hátt og meira í samræmi við þjóðarhag. Það hlýtur að vera  krafa okkar almennings á Íslandi að ráðamenn deili kjörum með okkur og lifi ekki eins og kóngar í loftbólufroðusamfélagi.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.5.2009 kl. 08:35

5 Smámynd: Elfur Logadóttir

Salvör, þegar okkur í Samfylkingunni var kynnt ríkisstjórnarskipanin á flokkstjórnarfundi sl. sunnudag þá tók Jóhanna sérstaklega fram að þessi ráðherraskipan væri til næstu áramóta og að enginn væri hultur með sæti sitt þegar niðurskurður ráðuneyta hæfist. Það mátti öllum vera ljóst að ráðuneytum yrði fækkað og að við það myndi ráðherrum fækka jafnmikið.

Hvað varðar biðlaun þá er það vissulega réttur manna að fá greiddan uppsagnarfrest og þau stýrast mjög af lengd í starfi. Hins vegar eru einnig fordæmi fyrir því að menn hafi afsalað sér biðlaununum. Það gerði t.d. Björgvin G. þegar hann sagði af sér viðskiptaráðherradómi. Eins tók Ögmundur ákvörðun um það þegar hann varð ráðherra að þiggja ekki ráðherraviðbótina ofan á þingfararkaupið, hvort sem það verður svoleiðis áfram.

Ég held að það sé nokkuð víst að allir ráðherrarnir ráði sér aðstoðarmenn, enda sjaldan eins brýnt og nú að þeir hafi aðstoðarmanneskju til þess að taka af þeim ákveðna buffera í samskiptum og skipulagningu og öðru. Ég held að það séu ekki illa með farnir peningar. Hins vegar er ég á þeim buxunum að deila megi um hvort þingmennirnir eigi að hafa aðstoðarmenn á þessum tímum.

Eins er ég sammála þér með bílamálin, bílarnir þurfa ekki að vera drossíur og margir gætu næstum því samnýtt bílstjóra, en ég tel rétt að þeir hafi bíl og bílstjóra, því tíminn er peningar. Ég ítreka einnig að ég álít bílinn og bílstjórann alls ekki hluta af kjörum ráðherra heldur vinnutæki, eins og við höfum farsíma og tölvur. Þetta á þó að sjálfsögðu einungis við að því leyti sem bílar og bílstjórar eru notaðir fyrir vinnutengdar ferðir.

Elfur Logadóttir, 12.5.2009 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband