Borgaralega skylda, ekki brottrekstrarsök!

Ég hef oftast farið niður í gönguna á 1. maí, báðar dætur eru aldar upp þannig að maígangan var einn af viðburðum ársins.  Síðustu árin hef ég tekið mynd af göngunni, sérstaklega af þeim skiltum sem haldið er á lofti hverju sinni og svo gerði ég líka vef um 1. maí.

Ég man eftir að ein af skemmtunum varðandi gönguna var að velja skilti til að ganga undir.  Þegar Kristín Helga sem núna er 1. ára var eins eða tveggja ára þá man ég að við völdum að ganga undir skiltinu "Gefum ekki ríkisfyrirtækin". Ég man það vegna þess að það birtist mynd af okkur í göngunni með Kristínu Helgu  í einhverju verkalýðsblaði, sennilega BSRB tíðindum.

Núna fylgir með Morgunblaðinu í dag blað frá öðru verkalýðsfélagi. Það er blað ASÍ, tímarit Alþýðusamband Íslands og á fremstu síðu er ávarp forseta ASÍ Gylfa Arnbjörnssonar. Grein hans sem er heilsíðugrein með stórri mynd af honum ber yfirskriftina "Byggjum réttlátt þjóðfélag"

Fyrir mér er þessi grein og mynd af Gylfa Arnbjörnssyni jafnömurleg og auglýsingin frá Sjálfstæðisflokknum um trausta efnahagsstjórn, þetta er jafnmikil skrumskæling á veruleikanum. Grein Gylfa er einhvers konar auglýsing frá Samfylkingunni og lofgjörð um Evru og svo þjónkun við ríkjandi stjórnvöld. Greinin klikkir út með að segja um ástandið á Íslandi í dag:

"Lífskjör eru hér betri en víðast hvar á byggðu bóli, atvinnuleysi sáralítið og mannlíf allt í blóma. Verkalýðshreyfingin á sinn stóra þátt í því að Ísland er jafn góður staður að búa á og raun ber vitni".

Á hvaða plánetu er þessi maður?
Og talandi um það sem yfirskrift greinar hans "Byggjum réttlátt þjóðfélag" hvernig getur þessi maður litið frama í íslenska þjóð eftir að hann rak starfsmann ASÍ Vigdísi Hauksdóttur þegar hún  tók sæti á lista okkar Framsóknarmanna fyrir nýafstaðnar Alþingiskosningar. Það var skorað á Vigdísi að gefa kost á sér á listann og hún var kosinn með meirihluta atkvæða á kjördæmaráðsfundi okkar. Ástandið var þannig að Framsóknarflokkurinn hafði ekki neina þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum og fyrir hálfu öðru ári var fylgi Framsóknarflokksins að mælast í 2 % í Reykjavík. Það var svo sannarlega ekki miklar líkur að sæti Vigdísar á framboðslistandum tryggði þingsæti. Vigdís mun hafa beðið um launalaust leyfi en þá fengið þau svör að það að hún tæki sæti á listanum jafngilti uppsögn. 

Hvernig skýrir Gylfi Arnbjörnsson aðkomu sínu að brottrekstri Vigdísar Hauksdóttur úr starfi frá ASí vegna þess að hún kaus að taka þátt í stjórnmálum? Hvernig getur hann horft framan í íslenskan almenning og logið að okkur. Logið að okkur um ástandið á Íslandi og logið að okkur að hann sé að byggja upp réttlátt þjóðfélag.  

Réttlátt þjóðfélag er þjóðfélag þar sem almenningur tekur þátt í stjórnun landsins og reynir að hafa árhrif  og þar sem það er borgaraleg skylda að leggja því lið, ekki brottrekstrarsök.

 


mbl.is Bæturnar misnotaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Ég get nú alveg tekið undir athugasemd þína við grímulausan áróður Gylfa og einræðistilburði í starfsmannahald, Salvör.

En hvernig tengist þetta fréttinni, sem þú vitnar til?

Emil Örn Kristjánsson, 1.5.2009 kl. 14:06

2 identicon

Áhugaverð hugleiðing hjá þér.

Beiting þöggunar sem stjórntækis er eitt af alvarlegri málum hér á landi.

Nú liggja fyrir mörg dæmi um brottrekstur einstaklinga sem kusu að nýta sér lögvarinn rétt til málfrelsis og skoðanaskipta á opinberum vettvangi. Sumir hafa neyðst nú þegar að flytja úr landi vegna atvinnumissisins, eða eru á leiðinni.

Smáborgarahátturinn og lágkúran birtist hér skýr í athöfnunum gerandanna.  Einstaklinga sem hvorki þola né líða öðrum að vera á annari skoðun eða hafa aðra lífssýn en það sjálft. Svona hegðun fellur hjá mér undir kúgun og ofbeldi.

Það er ekki vanþörf á hugarfarsbreytingu hér á landi á þessu sviði; en örugglega töluvert í land með það enn.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 14:15

3 Smámynd: AK-72

Ég verð að játa að ég les með talverðri vantrú þessi orð hans Gylfa, og vona að þau séu tekin úr samhengi. Ef ekki, þá er mun meiri firra í gangi innan verkalýðsforystunar og fagfjárfestanna sem verkalýðsfélögin breyttust í, heldur en maður gerði sér grein fyrir.

AK-72, 1.5.2009 kl. 14:43

4 identicon

Fín hugleiðing Salvör. 

Gylfi er á bólakafi í þöggun og skrumskælingu veruleikans, rétt eins og ráðandi stjórnvöld í landinu.  Enginn þorir að horfast í augu við - og segja okkur sannleikann um raunverulega stöðu okkar.  Hér tala allir í frösum á borð við "skjaldborgir" og "velferðarbrýr" og annað í þeim dúr, án þess að nokkurt einasta efnisinnihald sé í þeim frösum. 

Það þarf klárlega að skipta út í verkalýðsforystunni eins og öðrum mikilvægum stofnunum í landinu, því miður hefur langvarandi valdabrask, flokkseigendapólitík og sérhagsmunahyggja spunnið spillingarvef um nánast allar okkar helstu valdastofnanir.

Bráðnauðsynlegt er að koma böndum á flokksræðið og sérhagsmunahyggjuna sem tengd er því, efla raunverulegt sjálfstæði og völd Alþingis og koma böndum á framkvæmdavaldið með öllum þeim afleggjurum flokkshagsmuna sem þar er að finna.  Til þess að þetta megi takast, þurfum við óháð sjálfstætt stjórnlagaþing sem er þess megnugt að skera burt meinsemdirnar, án afskipta meinsemdanna sjálfra.

Til hamingju með daginn!

Björn Þorri Viktorsson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 15:10

5 identicon

Smá viðbót hér í tilefni dagsins við innlegg mitt hér að ofan:

"Í flestum samfélögum gætir bælingar á frjálsri tjáningu sem komið getur fram í sjálfsritskoðun einstaklinga eða því að utanaðkomandi aðilar gefa þeim merki um að gæta sín, hugsa sig um, þegja. Slíkt kallast þöggun. Þöggun er ekki aðeins bæling heldur einnig frelsisskerðing og kúgun. Í henni felst að einstaklingar fá ekki notið stjórnarskrárbundins tjáningarfrelsis síns sem er grundvallarþáttur mannréttinda. Á útrásartímanum varð þöggun hluti af daglegum veruleika. Sjónarmið sem brutu í bága við heimsmynd hagvaxtar og neyslu voru bæld".

Sjá nánar grein  eftir Önnu Sigríði Pálsdóttur - Þöggun í málfrelsi — Krafa um heiðarleika

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 17:38

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Emil Örn: Þú spyrð um tenginguna við fréttina um að atvinnuleysisbætur væru misnotaðar.Það voru bara hugrenningatengsl mín, mér fannst svo ömurlegt að þetta var eina fréttin sem var um dag verkalýðsins á mbl.is þá, frétt um hvernig verkalýður sem ekki hefði vinnu lengur væri að svindla á kerfinu. Þetta er svona frétt frá kerfi sem hefur snúið öllu á hvolf, þar sem þolandinn er orðinn sökudólgur, sá sem missti mest á hruninu er núna orðinn sökudólgurinn þ.e. hinir atvinnulausu. Líka hef ég oft varað við þeirri hættu þegar ríkið (með dyggri aðstoð fjölmiðla) fer að líta á þegnana sem fjandmenn sína, sem einhverja sem sitji á svikráðum við ríkið og séu afætur að sjúga úr því næringu. Við erum þegnarnir, við erum ríkið. sumir atvinnulausir, sumir með vinnu. best bara að jafna byrðinni.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.5.2009 kl. 18:46

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ak-72: Þessi orð Gylfa sem ég vitna í eru ekki tekin úr neinu samhengi. Þau eru ótrúleg en þetta er tekið úr heilsíðugrein í ritinu Vinnan sem fylgdi með Morgunblaðinu í dag.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.5.2009 kl. 18:47

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Björn Þorri: Það þarf að skipta um fólk og hugsunarhátt og vinnubrögð víða. Það er því miður ekkert í málflutningi Gylfa Arnbjörnssonar sem fyllir mig þeirri trú að þar sé réttur maður á réttum stað. Það hefur ekkert að gera með hversu mikið hann er að plögga Samfylkinguna, ef það væri skynsamlegt sem hann segði og hefði sagt í gegnum árin þá myndi ég taka undir það.

Ég vil hins vegar hrósa Ögmundi Jónassyni fyrir margar eftirminnilegar ræður undanfarin ár, ræður sem fylltu mann eldmóði. Sérstaklega man ég eftir í kringum 1994 minnir mig, þá var ég mjög niðurbeygð út af ástandinu á 1. maí og þá fannst mér Ögmundur alveg ná að tala fyrir hönd mína sem og annarra launamanna.  Þetta er ég nú ekki að segja sem neinn samherji Ögmundar í stjórnmálum. 

Ég bara bendi á að Gylfi veldur því illa að tala þannig að mark sé á honum tekið eða hann vekji upp eitthvað annað en reiði. Í mínu tilviki þá var það reiði yfir að hann sem fyrir tveimur mánuðum rak starfsmann fyrir að taka þátt í stjórnmálum skuli núna tala sem í nafni einhvers réttlætis. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.5.2009 kl. 18:54

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það er augljóst, að Gylfi gengur ekki erinda verkalýðsins, hann er handgenginn spillingarliðinu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.5.2009 kl. 03:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband