Atvinnutækifæri fyrir lögfræðinga og aðra háskólamenntaða á næstu árum

Allt stefnir í að íslenska ríkið verði að vasast í dómsmálum vegna Hrunsins næstu áratugina. Það verður stemming eins og í í Njálu, endalaus málarekstur um alls konar lagaákvæði í samfélagi sem einkennist af glundroða, stjórnleysi og upplausn.

Það eru margir nemendur í lögfræðinámi í þessu örsmáa samfélagi hérna. Það þarf alla vega ekki svo marga þurfi til að reka mál fyrir dómstólum og lögfræðinemar eins og aðrir hljóta að vera uggandi um atvinnuhorfur sínar á næstu árum. Mér sýnist hins vegar allt stefna í eilífan málarekstur, skiptingar þrotabúa, innheimtur á kröfum og að halda við kröfum á skuldara. Það verður sennilega nóg að gera fyrir hundruðir lögfræðinga næsta áratug við að vinna við afleiðingar Hrunsins. Það stefnir allt í endalaus málaferli gegn ríkinu og gegn hinum og þessum. Ríkið þarf líka að ráða hóp lögfræðinga til að verja það sem það hefur gert og ætlar að gera.

Það eru lögfræðideildir við nokkra háskóla á Íslandi. Það er nú reyndar ekki furða að háskólar setji upp lögfræðideildir, lögfræðinám er eins og viðskiptanám er afar ódýrt frá sjónarhóli þess sem býður fram námið, það er ekki mikið af aðföngum og búnaði sem svoleiðis nám þarnast miðað við t.d. tannlækningar og lyfjafræði.  Reyndar er lögfræðinám og sú  innsýn sem þannig nám veitir inn í leikreglur samfélagsins ágætis grunnur fyrir fólk á ýmsum sviðum, ekki síst fólk sem ætlar að starfa við opinberar stofnanir.  Það er nú reyndar von mín að innan lögfræði í mörgum löndum muni verða einhver vakning, þar muni fara fram umræða og rannsóknir á þeirri umgjör sem lög og réttur setja og hvernig þær leikreglur sem við búum við núna m.a. hvernig við skilgreinum eignarrétt og hvernig við skilgreinum sameiginleg gæði og hvernig við höfum byggt upp kerfi sem að sumu leyti hamlar nýsköpun. 

Viðskiptanám er eins og lögfræðinám ódýrt í uppsetningu fyrir háskóla og byggir mestan partinn á innlendum aðföngum, það þarf ekki rándýrar rannsóknarstofur. Það hefur verið sprenging í viðskiptanámi á undanförnum árum í mörgum háskólum. Ég held að stór hluti ef ekki stærsti hluti nemenda við Háskóla Reykjavíkur séu í einhvers konar viðskiptanámi

Það er áhugavert að sjá hvernig ásókn nemenda í viðskiptanám og lögfræðinám hefur breyst undanfarin ár og mun breytast næstu misseri. Hvað rekur nemendur í slíkt nám, hvaða væntingar hafa nemendur og hvaða vinnu fá nemendur að námi loknu? 

Það er áhugavert að eftir að netbólan sprakk í kringum 2000 þá fækkaði nemendum hlutfallslega í ýmis konar tölvutengdu námi, ég hef ekki á reiðum höndum tölur um hvernig ástandið er núna. Á sama hátt getum við búist við að mjög fækki þeim sem núna hyggja á viðskiptanám, nemendur sjá einfaldlega ekki fyrir sér atvinnutækifæri að námi loknu.

Nám er skynsamur kostur til að sitja af sér kreppuna. Það er alveg öruggt að það mun rofa til í heiminum og mjög sennilega verður staða Íslands góð svo fremi það náist að semja um viðunandi niðurfellingu á skuldum þjóðarbússins. Það eru raunar bara tveir möguleikar í stöðunni, annað hvort að semja um niðurfellingu á stórum hluta skulda í sátt við erlenda kröfuhafa eða fara hörðu leiðina, neita að greiða skuldir sem af einhverjum undarlegum orsökum hrundu yfir venjulega Íslendinga þegar kerfi heimsins hrundi. 

En það skiptir máli í hvers konar námi fólk situr af sér kreppuna. Viðskiptanám verður sennilega vanmetið á næstu misserum, fólk mun forðast slíkt nám. Hugsanlega verður nám eins og lögfræði ofmetið, vissulega þarf lögfræðimenntað fólk en það er ekki mikil verðmætasköpun ef menntakerfið menntar bara fólk sem er sérfræðingar í einhvers konar samfélagsreglum, það þarf líka fólk sem skapar og umbreytir og dreifir verðmætum og býr til umhverfi, ekki bara umhverfi laga og reglna,  heldur líka raunverulegt umhverfi s.s. matinn sem við borðum, fötin sem við klæðumst, farbrautirnar og farartækin sem við notum til að ferðast um, hýbýli okkar og vinnuumhverfi og þau áhöld og verkfæri og búnað sem við þurfum í lífi okkar.


mbl.is Á fjórða hundrað vilja stefna bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Lögfræðingum hefur fækkað mikið á þingi, skyldi það vera tilviljun ?

Finnur Bárðarson, 30.4.2009 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband