Útlendingslegir ræningjar og innlend barnabörn

Tvö afbrot hafa verið í umræðu síðustu daga. Annars vegar er það menn sem lögreglan hefur lýst eftir og birt myndir af, það virðast vera einkar ólagnir og klaufalegir þjófar og munu þeir hafa reynt að brjótast víða inn en ekki haft neitt upp úr krafsinu þrátt fyrir að því virðist einbeittan brotavilja. Þeir virðast miklir viðvaningar á sviði svona brota og væri fróðlegt þá og ef þeir finnast að einhverjir rannsóknarblaðamenn segðu okkur frá því hvað rak þá út í þessi brot. En það vekur athygli að lögreglan hefur lýst eftir þeim með því að  birta myndir af þeim og lýsa þeim sem "útlendingslegum". 

Þetta er undarlegt bæði að því leyti að lögreglan virðist þarna lýsa yfir að einhver sé sekur án þess að réttarhöld hafi farið fram og svo út af þessari fordómafullu orðanotkun, hvað er að vera útlendingslegur?

Í hinu dæminu sem er miklu, miklu alvarlegra þá virðist mér að ógæfufólk í óreglu hafi beinlínis verið stefnt á heimili aldraðra hjóna til að ógna þeim og ræna. Þarna var um tilraun til voðaverks að ræða, ofbeldisverks gagnvart öldruðu fólki. það er miklu, miklu alvarlegra en viðvaningslegar þjófnaðartilraunir af handahófi af ráðvilltum mönnum sem greinilega þekkja ekkert til slíkrar iðju.

Það sverfur núna að í íslensku samfélagi og sá hópur sem sverfur hvað mest að er fólk af erlendu bergi brotið, ekki síst fólk sem ekki hefur verið hér nema stuttan tíma og hugsanlega á hér ekki bótarétt. Það getur verið að það sé ekki kostur í stöðunni að snúa aftur til heimkynna sinna, ástandið er því miður þannig t.d. sums staðar í Austur-Evrópu að það er miklu, miklu verra en hérna og hefur versnað gríðarlega á einu ári.  Það má vel vera að við munum sjá fleiri tilraunir til auðgunarbrota meðal fólks sem ekki hefur vinnu og fellur milli stafs og bryggju í velferðarsamfélagi okkar svo sem  fólks sem á hér engan rétt. En það verður að gera þá kröfu til lögreglu að hún ali ekki ennþá frekar á útlendingahatri með auglýsingum.


mbl.is Gerðu tilraun til að koma þýfinu í verð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Þetta er afleitt orðalag hjá lögreglunni og líklegt til þess að skapa fordóma. Það er auðvitað óviðunandi að menn séu kallaðir "útlendingslegir". Hvað er það annars?

Því miður er líklegt að glæpir aukist nú í kreppunni og þarf lögreglan því að vinna enn harðar en áður svo upplýsa megi sem flest mál og refsa brotamönnum.

Þá er einnig mikilvægt að staðinn sé vörður um jafnan rétt allra borgara til bóta og annarar velferðar.

Hilmar Gunnlaugsson, 29.4.2009 kl. 13:52

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Voðalega hafið þið lítið traust á dómgreind fólks, Hilmar og Salvör.

Haldið þið, að fordómar spretti upp af einu orði í tilkynningu lögreglu? Teljið þið í alvöru, að dómgreind manna sé eins og flöktandi laufblað í vindi?

Og mikið er ég ósammála þér í þessu máli, Salvör. Mennirnir eru útlendingslegir, og það er staðreynd málsins, og engin þjóð er fordæmd með því. Mér fannst orðið einmitt vel valið, þegar ég heyrði það, og er ég þó laus við fordóma gegn öðrum þjóðum.

Svo er engin ástæða til að gera lítið úr alvöru þeirra auðgunarbrota, sem þessir menn hafa margítrekað reynt að fremja, eins og þú gerir þó, Salvör, með samanburðarfræði þinni.

Svo segirðu: "lögreglan virðist þarna lýsa yfir að einhver sé sekur án þess að réttarhöld hafi farið fram," en lögreglan sér og veit, hvað kemur fram á sínum eftirlitsmyndum, og er með þessari tilkynningu sinni að fylgja því eftir og reyna að koma í veg fyrir glæpi.

Það fer okkur almennum borgurum illa að þvælast fyrir lögreglunni í þeirri viðleitni hennar að stöðva milljónarán í uppsiglingu, rán sem þessir menn gætu framið ítrekað eftir að þeir væru komnir upp á lag með það.

Jón Valur Jensson, 30.4.2009 kl. 10:19

3 identicon

Alveg vissi ég strax að það færi einhver að væla út af þessari auglýsingu. Til hamingju Salvör.

Arngrímur (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 21:55

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður Arngrímur!

Jón Valur Jensson, 1.5.2009 kl. 00:22

5 Smámynd: Hvumpinn

Þessir bjánar voru hirtir upp á Keflavíkurflugvelli s.l. miðvikudag þegar þeir voru allir að reyna að komast úr landi með sömu vélinni.

Hefði nú kannski bara átt að leita á þeim og í farangrinum til að kanna hvort þýfi væri meðferðis og láta þá svo fara.

 Farið hefur fé betra.

Hvumpinn, 2.5.2009 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband